25.03.1966
Sameinað þing: 33. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 97 í D-deild Alþingistíðinda. (2762)

159. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Núv. ráðh. er fjarlægur sá hugsunarháttur, sem sumir andstæðinga okkar eru haldnir, að til séu óhagganleg sannindi um lausn allra vandamála, kenningar, sem í raun réttri geri þeim stjórnendum, sem slíka opinberun hafa hlotið, skylt að halda völdunum, hvað sem vilja kjósenda líður. Því miður eru það ekki yfirlýstir kommúnistar einir, sem eru helteknir þvílíku kredduofstæki. Það lýsir sér ótvírætt í þessum orðum hv. alþm. Helga Bergs, sem hann mælti á flokksstjórnarfundi framsóknarmanna hinn 15. marz s.l. og hljóðuðu svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Á þessu ári fara fram sveitarstjórnarkosningar, sem verða munu örlagaríkari en slíkar kosningar eru allajafna. Úrslít þeirra munu í verulegum atriðum móta vígstöðuna við alþingiskosningarnar að ári, en þær verða prófraun á þingræðisfyrirkomulag okkar. Fái ríkjandi meiri hl. ekki verðskuldaða hirtingu þá, þá hefur það fallið á prófinu.“

Þetta sagði Helgi Bergs. Enginn skyldi ætla, að hinn opinskái alþm., Helgi Bergs, væri einn í Framsfl. um þessa skoðun sína. Hinn 20. marz var í einni ritstjórnargrein Tímans komizt svo að orði:

„Kjördæmabreytingin seinasta var miðuð við það m.a., að Sjálfstfl. gæti haft verzlunaraðstöðu í sem flestar áttir.“

Þetta voru orð Tímans. Auðsætt er, að enn hafa framsóknarmenn engu gleymt og ekkert lært. Í huga þeirra býr ekki sú sannfæring, að kjördæmaskipun til Alþ. beri að haga svo, að vilji kjósenda njóti sín sem allra bezt, heldur hljóti hún að miðast við hagsmuni þeirra flokka, sem völdin hafa hverju sinni. Við sjálfstæðismenn höfum ætíð kappkostað að tryggja, svo sem unnt hefur verið, jafnrétti kjósenda. Andstaðan gegn þessu hefur fyrst og fremst komið frá framsókn armönnum, ekki sízt vegna þess, að þeir hafa talið þingræði og lýðræði falla á prófinu, ef Framsókn væru ekki tryggð völdin.

Sjálfstæðismenn vita, að það erum við þm., sem eigum samkv. þeim reglum, sem stjórnarskrá lýðveldisins setur, að ganga undir prófraun hjá kjósendum, en ekki þeir hjá okkur. Þegar þar að kemur, munu kjósendur fara eftir sínu eigin mati. Ólíklegt er annað en þeir finni, hver munur er orðinn á kjörum almennings frá því, sem áður var. Menn óttast að vísu sífelldar verðhækkanir og þar af leiðandi vaxandi verðbólgu. Gegn verðbólgu vinnur hver og einn bezt með því að kunna sér hóf, haga kröfugerð og framkvæmdum svo, að ekki hljóti að leiða til verðbólguvaxtar. En hingað til hafa aðvaranir verkað minna en skyldi, og stoða lítt gagnkvæmar ásakanir í þeim efnum. Allir þingflokkarnir hafa glímt við verðbólguna á síðasta aldarfjórðungi. Má raunar fara mun lengra aftur í tímann. Allt frá tímum fyrri heimsstyrjaldarinnar hefur verið háð viðureign við jafnvægisleysi í efnahagsmálum hér á landi með gengissveiflum eða öðrum neyðarráðstöfunum á nokkurra ára fresti. Jafnvægisleysið hefur leitt af þeirri ferð frá allsleysinu, sem lengst af hefur einkennt þá öld, sem við lifum á.

En þótt ekki hafi tekizt að stöðva hér vöxt verðbólgu eða skapa hér fullt jafnvægi, hefur núv. ríkisstj. heppnazt að forða frá þeim afleiðingum verðbólgu, sem alvarlegastar eru taldar: annars vegar örbirgð þeirra, sem safnað hafa fé til efri ára, en glatað verðmæti þess vegna gildisrýrnunar gjaldmiðilsins, og hins vegar stöðvun framkvæmda og hagvaxtar af sömu orsökum.

Allir eru sammála um, að aldrei hefur verið betur að öldruðu fólki búið en einmitt hin síðari ár. Umbætur í tryggingarmálum, ekki sízt fyrir forustu ríkisstj., hafa skapað þar þáttaskil.

