09.02.1966
Sameinað þing: 26. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í D-deild Alþingistíðinda. (2873)

57. mál, lækkun dráttarvaxta í fiskveiðasjóði og stofnlánadeild Búnaðarbankans

Flm. (Björn Pálsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér þáltill. um lækkun dráttarvaxta í fiskveiðasjóði og stofnlánadeild Búnaðarbankans, sem hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hlutast til um, að dráttarvextir í fiskveiðasjóði og stofnlánadeild Búnaðarbankans verði lækkaðir úr 1% á mánuði í 3/4% á mánuði eða sem svarar 9% á ári.“

Í sjálfu sér þarf ég ekki að halda langa ræðu um þetta. Aðalatriðið er tekið fram í grg. í fáum orðum, og sé ég ekki ástæðu til að endurtaka það í ræðu nákvæmlega.

Ég veit það vel, við vitum það þingmennirnir, að það er ekki ætlazt til þess, að við séum að skipta okkur af, hve háir vextir eru eða um gengisskráningu íslenzku krónunnar. Árið 1961 var þetta vald tekið af þinginu og falið Seðlabankanum eða raunverulega sennilega frekar ríkisstjórninni, því að ríkið á Seðlabankann. Ég skal raunar ekki fullyrða um það, hvort bankastjórarnir ráða yfir ríkisstj. eða ríkisstj. yfir bankanum viðvíkjandi þessum atriðum eða hvort þar er um samkomulag að ræða, sem sennilega er nú. En staðreynd er, að það er ekki ætlazt til þess, að við skiptum okkur mikið af þeim hlutum. Það hafa legið frv. frammi undanfarin ár um að breyta þessu og breyta vöxtunum, færa þá yfir í svipað horf og þeir voru fyrir 1960, en það hefur ekki fengið afgreiðslu. Ég fer ekki heldur fram á það í þessari þáltill., að vöxtum af víxlum eða dráttarvöxtum af þeim verði breytt, heldur aðeins að dráttarvextir í stofnlánadeildinni og fiskveiðasjóðnum verði lækkaðir frá því, sem var 1960. Víxlavextir voru ákveðnir 12% 1960, síðar voru þeir lækkaðir um 3%, en um s.l. áramót eða eftir að þessi þáltill. var samin og lögð fram, þá voru þeir aftur hækkaðir um 1%, þannig að raunverulega hafa vextirnir ekki lækkað á víxlum nema sem svarar 2% frá 1960. Hins vegar hafa vextir af föstum lánum í fiskveiðasjóði og stofnlánadeild Búnaðarbankans staðið í stað, og dráttarvextir af þeim upphæðum hafa ekki lækkað neitt og eru 12% nú.

Nú er það þannig með fiskveiðasjóðinn, að það er tekið af öllum útflutningsvörum sjávarafurðanna á annað prósent, sem er lagt í þennan sjóð. Samt á ríkissjóður fiskveiðasjóðinn, þannig að sjómenn og útgerðarmenn og aðrir þeir, sem að þessari framleiðslu vinna, greiða þarna mikil gjöld. Það er því ekki óeðlilegt, að það sé tillit tekið til þess og að lán til fiskvinnslustöðva og skipa séu nokkru lægri en almenn lán, enda er það svo, en þegar vextir af víxlum voru lækkaðir, þá hefur alveg láðst að lækka þessa dráttarvexti.

