14.12.1965
Neðri deild: 30. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 468 í B-deild Alþingistíðinda. (278)

89. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál

Frsm. 2. minni hl. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa langa framsögu um álit okkar hv. 1. þm. Norðurl. v. um þetta frv. N. hefur ekki orðið sammála, eins og komið hefur hér fram, og við stöndum að nál., sem lagt hefur verið fram á þskj. 174.

Þegar málið var til 1. umr., gat ég með örfáum orðum um þá afstöðu okkar Framsfl.-manna, að við mundum verða á móti þessu frv., og ég get að langmestu leyti vísað til þess, sem ég þá sagði um þær ástæður, sem því valda, ég ætla ekki að endurtaka það hér. Við erum mótfallnir þessum skatti vegna þess, að hann eykur dýrtíðina. Við teljum, að nú sé þörf á sterkum ráðstöfunum til þess að draga úr verðbólgunni, en ekki heppilegt að gera ráðstafanir slíkar sem þær, sem þetta frv. leiðir til, að auka verðbólguna. Það er sagt, að þetta frv. muni ekki hafa mikil áhrif, ½% þykir ekki há tala, og það má vissulega til sanns vegar færa á þessum tímum. En þó stefnir það í þá áttina, sem við teljum óheillavænlega. Það hefur verið talað um, að gjaldið mundi gefa 35 millj. kr. í ríkissjóð, en þegar ég talaði hér við 1. umr., óskaði ég eftir upplýsingum um það frá hæstv. ráðh., hvaða heildartekjur ríkissjóður mundi hafa af þessu gjaldi, þ.e.a.s. þegar búið væri að reikna þær tekjur af söluskatti, sem óhjákvæmilega leggjast ofan á þetta gjald, að því er til innflutningsins tekur. Þessari fsp. hef ég ekki fengið svarað þrátt fyrir nokkrar eftirgrennslanir. En ég tel, að það sé eiginlega lágmarkskrafa fyrir hv. alþm. að vita, hvað þeir eru að samþykkja, þá sem það ætla að gera. Þess vegna vildi ég mælast til þess, ef það þætti ekki ofverk, að það yrði upplýst um þær áætlanir, sem um þetta hafa verið gerðar, því að þær hljóta að hafa verið gerðar.

Þá er enn fremur augljóst, að skatturinn kemur til með að hafa hækkandi áhrif á vöruverðið, einnig að því er snertir það, að álagning mun leggjast á hærri stofn. Það eru að vísu ekki ríkistekjur, en það eykur framfærslukostnaðinn, og mér finnst, að það ættu einnig að liggja fyrir einhverjar athuganir á því, hvaða heildarafleiðingar setning þessara laga mundi hafa fyrir vöruverðið, og ég tel, að þm. þurfi að vita þetta. Ég mundi a.m.k. mjög gjarnan vilja vita þetta, ef ég ætlaði mér að ljá þessu máli lið.

Þessi tekjuöflun kemur í staðinn fyrir ferðaskatt, sem ráðgerður var og var afturkallaður vegna þess, hve hann var óvinsæll og hversu mikið af mótmælabréfum gegn honum barst til hæstv. ríkisstj. Ég er ekki frá því, að móttökur þessa skatts verði eitthvað svipaðar. Það er ekki langt síðan hann sá dagsins ljós hér á hv. þingi, en þó hygg ég, að nú þegar hafi borizt hæstv. ráðh. mótmæli gegn honum, og mér er a.m.k. kunnugt um það, að samtök íslenzkra námsmanna erlendis hafa sent mótmæli gegn þessum skatti, og mér er alls ekki grunlaust um, að fleiri muni á eftir koma. Ég talaði um það við 1. umr., að þessi mundi geta orðið raunin á, og leyfði mér að vara hæstv. ráðh. við því að halda áfram með þennan skatt, taldi mig hafa ástæðu til þess að vonast til, að hann yrði einnig afturkallaður eins og farmiðaskatturinn, þegar sýnt yrði, hvaða móttökur hann fær. Nú er séð, að svo verður ekki gert, þar sem talið er, að óhjákvæmilegt sé að afla þessara tekna til þess að afgreiða greiðsluhallalaus fjárlög, þrátt fyrir það að hér er um hreina smámuni að ræða samanborið við heildarniðurstöðutölur fjárl. þessu sinni, og því er sýnt, að haldið verður áfram með þessa tekjuöflun, og við framsóknarmenn munum verða á móti þessu frv.