09.03.1966
Sameinað þing: 30. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í D-deild Alþingistíðinda. (2903)

87. mál, raforkuframkvæmdir á Vestfjörðum

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa ánægju minni yfir þeim áhuga fyrir raforkuframkvæmdum, sem fram kemur í þeirri þáltill., sem hér liggur fyrir og hv. 2. þm. Vestf. var að mæla fyrir. En ég vil í þessu sambandi vekja athygli á því, að fyrir þessu þingi liggur frv., óafgreitt, um raforkuveitur, flutt af okkur nokkrum þm. Framsfl. Þetta mál var tekið til 1. umr. 26. okt. í haust og var því þá vísað til þn. í hv. Nd., en hún hefur enn ekki skilað áliti, og vil ég vænta þess, að við fáum að sjá það innan skamms. En í þessu frv. okkar eru einmitt till. gerðar um þetta sama mál, sem hér er á ferð í þáltill. á þskj. 147. Í frv. er fyrst og fremst gert ráð fyrir því, að á árunum 1966—1968 skuli leggja rafmagnslínur frá héraðsrafmagnsveitum ríkisins til allra heimila, sem ekki hafa áður fengið rafmagn frá samveitum eða sérstökum vatnsaflsstöðvum, þar sem meðallínulengd milli býla er 2 km eða minni, og er gert ráð fyrir því, að framkvæmdunum sé skipt sem jafnast á þessi þrjú ár og hagað þannig, að línur verði fyrst lagðar um sveitir, þar sem skemmst er milli býla, en síðan áfram í röð eftir vegalengdum og síðast um þau svæði, þar sem meðallínulengdin er mest. Þá segir í 3. gr. frv. svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Til þess að undirbúa ákvarðanir um, að hve miklu leyti raforkuþörf sveitanna verði fullnægt með línum frá samveitum, láti raforkuráð gera kostnaðaráætlun um raflínulagnir frá héraðsrafmagnsveitum ríkisins um þær byggðir, þar sem meðallínulengd milli býla er 2—2 1/2 km og 2 1/2—3 km.“

Og síðan segir í 3. gr. frv.:

„Einnig geri ráðið till. um aukna aðstoð til þeirra, er koma upp vatnsaflsstöðvum til heimilisnota utan samveitusvæðanna, t.d. með meiri og hagstæðari lánum. Þá geri raforkuráð till. um uppsetningu dísilstöðva til rafmagnsframleiðslu á þeim heimilum, sem eru svo mjög afskekkt, að ekki þykir fært að leggja til þeirra raflínur frá samveitum, og ekki hafa hagstæð skilyrði til vatnsaflsvirkjunar, og séu till. við það miðaðar, að notendur slíkra stöðva njóti ekki minni stuðnings af opinberri hálfu en þeir, sem fá rafmagn frá samveitum.“

Lagt er til, að áætlanir þessar og till. verði fullgerðar fyrir 1. okt. 1966.

Ég vil enn fremur, með leyfi hæstv. forseta, rifja upp örfá orð úr grg. með frv., að því leyti sem þau snerta þetta, áætlanir um aðstoð til þeirra, sem verða utan samveitusvæðanna, en þar segir svo:

„Samkv. 3. gr. frv. er raforkuráði einnig ætlað það verkefni að gera áætlanir um meiri aðstoð en nú er veitt við byggingu vatnsaflsstöðva fyrir einstök heimili eða fleiri saman, t.d. með auknum, hagstæðum lánum, enn fremur að gera áætlanir um uppsetningu dísilstöðva, þar sem önnur úrræði eru ekki fyrir hendi, og verði áætlanir þessar við það miðaðar, að notendur slíkra stöðva njóti ekki minni stuðnings af opinberri hálfu en þeir, sem fá rafmagn frá samveitum. Þetta gæti orðið annaðhvort á þann hátt, að hið opinbera kæmi stöðvunum upp og leigði þær fyrir hóflegt gjald eða veitt yrðu rífleg lán með lágum vöxtum og jafnvel beinn stuðningur til kaupa á stöðvunum.“

Og lagt er til, eins og áður segir, að áætlanagerð þessari verði lokið fyrir 1. okt. n. k.

