15.02.1966
Neðri deild: 41. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 428 í C-deild Alþingistíðinda. (2532)

101. mál, þingsköp Alþingis

Elnar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég álít mjög gott, að þetta frv. um að breyta þingsköpunum er hér komið fram, bæði í sambandi við það sérstaka tilefni, sem hv. flm. notar, og eins til þess að athuga nokkuð um þingsköpin almennt. Við munum náttúrlega í þingflokki Alþb. taka þetta til gaumgæfilegrar athugunar, og það, sem ég segi hér, er eingöngu mínar persónulegar hugmyndir í sambandi við þetta.

Ég held, að það sé í sambandi við 1. gr. mjög rétt að athuga þetta. Ég álít þau rök, sem hv. flm., 5. þm. Vesturl., flutti um fjárlagaræðuna, að það sé mjög tímabært að breyta þar til. Við vitum, að lengi vel var þetta svo, að henni var útvarpað um miðjan dag, og þá hlustuðu mjög fáir, svo að fyrir nokkrum árum var gerð þessi breyting, að útvarpa henni að kvöldinu til. Þá náttúrlega óx hún mjög að gildi, en varð í raun og veru enn þá óhentugri vegna þeirra mörgu talna, sem í henni eru, þannig að það er rétt að athuga þessa till., sem kemur fram í 1. gr.

Þá tekur maður eftir því í sambandi við 2. gr., að það, sem er hugsað til þá, er að fella niður, að það sé sjálfsagt að útvarpa till. um vantraust. Það er náttúrlega hlutur, sem við þurfum mjög að athuga, því að t.d. við skulum segja fyrir stjórnarandstöðuflokka væru með svona breytingu aðeins til tveir möguleikar, það væru t.d. tveir stjórnarandstöðuflokkar eins og núna, að knýja fram umr., ef hinir flokkarnir væru á móti. En hins vegar vitum við, hvað sjaldan í raun og veru vantraust hefur verið borið fram og hve sjaldan vantraust hefur verið notað og vantraustsumr. hafa verið notaðar, alveg án tillits til þess, hvaða stjórn hefur setið í hvert skipti, þannig að það er náttúrlega rétt fyrir okkur að athuga þetta mjög gaumgæfilega.

Í sambandi við 3. gr. er, eins og flm. tók fram, um mjög mikla breyt. að ræða, sérstaklega í seinni málsgreininni þar um að gefa ríkisútvarpinu heimild til að útvarpa eða sjónvarpa í fréttum eða fréttaaukum ræðum eða ræðuhlutum. Þar eiga menn náttúrlega enn þá meira en ella undir óhlutdrægni ríkisútvarpsins og þess starfsmanna. Ég geng út frá, að með þessi efni verðum við vafalaust að prófa okkur áfram, þegar að því kemur, að farið verði að sjónvarpa.

Svo er sérstaklega í sambandi við 4. gr. hin mikla breyting, sem þar er um að gefa ríkisútvarpinu heimild til að útvarpa umræðum að verulegu leyti í heild og þá sé forseta skylt að leyfa það, án þess að breytingar verði á fundasköpum. Þarna er rétt fyrir þm. að gera sér það mjög Ijóst, að við tilkomu sjónvarpsins gerbreytist öll ræðutækni á Alþ. T.d. sá siður, sem fjöldi þm. hefur, að skrifa ræður sínar orðrétt og lesa þær upp, er gersamlega óhafandi, þegar sjónvarp er komið. Þá er ekkert, sem verkar eins illa á þá, sem horfa á sjónvarp, eins og að sjá einhvern mann standa í einhverjum stól, þykjast vera að halda ræðu og vera að lesa upp eitthvað, sem er skrifað. Og þetta er hlutur, sem bókstaflega gengur raunverulega ekki, ef það eiga að heita ræður. Það verður að gerbreyta þeirri tækni, sem almennt á sér stað um ræðuflutning á Alþ., ef menn ætla að gera útvarpið eða sjónvarpið frá Alþ. þannig, að það sé sæmilega á það horfandi. Þarna koma sem sé ýmsir hlutir, sem hæði þm. þurfa vel að athuga sjálfir og eins eykst náttúrlega þarna ákaflega mikið vandi ríkisútvarpsins, þegar það tekur að sér að ráða á sama hátt og þingflokkarnir yfir því — og raunverulega með miklu meira valdi en nokkur þingflokkur hefur, að heilli umr. sé útvarpað. Við skulum bara hugsa okkur t.d. fyrir nokkuð löngu, þegar var verið að samþykkja að ganga í Atlantshafsbandalagið, að það hefði verið sjónvarpað öllu saman frá þeim sögulegu augnablikum hérna. Ef slíkt væri gert, gerum við okkur ljóst, hve gífurlegt vald við erum að leggja í hendur ríkisútvarpsins með slíku. En ég skil það einmitt á ræðu hv. frsm., að þetta eru hlutir, sem hann ætlast til að við ræðum og athugum og athugum vel.

