10.12.1965
Efri deild: 26. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 495 í C-deild Alþingistíðinda. (2621)

90. mál, togarakaup ríkisins

Flm. (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Ég

hef ásamt hv. 10. landsk. þm. flutt í Sþ. till. til þál. um rannsókn á rekstri og hag togaraútgerðar og rannsókn á því, hvernig eigi að byggja hér upp togaraútgerð í framtíðinni. Nú hef ég lagt fyrir þessa hv. d. ásamt hv. 4. þm. Norðurl. e. frv. til l. um togarakaup ríkisins. Þar sem ég í sambandi við flutning þál. í Sþ. hef mjög nýlega gert grein fyrir þeim ástæðum, sem ég tel liggja fyrir því, að gert sé átak í þessum málum af hálfu hins opinbera, skal ég spara mér að endurtaka þær röksemdir og fara aðeins fáeinum orðum um það frv., sem hér liggur fyrir og er tiltölulega einfalt og auðskilið og þarf því ekki mikilla skýringa við.

Það er alkunnugt, að togaraútgerðin hefur átt við mjög mikla erfiðleika að stríða nú síðustu árin, og orsakirnar eru kunnar. Það eru minnkandi aflabrögð og ef til vill ekki síður hitt, að skipin, togararnir, sem við eigum, eru orðnir gamlir flestir og úreltir að mörgu leyti. Þar sem þessara erfiðleika hefur gætt í vaxandi mæli, að því er snertir rekstur togara hér, hefur farið að brydda á því nú um skeið, að margir spyrðu sem svo, hvort tími togskipa sé ekki liðinn, hvort önnur skip muni ekki leysa þá algerlega af hólmi, hvort hinn stóri og vaxandi bátafloti okkar Íslendinga muni ekki geta komið í staðinn fyrir togarana.

Að dómi okkar flm. er langur vegur frá því, að bátar geti komið í staðinn fyrir togarana, ef við ætlum á annað borð að hagnýta öll fiskimið okkar og jafnframt vera þess umkomnir, eins og við höfum verið, að veiða að einhverju leyti á fjarlægum miðum, þegar það þykir henta. Það er vitað mál, að fiskibátarnir, sem við eigum, eru í vaxandi mæli bundnir við síldveiðar, jafnvel allt árið, allir stærri bátarnir, en hinir minni eru að sjálfsögðu mjög staðbundnir og bundnir við það eitt að fiska á grunnmiðum og geta þar af leiðandi ekki nema að takmörkuðu leyti hagnýtt þá möguleika, sem eru til veiða margvíslegra fisktegunda á íslenzkum miðum, og þaðan af síður veitt á fjarlægum miðum. Eigi með öðrum orðum að ríkja sú stefna í sjávarútvegsmálum okkar Íslendinga, að við hagnýtum, eftir því sem kostur er, öll okkar fiskimið, er nauðsynlegt að byggja hér upp að nýju hóflega stóran og öflugan togaraflota til að hagnýta þau mið, sem ekki verða nýtt með öðrum hætti, þeim, sem nú er tiltækur a.m.k. í dag.

Það er vitað mál, að hjá ýmsum öðrum fiskveiðiþjóðum hefur að undanförnu orðið gerbreyting að því er togaraútgerð varðar. Og sú breyting hefur í fyrsta lagi átt sér stað að því er varðar sjálf skipin, gerð þeirra og allan útbúnað, en einnig að því er varðar veiðarfæri og meðferð aflans. Það eru skuttogararnir, sem nú eru komnir til sögunnar og að allra dómi eru þau togskip, sem fullkomnust eru og bezt henta aðstæðum við togveiðar og hafa alla yfirburði fram yfir hina gömlu togara. Það er jafnframt kunnugt, að allir togararnir eru af hinum eldri gerðum og margir þeirra eru 15—20 ára gömul skip. Einn aðalókostur þessara skipa, miðað við það, sem bezt þekkist nú, að því er varðar skuttogara, er, að þeir eru að öllu leyti óhagkvæmari að því er varðar öll vinnuskilyrði. Gömlu togararnir krefjast miklu meiri mannafla og aðbúnaður að mönnum við störf er miklu verri en hægt er að koma við, þegar um nýtízku skuttogara er að ræða. Skipin eru m.ö.o. orðin algerlega úrelt, og ef við ætlum að halda áfram að veiða fisk með togveiðum, sem ég tel sjálfsagt og nauðsynlegt, verðum við að fara að hyggja að því nú þegar að endurnýja þennan flota, og þá verðum við að sjálfsögðu að hagnýta þá tækni, sem bezt þekkist með öðrum þjóðum, og afla okkur þeirrar reynslu, sem nauðsynleg er, hér við land og íslenzkir skipstjórar og togarasjómenn mundu einir færir um að afla, þegar þeir færu að reyna slík skip.

