22.02.1966
Efri deild: 40. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 500 í C-deild Alþingistíðinda. (2628)

110. mál, heimild til að veita nýjum iðju- og iðnaðarfyrirtækjum skattfríðindi

Flm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Megintilgangur þessa frv., sem ég flyt hér á þskj. 231 ásamt hv. 9. landsk. þm., er að stuðla að stofnun nýrra iðju- og iðnaðarfyrirtækja í sveitarfélögum, þar sem atvinnuástand er ekki viðunandi, á þann hátt að veita þessum fyrirtækjum tímabundin skattfríðindi. Fyrir sveitarfélögin og þjóðfélagið í heild er það lítil fórn að gefa nokkrum nýjum atvinnufyrirtækjum eftir skatta og gjöld um fárra ára skeið móti þeim mikla ávinningi, sem hlotizt getur af aukinni atvinnu í þeim landshlutum, sem eiga við örðugleika að etja, en telja má víst, að þær skattívilnanir, sem frv. veitir, mundu í mörgum tilfellum hafa veruleg áhrif á það annars vegar, hvort ráðizt verði í nýjan atvinnurekstur eða ekki, og hins vegar, að ný atvinnufyrirtæki verði staðsett á þeim stöðum, þar sem atvinnuþörfin er brýnust. 1. gr. frv. segir á þessa leið:

Iðnmrh. er heimilt að veita nýjum iðju- og iðnaðarfyrirtækjum, sem stofnuð eru eftir gildistöku laga þessara og staðsett eru í sveitarfélögum, þar sem atvinna er ónóg, undanþágu frá greiðslu tekjuútsvars, aðstöðugjalds og tekjuskatts fyrstu 5 árin, sem fyrirtækin starfa. Eftir þann tíma greiða fyrirtæki þessi útsvör og skatta sem aðrir samkv. gildandi lögum.

Undanþáguheimild samkv. 1. mgr. er bundin því skilyrði, að fyrir liggi meðmæli stjórnar atvinnubótasjóðs og meðmæli viðkomandi sveitarstjórnar.“

Samkv. þessu er það háð mati iðnmrh., hvort skattfríðindi verða látin í té eða ekki, og þó með þeim fyrirvara, að honum er óheimilt að veita þau, nema til staðar séu meðmæli stjórnar atvinnubótasjóðs og einnig meðmæli viðkomandi sveitarstjórnar. Meðmæli atvinnubótasjóðsstjórnar eiga að tryggja það, að heimildin sé einungis notuð í þágu atvinnustofnana í sveitarfélögum, þar sem atvinna er ónóg. Á hinn bóginn er það eðlilegt, að skattundanþága verði ekki leyfð i andstöðu við hlutaðeigandi sveitarstjórn, sem gjörþekkir allar aðstæður heima fyrir í sínu sveitarfélagi, enda er það sveitarsjóður, sem mest á að gefa eftir samkv. reglum frv. Séu meðmæli atvinnubótasjóðsstjórnar og sveitarstjórnar fyrir hendi, er, svo sem áður segir, á valdi ráðh., hvort skattfríðindi eru veitt, og háð mati hans. Í frv. eru ekki settar neinar reglur um, hvernig þetta skuli metið, en ætla mætti, að skatthlunnindi yrðu einkum látin í té fyrirtækjum, sem líkleg eru til að veita mörgum mönnum atvinnu, fyrirtækjum í nýjum framleiðslugreinum, sem eigi hafa áður tíðkazt í viðkomandi sveitarfélagi, og fyrirtækjum, sem ólíklegt er að stofnað verði til án skattfríðinda vegna fyrirsjáanlegra byrjunarörðugleika.

Í 2. gr. frv. segir:

„Atvinnufyrirtæki, sem verður aðnjótandi skattfríðinda samkv. l. þessum, er óheimilt að borga út sem arð til hluthafa eða eigenda það fé, sem fyrirtækinu sparast vegna undanþágunnar frá greiðslu framtalinna gjalda.“

Með þessu ákvæði 2. gr. er reynt að tryggja, að það fé, sem ella hefði farið til greiðslu skatta, verði notað til þess að byggja fyrirtækið upp og treysta það fjárhagslega í sessi fyrstu árin, en það hverfi ekki í vasa eigendanna sem hagnaður eða ágóði.

Frv. þetta er samið með nokkurri hliðsjón af l. nr. 57 frá 1935, um hlunnindi fyrir ný iðn- og iðjufyrirtæki, en þau lög voru afnumin á styrjaldarárunum. Samkv. l. fékk fyrsta fyrirtækið í hverri nýrri atvinnugrein, sem ekki hafði áður verið stunduð hér á landi, rétt á undanþágu frá útsvari og sköttum fyrstu 3 árin, eftir að það var stofnað. Lög þessi miðuðu að því fyrst og fremst að auka fjölbreytni atvinnuveganna og efla atvinnulífið á þann hátt, en staðsetning fyrirtækjanna skipti ekki máli eftir l., enda má segja, að á þeim tíma, sem þau gengu í gildi, væri meira og minna atvinnuleysi ríkjandi um allt land.

Okkur, sem þetta frv. flytjum, er vel ljóst, að samþykkt þessa frv. leysi ekki allan vanda þeirra staða, sem örðugt atvinnuástand eiga við að etja. Þar þarf margt fleira að koma til, svo sem greiður aðgangur nýrra atvinnufyrirtækja að hagstæðum stofn- og rekstrarlánum og opinber aðstoð við tæknilegan og fjárhagslegan undirbúning slikra fyrirtækja. En við álítum, að samþykkt þessa frv. geti orðið drjúgt skref í áttina til meira atvinnuöryggis fyrir þessa staði. Að hinu leytinu erum við opnir fyrir breytingum og endurbótum á frv., sem hv. dm. teldu rétt að gera að athuguðu máli, svo framarlega sem sá megintilgangur frv., sem ég gat um í upphafi, er varðveittur.

Herra forseti. Ég legg svo til, að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. iðnn.