26.10.1965
Efri deild: 7. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 484 í C-deild Alþingistíðinda. (2606)

31. mál, Búnaðarbanki Íslands

Flm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Þm. Framsfl., þeir er sæti eiga í þessari hv d., standa allir að flutningi frv. þess, sem hér liggur fyrir. Málið var borið fram á síðasta þingi shlj. því, sem hér er lagt til, og var þá gerð grein fyrir málinu í heild og einstökum atriðum þess, svo að það er hv. þdm. kunnugt. Eigi að síður vil ég fara nokkrum orðum um frv. nú við þessa 1. umr. málsins.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að í þjóðfélaginu eiga sér ávallt stað margs konar viðskipti og viðskiptalífið þróast þannig, að viðskiptin aukast og verðmæti þeirra vex hröðum skrefum að krónutölu,og hefur hin vaxandi verðbólga að vísu veruleg áhrif á, að svona er þessu farið. En það er skoðun Framsfl., að stefna þurfi að því, að sem minnst röskun verði á byggðinni í sveitum landsins. En þó að að þessu sé stefnt, hljóta alltaf að eiga sér stað kaup og sala á jörðum. Þegar þeir, sem átt hafa þessar fasteignir og hagnýtt þær um langan tíma, verða fyrir aldurs sakir eða af öðrum óviðráðanlegum ástæðum að hverfa frá atvinnurekstri, þá þarf að skapa skilyrði til þess, að hinir yngri geti með viðráðanlegum kjörum eignazt þessar jarðir og hafið þar sjálfstæðan atvinnurekstur. Og því meiri framkvæmdir sem gerðar eru í sveitunum, þeim mun meira fjármagn er hundið í fasteignum og búi hvers bónda. Og það er ýmislegt í löggjöfinni, sem beinlínis ýtir undir það, eins og vera ber, að lagt sé í framkvæmdir á jörðum og landbúnaðurinn efldur á þann hátt. T.d. má í þessu samhandi minna á það lagaákvæði, að stefnt skuli að því, að túnstærð á jörðum yfirleitt verði ekki undir 25 ha, og stuðningur er veittur til þess, að ný og fullkomin hús verði reist á hverri jörð og vélarafli beitt við framleiðsluna. Þróun atvinnuvegarins að þessu leyti er óhjákvæmileg, og hún má ekki stöðvast. En hún torveldar eðlileg eigendaskipti á jörðum, nema tryggt sé, að lánsstofnun geti hlaupið undir bagga með því að veita með góðum kjörum lán til þess að kaupa jarðir, þegar eigendaskipti á þeim eru óumflýjanleg.

Löggjafinn hefur á undanförnum árum reynt að búa í haginn fyrir þegna þjóðfélagsins með því að ákveða lán til íbúðarhúsa og til stuðnings við atvinnurekstur af ýmsu tagi, svo sem kaup fiskiskipa og til ræktunar á jörðum, og þessi lán nema verulegum fjárhæðum, þannig að lán til fiskiskipa t.d. munu nema 2/3 af kaupverði skipanna og skipta því oft millj. kr. út á eitt einstakt skip, þegar þessi atvinnutæki eru keypt, eins og verðlag er nú orðið. Það er stefnt að því að hækka lán til íbúðarhúsa og gera þau sem hagfelldust eða viðráðanleg ungu fólki.

En því verður ekki neitað, þegar á þessi mál er litið í heild, að það er eyða í þessu að því leyti, sem viðvíkur stuðningi við kaup á bújörðum. Veðdeild Búnaðarbankans á að sönnu að gegna því hlutverki að veita lán í þessu skyni. En hún hefur um langt árabil átt við þann fjárskort að etja, að þau lán, sem hún hefur veitt, hafa numið, að ég ætla, hæst 100 þús. kr. út á hverja jörð fyrir sig, og þrátt fyrir það hefur veðdeildin ekki getað fullnægt þeirri eftirspurn eftir þessum lágu lánum, sem fyrir hendi er. Það getur ekki orkað tvímælis, að þetta er óviðunandi og svo búið má ekki lengur standa, því að afleiðingarnar af þessu verða m.a. þær, að ungt fólk, sem er að stofna heimili og vill gjarnan staðfestast í sveitum landsins, verður oft að hverfa þaðan burt sökum þess, að það hefur ekki fjárráð til þess að afla sér jarðnæðis og hefja sjálfstæðan atvinnurekstur, og á ekki aðgang að lánum með þeim kjörum, sem viðráðanleg eru.

Þetta kemur svo fram í því m.a., að bújarðir eru lítt eftirsóttar, a.m.k. í sumum sveitum, ef þeim fylgja ekki hlunnindi. En á hinn bóginn, ef um hlunnindajarðir er að ræða, laxveiði eða annað slíkt, eru þær svo eftirsóttar, að kapphlaup er um að komast yfir þessi hlunnindi af hálfu þeirra, sem mikil fjárráð hafa, aðeins hlunnindanna vegna, en ekki til þess að stunda atvinnurekstur á þessum jörðum og styðja hlutaðeigandi sveitarfélög á þann hátt. Þessi þróun leiðir til þess, að sveitarfélögin sjálf bíða oft hnekki við.

