08.02.1966
Neðri deild: 38. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 416 í C-deild Alþingistíðinda. (2523)

92. mál, vinnuvernd

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Þetta frv. um vinnuvernd, greiðslu vinnulauna, uppsagnarfresti o.fl. flutti ég fyrst á þinginu 1963—64 og hlaut það þá ekki afgreiðslu. Ég endurflutti málið óbreytt með öllu aftur í upphafi þings 1964—1965, og þrátt fyrir það, þó að það lægi þá fyrir því þingi nálega allan þingtímann, því að málið var 26. málið, sem lagt var fyrir það þing, hlaut það eigi að heldur afgreiðslu, fór strax til n. og var svæft þar svefninum langa, eins og það væri mál, sem lægi ekki neitt á að sinna og væri ekki heyrandi til verkahring löggjafarsamkomunnar að setja lög um. En ég hef flutt þetta mál nú í þriðja sinn óbreytt að kalla, því að ég tel, að þó að Alþ. hafi snúizt svo fálega við þessu máli, sé það engu að síður merkismál og þess eðlis, að Alþ. komist ekki hjá því fyrr eða síðar að afgreiða það sem lög, annaðhvort í þessu formi eða öðru.

Þegar ég samdi þetta frv., studdist ég mjög við löggjöf Norðmanna, sem þá var sett fyrir nokkrum árum um vinnuvernd, gerði mér þó allt far um að staðfæra þá lagasetningu og miða í einstökum atriðum við íslenzkar aðstæður, einkum og sér í lagi í atvinnulífi okkar. Þegar ég vék frá hinni norsku löggjöf, gerði ég það yfirleitt á þann hátt, að ég gerði minni kröfur í mínu frv. heldur en lagaákvæðin norsku ákváðu, og gerði ég það með það í huga, að bezt væri að fara vægilega í þetta mál og ofbjóða í engu atvinnulífinu með ströngum kröfum á þessu sviði til atvinnulífsins og þessi löggjöf sem önnur stæði þá síðar til bóta.

Síðan ég gekk frá þessu frv. upphaflega, hef ég kynnt mér hina dönsku vinnuverndarlöggjöf, og þegar ég hef gert það, liggur við, að ég fyrirverði mig fyrir að hafa lagt nafn mitt við svo vægilegar kröfur til vinnuverndar handa íslenzkum verkalýð sem ég hef gert í þessu frv., því að hin danska vinnuverndarlöggjöf er miklu strangari að öllu leyti en farið er fram á í þessu frv. Það er milli 1870 og 1880, sem þeir setja sín fyrstu vinnuverndarlög, Danir, og þá taka þeir fyrir það, sem í raun og veru liggur mest á að taka fyrir í hverju landi, þ.e. vinnuvernd barna, og sú löggjöf var þá þegar þó nokkuð ströng að því er snertir vinnuverndarákvæði til handa börnum og ungmennum. En þegar hér var á siðasta þingi fjallað um barnavernd, vildu ýmsir hv. alþm. koma þar inn nokkrum vinnuverndarákvæðum gagnvart börnum og ungmennum og fengu það samþ. í þessari d., en þó sætti það nokkurri andspyrnu hér, að slík vinnuverndarákvæði gagnvart börnum væru sett, og þegar til hv. Ed. kom, strandaði málið þar. Ég harma það, að menn skuli ekki enn hafa einu sinni skilning á því hér, að vinnuverndarákvæði þurfa að vera og verða að vera jafnvel allströng að því er snertir börn og ungmenni. En þessi skilningur virðist ekki vera vaknaður meðal okkar sem skyldi. Ég undrast miklu minna, þó að almenn vinnuverndarákvæði varðandi fullorðið fólk, sem gengur að störfum í þjóðfélaginu, sæti minni skilningi, því að hitt hefði ég talið, að væru nokkuð sjálfsagðir hlutir hjá sérhverri menningarþjóð, að vernda börnin gegn ofþjökun og gegn hættum, sem stafa af þátttöku þeirra við ýmis störf þjóðfélagsins. Hitt viðurkenni ég fyrstur manna, að vissulega getur vinnan verið hinn bezti uppalandi hins uppvaxandi æskufólks. En þar verður að gæta hófs bæði um vinnutíma og um að ofbjóða börnum ekki við of erfið störf og í þriðja lagi að láta þau alls ekki koma nálægt störfum, þar sem um mikla slysahættu er að ræða.

