15.02.1966
Neðri deild: 41. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 422 í C-deild Alþingistíðinda. (2530)

101. mál, þingsköp Alþingis

Flm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Fyrr á árum voru stjórnmálafundir miklir viðburðir í byggðum Íslands. Þeir voru haldnir tiltölulega sjaldan, enda gerðu samgöngur ómögulegt að halda þá oft. Fólk fór langar leiðir til þess að sækja þessa fundi og sjá þá menn, sem stjórnuðu landinu og oftast nær fór mikið orðspor af. Þessir fundir stóðu oft og tíðum daga, kvöld og stundum fram á nótt.

Þegar útvarpsstarfsemi hófst hér á landi á vegum ríkisins 1930, þannig að öll þjóðin gæti notið, voru samgöngur í landinu enn ekki betri en svo, að það sama ár þótti tíðindum sæta, er bilfært var talið vera frá Borgarnesi til Húsavíkur. Það var því eðlilegt, þegar til mála kom að ákvarða samband milli Alþingis og þessa nýja miðils, útvarpsins, sem gat náð til allrar þjóðarinnar, að tekið væri hið gamla fundarform næstum óbreytt og útvarpað slíkum fundum frá Alþ. Þaðan hygg ég, að það sé komið, að samkv. l. eru fyrirskipaðar umr., sem geta staðið tvö kvöld, um og yfir 4 stundir hvort kvöldið.

Þótt ekki hafi liðið ýkjalangur tími, síðan þetta var, hefur margt gerzt til breytinga. Samgöngur í landinu hafa gerbreytzt. Aðstaða fólks til þess að fylgjast með stjórnmálum og þingmálum er ekki á nokkurn hátt sambærileg við það, sem hún var áður fyrr. Af þessum ástæðum tel ég tímabært, að Alþ. taki til athugunar, hvort ekki er rétt að breyta þeim reglum, sem nú hafa um langt árabil gilt um útvarp frá Alþ. Jafnframt stöndum við andspænis því, að útvarpstæknin hefur, 4 áratugum eftir að hún náði almennri útbreiðslu í heiminum, tekið stórt skref fram á við og nú er ekki aðeins hægt að senda út hljóðið eitt, heldur einnig myndir með því. Sú tækni hefur hlotið almenna útbreiðslu í nágrannalöndum okkar fyrir 1—1 1/2 áratug og er á næsta leiti hér hjá okkur.

Þetta tvennt veldur því, að ég hef leyft mér að flytja frv., sem gerir ráð fyrir stórbreytingum á útvarpi frá Alþ. og gerir einnig ráð fyrir fyrstu reglum um, hvernig hagað verði sjónvarpi frá Alþ. Ég vil þegar í byrjun benda á það, sem tekið er fram í grg., að ég tel eðlilegast, að þessu máli verði ráðið til lykta með samkomulagi allra þingflokka, eftir að þeir hafa athugað það mál á þann hátt, sem þeir sjálfir telja bezt. Í samræmi við þetta hefði mátt ætla, að nóg hefði verið að flytja almenna þáltill. um endurskoðun þessara mála, en við íhugun komst ég að þeirri niðurstöðu, að það væri ekki síðra að flytja frv. og kasta fram hugmyndum eins manns til að hefja umr. Vil ég því óska eftir, að menn liti á þetta frv. sem byrjunarhugmyndir, sem ég vonast í bezta lagi til að verði til þess, að þingflokkarnir taki málið upp til athugunar, og ég mun því engan veginn halda fast við hvert ákvæði þessa frv. Tel ég meginatriði málsins vera, að þessu sambandi milli þings og þjóðar, sem ég tel vera höfuðnauðsyn fyrir lýðræðislega stjórnarhætti, verði á næstunni komið í það form, að samræmist tækni okkar, lifnaðarháttum og hugsunarhætti í dag.

Ég tel, að þær reglur, sem nú gilda um útvarp frá Alþingi, séu fyrir margra hluta sakir úreltar. Ég tel, að umr. séu óþarflega langar, óþarflega bundnar við fastar venjur og reglur og af þeim sökum nái þessar umr. frá Alþ. til sífellt minni hluta af þeim kynslóðum, sem eru að vaxa upp. Hefur oft verið fullyrt, að enginn hlusti á útvarpsumræður. Það er fjarstæða. Miðað við annað útvarpsefni og við slíkt efni í öðrum löndum er enn mikið hlustað á útvarp frá Alþ., töluvert mikið hér í Reykjavík og nágrenni og að minni hyggju meira utan við höfuðborgarsvæðið. En engu að síður er það uggvænlegt, ef útvarp frá löggjafarsamkomu þjóðarinnar nær ekki eyrum hinnar uppvaxandi kynslóðar. Í samræmi við það miða ég ýmsar þær breytingar, sem ég hef lagt til.

