24.11.1965
Sameinað þing: 13. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í D-deild Alþingistíðinda. (2848)

42. mál, dreifing framkvæmdavalds

Flm. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Með þáltill. þessari er lagt til, að Alþ. kjósi 7 manna mþn., sem hafi það verkefni að athuga, með hvaða hætti bezt verði unnið að dreifingu framkvæmdavalds til fleiri staða en nú er og til eflingar á sjálfstjórn í landsfjórðungunum eða á öðrum stórum landssvæðum, eins og í till. segir. N. er ætlað að athuga sérstaklega um möguleika á að flytja að meira eða minna leyti ýmsar ríkisstofnanir eða mikilvægar þjónustustofnanir frá höfuðborginni til staða úti á landi í þeim tilgangi að auðvelda afgreiðslu mála og skapa meira jafnvægi í landinu. Þá er einnig lagt til, að n. athugi gaumgæfilega um möguleika á því að veita héraðsstjórnum rétt til fjármálalegrar yfirstjórnar og ráðstöfunar á tilteknum fjárveitingum, sem varða viðkomandi hérað eða umdæmi.

Tildrög þessarar till. eru þau, að miklar umr. hafa átt sér stað undanfarin ár um þann vanda, sem stafar frá vaxandi misvægi í þróun byggðarinnar í landinu. Allir virðast á einu máli um það, að óæskilegt sé, að byggðin úti á landi dragist saman á þann hátt, sem verið hefur nú um nokkurt skeið, og að byggðin hér í höfuðstaðnum og næsta nágrenni hans vaxi af slíkum hraða sem raun hefur verið á. Þegar rætt hefur verið um þessi vandamál, hafa skiljanlega verið uppi ýmsar skýringar á því, hvaða ástæður lægju einkum til þessarar þróunar. Mest hefur athygli manna beinzt að atvinnumálunum, og því hefur þá verið gjarnan haldið fram, að ráðið til þess að snúa þessari þróun við væri það að skapa betri atvinnuskilyrði á þeim stöðum úti á landi, sem einkum hafa orðið fyrir barðinu á fólksflóttanum.

Enginn vafi leikur á því, að mikil og örugg atvinna ræður miklu um búsetu manna. Það gefur auga leið, að fólk hlýtur að flytja frá þeim stöðum, þar sem atvinna er ónóg, og til þeirra staða, sem næga og örugga atvinnu hafa að bjóða. Það má því að mínum dómi engan veginn vanmeta þær till., sem fram koma um úrbætur í atvinnumálum landsbyggðarinnar til þess að hamla gegn fólksflutningunum þaðan. En það er skoðun mín, að ýmis fleiri atriði en viðhorfin í atvinnumál um hafi mikil áhrif á búsetu manna í landinu. Ég tel því, að nauðsynlegt sé að gefa vel gaum ýmsum slíkum atriðum, sem mikilvæg áhrif hafa einnig í þessum efnum. Efni þessarar till. miðar að því, að könnuð séu ýmis slík atriði og reynt verði að finna leiðir til þess að bæta úr vandanum einnig á þeim sviðum.