Með frv. því, sem hér er lagt fram, er gert ráð fyrir að auka að miklum mun stuðning við þá, sem kaupa jarðir og hefja á þeim búrekstur. Frv. gerir ráð fyrir því, að veðdeildin láni vegna jarðarkaupa allt að 70% virðingarverðs þeirrar fasteignar, sem um er að ræða og sett verði að veði fyrir láninu. Það er þó gert ráð fyrir því í frv., að í framkvæmd verði tekið tillit til lána úr stofnlánadeild landbúnaðarins, sem á hlutaðeigandi jörð hvíla og veitt hafa verið til bygginga eða ræktunar, þannig að lán úr veðdeild megi lækka við þetta hlutfall virðingarverðs, sem ég áður greindi, jafnt því, sem stofnlánadeildarlánunum nemur. Þá gerir frv. ráð fyrir því, að veðdeild Búnaðarbankans verði heimilt að gefa út nýjan flokk bankavaxtabréfa og að þau bankavaxtabréf verði notuð til að greiða fyrir þeim viðskiptum, sem hér er um að ræða. Það er að sjálfsögðu æskilegast, að lán, sem veðdeildin veitir, verði að öllu leyti greidd í peningum, og það er ekkert ákvæði í þessu frv , sem kemur í veg fyrir það, svo framarlega sem nægilegir peningar eru fyrir hendi í veðdeildinni. Í frv. er þetta beinlínis orðað þannig, að lán, sem veðdeildin veitir til kaupa á jörð, greiðir hún í peningum að 3/5 hlutum, en 2/5 hluta lánsfjárhæðarinnar greiðir veðdeildin í peningum eða bankavaxtabréfum, sem gefin eru út skv. 20. gr., og ég var að gera grein fyrir, að frv. heimilaði. En fari nú svo, að það fé, sem veðdeildin hefur til ráðstöfunar í peningum, nægi ekki til að fullnægja eftirspurn eftir lánum, þá er það skoðun flm., að með bankavaxtabréfum megi að nokkru leyti greiða úr fyrir þeim, sem á þessum lánum þurfa að halda. Gert er ráð fyrir því, að lán til jarðarkaupa verði afborgunarlaus fyrstu tvö árin og vextir af þeim verði eigi hærri en 4%.

Til þess að veðdeildin hafi þau fjárráð að geta veitt þau lán, sem frv. þetta mælir fyrir um, þarf að sjálfsögðu að auka tekjur hennar frá því, sem nú er, enda er það annað meginákvæði frv. að kveða svo á, að tekjur veðdeildarinnar verði auknar að miklum mun. Þar á að koma til skv. frv. árlegt framlag ríkissjóðs, 20 millj. kr. Í öðru lagi árlegt framlag frá stofnlánadeild landbúnaðarins skv. 14. gr. l.nr.75 1962, um stofnlánadeild landbúnaðarins, landnám, ræktun og byggingar í sveitum. Í þriðja lagi framlag samkv. 9. gr. l. nr. 44 1957, um skatt á stóreignir. Og í fjórða lagi vaxtatekjur. En til viðbótar þessu skal Seðlabanka Íslands gert skylt, ef ríkisstj. óskar þess, að lána veðdeild Búnaðarbankans nauðsynlega fjárupphæð vegna starfsemi hennar, allt að 100 millj. kr., gegn 9% vöxtum. Veðdeildin skal endurgreiða Seðlabankanum lán þetta með jöfnum afborgunum á 20 árum. Ríkissjóður ábyrgist allar skuldbindingar veðdeildarinnar gagnvart Seðlabankanum. Þegar litið er á, hve Seðlabankinn er fjárhagslega öflug stofnun og hve hann tekur mikið fé til sín, þá virðist hér ekki mjög stórt af stað farið. Ef til vill þyrfti ekki að nota þessa heimild nema að einhverju leyti. Það kæmi í ljós við framkvæmd löggjafarinnar, ef þetta frv. yrði að lögum, og í kaupum og sölum á jörðum eru að öllu eðlilegu tiltölulega litlar sveiflur, því að lögbýlum í landinu fjölgar ekki, og það þarf ekki að gera ráð fyrir því, að þeim jörðum, sem ganga kaupum og sölum árlega, fjölgi mjög mikið frá því, sem verið hefur, og gerir það þetta mál miklu viðráðanlegra en á þeim sviðum, svo sem í íbúðabyggingum, þar sem síaukinn fólksfjöldi knýr á um vaxandi fjárframlög ár frá ári.

Ég vænti þess, að frv. þessu verði tekið með velvilja og skilningi hér í hv. d. Ég sé ekki ástæðu til að fara um það fleiri orðum, nema sérstakt tilefni gefist, en legg til, að þegar þessari umr. lýkur, verði málinu vísað til 2. umr. og hv. fjhn.