05.05.1966
Sameinað þing: 47. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í D-deild Alþingistíðinda. (2912)

87. mál, raforkuframkvæmdir á Vestfjörðum

Frsm. (Matthías Bjarnason):

. Herra forseti. Þessi till., sem vísað var til allshn., var flutt af 4 þm. úr Vestfjarðakjördæmi og er um raforkuframkvæmdir á Vestfjörðum, og við hana kom brtt. frá þm. úr Norðurl. e., þar sem lagt er til, að inn í till. komi: „einnig í Norðurlandskjördæmi eystra.“ En till. fjallar um það að skora á ríkisstj. að láta fram fara rannsókn á því, hvernig þeim byggðarlögum á Vestfjörðum verði tryggð afnot raforku, sem samveitur ná ekki til sakir strjálbýlis, og skal í því sambandi athuga sérstaklega, hvernig sérvirkjunum verði við komið í þágu einstakra byggðarlaga og býla. N. hefur orðið sammála um að orða till. um, þannig að það er tekið fullt tillit til brtt. frá þm. úr Norðurl. e., og skal ég ekki lesa hana upp, því að till. liggur fyrir á þskj. 717. Allir nm. voru sammála um að mæla með samþykkt till., en einn nm., Ragnar Arnalds, var fjarstaddur afgreiðslu málsins.