15.03.1966
Efri deild: 50. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 517 í C-deild Alþingistíðinda. (2649)

137. mál, bústofnslánasjóður

Flm. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 288 leyft mér ásamt öðrum hv. framsóknarmönnum í þessari þd. að flytja frv. til l. um bústofnslánasjóð. Skv. því frv. er gert ráð fyrir, að settur sé á stofn sérstakur sjóður, bústofnslánasjóður, og er gert ráð fyrir, að hann verði í vörzlu Búnaðarbankans, en undir sérstakri stjórn. Hlutverk þessa sjóðs er að veita bændum og þá alveg sérstaklega efnalitlum bændum og frumbýlingum hagstæð lán til bústofnskaupa.

Það er ákveðið f frv., að stofnfé þessa sjóðs skuli nema 200 millj. kr., þar af eiga 80 millj. kr. að vera óendurkræft framlag ríkissjóðs, en hins vegar er gert ráð fyrir, að hinn hluti stofnfjárins sé tekinn að láni með ábyrgð ríkissjóðs. Það er gert ráð fyrir, að með stjórn þessa sjóðs fari 5 manna stjórnarnefnd og séu fjórir þeirra stjórnarmanna kjörnir af Sþ. með hlutfallskosningu, en fimmti maðurinn, sem jafnframt skal vera formaður stjórnarinnar, skipaður samkv. tilnefningu Stéttarsambands bænda. Stjórn sjóðsins skal hafa á hendi alla stjórn á sjóðnum og fara með ákvörðunarvald um lánveitingar. En í 4. gr. frv. er nánar kveðið á um, hver skilyrði skuli vera fyrir lánveitingu úr bústofnslánasjóði, en þau eru í fyrsta lagi, að umsækjandi reki landbúnað sem aðalatvinnuveg, í öðru lagi, að umsækjandi hafi ekki þann bústofn, sem að áliti sjóðsstjórnarinnar er nægilegur til framfærslu fjölskyldu hans samhliða öðrum tekjuvonum, eða hafi ekki efni á því að festa kaup á nauðsynlegum búvélum, í þriðja lagi, að umsækjandi sé að dómi sjóðsstjórnarinnar vel hæfur til að reka landbúnað, enda mæli hreppsnefnd með lánveitingunni, í fjórða lagi, að umsækjandi setji þá tryggingu fyrir láninu, er sjóðsstjórnin tekur gilda, og loks í fimmta lagi, að umsækjandi geti að dómi sjóðsstjórnarinnar staðið undir árlegum greiðslum af lánum sínum, þegar hann hefur fengið lán skv. þessum lögum, úr bústofnslánasjóði sem sagt.

Í 5. gr. frv. eru ákvæði um það, gegn hvaða tryggingum sé heimilt að veita lán úr bústofnslánasjóði. Samkv. því ákvæði er heimilt að veita lán gegn öðrum tryggingum en nú er almennt krafizt. Það er að vísu gert ráð fyrir því, að fyrst og fremst megi veita lán gegn veði í fasteign, og er það í samræmi við það, sem almennt tíðkast. En síðan er því til viðbótar gert ráð fyrir, að það megi veita lán gegn veði í vélum og verkfærum, gegn veði í búfé, og eftir því sem nánar segir í ákvæðinu, gegn hreppsábyrgð og svo loks gegn sjálfsskuldarábyrgð tveggja eða fleiri aðila. En það er lagt á vald sjóðsstjórnarinnar að meta hverju sinni, hvaða trygging skuli gild.

Í þessu frv. er ekki gert ráð fyrir, að hámark lánsfjárhæðar sé ákveðið í l., heldur fari það eftir ákvörðun og mati sjóðsstjórnarinnar hverju sinni.

Það er gert ráð fyrir því, að þessi lán verði sérlega hagstæð að því leyti til, að vextir af þeim verði lágir, og er það bundið í frv., að þeir skuli ekki hærri vera en 5%. Hins vegar er í samræmi við það, hverjar tryggingar er heimilt að taka fyrir þessum lánum, svo og í samræmi við þann tilgang, sem býr að baki þessara lána, lánstíminn ákveðinn tiltölulega stuttur, miðað við lán, sem heimilað er að veita gegn veði í fasteignum.

