02.11.1965
Efri deild: 10. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 491 í C-deild Alþingistíðinda. (2612)

41. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Flm. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Ég vil lýsa ánægju minni yfir því, að hæstv. sjútvmrh. tekur undir þau rök, sem ég hef hér flutt fyrir máli mínu, og lýsi líka ánægju minni yfir því, að hann virðist hafa áhuga á því að leysa þetta mál. Hins vegar verð ég að segja það, og það er ekki neitt nýtt af nálinni, sem hefur dottið af himnum ofan nú í þingbyrjun. Þetta vandamál hefur verið viðvarandi undanfarin ár, og ég tel, að hæstv. fyrrv. sjútvmrh. og ríkisstjórninni í heild hefði borið að taka málið fyrir löngu áður og hafa einhver tiltæk úrræði í því fyrir þingið. Þar sem svo hefur ekki verið, en málið allt orðið aðkallandi, hef ég talið rétt að flytja þetta frv. Hins vegar er það að sjálfsögðu ekki neitt atriði f málinu, hvorki fyrir mig né aðra, hvort það er leyst eftir þessu frv. eða eftir öðrum leiðum, og lausnin jafngóð, hvort sem hún kann að koma frá þingnefnd allra flokka eða samkv. till. frá einstökum þingmönnum. Það auðvitað skiptir engu máli. En ég legg bara áherzlu á það, að málið er aðkallandi, og það dugir ekki að fara nú, þegar það er komið í eindaga að ýmsu leyti, að þvæla því allt of lengi í nefnd og rannsóknum. Haustvertíðin er þegar byrjuð, og viða um landið er það svo, að línubátunum, sem eðlilegt væri að væru teknir til starfa að veiðum af fullum krafti, er lagt, ekki vegna þess, að mannskapurinn sé ekki fyrir hendi, því að í þeim landsfjórðungum, sem hér eiga hlut að máli, er fyrir hendi nægur mannafli til að manna bátaflotann, ef útgerðin telst á annað borð vera þannig á vegi stödd, að mögulegt sé að reka bátana.