02.03.1966
Sameinað þing: 29. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 217 í D-deild Alþingistíðinda. (2923)

120. mál, endurskoðun á aðild Íslands að Atlantshafsbandalagi og Norður-Atlantshafssamningi

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég skal fylgja fordæmi hv. flm. till. og láta vera að ræða aðalefnisatriði þessa máls, þ.e.a.s. um Atlantshafsbandalagssamninginn sjálfan og aðild Íslendinga að honum, heldur eingöngu með nokkrum orðum ræða þessa till., sem hér liggur fyrir. Hv. flm. las hana upp, og aðalatriði hennar er, að Alþ. kjósi 7 manna n. til þess að kanna, hvaða hugmyndir eru uppi meðal aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins um skipulag þess og framtið. Þetta er annað atriðið. En jafnframt skal n. fjalla um afstöðu Íslands til Norður-Atlantshafsbandalagsins og gera till. um hana. Þetta er hitt atriðið, og þetta er hvort tveggja náttúrlega allnokkurt verkefni.

Mér er þó ekki fyllilega ljóst, hvað fyrir hv. flm. vakir. Þeir lýsa yfir, að þeir séu andvígir þátttöku eða aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og þeir séu þeirrar skoðunar nú, eins og þeir hafi verið. Hins vegar finnst mér, að í þessari till. felist, að það sé leitað upplýsinga um, hvaða hug menn hafa, aðildarríkin hafa, um framhald á starfsemi bandalagsins og þátttöku þeirra í því, þ.e.a.s. mér finnst það vera að nokkru leyti að kanna, hvort um endurskoðun á samningnum verði að ræða, og skil ég það þá þannig, að hv. flm., ef ekki fæst hér samkomulag eða samþykkt á því, að Ísland dragi sig úr bandalaginu, vildu þeir taka til athugunar einhverja endurskoðun á samningnum. Nú eru í samningnum, í 12. gr. hans, ákvæði. um endurskoðun, ef um hana væri að ræða eingöngu, og hún er heimil, eftir að 10 ár eru liðin frá gildistöku samningsins, svo að þessi endurskoðunarósk hefði getað komið fram 1959, og hún er heimil, eftir að þessi 10 ár eru liðin, hvenær sem er. Hins vegar er það rétt, sem hv. flm. sagði, að 1969 eða eftir að 20 ár eru liðin frá gildistöku samningsins er möguleiki til þess að losa sig við aðildina. Og mér finnst, að það sé ekki gott að gera upp á milli, hvað það er, sem vakir fyrir flm., hvort þeir vilji að einhverju leyti, að það sé tekin upp umr. um endurskoðun, ef ekki fæst samþykkt úrsögn úr bandalaginu.

Um þetta er sjálfsagt hægt að fá upplýsingar. En hins vegar er það ljóst af grg., að það fer ekki á milli mála, hvað þessir hv. þm. vilja. Þeir vilja, að Ísland segi sig úr því, og lýsa því greinilega yfir í grg. Nú er um þessa aðild að Atlantshafsbandalaginu samningur frá 1949, en svo er líka í gildi samningur við Bandaríkin um varnir Íslands á vegum Atlantshafsbandalagsins, svo að auðvitað verður þá að taka hann til athugunar einnig, ef um endurskoðun er að ræða. Nú er það líka rétt, sem hv. flm. sagði, að ég teldi eðlilegt, að utanrmn. yrði falið þetta verkefni, ef á að samþykkja það, en það yrði ekki kosin í þessu skyni sérstök n. Og ef það vakir fyrir flm., að hér sé einungis um úrsögn úr bandalaginu að ræða, hef ég þá skoðun, og ég held, að það sé skoðun allrar ríkisstj., ég megi fullyrða það, að hún hafi ekki tekið neina ákvörðun um úrsögn úr bandalaginu 1969 né gert ráðstafanir til þess, að það verði gert, þannig að ef um það atriði er að ræða, er enginn vafi um afstöðu ríkisstj. til þess. Hins vegar tel ég sjálfsagt, að ef um einhverja endurskoðun væri að ræða, yrði það mál athugað.

Nú er það að segja um endurskoðunina, að það eru haldnir af og til fundir fulltrúa þessara aðildarríkja, og þar hefur verið rætt um endurskoðun á samningnum, en án þess að þar sé um aðila að ræða, sem getur komið til greina með að taka neina ákvörðun, heldur er það aðeins ráðgefandi starfsemi, sem þar fer fram. Um gagnasöfnun eða upplýsinga held ég, að það sé ekki þörf á því að setja sérstaka n. til þess. Við hófum hjá Atlantshafsbandalaginu fastan fulltrúa, sem tekur þátt í öllum fundum ráðsins, og hann hefur svo sent skýrslur um þessa fundi, sem mestallt eru trúnaðarskýrslur að vísu og ekki hægt að birta. En það hefur ekki komið fram í þeim, svo að ég muni a.m.k., síðan ég tók við þessu starfi, að það hafi þar verið rætt um hvorki um endurskipulagningu á bandalaginu né heldur að nokkurt ríki hafi viljað segja sig úr því, þannig að gagnasöfnun í málinu er að þessu leytinu, vil ég segja, óþörf, vegna þess að það hefur enginn betri aðstöðu til þess að afla gagna heldur en einmitt þessi fastafulltrúi okkar í ráðinu, sem situr alla fundi og sendir utanrrn. skýrslur um þessi fundarhöld vikulega eða með mjög stuttu millibili.

Það hefur verið orðað, að önnur lönd hefðu einhverjar till. uppi um endurskoðun eða jafnvel úrsögn. Ég man nú ekki, hvernig það er orðað í grg. hjá hv. flm., en það hefur sérstaklega verið talið, að Frakkar mundu vilja athuga mjög náið þátttöku sína í bandalaginu og ekki vera aðilar að því lengur, ef ekki fengist á því gerð veruleg breyting. Þetta eru að vísu blaðafregnir og ekki gott að segja, hversu mikið er til í þeim. En út af fréttunum um það, að Noregur væri að gangast fyrir einhverju varnarbandalagi Norðurlanda og mundi segja sig úr NATO, þá hefur því verið algerlega mótmælt og ekki talinn neinn fótur fyrir.

Ég tel þess vegna, að þessi nefndarskipun sé meira og minna óþörf og raunar alveg óþörf, því að utanrmn. og fastafulltrúi okkar hjá Atlantshafsbandalaginu geti annazt það, sem þýðingu hefur í þessari till. og gert er beinlínis ráð fyrir, að athugað verði, ef það kemur til framkvæmda.