Í greinargerð með dönsku vinnulöggjöfinni, þegar hún var lögð fyrir danska þingið nú fyrir nokkrum árum í því formi, sem hún er nú, segir, að sérhver menningarþjóð, sérhver þjóð, sem vilji kallast menningarþjóð, hafi nú sett ýtarlega löggjöf hjá sér um vinnuvernd. Mér er spurn: Vill ekki íslenzka þjóðin telja sig til menningarþjóða? Og þó er þannig ástatt hjá okkur, að vinnuverndarlöggjöf er hér ekki til i neinu heildarformi. Ég vil því vænta þess, að skilningur fari vaxandi á því, að íslenzka þjóðin sem menningarþjóð verður að setja hjá sér vinnuverndarlöggjöf.

Það má að vísu segja, að það séu þrenn lög hjá okkur Íslendingum, sem snerti þessi mál. Ég minni þar á vökulögin, sem sættu á sínum tíma mikilli andspyrnu, en allir viðurkenna nú, að hafi verið nauðsynlegt að setja, þegar stóriðjan, rekstur togaranna, hóf innreið sína í íslenzkt þjóðfélag. Ég minni í annan stað á lögin um öryggisráðstafanir á vinnustöðum, sem sett voru, að mig minnir, 1952. Þau snerta visst svið almennrar vinnulöggjafar og eru, miðað við þann tíma, sem þau voru sett, alls ekki ómerkur þáttur til þess að lögfesta ýmiss konar öryggisráðstafanir á hinum ýmsu vinnustöðum. Í þriðja lagi falla svo undir heildarvinnulöggjöf lögin um greiðslu verkkaups frá 19. maí 1930. En ég minnist þess ekki, að við höfum neinn vísi að vinnuverndarlöggjöf á öðrum sviðum en þessum, sem ég nú hef nefnt, og skortir þar mikið á, að við séum eins á vegi staddir og allar nágrannaþjóðir okkar, sem fyrir löngu hafa sett hjá sér fjölþætta og nákvæma og stranga heildarvinnuverndarlöggjöf, eins og ég hef þegar vikið að.

Ég hef sem sé tvisvar áður rakið allrækilega efni þessa frv. og skal ekki þreyta þingheim með því að gera það nú. Ég vil aðeins á það minna, að þetta frv. er í 8 köflum. Þar er fyrsti kaflinn um holl og góð vinnuskilyrði. Í honum eru nokkur atriði um búnað vinnustaðar til aukins öryggis í viðbót við það, sem felst í gildandi löggjöf um það efni. En vegna þeirra lagaákvæða, sem til eru í l. frá 1952 um öryggisráðstafanir á vinnustöðum, hef ég ekki þann kafla mjög ýtarlegan. Niðurlagsákvæði hans eru þó um það, að ef vinnustaður fullnægi ekki skilyrðum laga um hollustuhætti og öryggisbúnað, sé heilbrigðisyfirvöldum og öryggiseftirliti ríkisins heimilt að láta loka vinnustaðnum, ef ekki fæst úr bætt um það, sem áfátt er. Þessi heimild er ekki í lögunum um öryggi á vinnustað.

Annar kaflinn er um vinnutíma og vinnutilhögun, og eru í honum nokkur nýmæli, en þó hygg ég, að þar sé ekki mjög strangt í sakir farið. Í honum var gert ráð fyrir því, að það sé verkefni okkar á 5 árum að koma vinnutímanum á viku niður í 40 stundir.

Þá eru í þriðja kaflanum sérstök ákvæði um vinnu kvenna, aðallega til þess að vernda konuna á vinnumarkaðinum að því er snertir móðurhlutverk hennar, þannig að hún verði ekki sjálf fyrir heilsutjóni eða barnið gjaldi þess, að hún sé þátttakandi fyrir þjóðfélagið á vinnumarkaðinum.

