16.02.1966
Sameinað þing: 27. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í D-deild Alþingistíðinda. (2743)

73. mál, raforkuþörf Vestur-Skaftfellinga austan Mýrdalssands

Flm. (Ragnar Jónsson):

Herra forseti. Till. þá til þál., sem hér er til umr. og prentuð er á þskj.88, hef ég leyft mér að flytja ásamt hv. 3. og hv. 5. þm. Sunnl. Till. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að láta rannsaka til fullnustu, hvernig hagkvæmast muni vera að leysa raforkuþörf Vestur-Skaftfellinga þeirra, sem búa austan Mýrdalssands, og vinna að framgangi þess máls svo fljótt sem auðið er.“

Fyrir nokkrum árum var lokið við að leggja rafmagnslínu frá Soginu austur til Víkur í Mýrdal, en þar stoppaði við. Hefur hin langa og ótrygga leið yfir Mýrdalssand sjálfsagt verið meginorsök þess, að ráðamenn raforkumálanna hugðu ekki á frekari framkvæmdir í VesturSkaftafellssýslu að sinni. Mun engin áætlun um áframhaldandi framkvæmdir í þessu héraði vera fyrir hendi enn sem komið er, og er það áhyggjuefni margra. Mér er kunnugt um það, að allir íbúar sveitanna milli sanda urðu fyrir miklum vonbrigðum, að ekki skyldi takast að teygja Sogslínuna lengra en austur til Víkur. Þessi vonbrigði verða því tilfinnanlegri sem lengra líður. Raforkuþörfin vex með hverju ári, og það þarf ekki að lýsa því fyrir hv. alþm. Nútímahúskaparhættir krefjast síaukinnar raforku. Svo er og hitt, að fólk unir ekki til lengdar við það að vera afskipt um þau þægindi, sem allur þorri landsmanna býr nú við.

Það er alkunna, að Skaftfellingar voru brautryðjendur um rafvæðingu á bæjum sínum. Þeir áttu sín á meðal mikla sjálfmenntaða kunnáttu og hagleiksmenn á sviði rafmagnstækninnar. Þessir menn aðstoðuðu sýslunga sína og fjölmarga aðra landsmenn við að beizla bæjarlækina. Þeir byggðu stíflurnar og rafstöðvarnar, önnuðust allar raflagnir og smíðuðu jafnvel túrbínurnar sjálfir. Þetta merkilega starf var að mestu leyti unnið löngu áður en hið opinbera fór almennt að sinna slíkum málum. En þótt víða hagaði vel til um byggingu vatnsaflsstöðva við bæina, sérstaklega með Síðunni, sums staðar í Landbroti og Skaftártungu, voru margir afskiptir. Heil hreppsfélög voru þannig sett, að engir möguleikar voru á því að reisa par vatnsaflsstöðvar. Svo var um Meðalland og Álftaver. Þar vantaði fallhæðina. Í dag er því ástandið þannig, að í 5 hreppum af 7 í Vestur-Skaftafellssýslu búa menn ýmist við gamlar og úreltar einkavatnsaflsstöðvar, sem eru óvirkar langtímum saman, vegna þess að vatnið í lækjunum gengur til þurrðar í frostum að vetrinum og í þurrkum yfir sumartímann, eða þá að fólk hefur reynt að koma sér upp smáum dísilstöðvum, sem eru meira og minna ófullnægjandi. Frá þessu eru þó fáar undantekningar.

Ég ætla mér ekki að segja fyrir um það, á hvern hátt heppilegast er að leysa raforkuþörf þessa fólks, sem ég ræði hér um. Mér er vel ljóst, að á því eru ýmsir annmarkar vegna staðhátta, t.d. því að leiða rafmagn á staurum austur yfir Mýrdalssand. Vegalengdin er þó ekki aðalatriðið í mínum augum. því að línan mundi ná til 115—120 bæja. Hitt skiptir meginmáli, hvort hægt er að verja línuna á sandinum fyrir eyðileggingu. Fleiri leiðir eru sjálfsagt til en sú að leiða rafmagnið austur yfir Sand frá Soginu, en það er verk sérfræðinga að segja til um, hvað heppilegast er í því efni.

Ég drep á þetta vegna þess, að nokkru eftir að þáltill. okkar þremenninganna var lögð fram hér á hv. Alþ., kom fram frv. til l. frá hv. 6. þm. Sunnl. um rafvæðingu allra byggðra býla í Álftaveri, Leiðvallahreppi, Skaftártungu, Kirkjubæjarhreppi og Hörgslandshreppi fyrir árið 1968 með rafmagnslínu frá Soginu. Það er ánægjulegt að finna áhuga hjá sem flestum fyrir þessu mikla nauðsynjamáli, og ég ætti sízt að amast við því. En það liggur ekki fyrir neitt álit sérfróðra manna um það, að rafmagnslínan frá Vík austur yfir sand sé eina og rétta leiðin. Þess vegna fannst okkur flm. till. þeirrar, sem hér er til umr., nauðsynlegt að fá fyrst af öllu úr því skorið, hvaða leið er heppilegast að fara til þess að tryggja umræddum sveitum raforku. Það er þýðingarlaust að blekkja sjálfan sig eða aðra með því að loka augunum fyrir þeirri staðreynd, að öll mannvirki á Mýrdalssandi eru í hættu, ef Katla skyldi taka upp á því að gjósa enn þá einu sinni. M.a. með þetta í huga töldum við flm., að heppilegasta leiðin til þess að þoka málinu áleiðis væri sú að koma því inn á Alþ. í formi þáltill., þar sem skorað væri á ríkisstj. að láta fram fara fullnaðarrannsóknir á því. hvað hagkvæmast og öruggast er að gera. Mér er kunnugt um, að undanfarið hefur farið fram undirskriftasöfnun undir áskorun til stjórnvalda um að láta án tafar gera áætlun um rafvæðingu sveitanna austan Mýrdalssands. Munu nær allir ábúendur og umráðamenn jarða á þessu svæði hafa ritað undir áskorunina.

Herra forseti. Ég legg til, að umr. um þetta mál verði frestað og till. vísað til hv. allshn.