Ég tel einnig, að það snið, sem hefur verið á þessum umr. og tekið er næstum beint frá þingmálafundum úti í héruðum, sé ekki í samræmi við eðli útvarpsins sem miðils. Þingmenn hafa tekið útvarpsumr., þegar þær hafa verið haldnar tvisvar-þrisvar á ári, eins og þeir taka almennan þingmálafund, hafa reynt að æsa sig upp í þessum ræðustól rétt eins og þeir hefðu 100 eða 200 áhugamenn fyrir framan sig, en hafa gleymt því, að hlustendur sitja heima í stofum, eru að drekka kvöldkaffi og eiga erfitt með að átta sig á því, hvers vegna þessir blessaðir menn við Austurvöll í Reykjavík eru að æsa sig upp.

Þannig hefur formið leitt okkur þm. til þess að haga umr. á þann hátt, að í raun og veru gefa þær fólki ranga hugmynd um þingstörfin og landsmál, eins og um þau er fjallað hér. Nú er ég ekki með þessu að segja, að menn geti ekki beitt skapi sínu, ef þeim sýnist svo, eða látið fylgja persónulegan þunga máli sínu. En við nánari athugun munu menn sjá, að það gera menn á annan hátt, þegar þeir sitja inni í stofum heimila, þar sem útvarpstækin eru, heldur en menn gera á fjölmennum stjórnmálafundum.

Í núgildandi þingsköpum er gert ráð fyrir því, að útvarpa skuli þingsetningu og þinglausnum. Er að minni hyggju sjálfsagt að halda áfram ekki aðeins að útvarpa, heldur eigi og strax og það verður kleift að sjónvarpa sömu athöfnum. Er ekki vitað enn þá, hversu fljótt íslenzkt sjónvarp muni geta flutt tæki sin til annarra húsa, þ. á m. alþingishússins, en það líða varla mörg ár, frá því að sjónvarp hefst, þar til það verður.

Rétt er að athuga, að með því að ákveða, að það skuli leyfilegt að sjónvarpa úr sölum Alþingis, erum við að taka veigamikla ákvörðun, sem er, ef dæma má eftir reynslu annarra þjóða, alls ekki sjálfsagður hlutur. Ég hygg, að þær þjóðir séu mun fleiri, sem hafa aldrei leyft beint útvarp og leyfa ekki beint sjónvarp úr þingsölum sínum. Í bernsku útvarpsins voru uppi þær hugmyndir, að rétt mundi að hverfa aftur til hins forna kerfis, þegar þjóðin fjölmennti á þingstað, og nota litlar útvarpsstöðvar, sem útvörpuðu öllum fundum frá þjóðþinginu. En það kom fljótt á daginn, að það mundi ekki vera ráðlegt og hefur verið horfið frá því á þeim fáu stöðum, þar sem það var reynt. Á hinn bóginn eru ýmsar þjóðir, sem leyfa bæði útvarp og sjónvarp úr þingsölum. Við erum í hópi þeirra þjóða, sem hafa samkv. vissum reglum leyft útvarp beint úr þingsal. Tel ég, að við eigum í beinu áframhaldi að gera ráð fyrir að sjónvarpa beint úr þingsal, þegar það verður tæknilega mögulegt. En í hópi þeirra þjóða, sem hafa valið þessa leið, eru einmitt næstu nágrannaþjóðir okkar og fyrirmyndir um þjóðfélagsmál, Norðurlandaþjóðirnar. Og ég hygg, að beint sjónvarp úr þingsölum hafi þar unnið sér slíkan sess þegar á fyrstu árum, að engum detti í hug í alvöru að snúa frá.

Þá er í þingsköpum fyrirskipað, að útvarpa skuli framsöguræðu fjmrh. við fjárlagafrv. og siðan takmörkuðum ræðuhöldum þar á eftir. Ég er þeirrar skoðunar, að útvarp á þessari ræðu og því, sem fylgir henni, sé vanhugsað. Ræða fjmrh. hlýtur að vera tæknilegs eðlis og vera morandi í tölum um alls konar smáatriði, sem þm. kunna á fingrum sér, en sárafáir leikmenn umhverfis landið geta áttað sig á. Menn þurfa að sjá tölur á pappírnum, þó að þær séu færri og minni en þær tölur, sem felast í sjálfum fjárl. Ég tel því, að við eigum að hverfa frá því að útvarpa þessari 1. umr. um fjárl. og að gagn af þeirri umr. sé engan veginn í samræmi við þá upprunalegu hugmynd, sem hefur verið á bak við útvarp þessarar umr., að fjárl. væru kjarni allra stjórnmála og því væri eðlilegast að gefa heina mynd af þeim með því að útvarpa þessari umr.

