03.11.1965
Sameinað þing: 9. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í D-deild Alþingistíðinda. (2785)

21. mál, samdráttur í iðnaði

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Þessi lítilfjörlega till., sem hér er til umr., er afturganga frá síðasta þingi. Það er látið að því liggja, að mikill samdráttur sé í iðnaðinum, og ekki nóg með það, heldur séu mestar horfur í því, að hann haldi áfram til eilífðarnóns. Svona var þessi barlómur á síðasta þingi líka. Það voru lítil rök færð að þessu þá, og mig furðar enn þá meira á því nú, þegar flm. hafa haft sannarlega nægan tíma til þess að reyna að gera sér sjálfir einhverja svolitla grein fyrir því máli, sem þeir flytja hér, að það skuli ekki koma fram meiri rökstuðningur en hér hefur enn komið fram fyrir því, að nauðsyn sé á einhverri sérstakri rannsókn í sambandi við samdrátt í iðnaðinum, og látið að því liggja eins og ekkert sé gert eða hafi verið gert af hálfu þeirra, sem að þessum málum vinna, ekki aðeins ríkisstj., sem ekki er kannske fyrst og fremst aðili þarna, en þeim öðrum mönnum, sem eru í fyrirsvari fyrir iðnaðinn. En það er sannarlega langt í frá, að það hafi ekki margvíslegar aðgerðir átt sér stað á sviði iðnaðarins á undanförnum árum, sem einmitt hafa sérstaklega verið miðaðar við það að mæta þeim erfiðleikum, sem óhjákvæmilega hafa mætt íslenzkum iðnaði á síðustu árum og eru ákaflega skiljanlegar. Ég sé þess vegna ástæðu til þess að fara nokkrum orðum um þessi mál almennt, áður en till. fer til n., og gæti þá orðið til nokkurrar víshendingar í sambandi við þá athugun, sem færi fram í nefndinni.

Með auknu innflutningsfrelsi, eins og bent hefur verið á, hefur komið inn á markaðinn mikið af vörum og meira vöruval orðið til heldur en hér var áður, sem að ýmsu leyti getur gert iðnaðinum nokkra erfiðleika á einstökum sviðum, þannig að þeir eru verulegir. En aðalástæðan fyrir öllu þessu var sú, að iðnaðurinn var ekki nægilega undirbúinn til þess að taka á móti þeim breytingum, sem fólust í frjálsari innflutningi og frjálsari viðskiptum. Honum höfðu verið með fjárfestingarhömlum og innflutningshömlum um langt árabil meinað að koma upp hentugu húsnæði t.d. til framleiðslunnar, og enn er fjargviðrazt yfir því, þegar verið er að byggja nýtt iðnaðarhúsnæði hér í bænum nú á síðustu árum, og honum var einnig meinað með sömu aðferðum að afla nauðsynlegra tækja til framleiðslunnar. Þörfin fyrir nýjungar, „móderniseringar“, í framleiðslunni var því ákaflega mikil, þegar samkeppnisaðstæður breyttust eftir 1960, og á árunum eftir 1960 hefur ýmislegt verið gert til þess að bæta úr því, sem látið var að verulegu leyti undir höfuð leggjast á árunum fyrir 1960. Iðnlánasjóður hefur verið stórlega efldur. Fjárfestingarhömlum hefur verið aflétt. Frelsi hefur ríkt í véla- og tækjakaupum að mestu leyti. Verið er að breyta lausaskuldum iðnfyrirtækjanna í föst lán. Og teknar eru til starfa á þessu sumri endurskipulagðar rannsóknastofnanir í þágu iðnaðarins og margt fleira, sem ég skal víkja að.

