09.03.1966
Sameinað þing: 30. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 200 í D-deild Alþingistíðinda. (2902)

87. mál, raforkuframkvæmdir á Vestfjörðum

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt þremur öðrum hv. þm. úr Vestfjarðakjördæmi að flytja þáltill. um raforkuframkvæmdir á Vestfjörðum, sem hér liggur fyrir á þskj. 147. Efni till. þessarar er áskorun á ríkisstj. um að láta fram fara rannsókn á því, hvernig þeim byggðarlögum á Vestfjörðum verði tryggð afnot raforku, sem samveitur ná ekki til sakir strjálbýlis. Skal í því sambandi athuga sérstaklega, hvernig sérvirkjunum verður við komið í þágu einstakra byggðarlaga og býla.

Augljóst er orðið af þeim upplýsingum, sem fyrir liggja um framhald rafvæðingar landsins, að vegna strjálbýlis á Vestfjörðum er ekki gert ráð fyrir, að allmargir sveitabæir í þessum landshluta fái raforku frá samveitum. Hins vegar er þörf fólksins í þessum héruðum fyrir lífsþægindi raforkunnar ekki minni en í þéttbýlinu. Án raforku getur nútímafólk ekki verið.

Samkv. upplýsingum, sem ég hef fengið, hafa um 8500 manns af íbúum Vestfjarða nú afnot raforku frá samveitum. Íbúar í Vestfjarðakjördæmi eru hins vegar um 10500. Um 2000 Vestfirðingar hafa því í dag ekki afnot raforku frá samveitum. Raforkumálastjórnin áætlar, að raforku frá einkarafstöðvum hafi um 1000 Vestfirðingar. Án allra afnota raforku eru því í dag um 1000 manns á Vestfjörðum.

Þegar athugað er sérstaklega, hvernig ástandið sé í raforkumálum vestfirzkra sveita, kemur þetta í ljós: 136 sveitabæir í Vestfjarðakjördæmi hafa í dag rafmagn frá samveitum. 138 sveitabæir í kjördæminu njóta raforku frá mótorrafstöðvum. 51 sveitabær á Vestfjörðum hefur rafmagn frá vatnsaflsstöðvum. Samtals hafa því 325 sveitabæir í Vestfjarðakjördæmi afnot raforku með einhverjum hætti í dag. Nákvæmustu upplýsingar, sem hægt er að fá um það, hve margir sveitabæir í þessum landshluta séu nú án raforku, eru þær, að um 150—180 býli séu í þessum flokki.

Samþykkt hefur verið í raforkuráði að leggja á þessu ári rafmagn til 9 sveitabæja í Álftafirði í Norður-Ísafjarðarsýslu og enn fremur að leggja rafmagnslinu yfir Hrútafjörð til Borðeyrar í Strandasýslu. Er gert ráð fyrir, að með þeirri framkvæmd muni 10 notendur í Bæjarhreppi í Strandasýslu fá raforku frá samveitum. Vonir standa enn fremur til þess, að 8 sveitabæir á Ingjaldssandi í V.-Ísafjarðarsýslu fái raforku frá samveitu á næsta ári. Þetta munu vera einu framkvæmdirnar í raforkumálum Vestfjarða, sem endanleg ákvörðun hefur verið tekin um. En gert hefur verið ráð fyrir því, að rafmagn frá samveitum yrði lagt til byggðarlaganna í Bjarnarfirði, Kollafirði og Bæjarhreppi í Strandasýslu og Barðastrandarhreppi í Vestur-Barðastrandarsýslu. Um það hefur þó ekki verið tekin endanleg ákvörðun. Fjarlægð milli bæja í þessum sveitum mun vera að meðaltali um 2 km. Eins og kunnugt er, er nú unnið að rafmagnslögnum frá samveitum til sveitabæja, þar sem meðaltalsfjarlægð á milli bæja er 1—1 1/2 km. Mun gert ráð fyrir, að þær framkvæmdir taki a.m.k. tvö ár. Horfurnar á skjótri úrlausn raforkuþarfar fyrrgreindra byggðarlaga á Vestfjörðum auk margra annarra í þessum landshluta eru því ekki ýkjabjartar.

Um nýjar heildarvirkjanir til þess að fullnægja aukinni raforkuþörf Vestfirðinga er það að segja, að unnið hefur verið að áætlunargerð um virkjun í botni Arnarfjarðar, bæði um heildarvirkjun í Mjólká og Dynjanda, sem miðast við framtíðina, svo og um hlutavirkjun til að fullnægja næstu þörfum.

Af þeim upplýsingum, sem hér hafa verið greindar, er auðsætt, að fara verður sérstakar leiðir til þess að tryggja mörgum sveitum Vestfjarða raforku. Koma þar til greina sjálfstæðar smærri vatnsaflsvirkjanir fyrir einstök byggðarlög, svipað og gert hefur verið í Snæfjallahreppi við norðanvert Ísafjarðardjúp, og í öðru lagi aukin aðstoð hins opinbera við dísilorkuver í þágu einstakra býla eða byggðahverfa.

Það er skoðun okkar flm. þessarar till., að fólkið í hinni strjálustu byggð landsins eigi ekki síður rétt á því að njóta lífsþæginda raforkunnar en íbúar þéttbýlisins, þess vegna sé óhjákvæmilegt að gera sérstakar ráðstafanir til að rafvæða strjálbýlustu sveitirnar. Við leggjum þess vegna áherzlu á, að till. þessi leiði til þess, að rannsókn fari fram á því hið allra fyrsta, hvernig leyst verði raforkuvandamál vestfirzkra sveita.

Herra forseti. Ég leyfi mér að leggja til, að umr. um till. verði frestað og henni verði vísað til hv. allshn.