Frv. okkar um það að hraða framkvæmdum við samveitur er byggt upp að nokkru leyti á áætlun, sem raforkumálaskrifstofan lét gera 30. júní 1964 um raflínur til sveitabýla, þar sem meðalvegalengd milli bæja er frá 1 og upp í 2 km, og síðan, eins og áður segir, lagt til, að í framhaldi af því verði gerð rannsókn á því, hvað kosti að koma upp samveitum um strjálbýlli svæði. En í þessari áætlun raforkumálaskrifstofunnar frá í júní 1964 er gert ráð fyrir samveitum á árunum 1966—1970. Nær áætlunin til 774 býla og áætlaður kostnaður við raflínulagnir til þeirra um 147 millj. kr. Þetta verður að teljast tiltölulega lág upphæð, þegar miðað er við það, að á árinu 1953 eða 1954 var ákveðið að leggja fram 250 millj. kr. auk framlaga úr héruðunum til rafvæðingarinnar, en þá voru, eins og kunnugt er, fjárlög ríkisins margfalt lægri en þau eru nú.

Við leggjum sem sagt til, að þessu verði lokið á þremur árum, 1966—1968, í staðinn fyrir, að á áætlun raforkumálaskrifstofunnar var ráðgert, að þessu yrði lokið á árinu 1970. Og á þessari áætlun eru nokkrar línur í Vestfjarðakjördæmi, en yfirleitt eru þær þarna heldur á seinni árunum, því að vegalengdin er það mikil þar. Þó er þarna t.d. Ingjaldssandslína sett á árið 1968 með 8 býli og Bæjarhreppslína frá Borðeyri til 20 býla er þar sett á árið 1968. Á árið 1969 hefur raforkumálaskrifstofan sett Þingeyrarhreppslínu í Vestur-Ísafjarðarsýslu til 8 býla og Kollafjarðarlínu í Strandasýslu til 14 býla. En síðan koma á síðasta ári í þeirra áætlun frá 1964 nokkrar línur í Vestfjarðakjördæmi, sem þeir gerðu ráð fyrir að yrðu byggðar 1970. Það er Múlalína við Gilsfjörð til 3 býla, Barðastrandarlina frá Patreksfirði til 29 býla, Hólslína í Önundarfirði, 2 býli, Valdasteinsstaðalína í Hrútafirði, 3 býli, Grænumýrartunga í Hrútafirði, 2 býli, og Bjarnafjarðarlína í Strandasýslu 9 býli. En samkv. okkar frv. viljum við flýta þessu um tvö ár, þannig að eftir okkar frv., ef samþ. yrði og framkvæmt, mundu þessar línur verða lagðar 1968. Nú horfir að vísu ekki vel með þetta sem stendur, því að samkv. þeirri áætlun, sem raforkuráð samþykkti um framkvæmdir á árinu 1966 seint á s.l. ári, hefur það ekki gengið eins langt og var í þessum till. eða áætlunum raforkumála skrifstofunnar frá 1964. Það hefur ekki gengið eins langt í framkvæmdum á þessu ári.

Það er vitanlega alveg rétt hjá hv. 2. þm. Vestf., að það er brýn þörf að hraða rannsóknum á þessum málum og ljúka rafvæðingunni sem allra fyrst. Og þá er sjálfsagt að leggja línur frá samveitum um þau svæði, þar sem mögulegt er kostnaðarins vegna. En það þarf jafnframt að rannsaka, á hvern hátt er hægt að bæta úr þörf hinna, eins og hv. þm. réttilega tók fram. En ég vil aðeins benda á það til athugunar fyrir þá n., sem fær þetta, að þetta á ekki við um Vestfjarðakjördæmi eitt. Svona er þetta um allar jarðir. Í öllum kjördæmum landsins utan Reykjavíkur og líklega Reykjaneskjördæmis eru mörg býli, sem munu ekki geta fengið rafmagn frá samveitum, og það þarf að sjá fyrir þörfum þeirra alveg jafnt og Vestfirðinga. Og ég vil benda á það, að í frv. okkar, sem ég hef hér gert nokkuð að umtalsefni og er á þskj. 29, er till. um að gera slíka áætlun fyrir landið allt, og ég vildi því skjóta því til hv. 2. þm. Vestf. sem og meðflm. hans að þáltill., sem hér liggur fyrir, að bezti stuðningur þeirra við málið væri trúlega sá að styðja framgang frv. á þskj. 29, því að það nær til landsins alls og er, eins og ég áður sagði, um þetta sama mál, sem hann og félagar hans hreyfa í þáltill. á þskj. 147.