23.02.1966
Sameinað þing: 28. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 12 í D-deild Alþingistíðinda. (2684)

17. mál, markaðsrannsóknir í þágu útflutningsatvinnuveganna

Jón Skaftason:

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að þakka hv. allshn. fyrir góða afgreiðslu á þeirri till., sem hv. 11. þm. Reykv. var hér að mæla fyrir áðan. Ég fagna því, að þeir aðilar, sem síðasti ræðumaður vék að, aðilar, sem eru mjög stórir í atvinnulífi Íslendinga, hafa allflestir tekið tillöguflutningi þessum mjög vel og mælt með, að sú rannsókn, sem till. gerir ráð fyrir, verði látin eiga sér stað. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara mörgum orðum um till. núna. Ég lýsi því aðeins yfir, að ég og margir fleiri binda miklar vonir við, að út úr þessari rannsókn geti komið ýmislegt það, sem á eftir að verða atvinnuvegum okkar að miklu liði í framtíðinni, og þá er að sjálfsögðu tilgangi okkar flm. till. náð.