23.02.1966
Sameinað þing: 28. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í D-deild Alþingistíðinda. (2877)

62. mál, endurskoðun skólalöggjafarinnar

Flm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. 7 þm. Framsfl. bera fram till. þessa til þál. um endurskoðun skólalöggjafarinnar, og mun ég af hálfu flm. gera grein fyrir till. með nokkrum orðum. Tillgr. er svo hljóðandi:

Alþ. ályktar að kjósa hlutfallskosningu 7 manna n. til þess að annast í samráði við hlutaðeigandi stjórnarvöld og kennarasamtökin endurskoðun á allri skólalöggjöf landsins nema löggjöf um Háskóla Íslands. Endurskoðunin miðist fyrst og fremst við, að samhæft verði hið opinbera fræðslustarf í almennum skólum og sérskólum aðkallandi þörfum þjóðlífsins á hverjum tíma og að allir fái sem jafnasta aðstöðu til náms, hvar sem þeir búa á landinu. Leita skal n. aðstoðar sérfræðinga eftir þörfum við endurskoðunina. N. kýs sér sjálf formann. Áliti og till. skili n. til Alþ., svo fljótt sem hún fær við komið. Kostnaður við störf n. greiðist úr ríkissjóði.“

Margir hafa látið þá skoðun í ljós að undanförnu, að tímabært sé og nauðsynlegt að taka skólalöggjöfina eða a.m.k. aðalþætti hennar til endurskoðunar. Þessi skoðun hefur komið fram bæði hér á hv. Alþ. og utan þings og ekki sízt hjá mönnum, sem sérþekkingu hafa á uppeldisog kennslumálum og kunnugir eru starfsháttum skólanna. Mörg félagasamtök hafa ályktað um þetta mál og yfirleitt á einn veg. Og nú er svo komið, að hæstv. ríkisstj. hefur sjálf tekið undir þetta. Í tilkynningu ríkisstj., sem hæstv. forsrh. flutti á Alþ. 13. okt. s.l., segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ráðgerð er heildarendurskoðun á þeim þáttum skólalöggjafarinnar, sem ekki hafa verið endurskoðaðir á undanförnum árum, í þeim tilgangi að laga námsefni og skipulag skólanna að breyttum þjóðfélagsháttum, setja nýjar og einfaldari reglur um samskipti ríkis og sveitarfélaga um stofnun og rekstur skóla og endurskipuleggja yfirstjórn fræðslumálanna. Teknar verði upp skipulegar vísindalegar rannsóknir í skóla- og uppeldismálum. Samin verður framkvæmdaáætlun um skólabyggingar á næstu árum, og verður þar stefnt að því að fullnægja með skipulegum hætti þörf fyrir skólahúsnæði á öllum skólastigum.“

Í þessari tilkynningu segir aðeins, hvað ráðgert er af hálfu ríkisstj. í þessum efnum. Um það er ekkert sagt, hvernig ríkisstj. hyggst láta framkvæma endurskoðunina, hver eigi að hafa þar forustu eða hverjir skuli leysa verkið af hendi.

Í till. okkar er kveðið svo á, að n., er Alþ. kýs hlutfallskosningu, skuli annast endurskoðunina og hafa um málið samráð við stjórnarvöld og kennarasamtökin. Leita skal nefndin aðstoðar sérfræðinga eftir þörfum við endurskoðunina, eins og kveðið er á í till. Skv. till. er Alþ. falin forusta um þetta mikilvæga mál og vandasama. Augljóst er, að það, sem kveðið er á um í þessari till., og það, sem ríkisstj. ráðgerir í þessum efnum, getur vel samrýmzt, þannig að heildarendurskoðun skólalöggjafarinnar verði tryggð með atbeina Alþ. og endurskoðunin framkvæmd á þann hátt, sem í till. þessari segir. Við flm. viljum því vænta aukins stuðnings Alþ. við þessa till.

