05.05.1966
Sameinað þing: 47. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í D-deild Alþingistíðinda. (2738)

173. mál, löndun erlendra fiskiskipa í íslenskum höfnum

Frsm. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Allshn. Sþ. hefur haft þessa till. til meðferðar og mælir einróma með því, að till. verði samþ. eins og hún liggur fyrir á þskj. 401. Fjarstaddur afgreiðslu málsins var einn nm., Ragnar Arnalds.

Eins og hv. þm. sjá, er þessi till. um það, að Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að láta fram fara athugun á því, hvort ekki sé tímabært að endurskoða gildandi lagaákvæði um löndun erlendra fiskiskipa af afla sínum í íslenzkum höfnum með það fyrir augum að bæta úr atvinnuerfiðleikum einstakra byggðarlaga, sem skortir hráefni til vinnslu. N. telur eðlilegt, að slík athugun fari fram, og mælir þess vegna með samþykkt till.