Ef við athugum þetta mál af sanngirni, hljótum við að viðurkenna, að í flestum tilfellum eða nær öllum er þetta ekki af hirðuleysi, sem menn borga ekki vexti og afborganir af lánum sinum, heldur af getuleysi. Við vitum, að aðstaða útgerðarinnar er ákaflega misjöfn og breytileg, þannig að hún getur verið í þessum landsfjórðungnum erfið í ár, en hagstæð eftir 1—2 ár o.s.frv., og ég skal raunar viðurkenna það, að sá maður, sem stjórnar fiskveiðasjóði, hefur skilning á þessum málum, en hann hefur sagt mér, að sér sé ekki heimilt annað en innheimta þessa dráttarvexti, og ég held það sé gert undantekningarlítið í fiskveiðasjóði. Það er miklu minna um vanskil hjá Búnaðarbankanum, stofnlánadeild hans. S.l. ár er mér sagt, að væri ekki nema í kringum milljón, sem væri vangreitt, og það væri í flestum tilfellum af jörðum, sem á einhvern hátt tilheyrðu ríkinu eða opinberum aðilum, en aftur mjög lítið um vanskil hjá einstökum bændum. Hins vegar voru í fiskveiðasjóði vanskilaskuldir ca. 130 millj. Ég veit, að þeir bátar, sem hafa stundað síldveiðar s.l. tvö ár og gengið vel, þeir eiga auðvelt með að standa í skilum. Hins vegar er nokkur hluti af síldveiðibátunum, sem hefur haft takmarkaðan afla, og hafa ýmsir þeirra lent í greiðsluörðugleikum, og svo eru það sérstaklega þeir bátar, sem stunda fiskveiðar, smábátarnir og fiskibátarnir, sem stunda línuveiðar, sem eiga erfitt uppdráttar. Reynt hefur verið að bæta úr þessu með ýmsum ráðum, m.a. með lánum til bátanna, sem ekki eru líkur til að verði endurgreidd.

Mín skoðun er sú, að það sé ekki rétt að leggja það miklar byrðar á menn, ef hægt er að komast hjá því, að þeir gefist upp. Lagnir hestamenn hlífast við að uppgefa hesta sína eða leggja það þungar byrðar á þá, að þeir leggist. Ég held, að þeir, sem eiga að stjórna fjármálum þjóðarinnar, þurfi líka að athuga það að leggja ekki byrðar á neina aðila það miklar, að þeir gefist alveg upp. Það segir gamalt máltæki, að guð hjálpi þeim, sem hjálpi sér sjálfir. Ég vil ekki taka það allt of bókstaflega, en staðreyndin er, að það verður margur til að rétta þeim hjálparhönd, sem reynir að bjarga sér sjálfur. En ef menn missa sjálfsbjargarviðleitnina, eru öll sund lokuð. Ég sé því ekki, að það sé viturlegt eða sanngjarnt, að fiskveiðasjóður eftir fyrirskipun Seðlabankans og Seðlabankinn vafalaust með samþykki ríkisstj. leggi það þungar byrðar á þá útvegsmenn, sem erfiðasta hafa aðstöðuna, að það skapi fullkomið vonleysi hjá þeim. Ég fer ekki fram á, að þessir vextir séu lækkaðir nema í 9% á ári, og það er þó 2 1/2% hærri vextir en þeir fá af sínum föstu lánum, svo að þetta ætti ekki að skaða viðkomandi lánastofnun, síður en svo, þó að einhver dráttur yrði, en það mundi hvetja mennina til að reyna að greiða þetta, og aðalatriðið fyrir þessar stofnanir, fiskveiðasjóð og stofnlánadeildina, er það, að skuldir innheimtist, en ekki, að það séu innheimtir af þeim okurvextir.

Það hafa ýmis gjöld verið lögð á útvegsmenn siðari árin. Þeir, sem bezta hafa aðstöðuna, hafa getað greitt þetta, en hinir, sem lakari hafa aðstöðuna, eiga annaðhvort örðugt með það eða geta það alls ekki. Ég get nefnt sem dæmi launaskattinn, sem lagður var á í fyrra. Ég get nefnt, að orlof var hækkað um 1%. Enn þá eru útvegsmenn og önnur atvinnufyrirtæki í landinu pínd til að leggja í atvinnuleysistryggingasjóð, sem sópar af þjóðinni, bæjarfélögum, ríkissjóði og einstaklingum og fyrirtækjum, um 100 millj. á ári, sem virðist vera lagt fyrir að mestu eða öllu leyti. Þar við bætast tugmilljóna vextir, sem bætast við hann árlega, og þetta er eingöngu gert til að útvega fé til að lána út. Það vita allir menn, að það þarf ekki vegna atvinnuleysis, því að það er ekkert atvinnuleysi, og atvinnuleysistryggingasjóður er það mikill, að vextir af honum mundu miklu meir en nægja til að fyrirbyggja það, ef um verulegan atvinnuskort yrði að ræða, ef einhver landshluti þyrfti styrktar við. Það má kannske segja, að hver liður af þessu hafi ekki svo mikið að segja, en búið er að pína útgerðina þannig eða vissan hluta hennar vægast sagt, að ekkert er til að borga með, og þetta bætist svo ofan á. Það þarf peninga til að geta borgað þetta, þó að það séu ekki stórar upphæðir. Ég held, að það sé réttara að hafa byrðarnar ekki of þungar, svo að það þurfi ekki að hlutast til um að létta baggana, taka einhvern hluta af þeim, eins og gert er óbeint með þessum styrkjum og lánum, sem aldrei verða borguð, það sé bezt að reyna að hvetja menn til sjálfsbjargarviðleitni og reyna að stuðla að því, að menn komist af án þess að biðja um aðstoð.