Vissir þættir skólalöggjafarinnar eru orðnir gamlir. T.d. eru lög um fræðslumálastjórn 36 ára. Fyrir 11 árum var með lögum verksviði fræðslumálastjóra skipt og komið á fót stofnun fjármálaeftirlits skóla. Nú er yfirstjórn fræðslumála og undirbúningur fjárveitinga til skólaframkvæmda hjá menntmrn., fræðslumálaskrifstofu og fjármálaeftirliti skóla, en ekki fullt samræmi í löggjöfinni um þennan þátt mála. Hin almenna skólalöggjöf, þ.e. um skólakerfi og fræðsluskyldu, barnafræðslu, gagnfræðanám og menntaskóla, er senn tvítug. Á s.l. 20 árum hafa orðið örari breytingar á þjóðlífinu en nokkru sinni fyrr. Þéttbýli hefur stóraukizt, bæir stækkað og þar setzt að nær öll fólksfjölgunin. En strjálbýlið heldur varla sínum fólksfjölda og alls ekki í réttu hlutfalli við íbúatölu landsins í heild. Heimili í þéttbýlinu hafa ekki skilyrði til að veita jafnsterk uppeldisáhrif og sveitaheimilin gerðu, og heimavistarskólarnir í sveitum taka til sín börn og ungmenni af sveitaheimilunum, meðan námstíminn varir, og taka þar með í sínar hendur að miklu leyti það uppeldisstarf, sem sveitaheimilin önnuðust fyrr. Þetta er orðið óhjákvæmilegt og að ýmsu leyti hagkvæmt, enda er mikið leitað eftir fjárframlögum til að reisa heimavistarskóla. En þetta fyrirkomulag leggur skólunum ríka skyldu á herðar, og ríkisvaldið verður að búa þeim góð skilyrði til að rækja þær skyldur.

Síðan hin almenna skólalöggjöf, er nú gildir, var sett, hefur orðið gerbreyting á atvinnuháttum þjóðarinnar. Vélvæðing ryður sér til rúms í nær öllum atvinnugreinum. Þetta gildir ekki einungis gagnvart aðalatvinnuvegum þjóðarinnar og við stórar framkvæmdir. Breytingin nær einnig til margs konar iðnaðar, og notkun véla við skrifstofustörf og hvers konar skýrslugerð ryður sér öri til rúms. Þessi öra breyting á atvinnuháttum og vinnubrögðum knýr á um endurskoðun skólalöggjafarinnar, ef þess er nægilega gætt, að fræðslukerfi landsins á hverjum tíma sé sem bezt samhæft þeim kröfum, sem gera verður með tilliti til breyttra þjóðfélagshátta og nýrrar þekkingar á sviði uppeldis- og fræðslumála.

Fyrir flm. þessarar till. vakir, að endurskoðunin, sem framkvæma á samkv. henni, verði ekki einungís miðuð við barnafræðslustigið. Hún þarf að gripa inn á svið framhaldsmenntunar, bæði gagnfræðaskóla, menntaskóla og margra sérfræðiskóla, þar sem ekki sé einvörðungu fjallað um fjölda skólanna og stærð, heldur og um námsefni og kennsluhætti.

Menntaskólum þarf að fjölga, svo sem lög kveða á um. Námsefni og starfshætti þeirra þarf að endurskoða m.a. með tilliti til fjölbreyttari skiptingar í deildir.

Þá telja flm. ekki sízt nauðsynlegt að kanna rækilega og gera sér grein fyrir þörf þjóðfélagsins fyrir ýmsa sérfræðiskóla, svo sem í tækni og hagnýtum greinum, sem snerta atvinnuvegi landsins, og að athugað sé um skipan þeirra og stöðu innan fræðslukerfisins.

Á Norðurlöndum hafa lýðháskólar lengi starfað og þróazt samhliða samfelldu skólakerfi. Hér þarf í löggjöfinni að hafa rúm fyrir æskulýðsskóla, er geti starfað á svipuðum grundvelli og lýðháskólar gera í nágrannalöndunum.