Ég tel ekki skynsamlegt, eins og stundum hefur verið gert, að endurnýja einhverja ákveðna tegund fiskiskipa í einu vetfangi, í einu stökki. Þar er þróunin vissulega æskilegri. En þegar það er látið dragast áratugum saman að hefja slíka endurnýjun og allur flotinn er skyndilega orðinn gamall og úreltur, má gjarnan búast við því, að að því komi, að skipin verði endurnýjuð á skömmum tíma, og þá verða þau úrelt svo að segja öll í sama vetfangi. Þarna eins og á ýmsum öðrum sviðum er þróunin æskilegust, að keypt séu nokkur skip árlega eða með skömmu millibili, en ekki mörg í einu, og það tel ég hiklaust, að sé rétt stefna, einkum þegar á að prófa nýjar gerðir skipa, að kaupa í fyrstu hæfilegan fjölda, og við það er miðað í þessu frv., að ríkisstj. sé heimilað að kaupa allt að 3 skuttogara til reynslu og síðan yrði fengin reynsla af því, hvernig þeir gefast við íslenzkar aðstæður, og á henni verði þá byggt um frekari togarakaup.

Það er enginn efi á því, að til þess að greiða fyrir endurnýjun togaraflotans er nauðsynlegt, að ríkisvaldið komi til aðstoðar, fyrst og fremst að því er varðar smiði skipanna og öflun lánsfjár til byggingar þeirra. Hins vegar lítum við flm. svo á, að það sé í alla staði eðlilegt, að í fyrsta lagi þeim bæjarfélögum, sem nú gera út togara, og í öðru lagi þeim togarafélögum öðrum, sem kynnu að hafa áhuga á rekstri slíkra skipa, verði gefinn kostur á því á sínum tíma að kaupa þessi skip og reka þau, þegar þau hafa verið smíðuð. E.t.v. mundi þurfa einhverja frekari aðstoð við þennan rekstur í upphafi, meðan um er að ræða algera eða að verulegu leyti tilraunastarfsemi á íslenzkum miðum, en í þessu frv. er ekki vikið að þeim atriðum, enda tæplega tímabært enn. Vel getur farið svo, og þess væri óskandi, að þannig tækist til um smiði hinna fyrstu skuttogara fyrir Íslendinga, að þeir sýndu þegar þá yfirburði fram yfir hin gömlu skip, að rekstur þeirra væri vel eða sæmilega tryggður. En jafnvel þó að ríkisvaldið þyrfti á sínum tíma að styðja eitthvað reksturinn, meðan hann er á tilraunastigi, teljum við flm., að hiklaust eigi að fara inn á þessa braut, því að það sé nauðsynlegt að fá úr því skorið, hvort þarna sé ekki framtíðin að því er varðar togveiðar okkar Íslendinga.

Í þáltill. þeirri, sem liggur fyrir sameinuðu Alþ. og ég nefndi í upphafi, er ráð fyrir því gert, að kosin verði af Alþ. 7 manna nefnd til þess að hafa framkvæmdir um þær rannsóknir og þær athuganir, sem þar er lagt til. Verði sú n. kosin, tel ég eðlilegt, að henni verði falin framkvæmd þeirra mála, sem þetta frv. fjallar um, þ.e.a.s. að undirbúa þau togarakaup, sem hér er lagt til að gerð verði. Fari svo, að slík n. verði hins vegar ekkí kosin, kæmi allt að einu til athugunar, ef þetta frv. hins vegar hlyti byr, að Alþ. kysi slíka n. ellegar þá að ríkisstj. skipaði hana, því að það er vitað mál, að miklu skiptir, að vel takist til um allan undirbúning og þær gerðir skipa, sem við fáum, verði sem allra hentugastar, miðað við okkar aðstæður.

Ég vil að síðustu leggja á það áherzlu, að þetta er mikið og brýnt nauðsynjamál. Það er full ástæða til þess, að nú sé hafizt handa um endurnýjun togaraflotans, og hefur raunar beðið allt of lengi. Mér sýnist raunar, að eins og ástatt er um togaraútgerð, verði þessi endurnýjun ekki framkvæmd, nema forusta og fullur stuðningur ríkisvaldsins komi til. Ég vænti þess, að þetta frv. mæti skilningi og hljóti góðar móttökur hér í hv. d., og legg til, að því verði nú að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.