09.02.1966
Sameinað þing: 26. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 112 í D-deild Alþingistíðinda. (2769)

71. mál, skýrslugjafir fulltrúa Íslands á þjóðaráðstefnum

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Hér er hreyft merkilegu máli, og ég er því sammála, að það væri mjög æskilegt, að oftar yrði rætt um utanríkismál á Alþ. heldur en gert hefur verið, og til þess þurfi að finna form. Mér finnst eðlilegt, að þingflokkar og ríkisstj. beri saman ráð sín um það. Það er einnig mjög æskilegt, ef hægt er að endurvekja starf utanrmn., sem eins og hv. tillögumaður gat um hefur verið lítt virk nema sem venjuleg þn. undanfarin ár af ástæðum, sem óþarfi er að rekja hér. En mér finnst rétt, að það komi fram, að ríkisstj. hefur ekki haldið neinum skýrslum þm. fyrir Alþ., því að eftir því sem ég bezt veit, er það ekki tíðkanlegt og hefur ekki verið, að þm., sem hafa farið á slíka fundi, semdu skýrslur. Ég man það, að ég og hv. tillögumaður ásamt einum nú látnum þm. fórum á fyrsta fund Sameinuðu þjóðanna, sem Íslendingar tóku þátt í. Ég man ekki eftir því, að við semdum neina skýrslu né værum krafðir neinna skýrslna, er við komum heim, og ég hygg, að sá háttur hafi haldizt. Ég segi ekki, að það sé til fyrirmyndar. Ég held þvert á móti, að það væri eðlilegt, að þm. gerðu grein fyrir í stórum dráttum a.m.k. þeim málum, sem þeir hafa haft afskipti af. Hitt má segja, að það að gefa almennt yfirlit hafi tiltölulega litla þýðingu. Eins hygg ég, að það sé ekki venja, að þm. á Norðurlandaráðsfundum sendi skýrslu til ríkisstj. það hefur þá verið tekið upp, eftir að ég hætti að mæta þar sem þm. Ég hef ekki séð slíkar skýrslur.

En þó að ég hyggi, að það sé svo, að þm. hafi yfirleitt ekki sent skýrslur, þegar þeir hafa farið á slíka fundi, og það stendur á sama, frá hvaða flokki þeir hafa verið, sá háttur hefur ekki komizt á, þá er hitt föst venja, að embættismenu senda ríkisstj. skýrslur um sínar ferðir, og sumt af þeim skýrslum má segja, að hafi erindi til a.m.k. utanrmn. Aðrar eru þess eðlis, að þær er ekki hægt að láta fara úr stjórnarráðinu, vegna þess að þar er fjallað um sérstök trúnaðarmál. Það er eðlilegt. Þarna verður að gera nokkurn skilsmun á. En um leið og ég lýsi því, að ég er samþykkur því, að þetta verði athugað, og tel, að merku máli sé hreyft, má ekki ríkja sá misskilningur, að þm. hafi yfirleitt sent slíkar skýrslur til stjórnarinnar og hún síðan á þeim legið. Þessi háttur hefur aldrei komizt á, að því er ég bezt veit. En það er fullkomlega ástæða að athuga, hvort ekki sé ástæða til að breyta því. Hitt sjáum við svo að vísu af því, sem hv. tillögumaður las upp, að það hefur auðvitað ósköp litla þýðingu að semja skýrslu um Norðurlandaráðsfund, sem haldinn er í Reykjavík í febr., og senda hana norska þinginu í okt. haustið 1965 eða danska þinginu í jan. 1966. Það er orðið ósköp í það slegið, þegar slík skýrslugerð er viðhöfð. Það er frekar fyrir síðasakir heldur en efnis, sem slík skýrsla er gerð. Annað mál er, eins og Svíarnir hafa, að þeir senda skýrsluna nokkuð skjótlega, samkv. því sem tillögumaður upplýsti. Finnar sýnast hafa ú þessu svipaðan hátt og við, að þeir sennilega semja enga skýrslu og senda enga skýrslu.

Að ekki er þarna minnzt á okkur, kemur sennilega af þessu, sem við verðum að átta okkur á og ég hef raunar áður hreyft, að því er ég hygg, að til langfruma er mjög takmarkað gagn af þátttöku í Norðurlandaráði af hálfu Íslendinga, nema því aðeins að við kostum því til að láta fleiri embættismenn vinna úr þeim gögnum, sem þar eru fram lögð, og leggja fram gögn af okkar hálfu. Við sjáum, að það er orðinn heill hópur, sem hin ríkin hafa til undirbúnings þessum fundum í — hvað við eigum að kalla það? — skrifstofum hvers ríkis fyrir sig, sem starfa að þessum málum. Það vakir ekki fyrir mér, að við eigum að fara að koma upp slíkum stofnunum. Á því höfum við engin efni. En ég held, að það sé alveg aðkallandi, að við látum 1—2 menn, t.d. í utanrrn., taka það alveg sérstaklega að sér að fylgjast með því, sem þarna gerist, vinna úr miklum gögnum, sem þarna eru, og sjá til þess, að Íslendingar sendi upplýsingar til þessarar stofnunar. Yfirleitt er það ekki gert nú. Má raunar segja, að það skipti þá ekkí hina ákaflega miklu máli, þó að þeir heyri ekki, hvað Ísland hafi til mála að leggja eða hvernig þessu sé háttað ber. Við höfum sérstöðu. En þó er lakara, að það er yfirleitt ekki svarað, yfirleitt ekki gerð grein fyrir því, hvernig málum er fyrir komið hjá okkur. En látum það vera. Hitt er verra, að ég er hræddur um, að það sé ekki til neinnar hlítar unnið úr þeim margföldu upplýsingum, sem þarna koma fram og við, sem höfum þarna mætt og lítillega reynt að fylgjast með þá daga, sem við höfum þarna setið, sjáum að geta orðið okkur að margvíslegu gagni. Það er að vísu svo, að ef verið er að vinna að sérstöku máli hér, vita menn, að þarna er hægt að fá upplýsingar. En þarna er líka hvöt til margháttaðrar löggjafar, ef því væri beint til réttra stjórnarvalda, — hvöt, sem ég er hræddur um, að þau fái ekki, af því að menn fylgjast einfaldlega ekki sökum mannaflaskorts með því, sem þarna er verið að vinna, sem engan veginn er jafnlítilvægt og stundum er látið og ætla mætti eftir árangrinum af hverjum einstökum fundi.

Ég vildi láta þessar athugasemdir koma hér fram, ekki vegna þess, að ég sé hv. frsm. ósammála, heldur til fyllingar því og til viðbótar því, sem hann sagði.