09.03.1966
Sameinað þing: 30. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í D-deild Alþingistíðinda. (2908)

87. mál, raforkuframkvæmdir á Vestfjörðum

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Hv. 4. þm. Vestf. er að kvarta undan því, að ég viti ekki, hvað hafi orðið af flóttamannafénu. Ég nefndi þessar 86 millj., sem hefðu verið teknar að láni, en ég „hafði ekki hugmynd um það,“ sagði hann framan til í ræðunni, en í seinni parti ræðunnar sagði hann: „Hann veit ekki nákvæmlega um það.“ En veit hv. þm. um þetta? Hann fer að telja upp, í hvað þetta hafi farið. „Í vegi “ Ég nefndi það. „Í flugvöll.“ Jú, jú, ég nefndi hann líka. Hann bætti við höfnum. En hann sleppti að segja frá, í hvaða hafnir það hafi farið. Hann skyldi þó vita það. Þá segir hann, að það sé rangt, að það hafi verið teknar 86 millj. að láni, heldur hafi verið ráðgert að taka þær á næstu 4 árum. Það vill nú svo til, að ég er hér með blað, sem heitir „Vísir“. Það er frá 16. okt. 1965, og þar er grein með stórri fyrirsögn: „Mikilsverð aðstoð Viðreisnarsjóðs Evrópu við uppbyggingu Vestfjarða. Ræða Þorvalds Garðars Kristjánssonar á ráðgjafarþingi Evrópuráðs 1. okt. s.l.“ Og svo er mynd. „Eftirfarandi ræðu flutti fulltrúi Íslands á þingi Evrópuráðsins í Strasbourg, Þorvaldur G. Kristjánsson alþm. Ræðan var flutt þann 1. okt., þegar til umr. var skýrsla forstöðumanns Viðreisnarsjóðs Evrópuráðsins.

Þessi sjóður veitti fyrir skömmu 86 millj. kr. lán til framkvæmda eftir Vestfjarðaáætlun,“ stendur í blaðinu. Er blaðið að fara með rangt mál? Og svo kemur öll ræðan á eftir. M.ö.o.: á s.l. sumri veitti sjóðurinn 86 millj. kr. lán í Vestfjarðaáætlun. Er þá nokkurt hneyksli, þótt ég spyrji: Hvar eru peningarnir?