02.11.1965
Neðri deild: 10. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 22 í B-deild Alþingistíðinda. (29)

5. mál, brunatryggingar utan Reykjavíkur

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér um ræðir, er komið frá hv. Ed. og hefur hlotið þar einróma samþykki.

Á síðari hluta þings s.l. vetur var samþ. frv., sem efnislega er samhljóða þessu frv., um brunatryggingar í Reykjavík. Við umr. um fyrrgreint frv. var m. a. talið nauðsynlegt að undirbúa samþykkt frv. um sama efni varðandi brunatryggingar utan Reykjavíkur, og þess vegna er frv. þetta nú flutt að ósk Sambands ísl. sveitarfélaga eða fulltrúaráðs þess.

Efni þessa frv. sem og hins fyrra er í sem fæstum orðum það að tryggja rétt sveitarfélaga til að leysa hús til sín, ef brunatjón verður meira en helmingur brunabótaverðs og ef nauðsynlegt er talið vegna eldhættu eða af skipulagsástæðum, að eignin verði fjarlægð. Þessi heimild til yfirtöku eignarinnar skal fara fram eftir reglum, sem greinilega eru fram settar í 1. gr. frv. og óþarft er að fjölyrða um hér.

Herra forseti. Ég legg til, að frv. þessu verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. heilbr.- og félmn.