15.02.1966
Neðri deild: 41. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 427 í C-deild Alþingistíðinda. (2531)

101. mál, þingsköp Alþingis

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég hefði talið heppilegra, að hv. flm. hefði haft þetta þáltill. um endurskoðun á þessum efnum, en hann hefur nú gert rækilega grein fyrir því, að hann líti á þetta frv. sem umræðugrundvöll. Það má því kannske segja, að ekki skipti svo miklu máli um formið, því að hv. þm. hefur lagt áherzlu á, að hann flytji frv. til þess að koma málinu af stað.

Ég vil lýsa þeirri skoðun minni, að ég tel tímabært að endurskoða reglur þær, sem hingað til hafa gilt um útvarp frá Alþ., í ljósi þeirrar reynslu, sem fengizt hefur, sem er orðin æðilöng og margvísleg, og því lætur ekki nema að líkum, að það þurfi að breyta þar einhverju, enda tel ég, að svo sé, að það þurfi að breyta þar til.

Þá kemur sjónvarpið, og þótt ekkert væri nema það, að fram undan er að byrja rekstur sjónvarps, mundi það vera nægilegt til þess, að það þyrfti að koma inn í þingsköpin ákvæði um, hvernig sjónvarpa skuli frá Alþ. Ég tel því, að hér sé hreyft tímabæru máli, á hvorn þáttinn sem litið er. Ég hef hugsað talsvert mikið um þessi efni, eins og að líkum lætur, og hef myndað mér skoðun um sumt í þessu, en ekki nándar nærri allt, sem kemur til greina.

Ég er ekki reiðubúinn til þess við þessa umr. að kasta fram neinum uppástungum um, hvernig breyta skuli til eða hvernig haga skuli notkun sjónvarpsins, og ég er ekki heldur tilbúinn til þess að láta í ljós álit um einstakar till., þær sem hv. þm. hreyfir í þessu frv., og mun því taka það ráð að ræða ekki einstök atriði þess, láta það bíða betri tíma, en leggja áherzlu á það með flm., að um þetta þyrfti endilega að nást samkomulag allra þingflokka, eins og raunar hefur tekizt fram að þessu, held ég, þegar settar hafa verið reglur um þessi viðkvæmu málefni. En það er mjög viðkvæmt og mjög þýðingarmikið, hvernig þessu verður hagað. Og mundi ég nú vilja vona, að slíkt samkomulag gæti náðst nú sem fyrr.

Ég vil hreyfa þeirri uppástungu eða skjóta því hér fram til n., sem fær þetta mál til meðferðar, hvort ekki mundi vera skynsamlegt af tilefni frv. að setja n., í hverri væru fulltrúar frá öllum þingflokkum, og sú n. gæti tekið þetta málefni til íhugunar eitthvað lengur en meðan Alþingi situr nú í vetur, og gæti þetta verið mþn., sem lyki störfum, áður en langt um liður.