25.03.1966
Sameinað þing: 33. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í D-deild Alþingistíðinda. (2752)

159. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Flm. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Væri allt með felldu, ætti ekki að vera við sérstakan vanda að kljást í atvinnu- og fjármálalífi landsmanna, því að verðlag á flestum útflutningsvörum hefur farið hækkandi ár frá ári og ný tæki stóraukið aflabrögðin. En því er ekki að heilsa, að allt sé með felldu. Þannig hefur verið á málum haldið, að sjávarútvegurinn getur ekki gengið án uppbóta, nema ef vera skyldi nýjustu og stærstu síldveiðiskipin, enda haldist þá aflamokið. Iðnaður á í vök að verjast og það svo, að ýmis fyrirtæki hafa orðið að stöðva rekstur sinn, en öðrum liggur við falli, og óðaverðbólgan lokar óðum ýmsum leiðum, sem opnar voru til útflutnings á iðnaðarvarningi. Dýrtíðarflóðið leikur landbúnaðinn þannig, að útflutningsuppbætur hrökkva ekki lengur til að mæta hækkunum framleiðslukostnaðarins, enda þótt óspart væri gefið í skyn, að útflutningsuppbæturnar mundu öllu bjarga fyrir landbúnaðinn. Ofan á þetta bætist, að kaupmáttur tímakaupsins er lægri nú en fyrir 7 árum. Ekkert lát er enn á verðbólguflóðinu, og síðustu fréttir frá ríkisstj. eru þær, að hún sé að gefast upp við að halda áfram niðurgreiðslum þeim á neyzluvörum, sem hún hefur þó framkvæmt undanfarið. Verkar þetta sem benzín á bálið og er enn þá einn vottur þess ráðleysis og þeirrar uppgjafar, sem einkennir ráðstafanir hæstv. ríkisstj. Fram að þessu hefur ríkisstj. talið sig vera að gera ráðstafanir til jafnvægis í þjóðarbúskapnum og stöðvunar verðbólgunni, en ástandið verður samt sífellt alvarlegra. Segist ríkisstj. fá heppilegar ráðleggingar annars staðar frú, en allt kemur fyrir ekki, alltaf sigur á ógæfuhlið.

Læknismeðul ríkisstj. eru helzt þau að klemma að viðskiptabönkunum, svo að þeir verði að takmarka lán sem mest til sinna viðskiptamanna. Veldur þetta nálega óbætanlegum rekstrarfjár skorti margra þýðingarmestu atvinnufyrirtækja í landinu, stórspillir afkomu þeirra og gerir þeim ókleift að standa undir kaupgjaldi því, sem dýrtíðin gerir óhjákvæmilegt að borga, og kemur í veg fyrir eðlilega framleiðsluaukningu vegna hagræðingar og aukinnar vélvæðni. Þannig verkar aðallyf ríkisstj., en verðbólgan, sem þetta á að lækna, magnast, en minnkar ekki. Jafnhliða þessu segist ríkisstj. vera að auka stofnlán til atvinnuveganna, en litið verður úr því, þar sem dýrtíðin gleypir hækkanirnar í krónutölu nálega jafnóðum.

Annað höfuðúrræði stjórnarinnar er að draga úr opinberum framkvæmdum með þeim afleiðingum, að óleyst verkefni í samgöngumálum, skólamálum og heilbrigðismálum hlaðast upp, svo að dæmi séu nefnd. En ekki mætti þó minna vera við aflauppgrip og óvenjulegt góðæri en haldið væri vel í horfinu og hrundið áleiðis framkvæmdum í þessum málum, sem lífsnauðsynlegar eru, til þess að eðlileg framþróun almennt í landinu geti átt sér stað. En til dæmis um ástandið, eins og það er að verða, má nefna, að í vegamálum drögumst við nú þeim mun lengra aftur úr sem umferðarþörfin vex. Verðbólguframkvæmdir halda á hinn bóginn áfram fullum fetum og soga til sín vinnuafl og framkvæmdaafl í vaxandi mæli. Þetta ástand mætti lengi rekja, en tóm er hér ekki til þess, enda óþarft, því að vandinn blasir við hverjum manni og allir finna, að svona getur þetta ekki gengið. Breyta þar engu nýjustu bollaleggingar forsrh. og hans manna um það, að verðbólgan hér sé nú í raun og veru meinlaus orðin og verði að hafa sinn gang, að manni skilst. Er nú heldur skipt um tón, síðan forustumenn stjórnarflokkanna buðu sig fram síðast við alþingiskosningarnar upp á hátíðlega svardaga um að ráða niðurlögum verðbólgunnar. Væri nú karlmannlegra að viðurkenna ósigur sinn en að beita slíkum vífilengjum.

