10.11.1965
Sameinað þing: 10. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 140 í D-deild Alþingistíðinda. (2789)

21. mál, samdráttur í iðnaði

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Það má náttúrlega lengi halda áfram umr. undir þessum málalið og næstum því undir hvaða málalið, sem hér kemur til umr. á þinginu, að deila um dýrtíðarvöxtinn, eins og hv. 11. þm. Reykv. gerði í sinni síðari ræðu og gerði að aðalatriði í því sambandi, og ég býst við að þessa ræðu megum við hlusta á frá honum síðar á þinginu og oftar en einu sinni og endurtekna í eitthvað svipaðri mynd af mörgum hans flokksbræðrum og oftar en einu sinni. Við höfum þurft að hlusta á þetta undanfarið ísambandi við landbúnaðarmálin, ég veit ekki, á hve mörgum fundum, og því verður víst ekki lokið, þó að það mál hafi loksins komizt til nefndar.

Annars var margt fallegt og slétt í ræðu hv. 11. þm. Reykv., eins og jafnan er hjá honum. Fallegasti parturinn var nú, þegar hann var að lesa upp úr skýrslum, sem ríkisstj. hefur fengið sérfræðinga til þess að útbúa fyrir sig, og þykir mér vænt um, að hann hefur tekið eftir þeim og leggur áherzlu á, að við reynum að koma til framkvæmda einhverju af því, sem þar er rakið.

Seinast, þegar verið var að deila hér um dýrtíðina og dýrtíðarvöxtinn, var það vísitala framfærslukostnaðarins, sem deilt var um, og ég veit ekki, það er kannske vegna þess að viðskmrh. hafi þá tekizt að binda enda á deiluna um dýrtíðarvöxtinn á grundvelli vísitölu framfærslukostnaðar, að hv. 11. þm. Reykv. tók nú til við vísitölu byggingarkostnaðar til þess að sýna fram á, að verðbólgan hefði aukizt miklu meira í tíð núv. ríkisstj. en hjá undanförnum ríkisstj. og meðan hans flokksmenn voru við völd. En það vill svo til, að ef við leggjum vísitölu byggingarkostnaðar til grundvallar verðbólguvextinum og tökum vísitölu byggingarkostnaðar á tímabilinu frá 1949, þegar framsóknarmenn komu í ríkisstj., þ.e. í okt. 1949, — þeir koma í ríkisstj. 1950 nokkrum mánuðum seinna, — og til 1958, ég held, að hún sé reiknuð út fjórum sinnum á ári, þessi vísitala, er hækkunin alls til 1958, rétt áður en vinstri stjórnin fer frá, 146.3%, í 9 ár að meðaltali 16.2% á ári. En frá því aftur á móti seinni hluta árs 1958 og þangað til í júní 1965 er hækkunin alls 85.1%, í 6.7 ár, og meðaltalshækkunin á ári verður þá 12.8%. Jafnvel vísitala byggingarkostnaðarins hjálpar ekki þessum hv. þm. til þess að sannfæra menn um, að verðbólgan sé meiri í tíð núv. stjórnar heldur en þegar þeir báru ábyrgð á ríkisstj. eða voru þátttakendur í ríkisstj., framsóknarmenn. Allt fer þetta á sömu leið. Aðalatriðið, sem ég lagði megináherzlu á í minni ræðu í sambandi við verðbólguvöxtinn, vegna þess að hv. 11. þm. Reykv. hafði gefið tilefni til þess, var það, að ríkisstj. hafði lýst yfir, eins og hann vitnaði til, að hún legði áherzlu á, að kapphlaupið hefjist ekki á nýjan leik á milli verðlags og kaupgjalds og þannig sé haldið á efnahagsmálum þjóðarinnar, að ekki leiði til verðbólgu, og þetta var upphaflega yfirlýsing ríkisstj. 20. nóv. 1959 í sambandi við verðbólgumálin. Þessari stefnu hefur ríkisstj. fylgt. Og ríkisstj. hefur gert miklu meiri og veigameiri ráðstafanir en nokkur önnur ríkisstj. hér á landi til þess að koma í veg fyrir þetta kapphlaup kaupgjalds og verðlags. Því máli mínu til sönnunar vitnaði ég í þann þátt, sem ríkisstj. átti íjúnísamkomulaginu 1964, en það samkomulag hafði í stórum dráttum þau áhrif, að framfærslukostnaðurinn í landinu, vísitala framfærslukostnaðar, hækkar aðeins um 3% fyrstu 9 mánuði, eftir að samkomulagið var gert, en á jafnlöngum tíma þar á undan hafði hún hækkað um 18%. Þær ráðstafanir, sem ríkisstj. hefur beitt sér fyrir á árinu 1964 og nú á líðandi ári til þess að skapa meira jafnvægi og minna kapphlaup á milli kaupgjalds og verðlags, eru þær helztu ráðstafanir, sem hafa leitt til stöðnunar á verðbólgu, sem áður var hækkandi hjá okkur. Það er rétt, að það er mikil hækkun verðbólgunnar vegna áhrifa verðþenslunnar á árinu 1963, og hún var svo mikil, eins og ég viðurkenndi og tók fram í minni ræðu, að þá töluðu flestir um, að gjaldmiðillinn, íslenzka krónan, mundi ekki standast verðþensluna og það mundi verða gengishrun á árinu 1964. En einmitt fyrir efnahagsráðstafanir ríkisstj., bæði þessar og ýmsar aðrar, hefur tekizt að koma íveg fyrir það og á sama tíma að skapa traustari gjaldeyrissjóði en við Íslendingar höfum nokkru sinni áður átt.