Þegar gildandi skólalöggjöf var sett, var að ýmsu leyti lagt út á nýjar brautir í skólastarfi hér á landi. Nú er fengin svo löng reynsla af framkvæmd þeirrar skólalöggjafar, sem í gildi er, að af þeirri reynslu má margt læra. Við endurskoðun skólalöggjafarinnar ber að draga rökréttar ályktanir af fenginni reynslu, svo sem um gildi hins svonefnda landsprófs og framkvæmd þess, um það, við hvaða aldur nemenda á að miða skipti milli barnafræðslustigs og gagnfræðastigs, og fleira mætti nefna.

Lög um fræðslukerfi og skólaskyldu kveða að vísu á um skólaskyldu allra barna á aldrinum 7 —15 ára. Frá því eru þó gerðar vissar undantekningar. Undanþáguákvæði laganna um framkvæmd skólaskyldu ber að líta á sem bráðabirgðaákvæði, sem nauðsynleg voru á sínum tíma og réttmætt að framkvæma um sinn. En nú eru fræðslukröfur vaxandi, en skilyrði til heimakennslu mjög erfið víðast hvar. Hins vegar er nú orðinn mikill aðstöðumunur til skólagöngu eftir því, hvort í hlut eiga dreifbýli eða kaupstaðir, þannig að stórlega hallar á sveitir og hinar smærri byggðir við sjávarsíðuna að þessu leyti. Það er staðreynd, að skólanám barna og unglinga víða í sveitum er enn í framkvæmd mun skemmra og námsgreinar þar oft fábreyttari en í kaupstöðum og hinum stærri kauptúnum. Vilja flm. sérstaklega benda á, að jöfnun þessa aðstöðumunar sækist allt of seint, þrátt fyrir það að gildandi skólalöggjöf er nú orðin tvítug.

Þá viljum við flm. sérstaklega benda á vaxandi erfiðleika unglinga í sveitum og þorpum til gagnfræðanáms og nauðsyn þess, flestu öðru fremur, að gera mjög verulegt átak í því skyni að ryðja þeim erfiðleikum úr vegi, einkum með því að fjölga héraðsskólum í landinu. Hver sýsla er að jafnaði sérstakt fræðsluhérað samkv. skólalöggjöfinni, og með gildandi lögum um gagnfræðanám var stefnt að því, að einn gagnfræðaskóli hið minnsta skyldi starfa í hverju fræðsluhéraði. Þrátt fyrir þetta hefur enginn héraðsskóli verið reistur hér á landi s.l. 16 ár. Aðsókn að þeim héraðsskólum, sem starfandi eru, hefur hin síðari ár verið svo mikil, að árlega hefur orðið að vísa fjölmörgum umsækjendum frá skólavist og í sumum héruðum verða vandamenn unglinga að hafa mörg útispjót um að fá skólavíst þeim til handa, eftir að skyldunámi lýkur.

Samkv. gildandi lögum eiga skólar gagnfræðastigsins að greinast í tvær hliðstæðar deildir, verknámsdeild og bóknámsdeild. Barnapróf veitir rétt til inngöngu í hvora þessara deilda um sig. Enn vantar mikið á, að þetta sé þannig í framkvæmd, að barn, sem lýkur prófi, geti gengið til náms í verknámsdeild gagnfræðastigs, hvar sem er á landinu. Þetta þarf að endurskoða með tilliti til þess, að samræmi sé í löggjöf og framkvæmd.

Þeir, sem ræða skólamál, tala stundum um gamla og nýja skólann. Þetta getur táknað annars vegar skóla, er álitur markmið sín sígild og þeim verði aðeins náð eftir venjubundnum leiðum, sem skólinn hefur sjálfur markað, hins vegar skóla, er leggur mesta áherzlu á, að starfshættir séu í samræmi við atvinnulegar og félagslegar aðstæður í þjóðfélaginu á hverjum tíma. Að mínum dómi er ekki rétt og naumast hægt að aðgreina þetta tvennt fullkomlega. Með menntuninni ber að efla persónulegan þroska og styrkja síðgæði þeirra, er hennar njóta. Þess á skólinn að gæta á öllum tímum.

