24.11.1965
Sameinað þing: 13. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í D-deild Alþingistíðinda. (2814)

23. mál, hlutverk Seðlabankans að tryggja atvinnuvegum lánsfé

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Það stendur

svo í grg. fyrir þessari þáltill., með leyfi hæstv. forseta:

„Þessi mikli lánsfjárskortur atvinnuveganna stafar ekki af því, að lánsfé vanti, heldur hinu, að riflegur hluti sparifjárins eða yfir 1000 millj. kr. hefur verið frystur í Seðlabanka Íslands.“

Að mínu áliti er þessi skoðun algerlega röng, og vildi ég því fara um málið örfáum orðum, áður en það fer til nefndar.

Nú neita ég því ekki, að lánsfjárskortur sé staðreynd. En að orsökin til hans sé hin svokallaða sparifjárfrysting, því vil ég eindregið mótmæla. Annars finnst mér dálítið einkennilegt að tala um frystingu í þessu sambandi.

Það er eins og þetta sé hugsað þannig, að peningarnir séu teknir úr umferð og geymdir í frystihólfi í Seðlabankanum, og þá líklega jafnframt hugsað þannig, að seðlabankastjórarnir geti haft sér það til skemmtunar að fara niður íhólfið og kasta peningunum yfir höfuð sér, eins og sagt var um draugana í gamla daga. En í fyrsta lagi er það algerlega rangt, að þessir peningar hafi verið teknir úr umferð og settir í þetta svokallaða frystihólf. Öllum ætti að vera kunnugt um það, að Seðlabankinn hefur mikla útlánastarfsemi, og má þar m.a. nefna, að samkv. siðasta efnahagsyfirliti Seðlabankans frá 31. okt. 1965 námu endurkeyptir víxlar 1 milljarði og 72 millj. kr., ef talið er í heilum millj. Það er nærri því jafnhá upphæð og sparifjárbindingin nemur, en hún nam á sama tíma 1319 millj. kr. En auk þessa má á það henda, sem hæstv. viðskmrh. hefur oft réttilega bent á, þegar þessi mál hefur borið a góma hér á hv. Alþ., en hann er nú fjarstaddur, að það er ekki nokkur vafi á því, að sparifjárbindingin hefur átt verulegan þátt í því að gera Seðlabankanum mögulegt að safna þeim gjaldeyrissjóðum, sem þjóðin nú á.

Orsakirnar til lánsfjárskortsins eru að mínu útliti allt aðrar en sparifjárfrystingin svokallaða eða lánsfjárhöftin, eins og það er líka kallað, sem að mínu áliti er nýyrði, sem að skaðlitlu mætti hverfa aftur úr íslenzkri tungu, því að ég held, að það sé mjög erfitt að skilgreina orðið á nokkurn þann hátt, að í því geti verið skynsamleg meining. Og hverjar eru þá orsakirnar? Jú, hv. 1. flm. þessarar þáltill. var að mínu áliti alveg inni á réttri hugsun, þegar hann nefndi verðbólguna sem aðra orsök lánsfjárskortsins heldur en lánsfjárhöftin, sem bankarnir eiga að framkvæma. Það er nefnilega ávallt þannig, að þegar verðbólguþróun ríkir í þjóðfélaginu, verður lánsfjárskortur. Þá verður eftirspurnin eftir lánsfé meiri en hægt er að fullnægja. Allir vilja þá taka peninga að láni, Því að þeim er ljóst, að þeir hagnast á því að geta endurgreitt þessa peninga með verðminni peningum en þeir voru, þegar þeir fengu þá að láni. En hins vegar verða menn tregir til að eignast peninga. Þeir, sem peninga hafa milli handa, vilja þá annaðhvort festa þá í raunverulegum verðmætum eða eyða þeim, t.d. með því að gera sér glaðan dag fyrir þá. En góðar endurminningar geta verið fjárfesting líka í ákveðnum skilningi. Ef útrýma á lánsfjárskortinum, verður það að mínu áliti ekki gert nema með einu móti, nefnilega því að stöðva verðbólguþróunina, en að fara út í leiðir til þess mundi auðvitað leiða of langt í þessu sambandi.