Engum getur dulizt, að hagnýtar framkvæmdir hafa aldrei verið meiri hér á landi en nú að undanförnu. Á sama stendur, hvert litið er þessu til staðfestingar. Horfum á sjávarútveginn, sem stjórnin er sökuð um að hún kunni ekki að meta. Í raunverulegum verðmætum var fjármunamyndun í honum að meðaltali 50% meiri árlega 19601965 en 1956—1959. Góð aflabrögð og hagstætt verðlag áttu sinn þátt í þessari stórkostlegu aukningu, en hún hefði ekki orðið nema fyrir forgöngu ríkisstj., m.a. um sambærilega aukningu stofnlána. Og hvað sem verðbólgunni liður, og hún hefur hættur í för með sér, getur hún aldrei gert að engu þá ótrúlegu aukningu þjóðarauðs, sem fólgin er í margháttuðum mannvirkjum innanlands. Á aðeins 7 árum, eða frá árslokum 1958 til ársloka 1963, hefur þjóðarauðurinn í mannvirkjum, vélum og tækjum aukizt úr 28 þús. millj. kr. í 41 þús. millj. kr. eða um 45%. Er þá reiknað á föstu verðlagi. Þessi aukning hefur að heita má öll sprottið af innlendum sparnaði, þar sem heildarskuldir þjóðarinnar við útlönd hafa miðað við þessa aukningu lítið sem ekkert hækkað á þessu tímabili eða aðeins um 500 millj. króna.

Það var orð að sönnu, sem Lúðvík Jósefsson sagði á Alþ. hinn 15. des. s.l.:

„Ég tel, að aldrei áður hafi þjóðin haft jafnmikla og góða möguleika til mikilla framkvæmda oq framfara.“

Þessi orð Lúðvíks áréttaði hinn sama dag flokksmaður hans, Magnús Kjartansson, er sagði: „Við þurfum sannarlega ekki að blygðast okkar í samanburði við aðra fyrir þá efnahagsþróun, sem hér hefur orðið á undanförnum áratugum. Og efnahagslega séð erum við betur færir til þess en nokkru sinni fyrr að ráðast í ný verkefni.“

Þetta var yfirlýsing Magnúsar Kjartanssonar. Eins og Einar Olgeirsson útskýrði skörulega hér á Alþ. hinn 16. þ. m., er hið ánægjulegasta við þessa efnahagsþróun, að hún hefur ekki orðið einhverjum fáum útvöldum einum til gagns, eins og mátti skilja af orðum síðasta hv. ræðumanns, heldur eins og Einar sagði:

„Verandi núna með fremstu ílöndum veraldar hvað efnahag snertir, a.m.k. árstekjur almennt, þótt kannske ríkidæmið sé ekki á við aðrar þjóðir.“

Þetta sagði Einar Olgeirsson.

Þessir vitnisburðir hljóða raunar nokkuð á annan veg en við heyrum frá sömu herrum í kvöld og höfum oftast áður heyrt. En sízt skyldum við hneykslast á því, þótt þeir endist ekki ætið til að segja ósatt, heldur meta það við þá, þegar þeir vilja hafa það, sem sannara reynist, enda komast þessir menn að sjálfsögðu ekki hjá því að viðurkenna, að vöxtur þjóðartekna hefur aldrei verið til langframa örari en hin allra síðustu ár. Láta mun nærri, að þjóðartekjur hafi vaxið um 60% frá árinu 1953 þangað til 1965 á föstu verðlagi, og hafa launþegar í heild fyllilega haldið fyrra hlutfalli sínu í þeim vexti. Þessi mikli vöxtur er einsdæmi ísögu þjóðarinnar og er t.d. hin síðari ár um það bil tvöfalt meiri en til jafnlengdar 1956 og 1958.

Þrástagazt er raunar á því, að kaupgeta tímakaups verkamanna hafi minnkað. Sú fullyrðing hefur ætið verið villandi, þó að Eysteinn Jónsson væri að rifja hana upp í ræðu sinni áðan, og fær nú með engu móti staðizt, því að síðustu skýrslur sanna þá breytingu, sem á er orðin. Hinn 1. marz s.l. var kaupmáttur tímakaups fyrsta taxta Dagsbrúnar 14.8% hærri en 1. júní 1964. Hjá vikukaupsmönnum á sama taxa var þessi hækkun þó enn þá meiri eða milli 20 og 25%. Um það verður ekki deilt, að þessi breyting á rætur sínar að rekja til júnísamkomulagsins 1964, sem hv. alþm. Hannibal Valdimarsson hafði á sínum tíma drengskap til að viðurkenna hlutdeild ríkisstj. í.

