17.12.1965
Efri deild: 32. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 480 í B-deild Alþingistíðinda. (291)

89. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál

Frsm. 2. minni hl. (Helgi Bergs):

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa mörg orð fyrir því nál., sem ég og hv. 1. þm. Norðurl. e. höfum lagt fram á þskj. 211, þar sem við leggjum til, að þetta frv. verði fellt.

Þetta frv. er raunar beint framhald þeirrar stefnu, sem ríkisstj. hefur haft í fjármálum nú upp á siðkastið. Við höfum rætt þau efnisatriði, sem hér koma við sögu, oft áður. Við höfum rætt þau í sambandi við hækkun eignarskattsins á fasteignir í húsnæðismálalöggjöfinni. Við höfum rætt þau í sambandi við frv. um aukatekjur ríkissjóðs. Við höfum rætt þau í sambandi við hækkun benzíngjaldsins og þungaskattsins o.s.frv. Allir þessir skattar og skattahækkanir eru ávextir þess boðskapar hæstv. fjmrh. í haust sem leið að jafna þann greiðsluhalla, sem orðinn var vegna verðbólgustefnu hæstv. ríkisstj., án nýrra almennra skatta, eins og það var orðað.

Nú er að vísu ekki fyllilega ljóst, hvað hæstv. fjmrh. á við, þegar hann talar um skatta, sem ekki séu almennir. Virðist þá helzt um það að ræða, að þar eigi hann við skatta, sem ekki komi fram í vísitölu. Þó verður ekki komizt hjá því að viðurkenna það, að mikið af þeim sköttum, sem á hafa verið lagðir, eftir að þessi boðskapur var látinn út ganga, hafi vissulega haft áhrif á verðlagið í landinu í óheillavænlega átt.

Einn af þeim sköttum, sem boðaðir voru, var nefskattur á ferðamenn, sem færu út fyrir landssteinana, og átti að nema 25 millj. kr. En nú hefur ríkisstj. gefist upp við þann skatt og lagt fram í staðinn það frv., sem hér er til umr. og felur í sér að leggja skatt á alla gjaldeyrissölu bankanna, en hann á að gefa ríkissjóði 35 millj. kr. Nú geta menn að vísu haft áhyggjur af því, hvað mundi ske, ef þetta frv. yrði fellt eða dregið til baka. Þá gæti maður átt von á frv. með nýjum tekjustofni, sem væntanlega mundi þá gefa a.m.k. 45 millj. kr., og sýnir þetta bara, hver hraðinn er á ógæfuferlinum í verðlagsmálum, sem núv. hæstv. ríkisstj. ber ábyrgð á.

Það verður nú varla annað sagt en sá skattur, sem hér er lagður til, hafi öll þau einkenni að verða að teljast almennur í fyllsta mæli. Hér er skattur, sem kemur niður á verðlagi allra innfluttra vara, jafnt nauðsynjavara sem annarra, og hækkar verðlag þeirra ekki aðeins um þær 30 millj., sem hann sjálfur á að gefa ríkissjóði í tekjur, heldur talsvert betur, sem nemur því, sem söluskattur og álagning á þessa upphæð nemur. Þessi skattur hlýtur því að auka dýrtíðina og skaða þar með efnahagslíf landsins.

Við, sem stöndum að nál. á þskj. 211, viljum enn einu sinni benda á það, að sá vandi, sem við er að etja í efnahagsmálum þjóðarinnar, á rót sína að rekja til þeirrar dýrtíðarstefnu, sem fylgt hefur verið. Hann verður ekki leystur með því að leggja á nýja skatta, sem koma aftur fram í verðlaginu, enda mun fara sem fyrr, að þeir verða ríkissjóði að litlu haldi, þegar frá líður, og munu hverfa í dýrtíðarflóðið. Það er eins með ríkissjóð og aðra sjóði einstaklinga, félaga og þess opinbera, að dýrtíðin sér fyrir því, að þeir séu jafnan tómir, hve mikið sem í þá er látið, meðan óbreyttri stjórnarstefnu er haldið.

Ég sé ekki ástæðu til þess nú á seinasta starfsdegi þingsins fyrir jólafríið að fara að munnhöggvast við hv. frsm. meiri hl. fjhn., sem gerði lítið úr sparnaðarhjali, eins og hann kallaði það, — sparnaðarhjali stjórnarandstöðunnar. Hann reyndi hér enn einu sinni þann málflutning talsmanna hæstv. ríkisstj. að sýna fram á, að það væri ekki nokkur vegur að spara nokkurn skapaðan hlut, og mun ég láta þessa fullyrðingu hans eiga sig. Við höfum rætt um þá hluti áður hér í þessari hv. d., og þær eru sannast að segja, þessar fullyrðingar, hv. stjórnarliðum til lítils sóma.

Þessi vandi, sem hér er um að ræða í efnahagslífinu, verður ekki leystur, án þess að tekin verði upp ný efnahagsstefna. Það er fullljóst. Það má vissulega leiða ýmsum getum að því, hvernig á því stendur, hvað hæstv. ríkisstj. er ófús til þess að taka upp aðra stefnu í efnahagsog fjármálum, og það hlaut að vekja athygli hv. þdm., að hv. frsm. meiri hl. fjhn., 8. þm. Reykv., sá ástæðu til þess að fullvissa okkur um það, að ríkisstj. væri ekki haldin kvalalosta, eins og hann orðaði það. Ég hafði að vísu ekki áður heyrt því haldið fram, að ríkisstj. væri haldin slíku, en það segir kannske sína sögu, að aðaltalsmaður hæstv. ríkisstj. í efnahagsmálum hér í hv. Ed. skuli sjá ástæðu til þess að taka þetta fram.

Ég vil enn ítreka þá skoðun okkar, sem stöndum að þessu nál., hv. 1. þm. Norðurl. e. og mína, að vandinn verður ekki leystur með því að halda áfram á braut þeirrar ofsköttunarstefnu, sem hæstv. ríkisstj. hefur helgað sig, heldur verði nú að breyta um stefnu. Við teljum skattlagningu af því tagi, sem hér er um að ræða, aðeins nýjan áfanga í þeirri óheillaþróun, sem verið hefur hér í verðlagsmálum, og leggjum til, að frv. verði fellt.