En hvað sem því líður, fer það ekki fram hjá mönnum, að ríkisstj. hefur alls ekki náð tökum á málefnum þjóðarinnar. Ríkisstj. og flokkum hennar ætti ekki að dyljast lengur, fremur en fólki almennt, að hún er á rangri leið og að það þarf allt aðrar vinnuaðferðir en hún beitir til þess að ráða fram úr vandanum.

En það, sem hér hefur nú gerzt, minnir líka á þá alkunnu staðreynd, að það eru til menn, sem ekki er lagið að stjórna, þótt þeir séu góðum hæfileikum búnir að öðru leyti. Nú mættu menn halda, að ríkisstj. teldi mælinn fullan og byggist nú til að ráðast að rótum meinsins, beita sér fyrir víðtækum ráðstöfunum til þess að stöðva verðbólguna og festa grundvöll íslenzks atvinnulífs. En það er öðru nær. Fyrir því vottar ekki, og eru uppgjafarmerkin greinilegri en fyrr, og það er allt annað í vændum.

Við þessi skilyrði hefur ríkisstj. nú tekið sér fyrir hendur að ryðja erlendri stóriðju braut inn á mesta þenslusvæði landsins og er komin á fremsta hlunn með að ganga frá samningum um erlenda fjárfestingu, sem nemur þúsundum milljóna. Ekki skortir þó þjóðina verkefni, sem nógsamlega er kunnugt, og þótt unnið sé að vísu mjög við verðbólguframkvæmdir ýmsar, þá er hitt staðreynd, að í öllum áttum eru framtakssamir menn með fyrirætlanir um stórbrotnar framkvæmdir í atvinnulífinu sjálfu, sem ekki komast áleiðis vegna þenslunnar, og í öllum áttum eru óunnin verk, í samgöngumálum, skólamálum, heilbrigðismálum og ótalmörgum öðrum greinum, sem af sömu ástæðu komast ekki í framkvæmd.

Það verður hlutskipti ríkisstj., haldi hún fast við alúmínsamninginn, að hefja tangarsókn gegn framkvæmdum Íslendinga til þess að rýma fyrir hinni erlendu stóriðju. Ráðh. boða beinlínis enn aukin niðurskurð opinberra framkvæmda í því skyni. Þá hefur þegar verið byrjað að herða enn lánsfjárhöftin til þess að draga úr framkvæmdum og rekstri íslenzkra atvinnurekenda og framkvæmdamanna, og verður þó að sverfa betur að, þegar til sjálfra stóriðjuframkvæmdanna kemur. Það bætist svo við og er ömurlegt til þess að vita, að hæstv. ríkisstj. hefur nú hrökklazt út á þá braut til þess að afsaka þessar fyrirætlanir sínar að veikja með margvíslegu móti traustið á innlendum atvinnuvegum, sem landsmenn hafa þó byggt endurreisn þjóðarinnar á.

Menn eru varaðir við að byggja um of á sjávarútvegi, landbúnaði og íslenzkum iðnrekstri. Gamalkunn tegund úrtölumanna hefur nú sótt í sig veðrið og herðir sóknina og varar þjóðina við að byggja á eigin framtaki, og hefur sjálfur forsrh. tekið forustuna fyrir þessu liði. En það eru að verða einkunnarorð þessarar sveitar, að Ísland sé á mörkum hins byggilega heims, og eiga menn svo að draga sínar ályktanir af því. Þetta er hliðstæður hugsunarháttur og sá, sem því réð, þegar nálega öll þýðingarmestu vatnsréttindi landsins voru seld útlendingum í því trausti, að stóriðja útlendinga væri lausnin á vandamálum þjóðarinnar. Allt annað væri of smátt í sniðum og ófullkomið, og engu öðru væri að treysta en atvinnurekstri útlendinga. En þjóðin hefur sannarlega risið á legg og byggt á sínu eigin framtaki og sinna manna í sjávarútvegi, landbúnaði og iðnaði, og allar hrakspár hafa sér til skammar orðið.