Þá segir svo í grg. fyrir þessari þáltill., með leyfi hæstv. forseta:

„Reynslan hefur hins vegar sýnt, að verðþensla hefur aldrei verið meiri en síðan frystingin kom til sögunnar, og befur hún því bersýnilega engan árangur borið á því sviði.“

Mig furðar satt að segja á því, að greindir og gegnir menn eins og þeir hv. þm., sem standa að þessari þáltill., skuli telja sér samboðinn málflutning og rökstuðning af þessu tagi. Í fyrsta lagi er það nú þannig að mínu áliti, að það er ekki rétt, að verðþenslan hafi aldrei verið meiri en síðan frystingin kom til sögunnar. En það mál mun hafa verið mjög ýtarlega rætt í hv. Nd. fyrir nokkrum dögum, þegar landbúnaðarmálin voru þar til umr., og hygg ég, að allt, sem máli skiptir í sambandi við það, hafi þá komið fram, og mun því ekki fara út í það, enda snertir deilan um það, hvort verðbólguþróunin á síðustu árum hafi verið meiri eða minni en stundum áður, að mínu áliti ekki kjarna þessa máls, sem hér er um að ræða. Það er alveg rétt, að verðbólgustigið hefur undanfarin ár verið hærra en æskilegt er. Það má telja nær víst, að hagvöxtur hefði orðið meiri en hann raunverulega er, ef verðbólgustigið hefði verið lægra. Um það geri ég ekki neinn ágreining við hv. flm. En að álykta á þeim grundvelli, að allar þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið til þess að hamla gegn verðbólguþróuninni, séu gagnslausar, tel ég algerlega rangt, og væri írauninni að mínu áliti hægt að segja með jafngildum rökum, að þjóðfélagið kosti svo og svo miklu til lækna og heilbrigðisþjónustu, en samt haldi sjúkdómar áfram að hrjá mannkindina, svo að það sé þá auðsætt, að öll þessi framlög til heilbrigðismála komi ekki að neinu gagni.

En það, sem er aðalatriðið, er þetta, hvort verðbólguþróunin hefði ekki orðið enn þá örari, ef þessar ráðstafanir hefðu ekki verið gerðar, því að nú er það bæði svo, að stundum hefur verðbólgan verið meiri en síðustu árin, og förum við til annarra landa, þekkist þó hærra verðbólgustig en 10%, t.d. 50% í Brasilíu samkv. skýrslu, sem útbýtt var meðal þm. ekki fyrir löngu, og þannig má finna fleiri dæmi. Og ég tel ekki nokkurn vafa á því, að ef ekki hefðu verið gerðar ýmsar ráðstafanir í peningamálum til þess að hamla gegn verðbólguþróuninni, hefði hún orðið meiri en raun er á, þó að hitt sé að vísu ekki ágreiningsmál, að það hefur ekki tekizt að stöðva hana, hverju sem þar er um að kenna, það skal ég ekki fara út í.

Nei, það er ekki ónógt peningaframboð, sem veldur takmörkun framkvæmda á vegum atvinnuveganna. Þar er það annað, sem er þyngra á metunum, og þá fyrst og fremst vinnuaflsskorturinn og svo í öðru lagi ónóg sparifjármyndun. Það er að vísu rétt, að einstaklingar og einstök fyrirtæki getur vantað peninga til ýmiss konar framkvæmda, en að einblína á það er að mínu áliti að sjá ekki skóginn fyrir einstökum trjám. Aukið peningaframboð, miðað við þá verðbólguþróun, sem nú er, mundi að mínu áliti aðeins valda aukinni verðbólgu og því beinlínis hafa öfug áhrif við það, sem til er ætlazt. Það, sem þarf að gera í þessum málum, er ekki að fyrirskipa Seðlabankanum að auka peningaframboðið á óeðlilegan hátt, slíkt mundi ekki ná tilgangi sínum, heldur þvert á móti hið gagnstæða, heldur er það hitt, sem þarf að gera, að vekja traust á verðgildi peninganna, þannig að menn vilji eiga peninga frekar en festa þá eða eyða þeim. Þegar það hefur tekizt, með hvaða úrræðum sem er, mundi undir öllum kringumstæðum draga mjög úr lánsfjárskortinum. Það er að mínu áliti sú leið, sem fara á í þessu efni.