05.05.1966
Sameinað þing: 47. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í D-deild Alþingistíðinda. (2748)

73. mál, raforkuþörf Vestur-Skaftfellinga austan Mýrdalssands

Frsm. (Unnar Stefánsson):

Herra forseti. Allshn. hefur fjallað um og athugað till. til þál. um rannsókn varðandi lausn á raforkuþörf Vestur-Skaftfellinga austan Mýrdalssands. Í till. segir:

Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að láta rannsaka til fullnustu, hvernig hagkvæmast muni vera að leysa raforkuþörf Vestur-Skaftfellinga þeirra, sem búa austan Mýrdalssands, og vinna að framgangi þess máls svo fljótt sem auðið er.“

N. sendi þessa till. til umsagnar raforkumálastjóra, og svaraði hann þeirri beiðni um umsögn með bréfi, dags. 25. apríl s.l., og lætur í ljós þá skoðun, að öflun raforku til þessara byggðarlaga sé mjög erfið fjárhagslega, um ýmsar lausnir geti verið að ræða tæknilega séð og ástæða sé til, að þetta mál verði athugað rækilegar en enn hefur verið gert. Lægi beinast við að leggja héraðsrafmagnsveitulínu til um 120 býla austan Víkur, en þá yrði samanlögð lengd háspennulínu yfir 240 km og kostnaður um 28 millj. kr. Reiknað er með árlegum halla, ef sú leið yrði valin, 2.9 millj. Hins vegar er bent á, að allmörg býli, sem þarna væru reiknuð með, eða um 70 samtals, hafa einkavatnsaflsrafstöðvar, sem eru í góðu ásigkomulagi og með samanlagt afl allt um 550 kw. Þessar stöðvar yrðu að leggjast niður, en yrði til hækkunar, ef ekki færi svo, á hinum árlega rekstrarhalla. Eftir þeim reglum, sem nú er farið eftir í rafvæðingarmálum, er alls ekki fram undan að gera neitt til að rafvæða þessa sýslu, nema aðrar leiðir yrðu athugaðar. Allmikið er nú um það, að settar séu upp dísilrafstöðvar fyrir hvert býli. Þannig hafa 100 býli sett upp slíkar stöðvar á s.l. ári, og er áætlað, að það verði meira á næsta ári.

Með hliðsjón af því, að raforkumálastjóri telur ástæðu til að athuga rækilegar raforkumál þessarar sýslu sérstaklega, var n. einhuga um að mæla með samþykkt till.