Þegar menn eru að tala um að rannsaka samdráttinn, ætti fyrst og fremst að leiða rök að því, hvað samdrátturinn er mikill, hvað hefur ekki verið gert nema ákaflega lauslega, og í öðru lagi, þegar verið er að tala um að reyna að finna orsakir að samdrættinum og hvaða ráðstafanir megi gera, ættu menn að huga að þeim ráðstöfunum, sem verið er að gera og gerðar hafa verið og ég skal víkja að. Það er erfitt að átta sig á, hve samdrátturinn í iðnaðinum er mikill, vegna þess að það er erfitt að fá skýrslur um það. En það er þó hægt að gera sér óljósa grein fyrir starfsmannahaldi í helztu iðngreinum samkv. úrtaksrannsóknum Hagstofu Íslands. Þær eru að vísu ákaflega ófullkomnar og byggðar á hlutfallaskiptingu í iðnaðinum frá 1959, sem að verulegu leyti er raskað í dag. Það kemur fram, að í einstökum iðngreinum hefur orðið fækkun á þessum tíma og þá aðallega í skó- og fatagerð. Þó er fækkun starfsfólksins ekki meiri en svo, að 1963 t.d. í janúarmánuði er talið, að um 1080 manns hafi unnið í þessum iðngreinum og aftur á móti 1965 1113. En það er rett, að í vissum greinum fataiðnaðarins, fatagerðarinnar, hefur mannafækkun átt sér stað. En þetta er þó alls ekki neitt verulegt, og þarna er, eins og ég nefndi þessar tölur, ekki um neina sérstaka fækkun að ræða. En hún hefur þó komið fram síðar. Í heild virðist vera eftir þessum skýrslum heldur minni mannafli í iðngreinum nú en hann var t.d. fyrir 3 árum eða 1963. Þar fyrir þarf þetta ekki að þýða, að það sé samdráttur í iðnaði, þó að einhver lítils háttar mannfækkun sé í iðngreinunum, og það er vegna þess, að með aukinni tækni getur stórkostlega vaxið framleiðslugetan, framleiðnin, þrátt fyrir það að færra fólk starfi að iðngreinunum. Og hin nýja tækni er beinlínis þannig vaxin, að vélakosturinn gerir það að verkum, að það er nauðsynlegt á mörgum sviðum að fækka fólki, og það getur beinlínis leitt, ekki af samdrætti, heldur af vexti íiðnaði á vissum sviðum, það getur leitt af honum óhjákvæmilega fækkun á fólki. Þess vegna verður starfsfólkstalan alls ekki eðlileg viðmiðunartala um samdrátt í iðnaðinum.

Ég skipaði n. eftir þáltill. til þess að rannsaka möguleikana á að koma upp iðnaði, sérstaklega á þeim stöðum í landinu, þar sem lítil atvinna var, og fengu þm. á sínum tíma, að ég hygg, þetta nái, og þar var fjallað um ýmsa þætti þessa máls og möguleikana til þess að koma upp nýjum iðnaði. Það má segja, að niðurstaðan hafi í stórum dráttum verið sú, að það hafi alls staðar borið meira eða minna að sama brunni, að þar sem ekki voru skilyrði til þess að vinna úr sjávaraflanum, voru ákaflega erfiðar aðstæður til þess að koma upp nýjum iðnaði.

Það er alveg augljóst, að á einu sviði, sem ég hef lagt mikla áherzlu á að láta athuga og kanna, þ.e. í veiðarfæraiðnaðinum, stöndum við mjög höllum fæti. Þar hafa iðnfyrirtækin átt í mikilli vök að verjast við erlenda samkeppni, og þar hefur verulega fækkað vinnuafli. Ég skipaði í septembermánuði á s.l. ári nefnd manna til að rannsaka veiðarfæraiðnaðinn í landinu og ætlaðist til, að sú rannsókn væri ýtarleg, því að að minni hyggju er hér um mjög alvarlegt mál að ræða, ef við getum ekki byggt upp heilbrigðan veiðarfæraiðnað miðað við þann mikla markað, sem við höfum einmitt fyrir veiðarfæri hér hjá okkur, og eins og aðstaða að öðru leyti er, þar sem það hefur beinlínis verið lífsspursmál fyrir okkur Íslendinga á vissum tímum, og er það ljósast úr síðustu heimsstyrjöld, að hafa okkar eigin veiðarfæraiðnað. En aðstaðan hefur verið þannig, að hvert veiðarfærafyrirtækið á fætur öðru, sem sett hefur verið á laggirnar eftir 1930, hefur lognazt út af og gefizt upp. Þessi n. var skipuð með þeim verkefnum að framkvæma sérfræðilega athugun á því, hvort ekki sé tímabært, að íslenzkum veiðarfæraiðnaði verði búin sömu kjör og öðrum íslenzkum iðnaði og hliðstæðum erlendum iðnaði, t.d. miðað við meðaltollverð Efnahagsbandalags Evrópu og EFTA-landanna, og einnig, hvort stefna beri að stórfelldri aukningu umrædds iðnaðar með þátttöku erlends fjármagns eða aukningu íáföngum með innlendu fjármagni. Nú fyrir nokkru hefur þessi n. skilað ýtarlegu áliti, sem felur í sér mjög gaumgæfilega heildarathugun og rannsókn á þessu máli. Mér hefur ekki enn gefizt kostur að kryfja til mergjar niðurstöður n. og rannsóknir, en þær munu koma til athugunar í ríkisstj. og þá væntanlega í framhaldi af því þær hugsanlegu aðgerðir, sem hér væri hægt að stefna að til þess að vernda íslenzkan veiðarfæraiðnað til að búa honum þau kjör, að hann hafi sambærileg skilyrði, sem hann ekki hefur haft, við aðrar atvinnugreinar, hvorki í iðnaði, verzlun, landbúnaði né sjávarútvegi, og geti haldið áfram að þróast og standa föstum fótum í okkar þjóðfélagi.

