15.12.1965
Neðri deild: 31. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 469 í B-deild Alþingistíðinda. (280)

89. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál

Frsm. 1. minni hl. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér eina litla brtt. við frv. Hún er í þskj. 184 og er um það, að fram verði tekið, að þetta sérstaka gjald, sem nú er ætlað að leggja á alla gjaldeyrissölu, skuli þó ekki leggjast á gjaldeyri, sem seldur er vegna námskostnaðar og sjúkrakostnaðar. Það hefur verið þannig haldið á þessu stundum áður, þegar svipuð gjöld hafa verið á lögð, að gjaldeyrissala í þessu skyni hefur verið undanþegin, og þó að hér sé ekki um verulega hátt gjald að ræða enn, tel ég, að allmiklu máli skipti að gæta þess, að þessi nýju gjöld lendi ekki á þeim aðilum, sem hér um ræðir. Ég hygg, að gjaldeyrir, sem veittur er vegna námskostnaðar, sé kominn nokkuð yfir 60 millj. kr. á ári, og gjaldið mundi því a.m.k. nema 300–350 þús. kr. til útgjaldaauka fyrir námsmenn, ef gjaldið yrði lagt einnig á námsgjaldeyri. Ég held, að það geti ekki skipt neinu verulegu máli fyrir ríkið, þó að þessi undanþága sé veitt, og undanþágan er í þessu tilfelli um mjög afmörkuð og hrein atriði, og vil ég því vænta, að ríkisstj. geti fallizt á að undanþiggja gjaldeyrissölu í þessu tilfelli.