Nú ganga valdamenn á hinn bóginn þrátt fyrir þessa reynslu fram fyrir skjöldu og vara landsmenn við að treysta sjálfum sér og framtaki sínu og eigin atvinnuvegum. Atvinnugreinar okkar standa nú höllum fæti eingöngu vegna rangrar stjórnarstefnu og ráðleysis í stjórnarmálefnum landsins, en skilyrði hafa aldrei verið betri en nú, ef skynsamlega væri að farið og okkar eigin framleiðslugreinar studdar, í stað þess að sefja fyrir þær fótinn með óskynsamlegri lánsfjárhaftapólitík og margvíslegu öðru móti, og gerðar eru gælur við óðaverðbólguna, á meðan hún grefur undan afkomu fyrirtækjanna, sem allt verður þó að byggjast á.

En þeir, sem beita sér nú fyrir erlendu fjárfestingunni, segja: Við verðum að gera þetta til þess að leysa raforkumálin nógu vel, — og svo geri þetta atvinnulífið fjölbreyttara og allt velti á því að gera það nógu fjölbreytt. En við þurfum ekki að gera þetta til að leysa raforkumálin vel, og kem ég að því síðar. En þá er hitt, að gera atvinnulífið fjölbreyttara, og sannarlega verðum við að leggja höfuðáherzlu á það. En þá er spurningin: Er það heppilegasta leiðin að taka hér inn erlenda stóriðju, erlendan atvinnurekstur í því skyni? Stjórnarflokkarnir virðast ekki annað sjá og vilja taka upp þá stefnu beinlínis, og m.a. segir Morgunblaðið orðrétt um þetta, „að með samkomulaginu um alúmínverksmiðjuna hafi brautin verið rudd til þess að nýta erlent einkafjármagn í þágu þróttmikillar uppbyggingar íslenzkra atvinnuvega á komandi árum“. Þetta er því flutt sem stefna og aðeins byrjun.

En hvert mundi þessi stefna til að gera atvinnulífið fjölbreyttara leiða okkur? Lítum á þennan fyrirhugaða alúmínsamning. Hagnaðurinn af rekstrinum á aldrei að koma til Íslands. Afskriftaféð rennur út úr landinu jafnharðan, sem jafngildir því, að verksmiðjan flyzt út úr landinu, jafnóðum og hún slitnar. Tolla á enga að borga, skatta eftir sérreglu, sem tiltekur skattabyrðina í 25 ár, hvað sem líður skattabyrði íslenzkra atvinnurekenda. Raforkuverð á að vera miklu lægra en íslenzkir atvinnurekendur verða að borga. Af hlutabréfum borgi eigendur þeirra enga skatta og ekki skatta af þeim arði, sem úthlutað er af hlutafénu. Þeir borga kaup eins og aðrir og þjónustu, en rafmagn eftir sérsamningi, og þá er líka upptalið. Allt annað fjármagn fer út úr landinu, og ekkert byggist upp til frambúðar í landinu sjálfu á vegum þessa fyrirtækis. En slík uppbygging innlendra fyrirtækja er sjálf meginundirstaða gróandi atvinnulífs og framfara. Menn beri þetta saman við atvinnurekstur Íslendinga sjálfra og áhrif hans í þjóðarbúinu, og þá sjá allir skynsamir menn, hvar við værum komnir eftir stuttan tíma, ef atvinnurekstur útlendinga með þessum hætti ætti að verða leiðin til þess að gera íslenzkt atvinnulíf fjölbreyttara framvegis.