Fjórði kaflinn er svo um vinnuvernd barna og unglinga. Og þó að ég fari ekki út í að rekja efnisatriði hinna kaflanna, vil ég þó með örfáum orðum minna á innihaldið í þessum kafla. svo að hv. þm. geti enn gert það upp við sig, hvort þarna sé óskynsamlega eða óeðlilega stranglega í sakir farið. Ef svo væri, bæri hv. alþm. að gera við það brtt., svo að í hóflegu formi væri að þeirra hyggju, en ekki að leggjast á þetta mál sem óþarft eða óverðugt Alþ. að fást við sem löggjafarsamkomu.

Það er í fyrsta lagi í þessum kafla skilgreining á því, hvað sé átt við með „barni“ og hvað sé átt við með „ungling“. Barn er að skilningi þessa frv. sá, sem er á aldursskeiðinu 14—16 ára. Við því er lagt bann í frv., að börn innan 12 ára aldurs stundi innivinnu í vinnustofum, verkstæðum og verksmiðjum, svo og út- og uppskipunarvinnu, og skal skólayfirlæknir ríkisins yfirleitt hafa úrskurðarvald í slíkum málum. Börn innan 12 ára starfi ekki við neina verksmiðjuvinnu, neina innivinnu, enda munu þau almennt ekki teljast til þess fær.

Alger hámarksvinnutími barna er 6—7 stundir á dag, en þegar um lengri vinnutíma er að ræða, skulu tveir vinnuhópar barna annast 8 stunda vinnutímabil til móts við fullorðna, þ.e.a.s. 4 stundir hvor hópurinn, og ef um 10 stunda vinnutímabil fullorðinna er að ræða, þá komi tveir vinnuhópar barna þar á móti, sem séu þá í vinnu 5 stundir hvor þeirra (Gripið fram í.)

Það er í upphafi 4 kafla. Það er í 19. gr., hygg ég, f frv., bann við því, að börn innan 12 ára aldurs stundi innivinnu í vinnustofum (Gripið fram f.) Er það ekki? Í 19. gr. segir:

„Börn má ekki ráða til innivinnu í vinnustofum, verkstæðum né verksmiðjum og eigi heldur til vinnu við útskipun eða uppskipun á vörum.“ (Gripið fram í.) Þetta eru börn innan 14 ára aldurs. Fyrirgefið, það er prentvilla þarna í greinargerðinni, það hefur fallið niður. Já, það hefur að því er virðist fallið úr greininni sjálfri. Það er bannað með öllu að fela börnum gæzlu gufukatla eða annarra véla, ef gæzlan útheimtir sérstaka varúð eða aðgæzlu. Ég hygg, að flestir mundu segja, að það væri ábyrgðarleysi að fela börnum gæzlu nokkurra véla, sem slysahætta geti stafað af. Og þá er óheimilt að ráða börn til nokkurrar þeirrar vinnu, sem að dómi skólayfirlæknis eða héraðslæknis geti á einhvern hátt talizt hættuleg heilsu barna eða þroska þeirra. Og svo er bann, sem kannske má um deila, en þó finnst mér það nú naumast, að það er bönnuð öll barnavinna og unglinga, frá því að skólaganga hefst að hausti og þar til skólagöngu lýkur að vori. Þeim er ætlað þá hlutverk, sem á að taka upp tíma þeirra og krafta, þannig að ekki sé á bætandi, og þess vegna finnst mér ekki óeðlilegt, að það sé bannað að hafa þau sem þátttakendur í venjulegri vinnu á vinnumarkaðinum, á meðan þau annast sitt náms- og fræðsluhlutverk.

Til öryggis og eftirlits með þessu er atvinnurekendum gert að skyldu að halda sérstaka skrá um tegund vinnu og vinnutíma þeirra barna og unglinga, sem hjá þeim vinna, og atvinnurekendum skal skylt að afhenda viðkomandi stéttarfélagi og einnig heilbrigðis- og skólayfirvöldum slíka skrá, ef eftir henni er gengið og þess krafizt.

