09.12.1965
Neðri deild: 27. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 449 í B-deild Alþingistíðinda. (268)

89. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál

Menntmrh (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það er ekki ýkja langt síðan svo að segja allur innflutningur landsins var háður opinberum leyfisveitingum og raunar öll gjaldeyrissala til annarra þarfa en innflutnings. Meðan svo var, var heimt leyfisgjald af þeim leyfum, sem út voru gefin og voru skilyrði fyrir innflutningi og gjaldeyrisráðstöfunum. Upphæð þessa leyfisgjalds hefur verið misjöfn á undanförnum árum og áratugum, frá kvartprósent og upp í 1%.

Á þessari skipan hefur verið gerð gagnger breyting á undanförnum 5 árum. Á undanförnum 5 árum hefur smám saman meginhluti innflutnings til landsins verið gefinn frjáls, og hið sama á við um gjaldeyrisgreiðslu til annarra þarfa að mjög verulegu eða mestu leyti. Jafnframt hefur þetta auðvitað haft í för með sér, að innheimta formlegra leyfisgjalda hefur farið hlutfallslega minnkandi af þeim gjaldeyri, sem þjóðin ráðstafar til vörukaupa erlendis eða til greiðslu af annarri þjónustu.

Í gildandi lögum um skipan innflutnings- og gjaldeyrismála, sem eru frá árinu 1960, segir, að heimilt sé að innheimta allt að 1% gjald af þeirri gjaldeyrisnotkun, sem leyfi þurfi til. Og ákveðið var, að tekjur af þessu leyfisgjaldi skyldi nota annars vegar til þess að endurgreiða bönkunum þann kostnað, sem þeir hefðu af leyfaútgáfunni, en gjaldeyrisskrifstofan, sem um mörg undanfarin ár eða áratugi undir ýmsum nöfnum hafði annazt útgáfu leyfa, var lögð niður, en þetta verkefni, leyfisútgáfan, falið svonefndri gjaldeyrisdeild bankanna. Tekjurnar af leyfisgjaldinu átti fyrst og fremst að nota til þess að endurgreiða bönkunum þann kostnað, sem þeir hefðu af þessu, og hins vegar til að greiða kostnað við verðlagseftirlit, vegna þess að kostnaður við verðlagsskrifstofuna, sem hafði verið í nánum tengslum við gjaldeyrisskrifstofuna, hafði verið greiddur af tekjunum af því leyfisgjaldi, sem áður hafði verið innheimt. En 1960 var gert ráð fyrir því, að innheimt leyfisgjald af þeim vöruinnflutningi og þeirri gjaldeyrisráðstöfun, sem leyfi þyrfti til, mundi nema mun lægri upphæð en þetta gjald hafði numið um mörg ár eða áratugi áður.

Eins og ég gat um áðan, hefur sú þróun haldið áfram, að í vaxandi mæli hefur innflutningur til landsins og ráðstöfun gjaldeyris til annarra þarfa verið leyst undan leyfisveitingum og þannig orðið frjáls og þess vegna ekkert afgreiðslugjald eða þjónustugjald innheimt af þeim gjaldeyri, sem fenginn var hjá gjaldeyrisbönkum í þessu skyni. Auk þessa hefur heimildin til þess að innheimta 1% leyfisgjald aldrei verið notuð nema að hálfu leyti. Leyfisgjaldið, sem hefur verið innheimt síðan 1960, hefur verið aðeins ½%. Tekjurnar af þessu ½% leyfisgjaldi námu á s.l. ári samtals 6.9 millj. kr.. og þeirri upphæð var skipt þannig, að varið var til kostnaðar við leyfaúthlutun 3.3 millj. og til greiðslu á kostnaði við verðlagseftirlit 3.6 millj. Í þessu frv. er lagt til, að gjald af leyfisinnflutningi eða gjaldeyrisráðstöfun skv. leyfum geti hækkað í allt að 1% og jafnframt megi innheimta allt að ½% gjald af þeirri gjaldeyrissölu bankanna, sem sérstakt leyfi þarf ekki til. Miðað við áætlun um gjaldeyrisráðstöfun á næsta ári má gera ráð fyrir því, að heildartekjur af þessum gjöldum, leyfisgjaldinu og afgreiðslugjaldinu af frílistagjaldeyrinum, geti numið um 35 millj. kr., ef heimildin verður notuð að fullu, en rétt er að gera ráð fyrir því.

Með þessu móti tel ég, að efni frv. hafi verið skýrt nægilega, og legg því til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.