Það er alkunna, að á síðari árum hefur þróunin orðið sú í okkar þjóðfélagi, að meir og meir af hvers konar yfirstjórn og framkvæmdastofnunum ríkisins hefur flutzt til Reykjavíkur eða verið sett þar upp. Það er ekki aðeins það, að svo til öll heildverzlun landsins sé rekin í Reykjavík og þar með séu svo að segja allir vöruflutningar til landsins látnir fara gegnum Reykjavík, heldur hafa svo að segja allar framkvæmdastofnanir ríkisins verið byggðar hér upp. Hér í höfuðstaðnum eru miðstöðvar fræðslumálanna, skrifstofa fræðslumálastjóra og skólaeftirlitsins, hér eru skrifstofur vita- og hafnarmála fyrir allt landið, hér er skrifstofa vegamálastjórnar landsins alls, hér er hin mikla Tryggingastofnun ríkisins, ein umfangsmesta almannastofnun þjóðarinnar, hér eru miðstöðvar húsnæðismálastjórnar alls landsins, sem ákveður lánveitingar til íbúðabygginga, jafnt fyrir íbúana á Vestfjörðum og Austfjörðum eins og fyrir íbúa Reykjavíkur. Hér í Reykjavík eru allir stofnlánasjóðir og stofnlánabankar landsins, og hér eru svo að segja öll vátryggingarfélög, sem starfa í landinu. Þannig mætti lengi telja upp stofnanir og fyrirtæki, sem allir landsmenn verða að leita til að meira eða minna leyti með málefni sín. Það fólk, sem í höfuðborginni býr eða í næsta nágrenni hennar, á tiltölulega greiðan aðgang að þessum stofnunum. Það getur sjálft rætt við þá menn í þessum stofnunum, sem fjalla eiga um erindi þess. Allt öðruvísi er þessu farið um það fólk, sem býr úti á landi og óhægt á um vik með að reka erindi sín hér í Reykjavík. Fólkið úti á landi verður að skrifa mörg bréf og senda útfylltar margar skýrslur og veita mörg umboð til þess að geta fengið t.d. nauðsynlegustu án vegna íbúðarhúsabygginga. Og ef um afbrigðileg tilvik er að ræða, getur þessi málarekstur orðið æði tafsamur og þungur í vöfum. Þetta þekkja allir þeir, sem hafa þurft að reka slík mál sem þessi, sem ég hef hér minnzt á, við framkvæmdavaldið hér í Reykjavík. Við vitum það, að allir þeir, sem hafa með að gera framkvæmdir á vegum sveitarfélaga eða annarra slíkra aðila, verða að leggja margar göngur hingað suður til Reykjavíkur til þess að fá úrgreiðslu á sínum málum. Það er ekki hægt að koma fram byggingu á nýju barnaskólahúsi eða fá fram meiri háttar breytingu á barnaskóla, án þess að leitað sé um það til réttra yfirvalda hér í Reykjavík, leitað eftir samþykki þeirra, og hér verður að framkvæma, eins og þessi mál eru nú skipulögð, alla undirbúningsvinnu að þessum verkum, gera allar teikningar, kostnaðaráætlanir o.s.frv. Hið sama er að segja um hafnarframkvæmdir. Með þær verður að leita til yfirvaldanna hér í Reykjavík, fá samþykki þeirra fyrir þeim hugmyndum, sem menn hafa nm slíkar framkvæmdir hver á sínum stað úti á landi. Hér verður að gera allar áætlanir og teikningar, og hér verður yfirstjórn verksins raunverulega að vera. Hið sama er að segja um vega- og brúargerðir. Framkvæmdakerfið er þannig, að allar brýr, sem byggðar eru í landinu á vegum ríkisins, hvar svo sem þær eru byggðar, ern teiknaðar og um þær eru gerðar áætlanir hér í Reykjavík. Þannig er þessu varið.

Það er enginn vafi á því, að reynslan hefur sýnt, að það er erfitt og kostnaðarsamt á margan hátt fyrir aðila úti á landi að sækja í gegnum allar þessar framkvæmdastofnanir, sem staðsettar eru hérna í Reykjavík, með málefni sín. Og það er margfalt erfiðara fyrir menn úti á landi að vinna að framkvæmdum eða framgangi slíkra mála sem þessara heldur en hina, sem búa í næsta nágrenni við Reykjavík.