Ég vil svo aðeins taka það fram að lokum, að ég er alveg sömu skoðunar og á síðasta fundi, þegar þetta mál var rætt, um þessa till., sem hér er til meðferðar, að mér finnst hún algerlega þýðingarlaus og lítilfjörleg og flutt í sýndartilgangi. Af hverju flytja þessir menn ekki einhverja till. um eflingu iðnaðarins? Það á endilega núna að fara að rannsaka samdráttinn í iðnaði. Þeir hafa haft fjölda tækifæra til þess að sýna fram á þennan samdrátt. Það hefur bara staðið á því, að hann væri sýndur, samdrátturinn. Í einstökum atvinnugreinum hefur verið bent á örfærra fólk við vinnuna. Það þýðir ekki samdrátt í iðnaði. Hver hefur framleiðnin og framleiðsluaukningin verið? Ég benti á það, að á árunum 1962 og 1963, þá var fyrra árið 8% framleiðsluaukning íiðnaði og meira í iðnaði en nokkurri annarri atvinnugrein og 6% síðara árið. Það minnkaði 1961 og sennilega stendur í stað 1964. En þannig er það, að þetta gengur nokkuð í bylgjum hjá iðnaðinum, alveg eins og í öðrum atvinnugreinum hjá okkur. Og þáttur iðnaðarins er ekkert lélegri en annarra atvinnugreina, þegar frá er skilinn, — og það tók ég fram seinast, — hinn gífurlegi og sérstæði vöxtur í sjávarútveginum síðustu árin vegna aukinnar tækni við síldveiðarnar og nýrra síldargangna eða a.m.k. möguleika fiskimanna okkar til þess að fylgjast með síldargöngunum og veiða síld við aðstæður, sem áður var alls ekki hægt að veiða nokkra síld. Þess vegna sagði ég, að það væri til óþurftar — og endurtek það — að vera sí og æ að vekja athygli eða reyna að vekja athygli á einhverjum ímynduðum samdrætti íiðnaðinum. Það er hægt að afla allra þessara upplýsinga, og liggja fyrir meira og minna upplýsingar um þetta, og fulltrúum iðnverkafólks eða iðnrekenda hefur alls ekki verið haldið utan við það, ef þeir hafa óskað eftir því. Þess vegna er till. alveg tilgangslaus. Og eins og kom fram á síðastu þingi og ég hef sýnt fram á núna, er ekki nein þörf fyrir þessa sérstöku rannsókn.

Ég fullyrði, að þessi till. er ekki borin fram til þess að vera iðnaðinum neitt til þurftar, og hún verkar ekki heldur til þurftar iðnaðinum. Ég ætla hins vegar að vona, að hún sé svo ómerkileg, að hún verði ekki til óþurftar fyrir iðnaðinn.