Í. 5. gr., sem hann kom lítið inn á, er lagt til að gefa þingflokkunum tækifæri til þess að flytja erindi. Það er út af fyrir sig mjög gott, ég tel það mjög góða uppástungu. En mér dettur í hug: Er ekki rétt fyrir okkur að athuga, svona rétt til að gefa eitthvað ofur lítið betri mynd af þingflokkunum, að það séu ekki bara möguleikar á t.d. erindaflutningi? Væri ekki líka vel mögulegt að gefa þingflokkunum sem slíkum möguleika á eins konar útvarpskvöldum, svo og svo langri dagskrá á útvarpskvöldum, sem væru þá jafnvel alls ekki erindaflutningur, heldur bókstaflega ljóð, músik og annað slíkt, sem menn vildu finna til, og máske 10—15 mín. ræða í hæsta lagi? Það gæti verið mjög praktískt, að menn hefðu ekki þá hugmynd um þingflokkana, að það væri ekkert annað en einhver pólitísk prédikun, sem slíkir aðilar héldu, heldur að þeir hefðu líka vit á og kunnáttu til og þekkingu og smekk til þess að bjóða mönnum upp á ýmislegt annað. Og ég vil nú, fyrst við erum að ræða hér um útvarpið, minnast á það um leið, að ef við færum inn á að gefa þingflokkunum einhverja slíka heimild, þá held ég það hneyksli megi ekki viðgangast lengur, sem verið hefur í útvarpinu nú nokkur ár undanfarið, að fjölmennustu samtökum landsins, ASÍ, hefur ekki verið gefinn réttur, eins og tíðkaðist þó um áratug og áratugi, til þess að útvarpa 1. maí sjálft sinni útvarpsdagskrá eftir eigin ráðstöfunum. Það er gefið, að ef við eigum að fara út í það, og það er ekki nema eðlilegt, eins óskaplegt gildi og pólitík og öll stéttabarátta hefur fyrir fólkið í landinu, ef við eigum að fara út í það að veita t.d. þingflokkunum meiri rétt og betri aðstöðu en þeir hafa haft fram að þessu, má það ekki gleymast að veita slíkt fjöldasamtökum, sem hafa verið útilokuð, þegar fjöldi almennra samtaka í landinu annars hefur fengið slík réttindi.

Ég vil enn fremur benda á í sambandi við möguleikana á umr. þingflokka, að þar hefur t.d. víða í okkar nágrannalöndum verið hafður sá háttur á að hafa útvarpskvöld, eða við skulum segja klukkutíma eða eitthvað svoleiðis, þar sem t.d. tveir þingflokkar eigast við. Þar skiptast á ræður og ræða þar mestmegnis lítt undirbúið um spurningar og annað slíkt hvor frá öðrum, þannig að smám saman eigist þannig allir flokkarnir við í útvarpinu. Mig minnir, að t.d. í Noregi hafi þetta verið notað mikið í sjónvarpi og útvarpi og hafi þótt mjög vinsælt.

Það er því mjög heppilegt, að þetta frv. kom hér fram og við getum farið að athuga þær hugmyndir allar og þær aðferðir, sem okkar nágrannar hafa í þessum málum, og reynt að koma okkur niður á, hvað okkur þyki bezt að reyna til að byrja með. Ég fagna því sem sé, að það er komið fram frv. um breytingar á þingsköpunum. Ég hafði satt að segja verið að hugsa um að bera fram frv. um breyt. á þingsköpunum, en mun nú að líkindum, fyrst þetta frv. er komið fram, láta mér nægja að gera það sem brtt. við þetta, a.m.k. ef þetta frv. ætti að ganga fram nú í þessu þingi.