Ég skal ekki fara fleiri orðum um þetta nú vegna þess, hversu lítill tími hefur gefizt til að athuga þetta gaumgæfilega nál., en ég vildi mega vona, að upp úr því gætu vaxið raunhæfar og alvarlegar ráðstafanir til að tryggja þennan iðnað hér á landi.

Ég hef einnig beitt mér fyrir því, að sú eina veiðarfæragerð, sem nokkuð kveður að hér nú, Hampiðjan, verði studd með lánveitingum og ábyrgðum á erlendum lánum til þess að aðhæfa sig hinni nýju tækni í veiðarfæraiðnaðinum, og eru ráðagerðar uppi í því fyrirtæki nú að taka upp samkeppni við erlendan gerviefnaiðnað á sviði veiðarfæranna með kaupum nýrra véla. Framkvæmdabankinn hefur heitið fyrirtækinu lánum, og fyrirtækið hefur fengið heimild til þess að taka erlend lán og verður á annan hátt stutt af því opinbera, eftir því sem í þess valdi stendur, til þess að byggja sig upp á nýjum grundvelli í samræmi við þar kröfur tímans, sem nú eru uppi.

Það er ein grein iðnaðar, sem mikið hefur verið talað um að undanförnu og sannast að segja margir aðilar hafa verið að leggja í. Það er sútun á íslenzkum skinnum. Hér voru nokkrar sútunarverksmiðjur í landinu, en ýmsar fleiri hafa risið upp, er verið að byggja og áætlanir eru um að byggja. Ég hef að beiðni bæjarstjórnar Sauðárkróks falið Iðnaðarmálastofnun Íslands og Rannsóknastofnun iðnaðarins að gera stofnkostnaðar- og rekstraráætlun fyrir slíkt fyrirtæki á Sauðárkróki, og er verið að vinna að henni á þann hátt að veita þessum aðilum aðstoð. En hitt hef ég einnig gert, að fela Iðnaðarmálastofnunni og Rannsóknastofnun iðnaðarins að framkvæma fyrir iðnmrn. almenna rannsókn á þessari grein iðnaðarins í landinu, sútunarverksmiðjunum, hráefnamöguleikunum, markaðsmöguleikunum, eftir því sem hægt er, og hvaða aðstöðu þurfi að skapa þessum fyrirtækjum fjárhagslega varðandi stofnkostnað og rekstrarkostnað. En mig uggir, að hér sé að fara eins og á sumum sviðum öðrum hjá okkur, að mönnum dettur í hug einhver ein iðngrein og ryðjast í hana hér og hvar með allt of miklum hraða, og ég er dálítið efins um, hvort svo mörg fyrirtæki sem nú eru í uppsiglingu á þessu sviði gera sér fulla grein fyrir þeim áhrifum, þegar þau öll koma á skömmum tíma inn í rekstur á þessu sviði, og þurfi e.t.v. að athuga málið nánar. Mín rannsókn byggist ekki á því að bregða fæti fyrir neinn, heldur aðeins að liðsinna þessum aðilum og veita þeim þá aðvörun, ef á þarf að halda, og einnig til þess að byggja á aðstoð frá því opinbera, fjáröflunarsjóðum hins opinbera, þegar á að taka ákvarðanir um það, hve mikið er eðlilegt að veita í stofnlán og rekstrarlán til þessara fyrirtækja.

