29.03.1966
Neðri deild: 61. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 455 í C-deild Alþingistíðinda. (2563)

156. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. 3. og 10. landsk. þm. að flytja hér frv., sem ekki er stórt að vöxtum, en hins vegar mjög þýðingarmikið, að hv. þm. fáist til þess að athuga það. Þetta frv. gengur í stuttu máli út á það að fella burt úr l. um húsnæðismálastofnun ríkisins ákvæðið um, að það skuli reikna vísitölu á þau lán og vexti af þeim, sem þar eru ákveðin. Og 2. og 3. gr. fjalla síðan um samninga við lánveitendur til þess að koma þessu á líka fyrir þá, sem þegar hafa orðið að taka slík lán.

Það hefur undanfarið verið ákveðin stefna allra stjórnmálaflokka, held ég sé óhætt að segja, að það skuli gera einstaklingum eða fjölskyldum kleift að eignast eigin íbúðir. Og það hefur náðst í þessari viðleitni mjög eftirtektarverður árangur, sem hefur skapað alveg sérstakt ástand hér á Íslandi borið saman við t.d. löndin í kringum okkur. Ástandið er þess vegna þannig nú, að sumar greinar, við skulum segja t.d. ýmsir iðnaðarmenn, þar er það næstum því milli 90 og 100% í þeim stéttum, sem eiga eigin íbúð. Hjá ófaglærðum verkamönnum, t.d. hafnarverkamönnum, er þetta alveg upp í 70—80%, að þeir eigi eigin íbúð, þannig að það er óvenju algengt hér beima, að fjölskyldur hafi getað eignazt eigin íbúðir.

Með hverju móti hefur þetta verið hægt? Þetta hefur gerzt með tvennu móti. Í fyrsta lagi með því, að fólk hefur unnið ákaflega mikið að þessu. Það hefur unnið langan vinnutíma, það hefur svo að segja öll fjölskyldan unnið, og menn hafa svo þrælað við að borga þetta niður á þeim stutta tíma, sem lánin eru, yfirleitt til 20—25 ára, og jafnvel hluti af þeim til miklu skemmri tíma. Í öðru lagi er engin spurning um það, að kaupgjaldið hefur nokkurn veginn elt verðbólguna, þannig að það hefur ekki orðið veruleg raunveruleg kaupgjaldslækkun, a.m.k. þegar til lengdar er litið, þannig að kauphækkunin hefur fylgt þar nokkurn veginn með. Verðbólgan hefur sem sagt gert það að verkum, að þetta hefur orðið auðveldara fyrir menn, þegar fram í sótti. Nú eru allir sammála um það, að verðbólguna sjálfa þurfi að stöðva, og það er sérstakt mál, sem ég ætla ekki að fara út í hér. En hvað snertir húsnæðismálin er nauðsynlegt, að menn geri sér það um leið ljóst, að sé meiningin að stöðva verðbólguna, verður að gerbreyta samtímis öllum láns- og vaxtakjörum, ef sú stefna á að halda áfram, að fjölskyldum verði kleift að eignast sjálfar íbúðir. Ef verðbólgan er stöðvuð, þýðir það, að lán verða að lengjast upp í þetta frá 40—70 ár. Þau verða að koma a.m.k. á tvær kynslóðir, ef menn eiga að borga þetta upp, og vextir ættu þá almennt ekki að vera hærri en 2—2 1/2%, svo sem var á verkamannabústöðunum í upphafi, þegar l. um þá voru sett frá 1929. Að öðrum kosti mundu menn ekki rísa undir að geta eignazt sínar eigin íbúðir.

Meðan engar svona breytingar eru gerðar á lánum og vöxtum í sambandi við húsnæðismál og meðan ekki er gert neitt raunverulegt til þess að stöðva verðbólguna, er alveg ófært, að það sé farið sérstaklega t.d. gagnvart alþýðu manna að vísitölubinda þessi lán. Menn mega ekki dæma eftir því, að þessi 2 ár, sem þetta hefur gilt, hefur fólk haldið áfram að taka þessi lán. Fólk er í slíkri neyð í sambandi við það að reyna að koma þaki yfir höfuðið, að það neyðist til þess að taka þessi lán, svo að segja hvernig sem þau eru. Og meiri hl. af öllu því fólki, sem tekur þessi lán, gerir sér alls ekki ljóst, að þessi vísitölubinding þýðir það, að jafnóðum sem dýrtíð hækkar, hækka þessi lán. Það er verið að notfæra sér, þegar fólk er látið undirskrifa svona skuldbindingar, þá er verið að notfæra sér trúgirni almennings á heiðarleika yfirvalda. Almenningur gengur yfirleitt ekki út frá því, að það geti verið til yfirvöld, sem bindi honum svona harðvítuga skilmála. Þess vegna mundi mönnum þykja það alveg ótrúlegt; sem við höfum látið reikna út í sambandi við það, hvernig afborganirnar yrðu á þessu, að húsnæðismálalán, sem menn fengju upp á 280 þús. kr., ef dýrtíðin héldi áfram á sama máta og hún hefur gert síðustu 20—25 árin, mundi siðasta afborgunin á 25. árinu af þessu láni vera 199 þús. kr. eða tæpar 200 þús. kr., — síðasta afborgunin af 280 þús. kr. láni. Og þá væri sá íbúðareigandi, sem í hlut ætti, búinn að borga á 3. millj. kr. Fólk, sem undirskrifar núna

þessar skuldbindingar, gerir sér ekki þessa hluti ljósa. Það áttar sig ekki á þeim, fyrr en það fer að borga þetta löngu, löngu seinna. Þá reynslu höfum við t.d. í sambandi við gömlu B-lánin í gamla húsnæðislánakerfinu.

