17.12.1965
Efri deild: 32. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 477 í B-deild Alþingistíðinda. (290)

89. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál

Frsm. 1. minni hl. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Við sjáum hér á Alþ. með hverjum deginum betur framkvæmdina á þeirri stefnu hæstv. ríkisstj., sem boðuð var í þingbyrjun með framlagningu fjárlfrv., um það, að afgreiða ætti hallalaus fjárlög án almennra skattahækkana, eins og það var þá orðað. Það hafa nú þegar verið afgreidd frá Alþ. lög um hækkun á aukatekjum ríkissjóðs, gjöldum, sem allur almenningur verður að greiða. Það hefur verið afgreitt sem lög frv. um 30–40% hækkun á benzínskatti, sem allur almenningur verður einnig að greiða. Og nú í dag er meiningin að bæta tveimur nýjum sköttum við í hópinn. Hér er sem sagt kominn til okkar farmiðaskatturinn í nýrri útgáfu eða staðgengill hans, skattur, sem boðað var, að hér yrði lagður á, þegar fjárlfrv. var lagt fram, en hæstv. ríkisstj. og fjmrh. hafa gefizt upp við að hrinda í framkvæmd. Bæði hefur það komið til, að þessi boðaði skattur hefur kallað mikla fordæmingu yfir sig, og einnig hefur komið í ljós, að hér var um slíkt frumhlaup að ræða, að framkvæmd þessa fyrirhugaða skatts hefði jafnvel verið brot á samningum, sem ríkisstj. hefur látið fulltrúa sína gera við erlend ríki. Till. um farmiðaskattinn var því lítt skiljanlegt frumhlaup af hálfu hæstv. ríkisstj., sem hefur ekki orðið henni til mikils sóma og hún hefur nú séð sér vænst að hverfa frá, jafnvel þó að hæstv. fjmrh. fullyrti hér fyrir 10 dögum eða tæplega það, að það yrði ekki horfið frá þessum skatti, hann yrði örugglega lagður á. Og við 2. umr. fjárl. var felld till. frá stjórnarandstöðunni um að fella hann út úr fjárl., svo að það má segja, að þessi breyting hafi komið á elleftu stundu.

En hvað sem um farmiðaskattinn annars má segja, er þó óhætt að fullyrða, að hann var í raun og veru sá eini af þeim sköttum, sem hér hafa verið lagðir á og er verið að leggja á hér nú á þessu þingi, sem hægt var að segja með nokkrum sanni, að ekki væri alveg almennur skattur, því að hann átti eingöngu að lenda á þeim, sem ferðuðust út úr landinu. Nú er aftur á móti valin sú leið hér að skatta alla gjaldeyrissölu um 0.5% og hækka allt verðlag á innfluttum vörum sem því nemur. Það er því m. ö. o. valin sú leið að fella raunverulega gengi gjaldmiðilsins gagnvart innflutningi um ½%. Þetta er þess vegna gengisfelling eða jafngildi hennar að öðru leyti en því, að þessari tegund gengisfellingar fylgir ekki sá kostur almennra gengisfellinga, að hún hækki verð á útflutningsvörum okkar. Það má að vísu segja, að þetta sé ekki stórfelld gengisfelling, og kannske má til sanns vegar færa það, sem sagt hefur verið, að hér sé aðeins um snert af gengisfellingu að ræða. En engu að síður er það augljóst, að þessi nýja skattheimta hefur sín hækkunaráhrif á verðlagið í landinu og leggst á sveifina með öðrum efnahagsaðgerðum hæstv. ríkisstj. til þess að auka dýrtíð og verðbólgu, gagnstætt því, sem hv. frsm. meiri hl. fjhn. sagði hér áðan, að skatturinn væri raunverulega til þess að forða óðaverðbólgu. Það eru vísindi þeirra ríkisstjórnarmanna, sem þeir hafa lengi trúað á, og hitt, að það sé allra meina bót að hækka skattana og það sé í raun og veru lausn á öllum efnahagsvanda, þó að manni hafi virzt, að það hafi nú í seinni tíð jafnvel hvarflað að hæstv. fjmrh., að það væri ekki hentugasta skattheimtan, sem kæmi, eins og hann orðaði það hér fyrir nokkru, beint í höfuðið á manni aftur. Ég spyr, hvort slíkir hækkunarskattar muni ekki hafa sín áhrif á verðlagið í landinu og hvort þeir muni ekki hafa sín áhrif á útgjöld ríkissjóðs, þegar til lengdar lætur.

En ég tel, að þessi skattahækkunaraðferð, sem hér er viðhöfð, sé að öðru leyti talsvert athyglisvert tímanna tákn. Mér sýnist það liggja fyrir, að ríkisstj. og hæstv, fjmrh. sjái ekki lengur neina tiltækari fjáröflunaraðferð en þá að ráðast beint að gengi gjaldmiðilsins. Hugkvæmni þeirrar ríkisstj., sem hefur fundið upp milli 10 og 20 nýjar skattategundir, er þrotin og hún rekst nú alls staðar á, að boginn er spenntur til hins ýtrasta, svo að fyrri álögur verða ekki auknar, án þess að þverbrestir verði augljósir í efnahagskerfinu og þolinmæði almennings þrjóti. Þetta mætir henni á öllum sviðum skattheimtunnar, nema kannske þar sem raunverulega væri hægt að þyngja skatta, án þess að nokkur skaði væri skeður fyrir þjóðfélagsheildina, þ.e.a.s. á gróðafélögin í landinu, sem hafa verið gerð að kalla skattfrjáls í tíð núv. ríkisstjórnar með margháttuðum breytingum á skattalöggjöfinni. Þar má vitanlega engu hreyfa, þó að þar væri auðvelt bæði að ná miklum tekjum fyrir ríkissjóð og um leið að stemma stigu við verðbólguþróun, því að það er öruggt, að sú staðreynd, að öll fyrirtæki í landinu greiða ekki í beinum skatti til ríkissjóðs nema milli 1 og 2% af öllum ríkistekjunum, — sú staðreynd er einn helzti verðbólguhvatinn í þjóðfélaginu. Og þar koma m. a. til, svo að ég nefni um þetta dæmi, fyrningarreglurnar, sem pína gróðafélögin í landinu áfram í villtu kapphlaupi við að fjárfesta og auka þannig verðbólguna.