Þarna hef ég nú nefnt þrjár rannsóknargreinar íiðnaðinum, sem unnið hefur verið að að undanförnu, og ég get bætt einni við. Það er ullariðnaðurinn. Þar eru á ferðinni mjög merkilegar rannsóknir, sem studdar eru af hálfu hins opinbera, og veitt hefur verið fé í fjárl. að undanförnu til að rannsaka í samvinnu við Norðmenn, hvernig hægt er að gera íslenzku ullina og tilsvarandi norska ull verðmeiri en hún hefur verið fram að þessu við iðnvinnslu og þá fyrst og fremst með því að skilja sundur togið og þelið í ullinni og fá verðmætari framleiðslu. Það var 19. júní 1964, að ég skipaði þá Pétur Sigurjónsson verkfræðing og Stefán Aðalsteinsson búfjárfræðing í nefnd til þess að hafa samráð við fulltrúa frá Norðmönnum um samvinnu milli landanna á þessu sviði. Það liggja ekki fyrir endanlegar niðurstöður þessarar rannsóknar enn þá, en það hefur verið unnið ötullega að þessu af hálfu Norðmanna og Íslendinga, og ég held, að mér sé óhætt að segja, að við Íslendingar höfum lagt til verulega sérþekkingu og jafnvel vísindalega þekkingu á þessu sviði, sem hafi gert okkar hlut í þessum rannsóknum engu minni en Norðmanna. Það, sem þegar liggur fyrir í dag, er allt jákvætt og bendir til þess, að á þessu sviði sé að vænta með aukinni tækni og meiri rannsóknum möguleika fyrir töluvert verðmeiri framleiðslu en við höfum notið fram til þessa, og er það auðvitað bæði iðnaðinum mikið gleðiefni og ætti að vera landbúnaðinum það einnig.

Ný iðnfyrirtæki hafa risið upp líka, þegar önnur hafa dregizt eitthvað saman. Við þurfum ekki aunað en að minnast þess, að ekki alls fyrir löngu var opnað eitt merkilegasta iðnfyrirtæki hér á sviði fiskiðnaðar sem hráefnis í Hafnarfirði, þar sem er Norðurstjarnan, og byggist einnig á samvinnu Norðmanna og Íslendinga, og þarf ég ekki að lýsa því fyrir hv. þm. En þarna er eitt tæknilega fullkomnasta iðnfyrirtæki, sem við höfum séð, og veitir mörgu fólki atvinnu og boðar ekki neinn samdrátt, heldur mikla aukningu og nýjar leiðir Íslendinga til útflutnings á miklu verðmætari iðnaðarvarningi en þeir hafa áður getað boðið upp á.

Um samdráttinn í iðnaðinum er svo almennt það að segja, að það gengur nokkuð til og frá frá ári til árs. Þjóðarframleiðsla okkar Íslendinga hefur aukizt, sem betur fer, á undanförnum árum, og þar hefur iðnaðurinn stundum á undauförnum árum staðið sig vel. Stundum hefur framleiðslan verið minni. En alls ekki boðar þetta nokkurn allsherjar samdrátt eða samdrátt, sem við þurfum að vera hræddir um að sé að færast í vöxt og muni standa til eilífðar eða fram í tímann. Bæði landbúnaður og iðnaður hafa á einstökum tímum frá því 1960, ef við tökum 4 s.l. ár, 1961, 1962, 1963 og 2964, sem við vítum um, komið nokkuð öðruvísi út en gert var ráð fyrir íáætlunum. Framleiðsluaukningin í landbúnaðinum hefur verið 1961 5.1%. Það var heldur meira en gert hafði verið ráð fyrir. Það heldur minnkaði, það var minna en engin aukning 1962, 2.6% aukning 1963 og 3.7% aukning 1964. Sjávarútvegurinn hefur verið sú atvinnugrein, sem við vitum allir að hefur aukið langmest framleiðslu sína á undanförnum árum og hefur verið máttarstólpinn íaukningu þjóðarframleiðslunnar. Aukningin hefur verið frá ári til árs allt að 10—12%, sem er gífurlega miklu meira en áætlað var, að aukningin gæti orðið, um 5% frá ári til árs, og það byggist á miklum og ágætum sjávarafla og þorskafla og hinni miklu síldveiði, sem til er komin vegna hins nýja og mikla fiskiflota okkar og hinnar nýju og margháttuðu og merkilegu tækni við veiðarnar, sem fiskimenn okkar hafa tileinkað sér. Um iðnaðarframleiðsluna innanlands er það að segja fyrir utan fiskiðnaðinn, að hún minnkaði 1961 um 7%. 1962 jókst hún um 8%. Þá jókst sjávarútvegur ekki nema um 6.5%, það eina ár, hin árin um 10—12%. Sjávarútvegurinn jókst um 11% 1962 á móti iðnaðinum 8%. En sjávarútvegurinn jókst 6.5°% 1963, en iðnaðurinn þá 6%. Sem sagt, þessi tvö ár, 1962—1963, er framleiðsluaukningin í iðnaðinum 8 og 6%. Svo er gert ráð fyrir því, þótt ég hafi ekki endanlegar tölur, að það sé engin framleiðsluaukning á s.l. ári, 1964, og þess vegna er framleiðsluaukningin á þessum 4 árum ekki nema tæp 2% í iðnaðinum, 9.9% að meðaltali í sjávarútveginum, 2.6% í landbúnaði og 5.7% í þjóðarframleiðslunni í heild. Þetta eru svo sem ekki neinar hryllilegar tölur, sem ættu að gefa tilefni til þess barlóms, sem mér virðist gæta í sambandi við framtíð iðnaðarins, og ég held, að iðnaðinum sé næsta mikil óþökk í því, bæði hér og annars staðar, að það sé verið að halda því að fólkinu, að hér sé þessi stanzlausi samdráttur og samdráttur þess eðlis, að það sé ekki að búast við öðru en hann haldi áfram og iðnaðurinn sé að moltna niður ílandinu. Þetta er til stórkostlegs baga fyrir þessa atvinnugrein, og það er miklu nær að reyna að vekja trú og traust almennings á þessari atvinnugrein, svo mikilvæg sem hún er í sambandi við atvinnuöflun í þjóðfélaginu.

