05.05.1966
Sameinað þing: 47. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í D-deild Alþingistíðinda. (2730)

166. mál, framleiðsla sjávarafurða

Frsm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Till. þessi til þál. um athugun á aukinni fjölbreytni í framleiðslu sjávarafurða og eflingu þeirra iðngreina, sem vinna útflutningsverðmæti úr sjávarafla, er flutt af bv. 11. landsk. þm., Matthíasi Bjarnasyni. Till. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að skipa þriggja manna n, til þess að gera ýtarlegar athuganir á því, á hvern hátt verði bezt að því unnið að koma á aukinni fjölbreytni í framleiðslu sjávarafurða og bæta nýtingu sjávaraflans með því að efla þær iðngreinar, sem vinna úr honum þær vörur, sem skapa mest útflutningsverðmæti. Jafnframt skal n. kynna sér og gera till. um, ef tök eru á, að komið verði í framkvæmd nýjum vinnsluaðferðum, svo sem frystiþurrkun og geislun með geislavirkum efnum. N. skal enn fremur athuga og gera till. um, á hvern hátt megi efla kynningu og sölumöguleika á þessum afurðum meðal viðskiptaþjóða okkar, og leita úrræða til að selja íslenzkar sjávarafurðir til fleiri þjóða en nú er gert. N. skal leggja áherzlu á að hraða störfum sínum eftir föngum og skila áliti sínu og till. til ríkisstj.

Till. þessi til þál. um athugun á aukinni fjölbreytni í framleiðslu sjávarafurða og eflingu þeirra iðngreina, sem vinna útflutningsverðmæti úr sjávarafla, er flutt af hv. 11. landsk. þm. Eins og fram kemur í tillgr., felur hún í sér áskorun á ríkisstj. um, að hún skipi þriggja manna n. til þess að gera ýtarlegar athuganir á því, á hvern hátt verði bezt að því unnið að koma á aukinni fjölbreytni í framleiðslu sjávaraflans.

Það var einróma samþ. í fjvn., sem haft hefur mál þetta til athugunar, að mæla með því, að till. þessi verði samþ. óbreytt. Það er vissulega kominn tími til þess, að við Íslendingar hagnýtum betur en verið hefur það úrvalshráefni, sem íslenzki sjávaraflinn er, þannig að hann verði fullunnin vara, þegar hann er sendur til markaðslandanna, og með því móti miklum mun verðmætari en ella. Með tilkomu hraðfrystiiðnaðarins var stigið stórt spor í áttina til aukinnar hagnýtingar og verðmætasköpunar. Í þeirri framleiðslugrein hafa Íslendingar jafnan síðan sótt fram og hlotið viðurkenningu viðskiptaþjóða sinna fyrir því að vera með bezta hraðfrysta fiskinn, sem á heimsmarkaðinum er. Íslenzka niðursuðuiðnaðinum hefur hins vegar gengið erfiðlega að hasla sér völl og ná fótfestu í markaðslöndunum. Sú staðreynd er mörgum mikið áhyggjuefni, og þegar það er haft í huga, að Íslendingar ráða yfir úrvalshráefni til framleiðslunnar, verður ekki hjá því komizt, að rannsakað verði til hlítar, hvað hér er að, og þá reynt að bæta úr og yfirstíga þá erfiðleika, sem við er að etja, eftir því sem kostur er. Þá er á það að líta, eins og fram kemur í till. þessari, að með síaukinni tækni eiga sér stað ýmsar nýjungar á sviði framleiðslu matvæla. Er okkur mikil nauðsyn á því að fylgjast sem helzt með öllu slíku og vera fljótir að tileinka okkur allt það, sem verða má til framfara og aukinnar hagnýtingar í þessum efnum.

Herra forseti. Í framsögu fyrir till. gerði hv. flm. ýtarlega grein fyrir máli þessu. Komu þar fram margar athyglisverðar upplýsingar, sem ég vil leyfa mér að vísa til. Ég sé því ekki ástæðu til að orðlengja frekar um málið að þessu sinni, en legg til, að það verði að lokinni þessari umr. samþ. og afgr. til hæstv. ríkisstj. sem ályktun Alþingis.