07.12.1965
Efri deild: 24. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 493 í C-deild Alþingistíðinda. (2618)

82. mál, rafvæðing Vestur-Skaftafellssýslu

Flm. (Helgi Bergs):

Herra forseti. Á þskj. 102 flyt ég frv. til l. um það, að héraðsrafmagnsveitur ríkisins skuli leggja rafmagnslínu frá Vík í Mýrdal, sem nái til allra byggðra býla í hreppunum 5 milli Mýrdalssands og Skeiðarársands. Af þeim fréttum af drögum að áætlun um framhald rafvæðingarinnar, sem þm. hafa fengið, er ljóst, að ekki er gert ráð fyrir því að sinni, í fyrirliggjandi drögum að framkvæmdaáætlun, að rafvæðingin nái til þessara sveita.

Það eru af 7 hreppum Skaftafellssýslu aðeins 2, sem hafa rafmagn frá samveitum, en hinir 5 milli sandanna hafa ekki rafmagn frá almenningsveifum. Þessar sveitir eru nú að rétta mikið við á seinustu árum, eftir að mjólkurflutningar voru teknir upp frá þessu svæði, og landbúnaður hefur verið í uppgangi nú um nokkurt árabil á þessum slóðum. Þessar sveitir hafa búið við mikla erfiðleika, eins og hv. þm. er kunnugt, um langan aldur vegna mjög erfiðra samgangna, og var þar kannske um hríð meiri tvísýna en víða annars staðar, hvernig gengi að halda þar við byggð. Síðan mjólkurflutningar frá þessu svæði hófust og landbúnaðurinn tók að byggjast upp af meiri krafti sem afleiðing af því, hefur þessi þróun færzt í farsælla horf, og það er skoðun mín, að ríkisvaldinu beri fyrir sitt leyti að stuðla að því að styrkja byggðina í þessum sveitum. Þegar þessar raforkuáætlanir eru gerðar, er jafnan miðað við svokallaða meðalfjarlægð til bæja. Það er rétt og eðlileg grundvallarregla, en hún er ekki einhlít eða algild. Fleira verður að koma til. Löggjafarvaldið verður að mínum dómi að leggja á það mat, hvenær ástæða er til að víkja frá þeim reglum til eflingar og stuðnings ákveðnum byggðum, og ég er þeirrar skoðunar, að hér séu einmitt slík skilyrði fyrir hendi.

Til viðbótar þessu má svo minna á það, að hringvegur kringum landið, tenging vegakerfis Austurlands og vegakerfis Suðurlands, stendur vonandi innan skamms fyrir dyrum. Þegar hlaupin áttu sér stað á s.l. sumri, fóru fram athuganir á vegum vegagerðarinnar á möguleikum til þess að koma þessu í kring og gáfu þann árangur, að ástæða er til að meta þá möguleika af meiri bjartsýni en áður. En kæmist hann á, má telja alveg víst, að sveitirnar um þessar slóðir mundu verða meiri ferðamannasveitir en flestar aðrar sveitir landsins, og hnígur það einnig í þá átt, að ríkisvaldinu beri að meta þörfina fyrir að rafvæða þetta byggðarlag með nokkuð sérstökum hætti.

Nú er það að vísu alls ekki svo, að línulengd milli bæja eða til bæja sé verulega lengri á þessu svæði en á öðrum, sem tekin hafa verið upp í vinnuáætlun raforkumálastjórnarinnar. Sannleikurinn er sá, að þessi byggðarlög eru alls ekki mjög strjálbýl, en hins vegar eru þau aðskilin með nokkuð breiðum söndum á báða vegu frá annarri byggð landsins. Sú lína, sem er gert ráð fyrir í þessu frv. að lögð yrði, mundi alls vera 233 km á lengd, en mundi ná til 115 bæja. Meðalvegalengd á hvert býli er þess vegna réttir 2 km, sem er alls ekki lengra en sumar af þeim línum, sem með eru í drögum raforkumálastjórnarinnar að línuáætlun.

Eins og kunnugt er, voru Skaftfellingar á sínum tíma brautryðjendur við rafvæðingu einstaklinga í landinu. Þeir hyggðu stóðvar fyrir einstaka bæi, bæði í sínu héraði og raunar einnig annars staðar. Þeir búa að nokkru leyti enn að þessu brautryðjandastarfi, nefnilega að því leyti, að allmikið er þar af einkavatnsaflsstöðvum. Af þessum 115 býlum, sem hér er um að ræða, munu 70 hafa slíkar stöðvar. En þess ber að gæta, að þær stöðvar eru nær allar orðnar mjög gamlar og ófullkomnar, flestar of smáar og margar mjög úr sér gengnar, enda mun liggja fyrir full vissa um það, að allir eða a.m.k. nær allir, með örfáum undantekningum, munu fúslega vilja taka við rafmagni frá samveitum.

Með lögunum um landsvirkjunina frá s.l. ári var því endanlega slegið föstu, að rafvæðing landsins skyldi byggð á stórum vatnsaflsstöðvum með viðfeðmum línunetum, en hins vegar var hafnað hinni svokölluðu smávirkjanaleið. Þess vegna er ljóst, að ekki kemur önnur leið til greina til úrlausnar raforkumálum þessa byggðarlags en að tengja það með þeim hætti, sem hér er gert ráð fyrir, við línunetið, þar sem það kemur næst þessu svæði. Það er þess vegna ekki eftir neinu að biða með að ákveða, að þetta skuli gert, þó að ef til vill kunni mönnum að sýnast sitt hvað um það, hvenær eigi að gera það. Mér sýnist hins vegar, eins og ég tel mig hafa fært nokkur rök að í þessari framsöguræðu minni, að ástæða sé til að gera hér undantekningu frá hinum venjulegu reglum í þessu efni og ákveða nú þegar þessa framkvæmd með þeim hætti, sem lagt er til í frv. mínu á þskj. 102.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.