Ég held, að það sé enginn vafi á því, að nú sé svo komið, að þetta miðstöðvarvald hér í Reykjavik sé orðið allt of viðamikið, það sé búið að staðsetja hér fjöldamargar stofnanir, sem engin bein nauðsyn sé á að hafa staðsettar hér í Reykjavík og gætu fullt eins vel verið staðsettar annars staðar á landinu. Ég held því, að það sé orðin þörf á því að taka þessi mál öll til rækilegrar endurskoðunar og athuga um það, hvað af þessum stofnunum væri hægt að flytja héðan úr höfuðstaðnum og út á land eða hvort ekki væri mögulegt að skipta sumum þessum stofnunum þannig, að nokkuð sjálfstæðar starfsdeildir frá þeim væru reknar í hinum ýmsu landshlutum. Mér sýnist t.d., að fyllilega kæmi til greina, að nokkur hluti af núv. vegamálaskrifstofu, sem er rekin hér í Reykjavík, gæti verið staðsettur norður á Akureyri og að slík skrifstofa hefði þá með að gera brúargerðir og vegagerðir, t.d. á Norðurlandi og e.t.v. á Austurlandi, en það sé engin nauðsyn að hafa alla yfirstjórn þessarar stofnunar búsetta hér í Reykjavík. Svipað lít ég á varðandi yfirstjórn hafnar- og vitamála. Ég álit, að það væri auðvelt verk að skipta þeirri stofnun í nokkrar undirdeildir, og mætti þá standa miklu eðlilegar og betur að framkvæmd mála en nú er. Í þessum efnum þarf einnig að gefa nákvæmlega gaum staðsetningu á skólum í landinu. Það er enginn vafi á því, að á seinni árum hefur um of verið stefnt í þá átt að byggja upp meginhlutann af framhaldsskólakerfinu í landinu hér í Reykjavík. Ég held, að í mjög mörgum tilfellum hefði mátt staðsetja hina ýmsu framhaldsskóla annars staðar í landinu og slík staðsetning hefði orðið til þess að auðvelda mjög fólkinu, sem býr utan Reykjavíkur, aðsókn að skólum fram yfir það, sem nú er.

Það er mín skoðun, að framkvæmd þessara mála geti haft mjög mikil áhrif um það, hvernig búseta manna í landinu kann að þróast. Það á ekki að gera því fólki, sem býr úti á landi, erfiðara fyrir um að njóta þess, sem ríkið eða almannastofnanir eiga að veita landsmönnum, heldur en þörf er á. Ég býst við því, að því yrði e.t.v. borið við, ef ætti að flytja einstakar stofnanir héðan úr höfuðstaðnum og staðsetja þær útí á landi, ef ætti að skipta öðrum stofnunum upp í nokkrar starfsdeildir, að e.t.v. kunni að leiða af þessu nokkurn kostnaðarauka. Það má vera, að svo yrði að vissu leyti. En þegar tillit er tekið til þess mikla kostnaðar, sem nú fellur á fólkið, sem heima á utan Reykjavíkur og verður varðandi þessi mál öll að leggja á sig ferðalög og dvöl hér í Reykjavík til þess að vinna að fram gangi þessara mála, er ég ekki í neinum vafa um það, að þeim aðilum, sem verða að koma utan af landi hingað til Reykjavíkur til þess að vinna að þessum málum, mundi sparast mikið fé, og til þess verður einnig að taka tillit.