Svo er eitt með þessa útgerðarmenn, að það er erfitt að fá greiðslurnar í mörgum tilfellum, og það sem meira er, að það er misjafnlega erfitt. Ég hef átt skipti við ýmsar fiskvinnslustöðvar, og þetta er ákaflega örðugt. Mér virðist t.d. um fiskafurðir, sem ég hef þurft að innheimta fyrir, að Austfirðingar og Vestmanneyingar hafi reynzt eiga auðveldast með að greiða, aftur þeir, sem hafa bein viðskipti við bankana hér, aðalbankana, þeir hafa átt erfiðara. Ég skal ekki fullyrða, í hverju þetta liggur, en ég er sannfærður um, að að einhverju liggur það í því, að það er meiri skilningur hjá útibússtjórunum á þörfum og kjörum atvinnurekendanna en hjá þessum herrum, sem sitja hér í aðalbönkunum í Reykjavík, þeir fá betri fyrirgreiðslu. Sannleikurinn er sá, að þeir, sem verka fisk og ekki eiga verulegt kapital til að leggja í það sjálfir, eru alltaf í vanskilum, þótt Seðlabankinn láni rúm 50% og viðbótarlán sé 15%. Í fyrsta lagi er mjög varlega áætlað útflutningsverðið, og þegar búið er að draga frá kostnað, er þetta ekki meira en 65%, sem menn fá lánað. Ef þessir menn eiga að standa í skilum, þurfa þeir að eiga 35% sjálfir. Í mörgum tilfellum eiga þeir það ekki og alls ekki þeir, sem eru að byrja. Gömul og gróin fyrirtæki, það getur skeð, að þau eigi það, en ekki byrjendur, þannig að þeir, sem gera út báta, en verka ekki fiskinn sjálfir, eiga í mörgum tilfellum mjög erfitt með að fá þetta greitt strax. Þetta veldur eðlilega því, að þeir eiga örðugt með að standa í skilum við lánastofnanirnar, þannig að í mörgum tilfellum eru vanskil af því, að það innheimtist ekki fyrir afurðirnar, sem bátarnir afla og leggja inn hjá fiskkaupendum eða verka sjálfir. Ég held því, að það hljóti allir að viðurkenna, að það sé bæði skynsamlegt og sanngjarnt að lækka þessa dráttarvexti í þessum lánastofnunum, sem eru að miklu leyti byggðar upp fyrir fé, sem tekið er af þeim mönnum, sem fá féð lánað.

Ég vil vænta þess, að ríkisstj. taki með skilningi á þessu máli og hlutist til um það við forráðamenn bankans, — ég veit hún getur komið því fram, sem hún vill koma fram, við forráðamenn bankans, — að þessir dráttarvextir verði gerðir hóflegri en þeir eru nú, þannig að þeir skapi ekki algert vonleysi hjá þeim, sem af einhverjum ástæðum eiga erfitt með að greiða á réttum gjalddaga. Við höfum ekkí önnur ráð, a.m.k. ekki þeir, sem ekki eru stuðningsmenn ríkisstj. og geta þess vegna ekki talað á þingflokksfundum hjá þeim flokkum, sem hafa ráðherra í ríkisstjórn, — við höfum ekki önnur ráð en að hreyfa þessu í þinginu, og ég vona, að þing og stjórn taki það til vinsamlegrar athugunar.

Ég vil svo leyfa mér að óska þess, að þessari þáltill. verði vísað til fjvn.