Hvernig mundi mönnum lítast á að gera þannig út íslenzka bátaflotann t.d., að bátahluturinn rynni að mestu leyti út úr landinu? Enda er sannleikurinn sá, að þær þjóðir, sem verulega hafa byggt á atvinnurekstri útlendinga með þessu sniði, hafa lent í stórfelldum vanda. Ég vona, að landsmenn og ekkert síður unga fólkið, því að þess er framtíðin, sjái við þeim mönnum, sem kalla atvinnurekstur af þessu tagi íslenzkan atvinnurekstur og hvetja við hvert tækifæri til þess, að erlendir aðilar séu teknir inn í atvinnulíf á Íslandi.

Stjórnin heldur því á lofti, að ofveiði geri vart við sig og ekki sé endalaust hægt að auka aflamagnið. Gerum ráð fyrir þessu og horfumst í augu við það. En hvernig á að mæta þessu?

Á að láta íslenzkan atvinnurekstur og framkvæmdir víkja fyrir atvinnurekstri útlendinga, sem tæki við af sjávarútveginum? Á að snúa sér frá sjávarútvegi og treysta í vaxandi mæli á stóriðju erlendra manna? Sannarlega á ekki að meta þessu þannig, heldur með nýrri sókn til verndar fiskstofninum, þótt ólíkt sé þyngra fyrir en áður, þar sem Bretum hefur verið afhent svo að segja stöðvunarvald varðandi útfærslu landhelginnar, og svo með því að vinna meira og meira það stórkostlega hráefni, sem við fáum frá sjávarútveginum. En til þess að vinna fiskinn og þetta hráefni þarf fleira fólk að sjávarafurðavinnslunni og fleiri og betri vélar og aðstöðu og því meira fjármagn.

Gefur auga leið, hvernig lánapólitíkin, sem nú er rekin t.d., og aðrar ráðstafanir, sem í vændum eru í sömu stefnu til þess að rýma fyrir erlendri stóriðju, koma heim við þær kröftugu ráðstafanir til aukinnar fjölbreytni í sjávarútvegi, sem þyrfti að gera. En jafnhliða ber að styðja af alefli íslenzkt framtak í iðnaði, landbúnaði og öðrum atvinnugreinum, og mun verkefni sízt skorta. Sú kenning hefur því ekki við nein rök að styðjast, að svo sé komið fyrir okkur, að ekki séu aðrar leiðir fyrir hendi til að auka fjölbreytni í íslenzku atvinnulífi en þær að láta erlenda menn taka hér við atvinnurekstri og sætta sig við þá kosti, sem því fylgja.

Þjóðin verður að taka sig til og kveða niður úrtölumennina, sem nú leita fyrir sér með bölmóð sinn og úrtölur til afsökunar því að framlengja völd sín með blóðgjöf erlendis frá, þegar þeir með mistökum sínum hafa þrengt kosti íslenzkra atvinnuvega. En treystið því og því má treysta, að vandinn núna stafar ekki að neinu leyti af því, að íslenzkir atvinnuvegir eða þeir, sem að þeim standa, hafi brugðizt né ástæða sé til að vantreysta þeim framvegis. Vandinn er vegna sífelldra mistaka og rangrar stjórnarstefnu, sem verður að breyta, og það er ekkert síður hægt að búa við farsæla þróun atvinnu-, kjara- og efnahagsmála hér á landi en í öðrum nálægum löndum, ef skynsamlega er að farið.

En er þá hægt að leysa raforkumálin án þess að fá útlendinga til að reisa stóriðju í sambandi við þau.? Búrfellsvirkjun í Þjórsá án alúmínvers er talin hagstæðasta virkjun, sem til greina kemur, mjög hagstæð og miklu minna átak en Sogsvirkjanir á sinni tíð. Um virkjun þessa og þau kjör, sem hún býður, lét raforkumálaráðh., Ingólfur Jónsson, svo um mælt á Alþ. 4. maí s.l., að „ef alúmínverksmiðja yrði ekki reist, yrði að taka á sig lítið eitt dýrari raforku fyrstu árin, eftir að stórvirkjunin yrði gerð, ef það yrði án alúmínverksmiðju, á meðan verið er að byggja markaðinn upp.“ Þetta voru orð hæstv. ráðh.: lítið eitt dýrari raforku fyrstu árin. En til þess að réttlæta alúmínsamninginn, reiknar iðnmrh., Jóhann Hafstein, þetta allt öðruvísi í skýrslu frá sér, sem birzt hefur í Morgunblaðinu, og fær hann út miklu meiri mun á rafmagnsverði og lætur síðan reikna þann mismun með vöxtum og vaxtavöxtum 20 ár fram ítímann til þess að fá áhrifamikla tölu, rétt eins og þegar menn í gamla daga, þegar króna var króna, voru að reikna, hvað ein króna gæti orðið mikil fyrir sér með tímanum.