Í frv. eru svo nokkur fleiri ákvæði, sem ég tel ekki ástæðu til að víkja sérstaklega að hér, og þó má undirstrika það, sem segir í 7. gr. og til staðfestingar á því, að gert er ráð fyrir því, að hér verði um sérstaklega hagstæð lán að ræða, að sjóðsstjórninni er veitt heimild til að ákveða það; að lánin skuli vera afborgunarlaus fyrstu 3 árin.

Það leikur ekki á tveim tungum, að það er mikil þörf fyrir lán sem þessi. Það er ekki völ á slíkum lánum nú. Bændur eiga ekki kost á að fá lán i neinum sjóði til kaupa á bústofni. Það er að vísu í stofnlánadeildarl. heimild til nokkurra lánveitinga til vélakaupa, og hafa slík lán verið veitt, en þau eru þó það lág, að þau eru langt frá því að fullnægja þörfinni fyrir þessi vélakaupalán.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að margir bændur hafa allt of lítil bú. Búskapur hér á landi verður nú ekki rekinn með því sniði, sem þarf, nema fullkomnar vélar séu notaðar. En það er ekki hægt að standa undir slíkum vélum og kostnaði þeim, sem af þeim leiðir, nema búið nái tiltekinni stærð. Vegna þeirra umbóta, sem viða hafa verið gerðar á jörðum í seinni tíð, er þess líka kostur að stækka búin að því leyti til, að jarðirnar bera nú víða mun stærri áhöfn en áður var. Auðvitað er þessi þörf fyrir lán til bústofnskaupa og vélakaupa sérstaklega brýn,þegar frumbýlingar eiga í hlut. Það er kunnara en frá þurfi að segja og ég þurfi að vera að rekja það hér, hversu háa fjárhæð þarf til þess að stofna bú nú hér á landi. Fæstir ungir menn, sem hug hefðu á því, eru svo settir, að þeir hafi ráð á þvílíku fjármagni. Til þess að greiða götu þessara manna er þetta frv. flutt. Og það er trú og von okkar flm., að ef það næði fram að ganga, mundi það létta mörgum bónda róðurinn og það mundi ýta undir það, að fleiri hjón en ella setjist að í sveit og stofni þar til búskapar. En að okkar dómi er full þörf að aðstoða fólk við slíkt.

Því verður ekki neitað, að allvíða í sveitum er þannig ástatt, að það er fremur eldri kynslóðin en sú yngri, sem situr á jörðunum. Og því miður er viða svo ástatt, að það er óvíst, hvað við muni taka, þegar þau eldri hjón, sem búa á mörgum jörðum, láta af búskap. Og það er í raun og veru ókleift ungum hjónum, sem ekki hafa neina sérstaka aðstöðu, að stofna bú í sveit. Til þess þarf svo mikið fjármagn. Það er náttúrlega í ýmsum tilfellum þannig, að sonur eða dóttir getur tekið við af sínu foreldri, og þá getur þetta verið kleift, en sé ekki því til að dreifa, reynist þetta mörgum mjög erfitt og er augljóslega svo erfitt, að margir, sem annars hefðu hug á því að stofna til búskapar í sveit og eiga þar heima, leggja ekki út í slíkt, vegna þess að þeir eiga ekki völ á neinum lánum til þess að festa kaup á nauðsynlegum bústofni og vélum.

Ég sé ekki, herra forseti, ástæðu til að fjölyrða frekar um nauðsyn á þessum lánum, sem hér er um að ræða. Ég hygg, að öllum hv. þdm. liggi hún svo í augum uppi, a.m.k. öllum þeim, sem nokkuð þekkja til landbúnaðar og þess ástands, sem nú ríkir í lánamálum. Við höfum flutt frv. svipaðs efnis hér á þingi áður, en það hefur því miður ekki náð fram að ganga. Því hefur verið vísað til n., en þar hefur það svo dagað uppi. Nú vona ég, að örlög þessa frv. verði á aðra lund, að sú n., sem fær það til meðferðar, taki það til röggsamlegrar afgreiðslu, og ég vil leyfa mér að vona, að hún fallist á þær röksemdir, sem ég hef hér lítillega minnzt á.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til, að frv. þessu sé að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. landbn.