10.11.1965
Sameinað þing: 10. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 148 í D-deild Alþingistíðinda. (2804)

22. mál, kaup Seðlabankans á víxlum iðnaðarins

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. „Allar vildu meyjarnar með Ingólfi ganga,“ stendur þar, og það má vera mikið gleðiefni fyrir iðnaðinn, hve margir gerast nú talsmenn hans hér á þingi. Ég skal fara örfáum orðum um þessa till.

Það er rétt, sem hv. flm. sagði, að hún er gamalkunn, hefur verið hér á ferðinni áður og var flutt 1958 af þeim hv. þm., sem nú var að ljúka máli sínu, Sveini Guðmundssyni, og var þá samþ. En hv. 1. flm. till. nú, 5. þm. Reykv., taldi, að það væri enn ríkari nauðsyn en fyrir 8 árum á samþykkt þessarar till. um endurkaup Seðlabankans á framleiðslu- og hráefnavíxlum iðnaðarins. Hérna held ég að sé afskaplega mikill misskilningur á ferðinni, því að að svo miklu leyti sem till. átti rétt á sér 1958, er það að segja um aðstöðu Seðlabankans til þess að endurkaupa víxlana, að aðstöðumunur iðnaðarins er alveg gjörólíkur núna og þá, og ég skal aðeins, til þess að fara fljótt yfir sögu, nefna, að 1958 hefur iðnlánasjóður líklega haft, — ég hef ekki tölurnar við höndina, — en það hafa líklega verið eitthvað um 2 millj. kr. til ráðstöfunar. En iðnlánasjóður hefur haft til ráðstöfunar undanfarin 3 ár 40, 50 og upp í 60 millj. kr. Það hafa verið samþ. lög og reglugerðir um lausaskuldir iðnaðarins, og er unnið að því nú að breyta lausaskuldum, sem til urðu, óumsömdum lausaskuldum á umliðnum árum, í löng og föst lán. Þetta er annar verulegur þáttur íbreyttri aðstöðu iðnaðarins til lánamálanna. Ríkisstj. hefur hlutazt til um það á undanförnum árum, að veittar hafa verið um 68.5 millj. kr. af svokölluðum PL-480 lánum til iðnaðarins gegnum iðnlánasjóðinn, og jafnframt hefur ríkisstj. hlutazt til um sérstakar lánveitingar til einstakra greina iðnaðarins, eins og stálskipasmiða og dráttarbrauta, á s.l. ári, sem innifalið er í fjáröflunar- og framkvæmdaáætlun ríkisstj. það ár, um 15 millj. kr. á þessum sérstaka lið, og stofnlánadeild sjávarútvegsins tók að sér þær lánveitingar á þessu ári. Lán Framkvæmdabankans hafa að gefnu tilefni til að styrkja aðstöðu iðnaðarins verið stóraukin á undanförnum árum og munu, eins eg ég hef áður sagt, nema milli 40 og 50 millj. kr. á 3 undanförnum árum, þannig að ef teknar eru saman lánveitingar þessa fjárfestingarbanka og umráðafé iðnlánasjóðs til lánveitinga á undanförnum 2—3 árum, eru þær um 100 millj. kr., en var, eins og ég segi, í iðnlánasjóði eitthvað 1—2 millj. kr., þegar þessi till. var fyrst flutt. Og ofan á þetta hefur svo bætzt það, að það hafa gífurlega vaxið útlán viðskiptabankanna til iðnaðarins, þannig að á árunum frá 1961 og það sem af er þessu ári, árinu 1965, og ef við áætlum þessa stund, sem eftir er, að það verði svipað og hin árin hafa verið, hefur verið 80% útlánaaukning á þessum árum til iðnaðarins frá viðskiptabönkunum.

Allt þetta, sem ég nú hef nefnt, hefur gerbreytt aðstöðu iðnaðarins í sambandi við lánsfjármöguleika. Þessu vildi ég vekja athygli á.

Þá er það hins vegar, að halda mætti því fram, að það væri þörf á því engu að síður að bæta lánaaðstöðu iðnaðarins með endurkaupum Seðlabankans á afurða- og framleiðsluvíxlum iðnaðarins. Og það hefur verið mín skoðun, að það ætti að vera eitt ráðið til viðbótar til þess að létta undir með iðnaðinum. Ég hef hins vegar leyft mér að halda því fram og gerði það síðast á ársþingi íslenzkra iðnrekenda, að ég varaði alvarlega við því fyrir iðnaðinn í heild að gera sér miklar vonir um mikinn stuðning af endurkaupum Seðlabankans á víxlum og það vegna þess, hvernig aðstaða iðnaðarins væri og ósambærileg á mörgum sviðum við aðrar atvinnugreinar, sem njóta þessara endurkaupa, sjávarútveg og landbúnað. Mín skoðun var sú, að þetta mundi fyrst og fremst koma vissum stærri fyrirtækjum til góða og fyrirtækjum, sem gætu framleitt iðnaðarvörur til útflutnings. Eftir þennan fund hins vegar hef ég lagt ítrekaða áherzlu á það við Seðlabankann að huga vandlega að málinu og reyna eftir megni að koma í framkvæmd einhverjum endurkaupum, sem iðnaðinum væru verulega að líði og væru að bankans dómi eðlileg, miðað við aðrar atvinnugreinar, og forsvaranleg frá sjónarmiði bankans að sjálfsögðu.