Þegar um það var rætt á s.l. ári að setja ákvæði í líkingu við þetta, þó eitthvað vægara, að ég hygg, inn í barnaverndarlöggjöfina, þá skal ég játa það, að það náði tvímælalaust til allra tegunda vinnu, þ. á m. til sveitavinnu, og get ég gengið inn á það, að þátttaka barna í slíkum störfum, ef fyrirbyggju er gætt og varúðar, er nokkuð annars eðlis en flestar tegundir vinnu í kaupstöðum og kauptúnum, í sambandi við atvinnulifið þar, og má segja, að það sé miklu fremur verjandi að hafa börn þátttakendur í útivinnu í sveitum að sumrinu, þótt yngri séu en hér er tilgreint, og held ég því, að heppilegra sé að setja ákvæðið um vinnuvernd barna alls ekki inn í almenna löggjöf, sem nær til alls þjóðlífsins undantekningarlaust, eins og barnaverndarlöggjöfin gerir, heldur í löggjöf, sem nái til vissra sviða atvinnulífsins, eins og þessari löggjöf er ætlað að gera.

Fimmti kaflinn er um greiðslu vinnulauna og ýmislegt það, sem á að tryggja rétt launþega í þeim efnum umfram það, sem er í gildandi l., og til að taka af ýmiss konar vafaatriði, sem ástæða er til að kveða skýrt á um, en núverandi löggjöf, sem er orðin nokkuð gömul, frá 1930, um greiðslu vinnulauna, tekur ekki fram um, en ýmiss konar venjur hafa hins vegar skapazt um. Ég geri ráð fyrir, að flestum þyki í raun og veru betra að hafa ákveðin lagafyrirmæli að styðjast við í þessu efni, enda væri réttur verkamanna í þessu allur öruggari, væru þær venjur, sem skapazt hafa og eðlilegastar þykja, bundnar í lögum.

Í sjötta kaflanum eru svo ýmis nýmæli, sem hníga að því að tryggja verkafólki fyllri rétt en nú er í l. gagnvart uppsögn af hendi atvinnurekanda undir ýmsum tilvikum, og er þar að mörgu leyti stuðzt við eðlilegar venjur, sem skapazt hafa í samskiptum milli góðra atvinnurekenda og verkafólks, og ekki gengið miklu lengra en tíðkast í slíkum tilfellum.

Í sjöunda kaflanum er svo ákvæði um viðurlög og refsingar út af brotum á þessum l. Og í áttunda kaflanum er eingöngu fjallað um gildistökuna, og er gert ráð fyrir því, að frv. þetta taki gildi miðað við 1. maí 1966.

Ég skal að lokum geta þess, að mér er kunnugt um, að vinnutímanefnd hefur fjallað um einn þátt vinnuverndarmála, þ.e.a.s. um vinnutímann, og látið frá sér fara fyrir nokkru frv. að l. um þann þátt. Út af fyrir sig tel ég fyrir mitt leyti, að það væri nokkur fengur að því að fá þann kafla um vinnutímann lögfestan, þó að ég telji það ófullnægjandi með öllu sem heilsteypta vinnuverndarlöggjöf. Hins vegar er því ekki að leyna, að ýmsir eru þeirrar skoðunar, að það frv., sem vinnutímanefnd hefur sent til vinnuveitendasamtakanna og ASÍ, gangi svo skammt, að ekki sé viðunandi og því síður fullnægjandi. En ég verð að játa, að þegar ekki virðist ríkjandi fullur skilningur á þörfinni fyrir að setja skynsamleg ákvæði um vinnuvernd barna, þá megi búast við því, að við verðum að vera lítilþægir um fyrstu löggjöf, sem við reynum að fá í gegn á Alþ. um almenna vinnuvernd fullorðins fólks. Og í raun og veru er þetta frv. við það miðað, þó að það virðist samt sem áður ganga lengra en svo, að Alþ. þyki það í hóflegu formi, ef miða má við þann drátt, sem orðið hefur á því, að það fái eðlilega afgreiðslu á Alþ.

Ég hef svo ekki þessi orð fleiri um frv., hef minnzt á efni þess og aðeins gert grein fyrir efni eins kaflans, þ.e.a.s. kaflans um vinnuvernd barna, en læt það að öðru leyti vera að rekja efni þess.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að umræðu þessari lokinni vísað til 2. umr. og heilbr.-og félmn.