09.02.1966
Sameinað þing: 26. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í D-deild Alþingistíðinda. (2770)

71. mál, skýrslugjafir fulltrúa Íslands á þjóðaráðstefnum

Flm. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forsrh. fyrir vinsamlegar undirtektir undir þetta mál. Varðandi það, sem hann sagði um skýrslur, sem gefnar eru ríkisstj., veit hann þar um náttúrlega betur en ég. Ég gekk út frá því sem nokkurn veginn gefnu, að þeir, sem almennt sæktu ráðstefnur af Íslands hálfu, hvort heldur eru stjórnskipaðir menn, þm. eða aðrir eða kosnir af þinginu, gæfu ríkisstj. með einhverjum hætti skýrslu þar um. En nú hefur hæstv. ráðh. upplýst, að það muni ekki tíðkast, að þm. gefi slíkar skýrslur, og var mér raunar kunnugt um það að því er Norðurlandaráð snertir, en hins vegar munu embættismenn gefa skýrslur. Ég minnist þess með nokkuð öðrum hætti en hæstv. forsrh., hvernig skýrsla var gefin um fyrsta fund Sameinuðu þjóðanna, af því að ég man ekki betur en ég a.m.k. sæti þó nokkuð lengi við að skrifa slíka skýrslu undir forustu þess manns, sem þá var formaður sendinefndarinnar, og ég vona, að hún hafi borizt rétta boðleið. En það, sem hæstv. forsrh. sagði um þetta atriði, undirstrikar raunar aðeins það, að hér er þörf á nánari athugun og rétt að taka þessi mál öll til meðferðar.

Svo vil ég bara að lokum leyfa mér að undirstrika alveg sérstaklega það, sem hann sagði varðandi þátttöku Íslands í Norðurlandaráði. Ég held, að við getum ekki algerlega vansalaust haldið áfram að taka þátt í því starfi, sem þar er unnið, án þess að senda svör við þeim bréfum, sem send eru, þar sem óskað er umsagna um mál. Það er afskaplega ömurleg tilfinning að sitja á nefndarfundum, þar sem fjallað er um hin ýmislegu mál og þar sem fyrir liggja umsagnir frá öllum hinum Norðurlandanna, en kannske ekki ein einasta frá Íslandi. Hitt er alveg ljóst, að hér verður að fara vissan meðalveg, vegna þess að við getum ekki kostað til eins miklu og hinar þjóðirnar. En við verðum, úr því að við tökum þátt í þessu, að sinna þessu með heldur virkari hætti en verið hefur, og það gladdi mig alveg sérstaklega, að hæstv. forsrh. lýsti einmitt fullum og alveg sérstökum skilningi á því.