Þá er því baldið fram, að verðbólgan sé að drepa iðnaðinn alveg eins og aðra atvinnuvegi, eins og við heyrum hér og höfum heyrt, frá því að þing kom saman. Það er alltaf stöðugt þetta sagt: Ja, verðbólgan er að eyðileggja allt, og ríkisstj., sem setti sér það markmið að stöðva verðbólguna, og það var hennar höfuðmarkmið, ræður ekki við neitt og ætti þess vegna að segja af sér. — Nú er það alls ekki rétt með farið, að það hafi verið eitt höfuðstefnumið ríkisstj., að stöðva verðbólguna og þess vegna hafi hún brugðizt loforðum sínum, því að um það sagði í yfirlýsingunni, þegar viðreisnarstjórnin settist á laggirnar 20. nóv. 1959 og þáv. hæstv. forsrh., Ólafur Thors, gerði grein fyrir hér á þinginu, að ríkisstj. leggur áherzlu á, að kapphlaup hefjist ekki á nýjan leik milli verðlags og kaupgjalds, og hún leggur áherzlu á, að þannig sé haldið á efnahagsmálum þjóðarinnar, að ekki leiði til verðbólgu. Ríkisstj. hefur lagt áherzlu á það, og hún hefur gert hverja aðgerðina á fætur annarri til þess að stuðla að því, að kapphlaupið milli kaupgjalds og verðlags leiði ekki til verðbólgu. Hún hefur þess vegna verið á þessu sviði algerlega trú þeirri yfirlýsingu, sem hún gaf, og þeirri stefnu, sem hún markaði sér 1959. Ég þarf ekki annað í þessu sambandi en að vitna til þess og minna menn á það í fáum orðum, að árið 1963 var mjög geigvænlegt á sviði verðbólguþróunar hér á landi. Um mitt árið var felldur kjaradómur, þar sem meðalhækkun embættismannalauna var um 45%. Þetta eru tölur, sem erlendum aðilum finnst allundarlegar, að álit í einu geti kaup hækkað um 45% í einu stökki. Það var sagt, áður en dómurinn féll, að kaup embættismanna þyrfti að lagfærast í samræmi við það, sem orðið hefði hjá öðrum atvinnustéttum. Engu að síður var þetta notað til þess að gera kröfur um nýjar kauphækkanir hjá öðrum atvinnustéttum eftir á, og almennt hækkaði svo kaup æ ofan í æ á árinu og almennt yfir heilu línuna sennilega meira en 30%. Það sáu allir, að þetta gat ekki leitt til góðs og hér vorum við komnir á yztu nöf.