En þessi útreikningar iðnmrh. eru mjög á sandi byggðir. T.d. reiknar hann hluta af skattgreiðslum alúmínversins sem tekjur af raforkusölu eða m.ö.o. raforkuverðið frá hringnum 20% hærra en það á að vera. Þá byggir hann á föstu verðlagi á byggingartíma og rekstrartíma, þótt enginn viti um þróun verðlagsmála, og sízt hægt við slíku að búast, eins og nú er í pottinn búið. Ekki virðist gert ráð fyrir neinum nýjum fyrirtækjum, sem raforku kaupi, sem komið geti upp í staðinn fyrir stóriðju, ef ekki er í hana ráðizt. Auðvitað veit ráðh. ekkert, hve mikið leggja þarf í kostnað aukalega til þess að sjá alúmínverinu fyrir raforku frá varastöðvum, þegar truflanir verða í Þjórsá. Og fleira kemur til, sem hér verður ekki farið út í, sem gerir það að verkum, að ekkert er upp úr þessum samanburði leggjandi, bæði vegna þess, hve dæmið er skreytt og skrumkennt af ráðh. hendi, sent gefur forsendurnar í dæmið, og vegna þess, hve margt er í óvissu.

Og hvað sem þessu liður stendur óhaggað, að raforkumálin er hægt að leysa á mjög hagstæðan hátt án alúmínversins, og það má líka taka fram, að okkur er ætlað miklu lægra raforkuverð en Norðmenn fá í hliðstæðum samningunt við sömu aðila. Á næstunni munu menn heyra margvíslegar fortölur þeirra, sem fyrir þessu standa. Ýmist mun verða sagt, að hér sé á ferðinni mikil lyftistöng fyrir þjóðarbúið til þess að gera atvinnulífið fjölbreyttara. En inn á milli mun verðu útmálað, að þessi stóriðja verði ekki nema mjög lítill liður í þjóðarbúinu og alúmínverksmiðjan verði ekki fyrir neinum.

Upplýst er, að Norðmenn hafa talið 100 þús. tonna alúmínverksmiðju undirstöðu 10 þús. manna byggðarlags, þegar allt er talið, sem utan á hleðst. 60 þús. tonna verksmiðja ætti þá samkv. því að byggja utan um sig 5—6 þús. manna byggðarlag eða hafa áhrif sem því nemur og þó miklu meiri á byggingartímanum.

Á svæðinu frá Kollafirði að Straumsvík búa nú um 100 þús. manns, og inn á þetta svæði á að setja stóriðjuna. Á öllu landinu annars staðar búa 93 þús. manns. Líklega hefur ekkert land við annað eins byggðavandamál að stríða og Ísland. Norðmenn telja sig búa við mikinn vanda í þessum efnum, en í Stór-Osló búa þó aðeins um 17% af norsku þjóðinni. Þeir hafa sett útlendingum þau skilyrði blátt áfram fyrir stóriðjusamningum sínum, að stóriðjuverin hjálpuðu til að leysa þeirra byggðavandamál, sem þó er smávægilegt í samanburði við okkar. Hafa erlendir aðilar fallizt á að taka á sig auhakostnað þar til þess að uppfylla þetta skilyrði. Hér hefur öllum tilraunum til þess að fá alúmínverið staðsett utan mesta þenslusvæðisins verið gersamlega vísað á bug af stjórnarvöldunum, en haldið dauðahaldi í þá staðsetningu, sem sýnilega hefur verið búið að festa sig á strax í fyrrahaust, áður en málið var sýnt alþm. og látið eins og efna ætti til víðtækrar samvinnu um málið.