Mikill hluti af ræðu fjmrh. fer óhjákvæmilega fyrir ofan garð og neðan hjá öllum þorra hlustenda. Útvarpið fer fram á þeim tíma, þegar hinir flokkarnir hafa ekki tekið fullnaðarákvörðun um afstöðu sina til fjárl., og þar af leiðandi nota þeir sinn tíma til þess að flytja almennar áróðursræður, sem væri hægt að flytja hvenær sem er, en á þessum stað og tíma gefa ranga hugmynd um þann anda, sem ríkir í þinghaldinu í sambandi við afgreiðslu fjárl. Í staðinn fyrir þessa umr., sem jafnan kemur í byrjun þings, legg ég til, að aðeins verði ein umr. lögskipuð og það verði almenn stjórnmálaumr., sem fari fram í byrjun þinghaldsins á haustin. Þá hafa liðið allmareir mánuðir, síðan þingi sleit. Þjóðin er þá að skipta um frá sumarverkum og yfir til haustog vetrarverka. Þá tel ég vera mjög eðlilegan tíma til þess, að ríkisstj. hvers tíma — væntanlega forsrh. — gefi almenna skýrslu um gang þjóðmála og ástand. Hugmynd mín er sú, að ekki verði lögskipaðar aðrar umr., en hins vegar ráði flokkarnir því eins og hingað til. bæði allir saman og einstakir minnihlutaflokkar, hvenær útvarpað verður. Ég er þeirrar skoðunar, að útvarpsumr. um einstök mál séu mun gagnsmeiri og betri en þessar umfangsmiklu eldhúsumr., þegar þm. tala hver um sitt mál. eftir því sem þeir hafa áhuga á og eftir því sem flokkarnir fyrirskipa þeim. Umr. um einstök vandamál, sem eru efst á baugi, mundu verða málefnalegri, og við það, að þm. tala um sama mál hver á eftir öðrum, mundi fást skýrari mynd af mismunandi skoðunum á stærstu málum, sem frammi eru, þjóðin mundi fá betri hugmynd um málefnaflutning stjórnar og stjórnarandstöðu heldur en fæst með núverandi kerfi á útvarpsumr.

Ég hef lagt til, að fyrst í stað verði sjónvarpsumr. í aðalatriðum háðar sömu reglum, nema hvað ræður verði þar heldur styttri. Þá legg ég á það ríka áherzlu, að í þessum efnum eigum við ekkj að líta svo á, að nein stórkostleg umskipti verði, þó að útvarpstæknin hafi tekið eitt skref. Við eigum að reyna að halda áfram þeirri hefð, sem við höfum myndað í þessum efnum, laga okkur að breyttum aðstæðum og gera þá ráð fyrir því, að við getum tekið ákvarðanir eftir fá ár um breytingar á t.d. ræðutíma í sjónvarpi eftir þeirri reynslu, sem fæst. Ég vil, að það sé opið mál og geti verið á valdi þingflokkanna, hvort þeir ákveða eingöngu útvarpsumr. um eitthvert mál, hvort þeir ákveða eingöngu sjónvarpsumr. eða hvort tveggja samtímis.

