10.12.1965
Neðri deild: 28. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 410 í C-deild Alþingistíðinda. (2517)

77. mál, áætlunarráð ríkisins

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég vil aðeins með örfáum orðum láta í ljós, að ég tel ýmsa grundvallarhugsun í þessu frv. vera skynsamlega og þá meginstefnu, sem í því felst, fyllstu athugunar verða og eiga fullan rétt á sér. Á því hefur verið mjög vaxandi skilningur, ekki aðeins hér á Íslandi, heldur í öllum nálægum löndum, að brýna nauðsyn ber til þess, að ríkisvaldið hafi meiri afskipti af efnahagsmálum og stjórn þeirra heldur en réttmætt þótti, a.m.k. í mörgum herbúðum, fyrir 20—30 árum. Og hvarvetna hefur þróunin orðið sú, að ríkið hefur hafið aukin afskipti, hefur látið stjórn efnahagsmála almennt meira til sín taka en áður tíðkaðist. Fyrst og fremst hefur þetta gerzt með þeim hætti, að fyrir forgöngu ríkisvaldsins eða beinlínis að tilhlutan þess og á þess vegum hefur verið unnið að ýmiss konar áætlunargerð og niðurstöður hennar síðan notaðar sem hagstjórnartæki. Þetta hefur einnig átt sér stað hér á landi. Í því sambandi vil ég sérstaklega vitna til stefnuyfirlýsingar hæstv. forsrh., sem hann kunngerði hinu háa Alþ. við upphaf þessa þings, en þar er einmitt sérstaklega að því vikið, að ríkisstj. annars vegar hafi á undanförnum árum talið skyldu sina að hafa allvíðtæk afskipti af stjórn efnahagsmála einmitt með þeim hætti að styðjast við niðurstöðu þjóðhagsáætlana í vaxandi mæli, en beita áætlunargerð með sérstökum hætti. Þessi stefna hæstv. ríkisstj. var greinilega ítrekuð í stefnuyfirlýsingu hæstv. forsrh. á s.l. hausti, og hefur verið unnið að athugunum á því, með hvaða hætti skynsamlegast og haganlegast sé að hrinda því í framkvæmd, sem ríkisstj. er sammála um á þessu sviði og að þessu leyti. — Þessu þótti mér rétt að vekja athygli á við 1. umr. þessa frv. og í tilefni af grg. og ræðu hv. flm.