Það yrði of langt mál að fara að rifja það upp, en ríkisstj. varaði við þessari þróun og gerði grein fyrir því, þegar hún reyndi að leita sátta í lok ársins 1963, að hún mundi gera gagnráðstafanir og mundi verða neydd til þess að gera gagnráðstafanir, strax og þing kæmi saman eftir áramótin 1963—1964, til þess að hér færi ekki allt um koll, og það gerði ríkisstj., með nýjum álögum auðvitað, sköttum, söluskatti og aðgerðum í sambandi við sjávarútveginn, sem gat ekki risið undir þessum álögum. En þá var ástandið þannig, að það héldu allir, að ekkert væri fram undan nema gengisfelling og það væri búið að eyðileggja viðreisnina. Og þá glottu sumir hér í þingsölunum. En þeir glotta ekki núna, þessir menn, og tala ekki um gengislækkun. Og það var m.a. vegna þess, að ríkisstj. átti góðan hlut að því, eins og sagði í stefnuyfirlýsingunni ásamt með öðru, að gera ráðstafanir til þess, að kaupgjald og verðlag leiddi ekki til sívaxandi verðbólgu, sem kippti grundvellinum undan efnahagslífi okkar. Og það staðfestist í júnísamkomulaginu, sem gert var milli ríkisstj. annars vegar og fulltrúa launþegasamtakanna og vinnuveitendanna hins vegar. Og þá var spyrnt við fótum og gert samkomulag til árs, sem í aðalatriðum grundvallaðist á því, að grunnkaupshækkanir yrðu mjög óverulegar, eins og þær einnig urðu. Svipað samkomulag hefur orðið á þessu ári, þó ekki í eins ríkum mæli, en samt sem áður nægjanlega traust til þess, að þeim, sem mest óskuðu eftir, að hér færi allt um koll, hefur þó ekki orðið að ósk sinni. Vísitala framfærslukostnaðar hækkaði aðeins um 3% fyrstu 9 mánuðina eftir júnísamkomulagið 1964, en á jafnlöngum tíma á undan júnísamkomulaginu og fyrir áhrif þess, sem gerðist í efnahagsmálum í kaupskrúfum og kapphlaupi verðlags og kaupgjalds 1963, hækkaði hún um 18% á 9 mánuðum áður, en 3% á næstu 9 mánuðum eftir júnísamkomulagið 1964. Ríkisstj. átti verulegan þátt í því, og dreg ég þó alls ekki úr þætti fulltrúa neytenda og fulltrúa verkalýðs og vinnuveitenda að draga úr verðbólgunni. 1963 og fram í júnímánuð hækkaði vísitala framfærslukostnaðar hér um 5 stig, en til desember 1963 og frá júlí sama ár hækkaði hún um 15 stig. Þá fóru alvarlega að segja til sín þau miklu umbrot og verðþensla, sem var á þessu ári, og þannig hækkaði vísitalan á árinu 1963 um 20 stig. Árið 1964 til júní hækkaði vísitalan um 17 stig, og þar eru enn áhrif frá verðlagsþróuninni á árinu 1963, en eftir júnísamkomulagið og til áramóta hækkaði vísitala framfærslukostnaðar aðeins um 2 stig. Og 1965, til júní núna á þessu ári, hefur vísitala framfærslukostnaðar aðeins hækkað um 6 stig og um 3 stig síðan.

Ég veit, að verðbólgan er iðnaðinum ekki siður erfið heldur en öðrum atvinnugreinum. En ríkisstj. hefur sannarlega gert og viljað gera sínar ráðstafanir til þess að draga úr óheillaáhrifum þessarar verðbólgu. Og við skulum gera okkur grein fyrir einu, að ef árferði hefði ekki verið jafnhagstætt og það hefur verið til sjávarins, er ekkert líklegra en að sjávarútvegurinn hefði ekki risið undir þeim aukna tilkostnaði, sem orðið hefur í landinu, og því hefði þá væntanlega ekki verið hægt að mæta með öðru en leiðréttingu á hlutfalli verðlags hérlendis og erlendis, þ.e. gengisbreytingu, og hún hefði auðvitað reynzt iðnaðinum hagstæð. Það má þess vegna segja, að hið mikla góðæri til sjávarins hafi að vissu leyti verið iðnaðinum erfitt í samkeppninni, eins og eðlilegt er á hverjum tíma.

Á þetta er allt saman að líta, og þegar allir þessir hlutir eru skoðaðir með sanngirni, verður alls ekki sagt, að í raun og veru hafi hallað á iðnaðinn. Ég viðurkenni, að hann á við vissa erfiðleika að etja í sambandi við vissa samkeppni. En honum hefur verið veittur aðlögunartími á ýmsum sviðum, sem hægt er að gera nánari grein fyrir, ef þess er óskað, og margvislegar ráðstafanir, sem hafa aliar miðað að því að gera honum kleift að mæta þessum nýju viðhorfum.