Það voru sérstaklega tvö atriði, sem ég var að hugsa um, að við þyrftum að fara að gera breytingar við. Það fyrra var í sambandi við 16. gr. Þar er mælt fyrir um nefndarkosningar, og m.a. er þar sagt, að til utanrmn. skuli vísa utanríkismálum og skal ráðuneytið ávallt bera undir hana utanríkismál, sem fyrir koma milli þinga. Ég var þar með hugmynd um að flytja till. eitthvað á þá leið, að aftan við þessa grein um utanrmn. komi: í samráði við utanrmn. og að undangengnum umræðum í henni skal á hverju þingi gefa skýrslu um utanríkis- og alþjóðamál. — Það er í raun og veru alveg óþolandi, að það hefur verið svo nú um alllangan tíma eins og utanríkismálin væru mál, sem kæmu ekki Alþingi við. Ég skal ekkert fullyrða, hvað mikið þau hafa verið talin koma hæstv. ríkisstj. við á undanförnum áratug, en hræddur er ég um, að oft hafi það verið svo, og á ég þar ekki við hæstv. núv. utanrrh., að það liggi við, að utanríkismálin hafi verið meira einkamál eins ráðherra heldur en mál þjóðarinnar, Alþingis eða ríkisstj. Og ég held, að það sé aftur tími til kominn, að við gerum þar algera breytingu á.

Utanríkismál og alþjóðamál eru hjá hverri þjóð eitt af höfuðmálum hennar. Og ég hef líka orðið var við það, að meira að segja í sjálfu aðalblaði ríkisstj. hefur bókstaflega verið komið inn á það í ritstjórnargrein, held ég að ég muni rétt, að það sé ekki vansalaust fyrir Alþ. að halda áfram að ræða yfirleitt ekki um utanríkismál. Við vitum, hvað það er, sem gert hefur það að verkum, að utanríkismálin voru, sérstaklega eftir 1949, eins konar feimnismál hér á þingi. Átökin voru svo hörð í sambandi við Atlantshafsbandalagið og síðan hernámið. Djúpið, sem varð á milli vissra flokka í þinginu, var svo mikið, að ríkisstj., svo að segja á hverjum tíma sem var, vildi sem minnst um þessi mál ræða hér. Nú er raunverulega orðin mjög breytt aðstaðan, þannig að Atlantshafsbandalagið sem slíkt, þó að hernámið sé mjög þýðingarmikið og umdeilt mál, þá er Atlantshafsbandalagið sem slíkt, eftir þessi tæp 20 ár brátt, sem Ísland hefur verið í því, ekki orðið eins brýnt deilumál, það verður það vafalaust aftur, um það leyti sem við vonandi förum úr því. En sem stendur er það svo, að sú starfsemi, sem snertir okkur alþjóðlega og við þurfum endilega að fara að ræða og hugsa miklu meira um hér á þingi, er okkar starfsemi í Sameinuðu þjóðunum og þar með alþjóðamálin, eins og þau liggja þar fyrir. Og þar þarf þingið að fara að láta miklu meira til sín taka og þar með utanrmn. Ef ég veit rétt, er það t.d. svo hjá Norðurlandaþjóðunum, a.m.k. er það svo hjá Dönum, að þar kjósa þingflokkarnir menn í þá sendinefnd, sem ríkisstj. hefur hverju sinni á þingi Sameinuðu þjóðanna. Og þm. skipta bókstaflega með sér verkum um að setja sig sem bezt, sérstaklega utanríkismálanefndarmenn, inn í þau mál, sem rædd eru á þingum Sameinuðu þjóðanna, til þess að þjóðfélagið sem slíkt fylgist sem allra bezt með þessum málum og það séu á hverjum tíma menn, sem bera eitthvert skynbragð á það, sem þar er verið að ræða. Við vitum, að stærsta vandamálið í heiminum nú, vandamál, sem yfirgnæfir allt, sem hingað til hefur verið talað um sem mótsetningar á milli þess, sem kallað hefur verið „austur“ og „vestur“, er nú vandamál þeirra 1500 millj. manna í veröldinni, sem svelta meira eða minna heilu hungri, vandamál þeirra þjóða, sem við mundum kalla fátæku eða rændu þjóðirnar, þeirra þjóða, sem láta nú meira og meira til sín taka á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Andstaðan, sem núna er stundum kölluð milli „norðurs“ og „suðurs“, andstaðan milli þeirra þjóða, sem byggja Afríku, Asíu, og Suður-Ameríku og hina vegar þeirra tiltölulega ríku þjóða, sem byggja Evrópu og Norður-Ameríku, er í raun og veru að verða stórkostlegasta þjóðfélagslega eða mannfélagslega vandamálið í veröldinni. Þetta er vandamál, sem kemur okkur Íslendingum jafnt við og öðrum þjóðum og jafnvel í enn þá ríkara mæli, vegna þess að ef okkur tækist að sameina okkar krafta um að beita okkar litlu áhrifum á því sviði, hefðum við einmitt máske af reynslu að miðla, sem fáar þjóðir í Evrópu hafa, til þess að reyna að leysa ýmislegt í þessum vandamálum. Við höfum sjálfir verið í 600 ár nýlenduþjóð og getum þess vegna mun hægar en þær ríku þjóðir í Evrópu og Norður-Ameríku máske sett okkur inn í þá aðstöðu, sem þjóðir Afríku og fleiri þjóðir, sem nú hafa verið að öðlast sjálfstæði, sett okkur inn í þá reynslu, sem þær hafa þolað. Ég held þess vegna, að ákvæði um, að við tækjum fyrir a.m.k. einu sinni á hverju þingi, eftir ýtarlegar umr. við utanrmn., alþjóðamál til umr. hérna, væri ákaflega nauðsynlegt. Og ég held, að hjá þjóðinni sé verulegur grundvöllur fyrir því að ræða slík mál og fylgjast með þeim. Við tókum eftir því, við í þingflokkunum, þessir eldri, megum læra það gjarnan af æskunni, að stjórnmálafélögin og önnur æskulýðsfélög sýndu það mikla framtak í vor að gangast fyrir því, sem þau kölluðu „Herferð gegn hungri“, til þess að reyna að sýna vilja Íslendinga í nokkru til að bæta úr nauðþurftum hjá frumstæðum þjóðum, og við sáum, hve ákaflega vel þjóðin tók undir slíkt, þannig að það er engum efa bundið, að ef við getum fyrst og fremst snúið umræðuefnum okkar að því, sem við bærum vonandi að mestu leyti gæfu til að verða sammála um, létum kannske hitt meira eiga sig, nema þegar við tökumst á um það, sem við erum mest ósammála um, þá held ég, að við gætum bæði gert utanrmn. vel lifandi sem nefnd í þinginu og farið að láta Alþingi beita sér meira í alþjóða- og utanríkismálum en Alþ. hefur gert fram að þessu.

