17.12.1965
Efri deild: 32. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 475 í B-deild Alþingistíðinda. (289)

89. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál

Frsm. meiri hl. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti Fjhn. hefur haft frv. þetta til athugunar, en eins og nál. þau, sem útbýtt hefur verið, bera með sér, hefur hún ekki náð samstöðu um frv. Við, sem að meirihlutanál. á þskj. 205 stöndum, leggjum til, að það verði samþ. óbreytt, en aðrir nm. hafa tjáð sig frv. andvíga og skila sérálitum.

Efni þessa frv. er hv. þdm. kunnugt og því ástæðulaust að rekja það. Hvað tilgang þess snertir, er hann auðvitað sá fyrst og fremst að afla tekna í ríkissjóð, það hefur aldrei verið neitt launungarmál. Það má vitanlega alltaf um það deila, hvort afla skuli nauðsynlegra tekna ríkissjóði til handa með þessu móti eða einhverju öðru, en annars virðist andstaða hv. stjórnarandstæðinga gegn þessu frv. ekki byggjast á því, að þeir telji einhverja aðra tekjuöflun koma frekar til greina, heldur hinu, að þeir eru andvígir öllum hugsanlegum leiðum til að afla ríkissjóði þeirra tekna, sem þarf til þess að forðast halla á fjárl. Slík afstaða væri skiljanleg, ef þeir jafnframt héldu því fram, að ekkert væri athugavert við það, þótt fjárl. væru afgreidd með halla. En því fer, sem kunnugt er, fjarri. Þvert á móti hafa þeir mjög gagnrýnt það, að greiðsluhalli skuli hafa orðið á fjárl. á s.l. ári og verði að líkindum einnig á því ári, sem nú er að enda, og telja slíkt vott stjórnleysis og upplausnar. En ef ekki á að vera halli á fjárl., verður annaðhvort að afla nægilegra tekna til þess að standa undir ríkisútgjöldum eða skera útgjöldin niður. Það hlýtur hverju mannsbarni að vera ljóst.

Nú tala hv. stjórnarandstæðingar að vísu um eyðslu í ríkisbúskapnum og þörf á meiri sparnaði. Slíkt er þó ódýru verði keypt og verður raunar að skoðast sem ómerkt hjal, svo lengi sem ekki er bent á neina ákveðna liði í útgjöldum ríkisins, sem skera megi niður. En engar slíkar ábendingar um niðurskurð, er eitthvað muni um á fjárl., hafa komið fram frá hv. stjórnarandstæðingum á þessu né undanförnum þingum, og meðan ekki verður þar breyting á, verður slíkt sparnaðarhjal létt í vasa fyrir ríkissjóðinn.

Afstaða hv. stjórnarandstæðinga til fjármála hins opinbera er því í stuttu máli sú, að þeir fordæma hallabúskap hjá ríkinu, eru samt á móti öllum tekjuöflunarleiðum til þess að forðast slíkan halla og hafa engar till. að gera um niðurskurð ríkisútgjalda. Það eru m. ö. o. allir vegir ófærir, eins og stóð í einu málgagni hv. stjórnarandstöðu í gær, og tel ég þetta mjög táknrænt fyrir allan málflutning hv. stjórnarandstöðu, a.m.k. hvað efnahagsmálin snertir. Það er að vísu talað um það í nál. hv. 2. minni hl. fjhn., að nauðsynlegt sé, að tekin sé upp ný efnahagsstefna, og eins og það er orðað, rofinn sá vitahringur ofsköttunar og óhófseyðslu, sem ríkisstj. hafi smíðað á undanförnum árum. Það er víst „hin leiðin“, sem hefur verið nefnd, sem hér er höfð í huga, en hingað til hefur það verið æði dularfullt og þoku hulið, hvar sú leið er og hvert hún leiðir, þannig að meðan það ekki er nánar skýrt, verður það tæpast tekið alvarlega.

Nú er það auðvitað fjarri mér að halda því fram, að hæstv. núv. ríkisstj. og stuðningsflokkum hennar hafi í efnahagsmálum og öðru tekizt að skapa hinn bezta heim allra heima. Það fer enn margt aflaga, þannig að umbóta er þörf. En hinn neikvæði málflutningur hv. stjórnarandstöðu að vera á móti öllum hugsanlegum leiðum og telja þær ófærar leiðir sízt af öllu til þeirra umbóta, sem vafalaust er þörf á. Sú forusta, sem hér er boðið upp á, er sízt af öllu líkleg til þess að leiða þjóðina fram á veg.

Við stuðningsmenn hæstv. ríkisstj., sem með þessu frv. mælum, gerum það ekki vegna þess, að við teljum aukna gjaldheimtu frá borgurunum sérstaklega æskilega, heldur af hinu, að okkur er ljós nauðsyn þess að afla ríkissjóði nægilegra tekna til þess að forðast stórfelldan hallarekstur. Álögur á borgarana til opinberra þarfa verða auðvitað að vera í hófi, ef þær eiga ekki að lama sjálfsbjargarviðleitni þeirra. Hitt er þó vitanlega rangt í málflutningi hv. stjórnarandstæðinga, að innheimta á gjöldum til hins opinbera, hvort sem um er að ræða skatta eða önnur gjöld, sé fordæmanleg vegna aukinnar dýrtíðar, sem af þeim leiði. Ástæðan til þess, að ríkið heimtir skatta og önnur gjöld af þegnunum, er sem sé ekki sú, að stjórnarvöldin séu haldin kvalalosta, þannig að þetta sé eingöngu gert til þess að pína skattþegnana, heldur einmitt af hinu, að skattheimtan er nauðsynleg til þess að forðast þá óðaverðbólgu, sem leiða hlyti af sívaxandi lántökum ríkisins hjá Seðlabankanum.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að ræða þetta mál frekar, en meiri hl. fjhn. leggur samkv. áður sögðu til, að frv. verði samþ. óbreytt.