Það er látið að því liggja í till. hérna, að iðnaðinum sé íþyngt með ónógu lánsfé. Ég er búinn að tala um hitt atriðið, sem var talað um, þessa stórauknu dýrtíð, en það sé einhver sérstakur lánsfjárskortur á sviði iðnaðarins fram yfir aðrar atvinnugreinar. Þetta fær alls ekki staðizt. Ég hef áður gert grein fyrir þessu á aðalfundi Félags ísl. iðnrekenda fyrr á þessu ári. En útlánatölurnar sýna, að þegar hlutföllin eru miðuð við hlutföllin á milli atvinnugreinanna, heldur iðnaðurinn fullkomlega sínu hlutfalli. Ef útlánum viðskiptabankanna er skipt á landbúnað, sjávarútveg, verzlun og iðnað og annað, hefur iðnaðurinn árið 1960 12.2%, 1961 13.4%, 1962 13.7%, 1963 14.3% og 1964 14.4%. Iðnaðinum hefur alls ekki verið íþyngt með neinum lánsfjárskorti umfram aðra. Ég veit, að margir kvarta undan lánsfjárskorti á sviði iðnaðarframleiðslu, alveg eins og alls staðar annars staðar í okkar fámenna og fjármagnsrýra þjóðfélagi. Þvert á móti hafa verið gerðar alveg sérstakar ráðstafanir til þess að veita iðnaðinum aðstoð í sambandi við stofnlán og rekstrarlán. Það er árið 1963, sem hin nýju lög um iðnlánasjóð eru sett, og hún hefur síðan tekið alveg stakkaskiptum, þessi stofnlánadeild iðnaðarins. Fyrir þann tíma var ráðstöfunarfé sjóðsins örfáar millj. kr. Það var komið hæst upp í 4.4 millj. kr. árið 1960. Á tveimur síðustu árum og árinu í ár hefur ríkisstj. útvegað iðnlánasjóði lánsfé samtals 68.5 millj. kr., — iðnlánasjóði, sem hafði hæst til ráðstöfunar 1960, var kominn upp í 4.4 millj. kr. Á þessum 3 árum hefur iðnlánasjóður fengið fyrir tilverknað ríkisstj. til ráðstöfunar 68.5 millj. kr. til útlána. Ráðstöfunarfé sjóðsins í ár mun verða 55 millj. kr., og það var undanfarin tvö ár, 1962 —1963, milli 40 og 50 millj. kr. Á sama tíma og þetta gerðist jók Framkvæmdabankinn stórkostlega útlán sín til iðnaðar, þannig að það mun láta nærri, að á árunum 1964 og 1963 hafi verið milli 40 og 50 millj. kr. hvort árið um sig af lánsfé bankans varið til iðnaðarfyrirtækja, og er langt umfram það, sem áður hafði verið, og var veitt einmitt með hliðsjón af hinni sérstöku aðstöðu iðnaðarins.

Það voru sett á þingi 1964, eins og menn muna, lög um að breyta lausaskuldum iðnaðarins í föst lán. Þetta voru rammalög og þurftu mikinn undirbúning, og það má kannske ásaka mig fyrir, að það hafi dregizt of lengi að setja reglugerð til framkvæmda á þessum lögum. Það var vegna þess eðlis laganna, að það þurfti að setja mjög ýtarlega reglugerð um framkvæmdina, því að lögin voru, eins og ég sagði, aðeins rammalög. Ég taldi, að það mundi enginn ávinningur verða af l., nema bankarnir, allir viðskiptabankarnir og í samvinnu við Seðlabankann, fengjust til þess að gangast í að eiga hlut að því að semja ásamt iðnmrn. reglugerð og starfsreglur, sem farið yrði eftir. Og þetta tókst með þeim hætti, að Seðlabankinn tók að sér forustuna fyrir beiðni mína og í nánustu samvinnu við stjórn iðnlánasjóðs, og á s.l. vori var sett mjög ýtarleg og gagnger reglugerð um framkvæmd þessarar löggjafar, og ég er ekki í nokkrum vafa um það, að hún á eftir að verða iðnaðinum til mikilla bóta.

Það hefur verið talað ýmislegt um að styrkja lánsfjáraðstöðu iðnaðarins í sambandi við endurkaup á lánum hjá Seðlabankanum. Ég skal ekki eyða tímanum núna í að víkja að því, því að önnur till., sem liggur fyrir þinginu, fjallar um það mál, og má þá ræða það undir þeim lið.

