03.03.1966
Efri deild: 45. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 505 í C-deild Alþingistíðinda. (2635)

110. mál, heimild til að veita nýjum iðju- og iðnaðarfyrirtækjum skattfríðindi

Flm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Fyrir þremur árum, að ég hygg, var samþ. hér á Alþ. þáltill. þess efnis, að athuga bæri um stofnun nýrra iðn- og iðjufyrirtækja í kaupstöðum og kauptúnum, þar sem atvinna væri ónóg. Í framhaldi af samþykkt þessarar þáltill. var skipuð n. til þess að hafa þessa athugun með höndum, og hún skilaði fyrir 1 1/2 ári, að mig minnir, bráðabirgðaáliti, en mér er ekki kunnugt um, að sú n. hafi lokið störfum til fulls. Ég tel, að í raun og veru liggi svipuð hugsun að baki þessu frv. og þessari þáltill., sem ég vitnaði til, þ.e.a.s. sú hugsun, að hinu opinbera beri sérstök skylda til þess að efla atvinnulífið á þessum stöðum og þá einkanlega með því að veita á einhvern hátt opinbera fyrirgreiðslu í því skyni, að þar geti ný iðju- og iðnaðarfyrirtæki risið upp til þess að reisa atvinnulífið við. En eins og ég gat um í framsöguræðu minni með þessu frv., erum við flytjendur þessa frv. opnir fyrir öllum breytingum og athugunum á þessu frv. og þeim reglum, sem í því felast, svo framarlega sem sú grundvallarhugsun er varðveitt, sem í því felst.

Það getur vel verið, eins og hv. síðasti ræðumaður benti á, að í sumum tilfellum séu það ekki mikil fríðindi fyrir atvinnufyrirtæki á fyrstu árunum að fá eftirgefið tekjuútsvar og tekjuskatt, vegna þess að það sé ekki líklegt, að fyrirtækið skili miklum hagnaði. Auðvitað getur þetta verið nokkuð misjafnt eftir eðli fyrirtækjanna, en ég geri ráð fyrir, að það, sem mestu munar, eins og frv. er úr garði gert, sé aðstöðugjaldið.

Hæstv. fjmrh. hafði nokkrar aths. fram að færa í sambandi við þetta frv. Hann benti á, að sér fyndist óeðlilegt, að það væri iðnmrh., sem ætti að hafa þessa heimild með höndum, að veita nýjum iðju- og iðnfyrirtækjum skattfríðindi. Ég get fallizt á, að það kunni að vera álitamál, undir hvaða ráðh. þetta heyri. Það mætti e.t.v. segja, að það væri eðlilegast, að það væri félmrh., sem hefur með atvinnuleysismálefni að gera. Og það er líka annar þáttur félagsmálanna, sem þetta snertir, og það eru tekjustofnar sveitarfélaganna. Að vísu er það þannig í núv. ríkisstj., að þessir tveir málaþættir eru ekki á hendi sama ráðh. En ef það hefði verið, sem auðvitað kann að verða í framtíðinni, væri það e.t.v. eðlilegast. Það kemur einnig til álita, þar sem hér er um skattamál að ræða, að það sé fjmrh. Það, sem olli því, að iðnmrh. varð fyrir valinu, er fyrst og fremst löggjöfin frá 1935, sem ég vitnaði til og er um sumt lík þessu. Þar var það atvmrh., — að vísu voru það ekki heimildarlög, heldur voru það lög, sem veittu fyrsta iðnfyrirtækinu í nýrri iðngrein skilyrðislausan rétt, — og það var atvmrh., sem átti að hafa þau mál með höndum. Og mér finnst, að það megi vel segja, að það sé ekkert óeðlilegt, þó að iðnmrh. sé látinn meta það í fyrsta lagi, hvaða fyrirtæki eru iðju- og iðnaðarfyrirtæki og hvaða fyrirtæki þeirrar tegundar séu líkleg til þess að bæta úr atvinnuþörf þessara staða og verðskuldi það að fá skattfríðindi. En ég get sem sagt viðurkennt, að þetta sé álítamál, hvaða ráðh. eigi að fara með þetta, og það er sjálfsagt, að sú n., sem fær þetta frv. til meðferðar, athugi það eins og annað.

Þá er það annað, sem hæstv. fjmrh. hafði að athuga við þetta frv., og það var, að í þessu væru fólgin forréttindi og það væri ekki víst, að þau atvinnufyrirtæki, sem fyrir væru á þessum stöðum, yndu þessu vel, að ný fyrirtæki fengju þannig skattfríðindi. Vissulega er það rétt, að þessi heimild getur undir vissum kringumstæðum verið vandmeðfarin og nokkuð erfitt að setja fullkomlega réttlátar reglur. En ég hygg þó, að ef þetta er athugað betur, þá er í fyrsta lagi, að sveitarstjórnin verður að samþykkja eða hennar meðmæli verða að liggja fyrir, til þess að undanþáguheimildin sé veitt, og þetta verður auðvitað eitt af þeim atriðum, sem sveitarstjórnin yrði að meta í sambandi við það, hvort hún ætti að veita meðmæli eða ekki. Í öðru lagi má segja, að þó að nýtt atvinnufyrirtæki fái skattfríðindi, er enginn réttur tekinn af þeim fyrirtækjum, sem eru fyrir, og jafnvel, ef menn hugsa lengra fram í tímann, getur það verið þeim fyrirtækjum, sem eru á þessum stöðum, til góðs, að atvinnulífið þar sé eflt með tilkomu nýrra fyrirtækja, sem e.t.v. mundu ekki verða stofnsett eða staðsett á þessum stöðum, nema þessi fríðindi fengjust. Og reyndar má segja það almennt, að alltaf er verið að stefna að því að gera meira fyrir þá, sem hefjast handa á morgun, á öllum sviðum þjóðlífsins heldur en fyrir þá, sem hófust handa í gær, og ég sé ekki í raun og veru annað en það gæti átt við í þessu máli eða á þessu sviði eins og öðrum.

En ég tel, eins og ég hef margtekið fram áður, rétt, að þetta sé allt athugað gaumgæfilega og m.a. það, hvort sú n., sem fær þetta ál til meðferðar, gæti treyst sér til þess að setja einhverjar skýrari reglur en frv. greinir frá m það efni, hvenær heimildinni skyldi beitt og venær ekki, þannig að þetta lægi nokkuð ljósar yrir og það væri þá ekki verið að gefa þeim fyrirtækjum vonir um fríðindi, sem e.t.v. væri óeðlilegt að veita þau, heldur væri t.d. heimi ð að setja nánari skilyrði fyrir þessu í reglugerð eða þess konar.