Nú er sagt, að byggðavandamálið megi leysa með því að setja á stofn atvinnujöfnunarsjóð, sem að styrkleika nemur þó aðeins broti af því, sem þurft hefði að gera, þótt engin alúmínverksmiðja hefði komið til. Upphaflega var talað um alúmínmálið eins og enginn vandi mundi verða með mannaflann, því að framboð yrði hér svo mikið af fólki. En eftir því sem þau mál voru nánar skoðuð, kom betur og betur í ljós, hvílíkur vandi þar er á ferðum, einkum þegar haldið er í það dauðahaldi að setja alúmínverið þar, sem þenslan er mest. Var þá gripið til þess örvæntingarráðs að veita hinum erlendu aðilum leyfi til þess að flytja inn erlent verkafólk eftir þörfum, og á að gripa til þess, ef ekki verður í tæka tíð búið að takmarka svo framkvæmdir og rekstur Íslendinga sjálfra, að vinnuafl verði tiltækt handa hringnum. En innflutningur erlends verkafólks hingað í verulegum mæli er enn nýtt, stórfellt vandamál, sem meira að segja meðal stórþjóðanna í Evrópu er orðið með erfiðustu viðfangsefnum.

Hvernig sem þetta er skoðað og sé raunsæi beitt, kemur það sama upp. Atvinnurekstur erlendra aðila jafnast aldrei að gagnsemi fyrir þjóðarbúið á við rekstur innlendra manna, og honum fylgja margar hættur og því meiri sem þjóðin er smærri. Við þurfum því að fara allra þjóða varlegast í þessu. Við þurfum alls ekki nú að gripa til þessa úrræðis fremur en fyrr, síðan endurreisn hófst, ekki til þess að eignast hagkvæmt raforkuver, og byggðavandann stóreykur þetta í stað þess að minnka hann. Fjölbreytni atvinnulífsins er lífsnauðsyn að auka, og það getum við gert eftir okkar leiðum, og alls staðar bíða framtakssamir menn með raunsæjar áætlanir um nýjan rekstur og eflingu þess atvinnurekstrar, sem fyrir er. Þess vegna ber nú að leggja alúmínmálið á hilluna, en snúa sér að því að virkja við Búrfell, og kemur þá grundvöllur að enn stærri virkjunum í Þjórsá síðar, eftir því sem skynsamlegt þykir. Beinum kröftunum að alhliða sókn til stuðnings íslenzku framtaki og íslenzku atvinnulífi, svo sem bezt hefur gefizt þjóðinni í hraðri sókn hennar frá fátækt til bjargálna. Fylgjum þeirri meginstefnu sem fyrr að taka lán erlendis til þess að byggja upp fjölbreyttari og arðvænlegri atvinnurekstur og alhliða framfarir. En reynslan sýnir, að á slíkum lántökum hefur okkur aldrei orðið hált, enda sé fénu ráðstafað af hagsýni og með fyrirhyggju.

