27.04.1966
Sameinað þing: 41. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í D-deild Alþingistíðinda. (2728)

166. mál, framleiðsla sjávarafurða

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Það er ekkert eðlilegra en fram sé borin á Alþ. till. álík þeirri, sem flutt er á þskj. 379 af hv. 11. landsk. þm. um athugun á aukinni fjölbreytni í framleiðslu sjávarafurða og eflingu þeirra iðngreina, sem vinna útflutningsverðmæti úr sjávarafla.

Þegar litið er yfir þróun þá í síldariðnaði, sem átt hefur sér stað hér á landi s.l. 50 ár, kemur í ljós, að hún er vægast sagt hægfara. Síldin var þá söltuð í tunnur á frumstæðan hátt og seld til útflutnings, og er sama fyrirkomulagið ríkjandi í dag að mestu leyti. Afurðir síldarverksmiðjanna í landinu eru fluttar út enn sem fyrr, fljótandi lýsi og pokamjöl að mestu, þrátt fyrir mikið umtal um lýsisherzlu hér á hinu háa Alþingi. Það hefur aldrei neitt orðið úr framkvæmdum á lýsisherzlumálum Íslendinga, nema hvað nokkrar vélar í lýsisherzluverksmiðju voru komnar til Siglufjarðar fyrir allmörgum árum og seldar síðan. Tilraun var gerð á s.l. sumri með að pakkabinda og pressa síldarmjöl. Tókst þessi tilraun vel, eftir því sem upplýst hefur verið, og mun hafa haft nokkurn sparnað í för með sér, þó að ekki auki þetta útflutningsverðmæti síldarmjölsins sjálfs.

Þegar litið er yfir framleiðslu annarra sjávarafurða en síldarinnar, blasa við hraðfrystihúsin og þeirra framleiðsla. Þegar þau hófu starfsemi sina, var brotið blað í sögu sjávarútvegsmála og er sú löggjöf, sem er á bak við uppbyggingu hraðfrystihúsanna og uppbyggingu sölusamtakanna, heill kapítuli út af fyrir sig, þó að ég fari ekki nánar út í að rekja hann. Þegar upp eru taldir þessir höfuðþættir í sambandi við nýtingu og sölu sjávarafla, er sagan næstum öll hjá þessari einni mestu fiskveiðiþjóð heims. Niðurlagning síldar á sér að vísu stað, ríkið sjálft á eina niðurlagningar- og niðursuðuverksmiðju og ástandið er þannig, að hún er rekin í lélegum húsakynnum með frekar lélegan vélakost, og þrátt fyrir það að afköstin séu lítil, er ekki hægt að selja vörur þær, sem þessi litla verksmiðja framleiðir, ef unnið er 8—9 mánuði á ári.

Það vakti ánægju meðal Íslendinga, þegar nýja niðursuðu- og niðurlagningarverksmiðjan tók til starfa í Hafnarfirði á s.l. ári, þó að það væri með nokkuð öðrum hætti en hefur átt sér stað undanfarin ár, þar eð þar er framleidd vara undir nafni útlendra eða að verulegu leyti á vegum stórs norsks útflytjanda. En það sorglega skeður, að þessi verksmiðja, sem kostaði tugi millj., hefur þurft að loka, og okkur er sagt, að hún hafi þurft að loka vegna þess, að það vanti síld til vinnslunnar. Það vantar sem sagt síld til niðurlagningarverksmiðju, sem tók til starfa 1965, á sama ári og veiddist yfir 4 millj. mála af síld við strendur landsins. Hvort sem það er rétt, að það vanti hráefni, eða stöðvunin er af einhverjum öðrum ástæðum, er það hörmuleg staðreynd, sem öllum kemur illa, að slíkum verksmiðjum, sem eru að hefja göngu sína á Íslandi, skuli þurfa að loka og hætta starfsemi þeirra í bili, af hvaða ástæðu svo sem það er.

Það er alveg rétt, eins og hv. flm. tekur fram í grg. sinni, að afkoma okkar í dag byggist fyrst og fremst á hinu mikla og sívaxandi aflamagni, en ekki á góðri nýtingu aflans. Þetta er náttúrlega engin ný uppgötvun. Þm. Framsfl. hafa á þingum undanfarið borið fram frv. og till. um þessi mál og úrbætur þar að lútandi. Ég vil minna á, að á Alþingi 1960 var samþ. þáltill. frá hv. 1. þm. Norðurl. e. um hagnýtingu síldaraflans, og var hún á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að beita sér fyrir því, að athugaðir verði til hlítar möguleikar á að hagnýta síldarafla landsmanna betur en nú er gert og þá einkum með það fyrir augum, að sem mestur hluti síldarinnar verði fluttur út sem fullunnin neyzluvara.“

Þetta var samþ. á hv. Alþ. 27. maí 1960. Sjálfsagt hefur sjútvmrn. látið framkvæma eitthvað í framhaldi af þessari ályktun Alþingis, en því miður virðist manni, þegar litið er yfir gang þessara mála síðustu 5 árin, að það hafi ekkert stórkostlegt skeð. Það, sem hefur skeð, er, að byggð hefur verið ein stór verksmiðja og henni hefur verið lokað og litla ríkisverksmiðjan, þessi mjög svo litla ríkisverksmiðja fyrir norðan, getur ekki framleitt eins og hún hefur þó möguleika til í allri sinni smæð, þar sem ekki hefur verið hægt að selja alla framleiðsluna. Mér er það alveg ljóst, að það eru ákaflega mörg ljón á veginum í sölumálum okkar. Þó er það staðreynd, að í dag sveltur stór hluti heims og við strendur Íslands buslar fiskurinn, sem er ein bezta matvara, sem hægt er að fá, ef hún er vel tilreidd. Vissulega eru mörg ljón á veginum á sölumörkuðum erlendis, og það er ekki fyrr en eitthvað af þeim er lagt að velli, sem fer að birta til fyrir okkur í þessu efni.

Ég vil að lokum segja, að það er fyllsta þörf, að athugaðir séu enn meira en gert hefur verið og það sem fyrst allir hugsanlegir möguleikar í sambandi við aukna fjölbreytni í framleiðslu og sölu sjávarafurða. Það er eitthvað að hjá okkur í framleiðslumálum, þegar okkar duglegu sjómenn fiska á rúmum 200 skipum á einu sumri á fimmtu millj. mála af síld, en við seljum út eða söltum aðeins rúmar 400 þús. tunnur. Já, 400 þús. tunnur söltum við af þeim 4 millj., sem veiðast, og af þessum 400 þús. eru það aðrar þjóðir, sem tilreiða matinn á diskinn fyrir heimsmarkaðinn. Við erum í sömu sporum og fyrir 50—60 árum. Því vænti ég þess, að þessi till. verði samþ. hér á hinu háa Alþ., en ég vænti þess einnig, að núv. hæstv. sjútvmrh. taki þetta mál föstum tökum og að það lagist eitthvað verulega í þessum framleiðslu- og markaðsmálum okkar frá því, sem nú er.