09.12.1965
Neðri deild: 27. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 451 í B-deild Alþingistíðinda. (269)

89. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Hæstv. viðskmrh. hefur þegar gert ýtarlega grein fyrir þessu frv., sem hér liggur fyrir, og sé ég ekki ástæðu til að gera það frekar að umtalsefni, en tel þó rétt að segja nokkur orð í tilefni þessa máls.

Þegar fjárlfrv. var lagt fram, var þar greint frá ýmsum ráðstöfunum, sem ríkisstj. hafði í huga til að tryggja það, að auðið væri að afgreiða greiðsluhallalaus fjárlög. Ein þeirra till., sem þar var um að ræða, var, að lagt yrði sérstakt farmiðagjald á farseðla, sem seldir væru til utanlandsferða, og var gert ráð fyrir, að gjald þetta mundi nema um 1500 kr. á farmiða, þó með undantekningum, sem þar voru boðaðar, bæði til námsmanna og einnig í sambandi við sjúkraferðalög, og var áætlað, að í heild mundi þessi gjaldstofn gefa ríkissjóði 25 millj. kr. Við nánari athugun þess máls hefur í senn komið í ljós, að nokkuð hafi verið skiptar skoðanir um þessa gjaldheimtu, í annan stað kom það einnig í ljós við frekari undirbúning málsins, að vegna hinna ýmsu undanþága væru ýmsir teknískir örðugleikar þar við að stríða, og enn fremur það, að það þótti ekki sýnt, að þessi tekjustofn mundi gefa að fullu þær tekjur, sem gert var ráð fyrir og nauðsynlegt var að afla. Niðurstaðan varð því sú af öllum þessum ástæðum, að horfið var að nýrri leið til að afla þessa fjár, sem vantaði, og er þá leið að finna í því frv., sem nú hefur verið lagt fyrir þessa hv. deild.

Eins og ég skýrði frá í fjárlagaræðu minni, tók ég það fram, að ríkisstj. hefði að sjálfsögðu talið sér skylt að leggja fram ákveðnar hugmyndir þá um það, hvernig ætti að afla tekna til þess að afgreiða greiðsluhallalaus fjárlög. En hins vegar tók ég einnig fram, að þeir gjaldstofnar, sem þar væri um að ræða, væru að sjálfsögðu til nánari athugunar og ef menn kæmust að þeirri niðurstöðu við frekari athugun þessara mála, að einhver önnur úrræði væru heppilegri, þá væri að sjálfsögðu frá mínum bæjardyrum séð ekkert við það að athuga, að aðrar leiðir yrðu farnar að einhverju leyti í þessum greinum.

Það kemur svo að sjálfsögðu til, sem hv. þm. er fullkomlega ljóst, og þarf ég ekki að útskýra það, að vegna ýmissa frekari hækkana, sem orðið hafa, er fremur ástæða til þess að óttast það, að ekki verði auðið í reynd að hafa ríkisbúskapinn hallalausan á næsta ári, heldur en hitt, að þar sé gert ráð fyrir með tekjuöflunarleiðum ríkisstj. meiri fjáröflun en nauðsynleg er, og á þetta ekki hvað sízt við, eftir að ljóst er orðið, hver þróunin hefur orðið í sambandi við launamál opinberra starfsmanna og auk þess frekari vísitöluhækkanir, sem orðið hafa nú í árslok og leiða af sér útgjöld, sem nú er nokkurn veginn ljóst, að er mjög hæpið og raunar útilokað, að sú fjárhæð, sem gert er ráð fyrir til launagreiðslna á einum lið í 19. gr. frv., nægi til þess að standa straum af þeim kostnaði, þannig að það þótti mjög æskilegt, að það væri þó hægt að hafa þá fjárhæð nokkru rýmilegri en hafði verið gert ráð fyrir. Eins og hæstv. viðskmrh. hefur greint frá, má áætla, að nokkru meiri tekjur fáist handa ríkissjóði af þeirri leið, sem hér er farin, heldur en af farmiðaskattinum.

Samkv. þessu munu að sjálfsögðu verða gerðar breytingar á fjárlagafrv. og lagt til, að felldur verði niður tekjustofn af farmiðagjaldi, en tekjur af umboðsþóknun bankanna hækkaði sem þessu nemur við 2. umr. fjárl. hér í hinu háa Alþ. Lá þetta mál ekki þannig fyrir, að það þætti ástæða til að gera þá breytingu fyrr en þetta frv. hefur verið lagt fram, og hins vegar áformað að sjálfsögðu, að það lægi fyrir Alþ., áður en fjárlög yrðu endanlega afgreidd, hvaða leiðir ríkisstj. hygðist fara í þessum efnum. Á þá aðeins eftir að koma fyrir Alþ. eitt frv. af þeim frv., sem boðuð voru í þessu skyni, en það er í sambandi við rafmagnsmálin, og er þess frv. að vænta nú fyrir helgi.