En allt verður fyrir gýg unnið, nema snúizt verði gegn verðbólgunni, sem óðfluga grefur undan íslenzku atvinnulífi. Það verður ekki gert nema með því, að ríkisstj. fari frá og stokkað verði upp í íslenzkri pólitík. Þessi ríkisstj. hefur enga möguleika til þess að gangast fyrir þeirri stefnubreytingu í atvinnu- og efnahagsmálum, sem verður að koma til framkvæmda, né traust til þess að hafa þá forustu, sem þarf að koma til. Verðbólgan verður ekki læknuð nema með nýjum, jákvæðum aðferðum og viðtæku samstarfi, þar sem kjarninn er sá, að það sitji fyrir, sem mestu skiptir. Skynsamlegur áætlunarbúskapur, sem í framkvæmdinni byggist á samstarfi ríkisvaldsins og annarra þjóðfélagsafla, er eina færa leiðin út úr því öngþveiti, sem nú er í komið, og eina færa leiðin til þess að draga úr og síðan stöðva verðbólguna. En með stöðvun verðbólgunnar leysast mörg vandamál, sem nú virðast óleysanleg, svo sem fjárhagur ríkissjóðs og vaxandi fjölda fyrirtækja, að ógleymdu því, að þegar svo væri komið, mundi reynast mögulegt að tryggja almenningi eðlilegar kjarabætur með vaxandi þjóðartekjum. Sterkur þáttur í framkvæmd þessarar stefnu verður að vera náið og öflugt samstarf ríkisvaldsins og einkaframtaks og félagsframtaks ílandinu um það, hvað skuli sitja fyrir, hvað skuli taka fyrir og hvað ríkisvaldið þarf að gera og hvað einstaklingar og félög til þess að tryggja öfluga framkvæmdasókn, sem markvisst miðar að því að gera íslenzkt atvinnulíf fjölbreyttara og tryggara. Samræma verður hiklaust og með samstilltu átaki athafnir ríkisvaldsins og þar með einnig bankanna annars vegar og einstaklinga og félaga hins vegar, svo að það komist í framkvæmd og verði afdráttarlaust stutt, sem mestu máli skiptir. Sem sagt, það þarf meira en orðin tóm. þess vegna verður það að vera ljóst, að það er hvorki samstarf né forusta í þessum skilningi, að mönnum sé hóað saman einu sinni eða tvisvar á ári til þess að hlýða á áróðursræður ráðh., jafnframt því sem hert er á rekstrarfjárlánaskrúfunni og verðbólgan fær í friði að naga rætur fyrirtækjanna. Á hinn bóginn ætti það að vera þýðingarmikill liður í framkvæmd þessarar Ilýju stefnu að bjóða út unga fólkinu í landinu, bæði í einkarekstri, félagsrekstri og opinberri þjónustu, til þess að glíma við ný verkefni eftir nýjum leiðum, því að einmitt unga fólkið er líklegra en aðrir til þess að geta rifið sig út úr þvarginu um einskis nýtar örvæntingarráðstafanir til þess að fleyta frá degi til dags og snúið sér að kjarnanum, hjálpað til að brjóta blað og byggja frá grunni, valið heppileg verkefni og séð um, að þau komist í framkvæmd, en verði ekki vegna sérhagsmuna og flókinna, úreltra vinnubragða látin víkja fyrir því, sem sízt skyldi.

Núv. ríkisstj. hefur ekki skilyrði til þess að gangast fyrir því, sem gera þarf, og vill ekki heldur beita heim jákvæðu vinnuaðferðum, sem taka þarf upp til þess að samstilla kraftana til sameiginlegra átaka við vandamálin. Ríkisstj. hefur fyrirgert rétti sinum til að sitja með því að ganga gersamlega íberhögg við fyrirheit sín og loforð við síðustu almennar alþingiskosningar. Ríkisstj. nýtur alls ekki trausts þjóðarinnar ívandasömum samskiptum við aðrar þjóðir. Ríkisstj. ber því að fara frá, og er það nauðsynlegt upphaf þeirra endurbóta, sem gera verður, og það vill Framsfl. leggja áherzlu á með þessari vantrauststill. En knýi ríkisstj. þinglið sitt til að fella vantrauststill. með það fyrir augum að fara ekki frá nú þegar, krefst Framsfl. þess eigi að síður, svo að uppfylltar verði lágmarkskröfur um velsæmi í lýðræðislandi, að ríkisstj. gangist fyrir því, að Alþ. verði rofið og gengið verði til almennra alþingiskosninga. þetta er skýlaus krafa og lágmark þess, sem gera þarf, svo að þjóðin fái komið vörnum fyrir sig, áður en enn þá lengra verður haldið út í fen verðbólgunnar. Og þetta er skylt að gera, áður en til greina gæti komið að fara inn á þá braut að gera samninga um erlenda stóriðju í landinu. En með slíkum samningum færu stjórnarflokkarnir langt út fyrir það umboð, sem þeim var gefið við síðustu alþingiskosningar. Krafan er því þingrof og kosningar, og að henni standa ekki aðeins framsóknarmenn, heldur fólk úr öllum stjórnmálaflokkum landsins og utan flokka, sem vill ekki láta misnota trúnað sinn lengur á þann hátt, sem gert hefur verið, og því síður til þess að gera nú 15 ára samning um erlendan stóratvinnu rekstur á Íslandi, sem ekki var svo mikið sem imprað á síðast, þegar alþm. fengu umboð sín.