Óþarft er að deila um, að ótalmargt stendur til bóta hér eins og hvarvetna annars staðar. En eru horfur á því, að betur takist til, þótt hv. stjórnarandstæðingar fái aukin völd? Almenningur hefur ekki gleymt reynslunni af þeim á árunum frá 1956—1958. Tilburðir þeirra nú minna á hið fornkveðna:

„Afturgengin Grýla gægist yfir mar,

ekki verður hún börnunum betri en hún var.“

Í þingbyrjun taldi formaður Framsóknar upp nokkur ráð, sem verða mættu til að létta af þokunni, sem hann uggði að byrgja mundi sumum sýn. Þrátt fyrir þau úrræði hefur henni augljóslega ekki létt af hugskotssjónum framsóknarmanna. Máltækið segir: „Margt býr í þokunni.“ Enda heyrast nú hinir yngri í flokknum hrópa, eins og nýlega var skráð í Tímanum: „Kallið er komið.“ Og hinir eldri kyrja: „Ó, blessuð stund, er burtu þokan líður.“

Alþjóð horfir furðu lostin á þennan þokuvillta lýð, því að yfir öðrum skin sólin í heiði. Enn sem fyrr vita menn þó, að á Íslandi er allra veðra von. Skýrsla Jóns Jónssonar um þorskstofninn er alþjóð kunn. Í skýrslu Jakobs Jakobssonar fiskifræðings, dags. 21. marz þ.á., er þess getið, að síldveiðarnar norðanlands og austan hafi í vaxandi mæli byggzt á síld af norskum uppruna. Hann birtir töflu, sem sýnir, að hlutur íslenzku síldarinnar hafi minnkað úr 63% 1962 í aðeins 6.5% á s.l. ári. .Jakob segir orðrétt:

„Full ástæða er til að ætla, að á sumri komanda muni síldaraflinn norðanlands og austan eigi síður en á s.l. sumri og hausti byggjast á göngum norska síldarstofnsins á Íslandsmið.“

Þessar skýrslur vísindamanna sanna ævaforna reynslu Íslendinga, að valt er að treysta því, að góðæri vari að eilífu. Þess vegna sameinast yfirgnæfandi meiri hl. landsmanna um að nota góðærið til þess að geta verið betur búinn erfiðari árum. Í þeirri viðleitni liggur nú mest við, að í framkvæmd verði hrundið hinum vel undirbúnu og hagkvæmu ráðagerðum um stórvirkjanir og stóriðju til að koma nýjum stoðum undir hagsæld þjóðarinnar.

Fjölyrt hefur verið íkvöld um, að það væri lítilsvirðandi ákvæði í þessum samningum, að hinum svissneska viðsemjanda verði heimilt að bera hugsanlegan ágreining við ríkisstj. undir alþjóðlegan gerðardóm þó að dótturfélag hins svissneska viðsemjanda sé búsett hér, er hinn svissneski samningsaðili sjálfur búsettur erlendis, og hann ber ábyrgð á öllum skuldbindingum dótturfélagsins. Gerðardómsákvæðin eru í samræmi við alþjóðlegan samning, sem 33 ríki, þ. á m. öll Norðurlöndin, hafa undirritað. Réttarríki er engin minnkun að því að taka þátt íslíkum samningum. það hefur ekkert að óttast, enda er hér berum orðum tekið fram, að dæma skal eftir íslenzkum lögum. Á sínum tíma beitti Hermann Jónasson sér fyrir, að Ísland gerðist aðili mannréttindadómstólsins í Strasbourg. Engu að síður töldu framsóknarmenn það svívirðilegt, er Páll nokkur Magnússon, nú þeirra uppáhald, reyndi að bera ágreining um stóreignaskatt undir þann dómstól. Úrslit þess málstilbúnaðar urðu ekki til þess að rýra veg hins íslenzka réttarríkis, heldur til þess að styrkja hann.

Hjal hinna og þessara um, að stóriðjan ógni sjálfstæði þjóðarinnar, er lítils virði miðað við skoðun hinnar gömlu sjálfstæðishetju, bóndans Péturs Ottesens, þess manns, sem lengst allra hefur setið á Alþ. og nú hefur af sinni ómetanlegu reynslu eindregið mæli með álbræðsluráðagerðunum. Þá er og algerlega rangt hjá hv. þm. Eysteini Jónssyni, að ekki hafi verið rætt um stóriðju í síðustu kosningum. Í stjórnmálayfirlýsingu Sjálfstfl. fyrir þær var undirbúningur hennar talinn meðal hinna veigamestu atriða og malið margrætt á fjölda funda víðs vegar um landið.

Meiri hl. Alþingis mun fella þá vantrauststillögu, sem nú er til umræðu, og ekki hlaupast frá þeirri ábyrgð, sem traustsyfirlýsing kjósenda við síðustu kosningar lagði honum á herðar. — Góða nótt.