17.12.1965
Efri deild: 32. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 481 í B-deild Alþingistíðinda. (292)

89. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Akvæði gildandi laga um allt að 1% leyfisgjald af gjaldeyrisleyfum eru heimildarákvæði. Hv. þm. er eflaust kunnugt, enda hefur það verið tekið fram áður í þessum umr., að þessi heimildarákvæði hafa aðeins verið notuð að hálfu leyti, þ.e. að af þeim hefur verið innheimt 1/2% leyfisgjald, og fer sú innheimta fram samkv. sérstakri reglugerð. Heimild til þess að innheimta leyfisgjald hefur þó ekki verið notuð að því er snertir yfirfærslu á námsgjaldeyri. Við yfirfærslu námsgjaldeyris hafa engin leyfisgjöld verið innheimt.

Ég stend hér upp til að skýra frá því, að ríkisstj. hefur ákveðið að nota ekki heldur heimild þessara laga til að innheimta þetta nýja afgreiðslugjald af gjaldeyri af yfirfærslu námsgjaldeyris. Í þeirri reglugerð, sem væntanlega verður gefin út, ef þessi lög verða samþ. á hinu háa Alþ., mun því verða ákvæði um, að þetta nýja 1/2% afgreiðslugjald verði ekki heldur innheimt af yfirfærslu námsgjaldeyris.