Það, sem ég nú að lokum tek fram, er afstaða Seðlabankans, sem ég hef leyfi til þess að láta í ljós við þessar umræður, varðandi endurkaup á afurðavíxlum iðnaðarins. Á síðasta ársfundi Seðlabankans lýsti bankastjórnin yfir, að hún teldi endurkaup iðnaðarvíxla réttlætanleg, þar sem sýnt væri fram á, að viðkomandi starfsgrein nyti ekki viðunandi fyrirgreiðslu bankakerfisins og sérstök ásæða væri til forréttinda af því tagi, sem endurkaupin eru. Bankastjórnin hefur markað þá stefnu að taka við beiðnum frá viðskiptabönkunum um endurkaup iðnaðarvíxla, enda séu eftirfarandi skilyrði uppfyllt: 1) Víxlarnir séu tryggðir með 1. veðrétti í útflutningsvörum eða vörum fyrir innlendan markað, þar sem hliðstæðar vörur innfluttar eru tollfrjálsar eða tollvernd ekki teljandi. Nauðsynlegt er varðandi hið síðarnefnda, að fyrir liggi greinilegar upplýsingar um hreina tollvernd, þar sem bæði sé tekið tillit til tolla á hráefnum og hliðstæðum vörum fullunnum. 2) Hinar veðsettu vörur séu fullunnar, í söluhæfu ástandi og auðseljanlegar. Jafnframt séu aðstæður til þess að taka veð í þeim á tryggilegan hátt og engar aðrar kvaðir eða lán hvíli á þeim. 3) Fyrir liggi að dómi Seðlabankans fullnægjandi upplýsingar um, hvert sé lágmarksverðmæti vörunnar á markaði. 4) Fyrir liggi sundurliðaðar upplýsingar um fjárhag fyrirtækisins, eftir því sem Seðlabankinn telur nauðsynlegt hverju sinni, svo sem um skuldir við innlenda banka, erlend vörukaupalán og heildareignir og skuldir fyrirtækisins. 5) Sýnt sé fram á, að þörf sé fyrir fyrirgreiðslu í formi endurkaupa, þar sem aðrar viðunandi fjáröflunarleiðir séu ekki fyrir hendi.

Hér eru í 5 liðum taldar ástæður og forsendur seðlabankastjórnarinnar fyrir endurkaupum iðnaðarvíxla, eins og þessi till. fjallar um. Ég álit, að það sé hæpið að segja, þegar þetta liggur fyrir, að Seðlabankinn standi ívegi fyrir endurkaupum iðnaðarvíxla. Það verða þá að liggja fyrir beiðnir frá viðskiptabönkunum, alveg eins og í sambandi við landbúnað og sjávarútveg, að Seðlabankinn endurkaupi af þeim viðskiptavíxla af því tagi, sem hér um ræðir, til þess að greiða fyrir lánsfjáraðstöðu iðnaðarfyrirtækja. Pegar þetta liggur fyrir, sem ég nú hef lýst yfir, eða gerð er jafngóð grein fyrir, mundi ég ætla, að það væru fyrst og fremst iðnfyrirtækin og þeirra fyrirsvarsmenn, sem ættu að taka málið upp við viðskiptabankana og í samráði við þú að gera grein fyrir þeirri lánsfjárþörf, sem rúmast innan þessara marka, og það mundi samkvæmt fyrir fram gefnum yfirlýsingum Seðlabankans nægja til þess, að slíkir víxlar sem þessir væru endurkeyptir og væru í hlutfalli og samræmi við það, sem tíðkast í hinum atvinnugreinunum, landbúnaði og sjávarútvegi. Ég efast ekkert um, að ef eitthvað er í þessum yfirlýsingum hér, sem bankarnir og iðnrekendurnir og iðnfyrirtækin fyndu einhverja vankanta á og gætu með rökum farið fram á að yrði breytt til þess að liðka enn meir til fyrir endurkaupunum, mundi það út af fyrir sig vera auðsótt. Það er aðalatriðið að minni skoðun af hálfu Seðlabankans að halda í meginlínum þeirri stefnu, sem hann þarna hefur markað.

Ég lýk svo þessu máli mínu með því að endurtaka það, að þetta er eitt af þeim lánamálum iðnaðarins, sem ég hef lengi haft þá persónulegu skoðun á, að enda þótt afstaða Seðlabankans yrði jákvæð, ættu menn að forðast að gera sér of mikinn mat úr þeim möguleikum, sem þarna opnuðust. En það eru þarna nýir lánsfjármöguleikar iðnaðarins í samræmi við þær yfirlýsingar, sem ég hef greint frá hendi Seðlabankans.