Hin sérstæða íslenzka menning hefur varðveitzt og þróazt, frá því að byggð hófst hér á landi. Því þarf nú að gefa sérstakar gætur, að á þeim meiði myndist ekki brotalöm á tímum hinna hraðfleygu breytinga á atvinnuháttum og þjóðlífi. Við eigum að kosta kapps um að varðveita þjóðernið og efla þjóðlega menningu. Skólunum ber jafnan að leggja ríka áherzlu á þær greinar, sem eru séreign þjóðarinnar og sérkenna menningu hennar, hver skóli með því námsefni og aðferðum, er hæfir stöðu hans í skólakerfinu. En í skólakerfinu verður jafnframt að taka tillit til þess og í vaxandi mæli, að við lifum í samfélagi þjóða og verðum að standa á svipuðu stigi og þær þjóðir, sem okkur eru næstar, bæði efnahagslega og menningarlega, til þess að dragast ekki aftur úr öðrum. Þá þarf að auka kennslu í mörgum greinum, sem í eðli sinu eru alþjóðlegar. Við verðum að búa margt æskufólk vel undir það að tileinka sér og hagnýta nýja og aukna tæknikunnáttu til eflingar atvinnulífi þjóðarinnar. Ef gáfur hvers og eins fá að njóta sín sem bezt í námi og starfi, verður í senn tryggð farsæld einstaklingsins og efling þjóðlífsins.

Eðlilegt er og sjálfsagt að dómi okkar flm. þessarar till.hv. Alþ. hafi sjálft forustu um framkvæmd þessa vandasama og mikilvæga máls, eins og hér er lagt til. Þetta mál var borið fram á síðasta Alþ. og till. um þetta efni þá vísað til hv. fjvn. Fjvn. skilaði álitum um málið hinn 5. maí 1966, eða fáum dögum fyrir þingslit, svo að það vannst ekki tími til þess á síðasta þingi að afgreiða þetta mál endanlega. Þess vegna er málið nú flutt hér að nýju.

Fjvn. tók í sjálfu sér vel undir þessa till. og viðurkenndi nauðsyn þess, að endurskoðun sú, sem hér um ræðir, yrði látin fara fram. Það kemur glöggt fram í nál. Þó að n. ætti ekki samstöðu um niðurstöðuna, kemur þetta fram í báðum nál. eða álitum beggja hluta n. Þar kemur það einnig fram, að fjvn. hafi í fyrra sent þessa till. til umsagnar og fengið svör frá fræðslumálastjóra, fjármálaeftirlitsmanni skóla, rektor menntaskólans á Akureyri, skólameistara menntaskólans á Laugavatni og Sambandi ísl. barnakennara. Og í nál. kemur það enn fremur fram, að þeir aðilar, sem n. leitaði álits hjá, taka allir undir nauðsyn þess, að skólakerfið sé rannsakað gaumgæfilega, og sumir mæla ákveðið með samþykkt till., eins og hún liggur fyrir. Og enn fremur segir í nál.:

„Ekki verður séð, að neinn grundvallarskoðanamunur sé milli tillögumanna og umsagnaraðila. Rauði þráðurinn í umsögnum þeim, sem borizt hafa, er sá, að samræmd athugun á skólakerfinu þurfi að fara fram.“

Ég mun nú ekki, nema tilefni gefist, hafa öllu fleiri orð um þessa till., vænti þess, að málið liggi skýrt fyrir hv. þm., og ég tel eðlilegt, að sú n., sem kannaði þetta mál í fyrra, fái það enn til athugunar. En vegna þeirrar athugunar, sem þá var gerð, verð ég að vænta þess, að n. geti nú á skömmum tíma tekið afstöðu til málsins. Ég legg því til, herra forseti, að þegar þessari umr. lýkur, verði till. vísað til hv. fjvn.