Þá hafði mér einnig dottið í hug að bera fram brtt. við 18. gr. í sambandi við nefndir þingsins, eitthvað á þessa leið:

Það er skylda hverrar nefndar að hafa afgreitt frá sér þau mál, sem til hennar er vísað, í síðasta lagi 6 vikum eftir að máli var vísað til hennar. Hafi nefnd eigi gert það, er forseta rétt að taka málið á dagskrá, ef flm. óska þess, þótt nefndarálit liggi eigi fyrir.

Við vitum, að það er farinn að tíðkast svo sá siður að afgreiða ekki mál úr n., að það er vansi að, og þetta verður að bætta að mínu áliti. Þegar við kjósum nefndir, ætlumst við til þess, að þær starfi að þessu, og Alþ. hefur einmitt nú verið að gefa n. betri starfsaðstöðu en áður. Maður hefur skilið, af hverju þetta hefur stafað. Oft eru þetta kannske góð og vinsæl mál, sem t.d. stjórnarandstaðan flytur, og ríkisstjórn á þeim tíma kærir sig kannske ekki um að þurfa endilega að fella það mál, eða eitthvað annað slíkt. En það eru ýmsar aðrar vægari aðferðir í slíku. Það er hægt að vísa til ríkisstjórnar. Það er hægt að gera ýmsar ráðstafanir, setja það í mþn. til athugunar eða ýmislegt slíkt, ef ríkisstj. vill ekki samþykkja þess háttar. En það er hins vegar óþolandi, að ár eftir ár séu borin fram hér frv. og það frv., sem eiga kannske allmikinn hljómgrunn hjá þjóðinni, a.m.k. hvað það snertir, að þau séu athuguð, og þau fást aldrei afgreidd úr nefnd. Ég skal bara nefna dæmi, sem liggur mér mjög nærri, eins og það frv., sem ég hef flutt hér nú í meir en 10 ár um áburðarverksmiðjuna. Þetta er raunverulega ekki hægt. Svona er ekki hægt að vinna á einu þingi. Menn verða að horfast í augu við það, að mál komi til 2. umr. og þar sé tekin ákvörðun um það. Og það er margs konar ákvörðun hægt að taka. Það er hægt að fella mál, það er hægt að vísa því til ríkisstjórnar og allt annað slíkt. En það að salta mál í n. er óviðkunnanlegasta og leiðinlegasta afgreiðslan á því. Það er miklu viðkunnanlegra út af fyrir sig að salta það hjá ríkisstjórn. En Alþingi á ekki að láta það um sig spyrjast, að það geti ekki afgreitt frá sér þorra þeirra mála, sem a.m.k. koma það snemma fram á þingi, að sæmilegur tími gæti unnizt til þess hjá n. að afgreiða þau.

Ég mun svo athuga það, hvort ég flyt þetta sem brtt. við þetta eða hvort ég flyt sérstakt frv., sem mundi þá líka fara til þeirrar nefndar, allsherjarnefndar, sem þetta frv. hér var lagt til að færi til.