Ég tel, að það sé fráleitt skipulag, sem við búum nú við varðandi t.d. yfirstjórn húsnæðismálanna í landinu. En nú er skipulagið þannig, eins og allir hv. alþm. vita, að aðili, sem heima á langt frá Reykjavík, kannske á tiltölulega afskekktum stað úti á landi, verður að sækja til ákveðinnar yfirnefndar hér suður í Reykjavík um leyfi til þess að mega byggja sér íbúðarhús. Eins og lagaákvæðin eru nú, er með öllu óheimilt, ef menn vilja yfirleitt eiga kost á því að fá nokkurt lán út á íbúðina, að byrja framkvæmdir, fyrr en tiltekið leyfi þessarar yfirstjórnar hér í Reykjavík hefur fengizt. Aðilinn, sem heima á langt frá Reykjavík og þarf í slíkum tilfellum sem þessum að sækja um lán, verður auðvitað að fá sér rétt eyðublöð og útfylla þar marga dálka og svara mörgum fsp. Hann þarf að útvega sér teikningar að húsinu, a.m.k. í þríriti. Og mörg önnur form verður að fylla út. Síðan er umsóknin send. Í mjög mörgum tilfellum kemur það fyrir, að yfirstjórnin hér í Reykjavík finnur, að það er eitthvað áfátt varðandi umsóknina, og þá byrja bréfaskriftir. Þá er farið að senda bréf til baka til umsækjandans. Hann er spurður spjörunum úr, og þá þarf hann allajafna að útvega sér aðra teikningu eða enn frekari skýringar og senda suður á nýjan leik, og þegar þessi aðili hefur loksins getað fengið úrskurð um lán til íbúðarbyggingarinnar, þá verður hann að finna sér einhvern aðila í Reykjavík og gefa honum fullt umboð til þess að skrifa undir lánsskjölin fyrir sig, til þess að möguleiki sé fyrir hann að nálgast fjárhæðir, því að svo haganlega er frá þessum málum gengið, að aðili, sem á heima úti á landi og ekki á hægt um vik að ferðast til Reykjavikur sjálfur til þess að ná í lánsfjárhæðina, getur ómögulega fengið að skrifa undir lánsskjölin sjálfur, hann verður að gefa einhverjum aðila í Reykjavík umboð til þess, því að hér verður að ganga frá lánsskjölunum, því að þeir, sem með þessi mál hafa að gera, telja, að það sé ekki hægt að trúa mönnum úti á landi fyrir því að ganga frá slíkum pappírum sem þessum. Ég veit, að allir hv. alþm. þekkja, hvernig skipulagið er á þessum málum, og í rauninni er skipulagið ekkert miklu verra varðandi yfirstjórn húsnæðismálanna og afgreiðslu þeirra mála heldur en í fjöldamörgum öðrum tilfellum, varðandi aðra sjóði, sem landsmenn verða mjög að sækja til í ýmsum tilfellum, því að það fellur einmitt í hlut margra þm. að leita þarna meðalgöngu fyrir fólkið úti á landi. Og ég efast ekki um, að það er sameiginlegt álit, að ég hygg allra þm., að hér er um vægast sagt mjög þunglamalegt skipulag að ræða, sem torveldar fólki úti á landi að fá notið réttar síns til fulls, sem hlýtur á beinan og óbeinan hátt að hafa áhrif á það, hvort menn vilja leggja það á sig, þegar mörg atriði eins og þessi safnast saman, að eiga heima úti á landi og hvort þeir gefast ekki upp og flytja heldur hingað suður, þar sem framkvæmd allra þessara mála er og þar sem miklu auðveldara er að komast í gegnum allar þessar víggirðingar.

Það er því skoðun mín, að það sé mjög þýðingarmikið, þegar rætt er um það vandamál, sem misvægið í byggð landsins vissulega er, að athuga um skipulag það, sem nú er í ýmsum efnum á slíkum sviðum, sem ég hef hér aðallega gert að umtalsefni. Eins og segir í grg. þessarar till., þá yrði það meginverkefni þeirrar n., sem gert er ráð fyrir, að Alþ. kjósi samkv. till., að gera tili. um leiðir til þess að draga úr hinu mikla miðstöðvar- og framkvæmdavaldi í Reykjavík og til þess að snúa við þeirri þróun, að svo að segja allar meiri háttar þjónustustofnanir, opinber fyrirtæki, skólar og menningarstofnanir á vegum ríkisins séu staðsettar í höfuðborginni.

Við flm. þessarar till. flytjum hana ekki á neinn hátt vegna fjandskapar við höfuðborgina. Við gerum okkur fulla grein fyrir því, að það er óhjákvæmilegt, að höfuðborgin hafi ýmiss konar yfirstjórn þýðingarmikilla mála í landinu og að höfuðborgin sé stór og myndarleg borg. Það er ekki aðeins gagnlegt fyrir þá, sem í höfuðborginni búa, það er þýðingarmikið fyrir alla landsmenn. En ofvöxtur höfuðborgarinnar og of mikil samþjöppun valds þar er jafnhættulegt hér og í öðrum löndum, en sama vandamál og um er rætt í þessari till. er nú mjög á dagskrá í mörgum löndum.

Herra forseti. Ég hef hér áður á Alþ. talað fyrir þessari till. og sé þess vegna ekki ástæðu til þess að rekja efni hennar í löngu máli, enda veit ég, að hv. alþm. hafa þegar hugleitt það mál, sem till. fjallar um. Ég legg til, að till. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjvn. til fyrirgreiðslu.