Já, það er augljóst, að hugkvæmni hæstv. ríkisstj. á þessu sviði er að þrotum komin, og ég tel. að í því megi e. t. v. eygja upphafið að þeim endi, sem villt verðbólgukapphlaup hlýtur alltaf að fá, þ.e.a.s. algerri kollsteypu í formi nýrrar gengisfellingar. Þetta frv. gæti vissulega verið fyrirboði þess, að ríkisstj. teldi þá lausn ekki ýkja fjarri. Eða hvar á að bera niður næst, þegar verðbólguþróunin krefst næstu fórnar? Ég hygg, að það muni ekki reynast ýkjalangt þangað til, ef þeirri efnahagsstefnu verður haldið áfram, sem nú er ráðandi, því að það má segja, eins og hv. frsm. meiri hl. fjhn. sagði, að á vegum þeirrar stefnu virðast allir vegir ófærir nema sá eini, sem hér er verið að fara.

Það eru kannske ekki ýkjamikil líkindi til þess, að hæstv. ríkisstj. hafi vilja eða getu til þess að breyta hér um. Það er kannske eins líklegt, að hún haldi áfram að hamast við það og eyða til þess bæði orku sinni og Alþ. að glíma við afleiðingarnar af þeirri stefnu, sem hún hefur fylgt, en láti sér ekki koma til hugar að ráðast að undirrót vandamálanna. Og úrræðin, sem hæstv. ríkisstj. hefur í þessari glímu, eru öll af því taginu að auka stöðugt á allan vanda og herða á verðbólguþróuninni. Meðan svo er að málinu staðið, munum við auðvitað halda áfram að upplifa það, eins og við höfum verið að gera síðustu 5–6 árin, að talsmenn hæstv. ríkisstj. koma hér aftur og aftur og segja: Okkur vantar peninga. Það þýðir ekki að sakast um orðna hluti. Það vantar meiri tekjur, og eitthvað verður að gera, einhvern veginn verður að ná endunum saman. Við þörfnumst nýrra skatta eða þá gengisfellingar, eins og hér er á ferðinni. — Það verður kannske næsta sporið. En ég held, að það hljóti svo að fara fyrr eða síðar, að bæði þing og þjóð verða leið á þessum skollaleik, sem hér er verið að leika.

Það, sem sker úr um afstöðu okkar Alþb.- manna til þessa frv. og annarra frv., sem ríkisstj. flytur nú um auknar almennar álögur, er að sjálfsögðu það, að þær leysa í rauninni engan vanda, nema síður sé, nema þá til algerra bráðabirgða. Þess vegna teljum við, að Alþ. beri að fella þessi frv., en snúa sér hins vegar að því að reyna að stöðva skriðinn á verðbólgunni með öllum tiltækilegum ráðum, með því t.d. að koma á ströngu verðlagseftirliti, eins og við Alþb.-menn höfum barizt fyrir árum saman. Verðlagseftirlitið hefur hæstv. ríkisstj. verið að tæta niður, og engum ætti að vera kunnugra um það en hv. talsmanni meiri hl. fjhn. hér, hvaða áhrif það hefur haft á verðlagið í landinu, hvaða áhrif það hefur haft á verðbólguna, það starf, sem ríkisstj. hefur verið að vinna og hann hefur verið að vinna fyrir ríkisstj. í verðlagsnefnd. Með því að spara í ríkisútgjöldum, og það teljum við fyllilega mögulegt, og við höfum nefnt um það mörg dæmi, að það væri unnt, og með því að koma á heilbrigðu skattakerfi og raunhæfu skattaeftirliti, eins og við Alþb.-menn höfum barizt fyrir þing eftir þing, en hefur að mestu leyti verið daufheyrzt við, hygg ég, að þá skattheimtu upp á 200–300 millj., sem lögð hefur verið nú á, hefði mátt forðast algerlega. Með því einu að herða á skattaeftirlitinu, þegar það sýnir sig, að þau fyrirtæki, sem tekin eru til athugunar í sambandi við skattsvikin, svíkja skatt upp á 1 millj. að meðaltali hvert, sjá allir, að þar er um þann garð að gresja, sem verulega mundi muna um. Og síðast, en ekki sízt, viljum við, að tekin verði upp allsherjarstjórn á fjárfestingunni og þá ekki síður einstaklinga en hins opinbera. Það kann vel að vera, að hv. talsmaður meiri hl. fjhn. teldi þetta enga stefnu og ekki þess verða að athuga neina þessara leiða til að komast út úr vandamálinu. En ég er ekki á því, að almenningur geti orðið honum sammála um það. Með tilliti til þeirra miklu möguleika, sem þessar leiðir til lausnar á efnahagsmálunum gætu skapað, teljum við öll skattafrv. hæstv. ríkisstj. ekki aðeins með öllu þarflaus, heldur einnig hættuleg fyrir heilbrigða efnahagsþróun og til þess eins fallin að færa okkur nær nýrri efnahagslegri kollsteypu, nýrri gengisfellingu.