Þegar verkalýðsfélögin gerðu sína júnísamninga 1964, trúðu verkalýðsfélögin því, að það væri meining hæstv. ríkisstj. að stöðva verðbólguna, og vildu að sínu leyti ýmislegt til þess vinna og leggja fram. Nú sjáum við hins vegar eftir tveggja ára reynslu, að því fer fjarri, að það sé sýnd nokkur veruleg viðleitni í þá átt að reyna að stöðva verðbólguna, og meira að segja núna erum við að ræða mál, þar sem liggur fyrir yfirlýsing frá ríkisstj., að hún ætli að stórminnka niðurgreiðslur og það á almennum nauðsynjavörum almennings, sem þýðir um leið að hækka verulega vísitöluna og hækka um leið t.d. öll húsnæðislán. Bara það, að sjávarútvegurinn eigi að fá í styrk einar 80 millj., sem vel væri hægt að taka með öðru móti, þannig að það kæmi hvergi fram í neinni vísitölu, það á að verða til þess að stórauka þær skuldbindingar, sem íbúðaeigendur eiga að borga á næstu árum. Þess vegna er forsendan fyrir því trausti, sem verkalýðshreyfingin sýndi ríkisstj., þegar júnísamningurinn var gerður 1964, í sambandi við vísitöluákvæðin um húsnæðislánin, þegar brott fallin.

Ég skal taka það fram um leið, að það mundi vafalaust ekki standa á verkalýðshreyfingunni í dag að reyna að gera slíka samninga við ríkisstj., að það væri hægt að stöðva verðbólguna, ef hæstv. ríkisstj. sýndi einhverja viðleitni í þá átt. En því fer fjarri og það meira að segja þó að kosningar fari að nálgast, sem venjulega hefði samt frekar valdið því, að ríkisstj. hefði verið heldur smeykari í þessum efnum.

Enn fremur var þá um það rætt, að það væru tvennir möguleikar til. Það væri annars vegar sá möguleiki til að taka lán með vísitölubindingu, en hins vegar sá möguleiki að taka lán með hærri vöxtum, svo framarlega sem ekki væri um vísitölubindingu að ræða, t.d. þá með 8% vöxtum. Og sannleikurinn er, að slík lán mundu náttúrlega koma miklu betur út fyrir almenning heldur en lánin með vísitöluákvæðinu koma út, miðað við það, að vísitalan verði látin hækka svona áfram og dýrtíðin látin vaxa eins og gert hefur verið undanfarið. Þess vegna tel ég engan efa á því, að verkalýðshreyfingin mun líta svo á, fyrst hún á annað borð hefur farið inn á þá leið að reyna að hafa nokkur áhrif á, að almenningur og sérstaklega launafólk geti fengið lán til húsnæðisbygginga með sæmilegum kjörum, að nú ætti að taka þetta mál til alvarlegrar endurskoðunar. Hún var búin að sýna svo sitt traust í þessum efnum á loforð ríkisstj., og hún var búin að sýna sinn góða vilja, en þegar dýrtíðin er látin halda svona áfram, er ég mjög trúaður á það, að verkalýðshreyfingin muni krefjast þarna algerra breytinga, og þá verð ég satt að segja að segja það, að ég teldi betur farið, að við hér á Alþ. gerðum þá breytingu, sem er nauðsynleg í þessum efnum, sem sé að fella þetta vísitöluákvæði burt, heldur en þetta yrði máske einn af aðalásteytingarsteinunum í næstu kaupgjaldsdeilum. Ég kynni betur við það, að við breyttum þessu nú, heldur en í júní í sumar, þegar núverandi samningar renna út, verði það einn af skilmálunum, sem verkalýðshreyfingin kæmi til með að setja, að þarna yrði gersamlega breytt um. Ég kann betur við, að Alþ. setji slík lög, heldur en verkalýðshreyfingin sé enn einu sinni knúin til þess að setja lög eða breyta lögum. Ég vil þess vegna eindregið mælast til þess, að hv. þm. athugi þetta mál mjög gaumgæfilega og það geti orðið samkomulag um að gera þarna breytingar á.

Ég vil svo leggja til, að að lokinni þessari 1. umr. sé þessu máli vísað til hv. heilbr.- og félmn., og vil vona, að sú n. skili áliti um þetta mál, þannig að við getum tekið þetta mál til alvarlegrar afgreiðslu hér í þinginu.