Þá hef ég lagt til ýmsar aðrar breytingar og er þeirra merkust og örlagaríkust sú, að ríkisútvarpið megi óska eftir að fá að útvarpa umr. og eigi því þá að vera heimilt að útvarpa miklum hluta eða allri umr. um eitt mál. Þá breytist þingsköp ekkert frá því, sem er við venjulegar umr. innan veggja þingsins. Þá mundi að vísu koma af sjálfu sér, að forsetar notuðu heimild eða ábendingu þingskapa um að raða ræðumönnum sem næst með máli og móti. Þetta kann að virðast byltingarkennd till., en ég vil benda á, að það er einmitt svona útvarp, sem hefur vakið athygli og náð vinsældum á Norðurlöndum. Þar eru ekki settar upp fastar reglur, mönnum sé raðað upp eins og tindátum og svo glymja bjöllur, ef nokkur fer sekúndu fram fyrir það, sem leyfilegt er. Reynslan á hinum Norðurlöndunum er sú, að heilbrigð skynsemi þm. sjálfra hefur haldið þessum umr. innan þeirra marka, sem ástæða er til. Menn hafa talað eins og þingsköp leyfa þeim og þeim þykir ástæða til, en skilið það, að þeir, sem reyna að flytja óeðlilega langar ræður og hafa kannske ekki efni í þær, gera engum tjón nema sjálfum sér. Eins er hitt, að þeir þm., sem geta flutt styttri ræður og komið máli sínu vel fyrir, njóta þess. Nú vil ég benda á, að þótt svona róttæk breyting væri gerð hér, eins og ég legg til, yrði alltaf á valdi þingflokkanna að óska eftir venjulegum útvarpsumr. eða sjónvarpsumr. um viðkomandi mál eftir þeim öðrum reglum, sem í frv. felast, svo að þeir geti breytt opinni umr. í umr. eftir þeim föstu leikreglum, sem annars eru notaðar. Ég geri mér ljóst, að hér er um mikilsverða breytingu að ræða og alls ekki víst, að menn átti sig á þessu, sætti sig við eða telji, að breytingin sé tímabær. En úr því að mál þetta var tekið upp, sá ég ástæðu til að beina athygli manna að því, hvernig þessu er skipað í næstu löndum og hvernig þau kerfi eru, sem þar hafa gefið bezta raun.

Segja má, að ýmis minni háttar ákvæði skipti ekki eins miklu máli, eins og það, að heimilt sé að taka í fréttir og fréttaauka einstaka ræðukafla manna. Þetta hefur útvarpið gert á undanförnum 2—3 árum og hefur yfirleitt þótt gefast vel. En það hefur farið varlega og að sjálfsögðu fengið leyfi viðkomandi manna hverju sinni og enn sem komið er alltaf haldið sig við umr., þegar hægt var að taka ræðubút frá aðalræðumanni hvers flokks. Í framtíðinni er alls ekki vist, að fréttagildi sé í sekúndum og mínútum jafnmikið í ræðum manna í öllum flokkum. Það getur verið, að einn daginn flytji formaður stjórnarandstöðuflokks yfirlýsingu, sem sé mikilvægasta fréttin, sem fram kemur á þinginu þann dag, og þá á hann að njóta þess í almennum fréttum. Eins getur hitt komið fyrir og er eðli málsins samkv. algengara, að yfirlýsingar frá ráðh. séu fréttnæmari, þá geta bæði þeirra yfirlýsingar og viðbrögð stjórnarandstöðu verið það fréttnæma. Hugmyndin í þessu er að freista þess að hafa þetta sem frjálsast í þeirri von, að þá muni rótgróin sanngirni og skynsemi þeirra manna, sem um þetta fjalla, t.d. þeirra manna, sem annast fréttir blaða og í þessu tilfelli útvarps, leiða til þess, að ekki verði á neinn hallað, þegar menn átta sig á því, að þessir fjöldamiðlar verða að fá leyfi til þess að segja það, sem fréttnæmast þykir, en þurfa ekki að bera þá skyldu, sem er í venjulegum útvarpsumr., að gera öllum jafnhátt undir höfði, hvort sem þeir hafa fréttir að færa eða ekki.

Þá kemur einnig til, að það má búast við vaxandi ágangi af hálfu ljósmyndara, kvikmyndatökumanna, segulbandsupptöku og myndsegulbandsupptöku, sem er það næsta í tækninni og er komið í notkun í sjónvarpsstöðvum um allan heim. Úr því að á annað borð eru ákvæði í þingsköpum og þar með landslögum um þessa hluti, sem er yfirleitt ekki í öðrum löndum, finnst mér rétt, að það sé ákveðið, að forseti þingsins skuli segja fyrir um, hvaða reglur skuli gilda. Reynslan í öðrum löndum sýnir, að ef ljósmyndun, kvikmyndun og annarri upptöku er ekki haldið í skefjum, getur þetta orðið að hreinni plágu.

Ég mun ekki hafa öllu fleiri orð um einstök atriði þessa frv., en vil enda á því að ítreka, að hugsun mín er sú, að kominn sé tími til að ræða um breytingar í þessum efnum og sé nauðsynlegt að taka málið fyrir. Ég hef valið þann kost að setja fram till. frekar en að óska eftir almennri endurskoðun. Ég skal játa, að ég hef af þessum ástæðum haft till. í róttækara lagi til að sýna mönnum það, sem lengst gengur í nágrannalöndum. Ég mundi mjög vel sætta mig við, ef árangurinn af flutningi þessa frv. yrði sá, að þingflokkarnir vildu taka málið upp til athugunar, svo að menn geti vænzt þess, að þeir nái samkomulagi um breytingar á næstu missirum.

Herra forseti. Ég legg til, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. allshn.