Iðnaðinum var veitt mikið hagræði á síðasta þingi í sambandi við afgreiðslu tollalaga, af því að það voru verulega lækkaðir tollar á vélum til iðnaðarins, innfluttum vélum og tækjum til iðnaðarframleiðslunnar, og svo verulega, að iðnaðinn hlýtur að hafa munað mikið um.

Það hefur verið lögð áherzla á að auka menntun í landinu til styrktar iðnaði. Fyrir þessu þingi liggur frv. til nýrra iðnfræðslulaga. Í ár er annað forið, sem tækniskóli starfar, sem er menntun, sem verður fyrst og fremst og ekki sízt mikilvæg á sviði iðnaðarframleiðslunnar. Og samtökum iðnaðarmanna hefur verið veitt ýmiss konar sérfræðileg aðstoð, fengnir erlendir sérfræðingar til þess að athuga og kanna ýmsa þætti þessara mála, sem samtökin hafa óskað eftir, og vonandi getur orðið meira af því, og einn þátturinn af þessu er sú rannsókn á sviði ullariðnaðarins, sem ég gerði grein fyrir áðan. Það hefur verið lagt fé af hálfu þess opinbera, Alþingis, eins og hv. alþm. er kunnugt um, á undanförnum árum til hagræðingar á sviði atvinnumála, og er það ekki sízt á sviði iðnaðarins, sem það kemur til góða. Og það er þess að vænta, að af þessu leiði aukna hagkvæmni og framför í atvinnurekstrinum.

Þegar við erum að tala um samdrátt, hefur ríkisstj. beinlínis haft áhuga á því og viljað stuðla að því, að í vissum iðngreinum gæti hafizt veruleg aukning og þensla, og þar á ég ekki sízt við íslenzkar skipabyggingar, stálskipasmiðar innanlands. Fyrir atbeina ríkisstj. hafa aðilar verið studdir til þess að hefja byggingar eða búa sér út aðstöðu til stálskipasmiði og til þess að byggja upp gömlu slippana hér, sem nú eru orðnir allt of litlir, 20—30 ára gamlir slippar, sem ekki lengur anna þeim stóru fiskiskipum, sem við nú búum við. Og það er áfram að því stefnt að stuðla að því, að nægilegt lánsfé fáist til þess að stórefla þessa atvinnugrein, og við Íslendingar ættum sannarlega að keppa að því í framtíðinni að vera okkur sjálfum nógir í byggingu íslenzkra fiskiskipa og allri þjónustu, sem að þeim lýtur. Hérna er þegar um stórkostlega þenslu á sviði iðnaðar að ræða, og vonandi verður um miklu meiri þenslu að ræða á komandi árum. Við höfum keypt nýjan skipastól af erlendum aðilum fyrir — á kannske 2—3 árum um 1000 millj. kr., og við sjáum, hve mikil verkefni eru hér. Íslendingar lærðu sjálfir að byggja sín eikarskip og eikarbáta og gerðu það ágætlega, þó að þeir hefðu ekki getað annað sínum þörfum þá. Nú er að hefjast handa um það að búa þessari nýju atvinnugrein, stálskipasmíðinni, þá aðstöðu, að við getum í æ ríkara mæli á komandi árum gerzt á þessu sviði sjálfum okkur nógir.

Ég skal ekki, herra forseti, hafa þessi orð fleiri. Ég sagði í upphafi máls míns, að við værum hér að ræða um ekkí mikilvæga till., og það get ég vel endurtekið, og það sé næsta lítil þörf á því, að Alþ. sé núna að stofna til einhverra rannsókna á því, af hverju samdráttur sé og hvað sé hægt að gera til úrbóta á þessu sviði. Það er á öllum sviðum verið að vinna að þessum málum, það á ekki bara við af hálfu ríkisstj. og iðnmrn., heldur þeirra aðila, sem hafa fyrirsvar þarna. Það eru dugmiklir atvinnurekendur í fjölmörgum greinum, og enda þótt rétt sé, að samdráttur sé sums staðar, er mikil þensla á öðrum sviðum, og það er verið að gera ráðstafanir til þess að sporna við þeim samdrætti, sem á einstökum sviðum hefur komið fram. Ég lýk svo máli mínu með því að leggja áherzlu á, að það væri miklu þarfara verk að vekja athygli þjóðarinnar á mikilvægi þessarar atvinnugreinar hjá okkur Íslendingum, en vera ekki að þessum sífellda barlómi, að þessi atvinnugrein sé að ganga sér til húðar.