09.03.1966
Sameinað þing: 30. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 227 í D-deild Alþingistíðinda. (2934)

125. mál, reikningsskil hinna rændu þjóða við þær ríku

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Ég vil vona, að hv. þm. hafi nokkuð litið á þessa till. til þál., svo að ég skal byrja með að gera grein fyrir, hvers vegna ég flyt hana.

Ég býst við, að það verði litið svo á af allflestum mönnum, sem fylgjast með í heimsstjórnmálum nú, að eitt allra alvarlegasta vandamálið, sem uppi sé til úrlausnar, sé ástandið hjá þeim þjóðum, sem almennt með veiku orðalagi eru kallaðar þróunarlöndin eða kenndar við þróunarlöndin. M.ö.o.: ástandið er þannig, að hjá um 1500 millj. manna í veröldinni af þeim þjóðum, sem byggja Suður-Ameríku, Afríku og Asíu, ríkir stöðugur sultur og hungurdauði á sér stað hjá miklum fjölda þessara þjóða. Jafnvel telja ýmsir, að þessar þjóðir telji upp undir 2000 millj. eða upp undir 2/3 hluta mannkynsins.

Þau lífskjör, sem þessar þjóðir búa við, eru í dag bæði frá almennu mannúðarlegu og frá pólitísku sjónarmiði eitt mesta vandamál veraldarinnar. Og ef við kynntum okkur t.d., hvað okkar frændþjóðir á Norðurlöndum svo að segja fyrst og fremst ræða í sínum stjórnmálum, er það afstaðan til þessara þjóða og hvað hægt sé að gera t.d. af hálfu Norðurlanda til þess að breyta róttækt um það ástand, sem þar ríkir. Af hálfu Sameinuðu þjóðanna hefur þetta mál verið þó nokkuð rætt og ýmsar ráðstafanir gerðar. En ástandið, sem er í þessum málum í dag og gefur mér tilefni til að flytja þessa till., er þannig, að raunverulega fer þetta ástand versnandi. Læknisvísindunum hefur fleygt það mikið fram, að það fer fjölgandi þeim hluta mannkynsins, sem þarna býr, en hins vegar fara lífskjörin, sem þetta fólk á við að búa, versnandi og það þrátt fyrir ýmiss konar aðstoð, sem þar er veitt. Það er rétt að taka það fram, að t.d. á þeim fundum, sem haldnir hafa verið að tilhlutan Sameinuðu þjóðanna, eins og t.d. á þeirri ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, sem átti sér stað í Genf um verzlun og hagfræðilega þróun í heiminum 1964, voru gefnar upplýsingar af aðalritaranum, sem sýndu, hvernig viðhorfið er núna um þessar þjóðir. Það mundi þýða, ef haldið væri áfram með ekki meiri árangri en gert hefur verið undanfarið, að það mundi taka frá 80—200 ár fyrir þessar þjóðir að komast á það stig lífskjara, sem t.d. vissar Vestur-Evrópuþjóðir eiga við að búa. M.ö.o.: þær kynslóðir, sem nú eru uppi í þessum þróunarlöndum, sjá fram á, að svo fremi sem ekki verði alger breyting á þeirri pólitík, sem hinar ríku þjóðir í heiminum reka, eiga þær ekki neina von á, meðan þær lifa, — og mannsaldurinn er varla yfir 30 ár hjá þeim, þó að hann sé 70 ár hér, — eiga þær ekki von á því, meðan þær lifa, né þeirra börn að sjá verulegar umbætur á þessu ástandi.

Það er talað allmikið um aðstoðina, sem þessum þjóðum er veitt. Það er talað um á Norðurlöndum, að það þyrfti helzt að stefna að því, við skulum segja, t.d. Svíarnir hafa talað um það, — að 1% af þeirra þjóðartekjum rynni til þessara þróunarlanda. En ástandið er það eftir skýrslu þessa aðalritara á vegum Sameinuðu þjóðanna, að af 47 milljarða dollara aðstoð, sem þessar þjóðir hafa fengið á undanförnum 10 árum, hafa þær tapað 13 milljörðum dollara á því, að verðlagið frá þessum þjóðum á þeirra hráefni hefur lækkað og verðið á iðnaðarvörunum, sem þær kaupa frá þeim ríku þjóðum Evrópu og Ameríku, hefur verið hækkað. Og enn fremur hafa þær borgað til baka um 21 milljarð dollara sem vexti og afborganir af lánum, sem þær hafa fengið, þannig að af þessum 47 milljörðum dollara, sem þessar þjóðir hafa fengið sem aðstoð á undanförnum 10 árum, hefur aðeins 1/4, tæpur 4 hluti, orðið eftir hjá þessum þjóðum til þess að einhverju leyti að reyna að bæta þeirra kjör. Meginið af þessum þjóðum lifir við lífskjör, þar sem meðaltekjur á mann eru 100—200 dollarar eða 4—8 þús. kr. miðað við íslenzkt fé, og getur hver maður gert sér í hugarlund, hvernig þau lífskjör muni vera, á sama tíma sem ég býst við, að okkar meðaltekjur hér muni vera milli 1 og 2 þús. dollarar á ári á mann, — ég þori ekki að segja nákvæmlega, hvað það er, — þannig að þetta sultarlíf, sem þessar þjóðir lifa við, er raunverulega svívirðing fyrir þær ríku þjóðir heims, að það skuli vera látið viðgangast á 20. öld með allri þeirri tækni, sem mannkynið hefur, með þeim draumum, sem mannkynið hefur nú um að fara svo að segja að nema land á öðrum hnöttum, skuli á þessum hnetti sífellt fjölga því fólki, sem sveltur. Það deyja á dag 30 þús. börn úr hungri og hungursjúkdómum hjá þessum þjóðum, sem hægt væri að forða frá þessum dauða. Það er samkv. skýrslu Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna. Og menn hafa vafalaust orðið varir við það, að jafnvel á hverjum jólum eru seld hér jólakort, gefin út af þessari barnahjálp, þar sem stendur á, að það að kaupa lítið jólakort geti hjálpað til þess að seðja í nokkra daga eitt af þeim börnum, sem hungurdauðinn blasir við.

Ástandið hjá þessum þjóðum er því þannig, að frá mannúðarlegu sjónarmiði séð er ekki hægt fyrir neina þjóð og sízt af öllu þjóð eins og okkar, sem sjálf hefur, bara afar okkar og ömmur, kynnzt ástandi, sem er svipað og þessar þjóðir bjuggu við, við þurfum ekki að fara nema aftur til 1850, þegar af 10 börnum lifði aðeins eitt í fjölskyldu, til þess að sjá, hvernig sá barnadauði var, sem við áttum þá við að búa, þannig að við þurfum ekki að lita langt til baka til þess að skilja, hvernig þessum þjóðum muni vera innanbrjósts, sem nú búa við þetta ástand. En við aftur á móti höfum á skömmum tíma sótt fram til tiltölulega góðra lífskjara, og við ættum sannarlega að geta komið fram svo að segja fyrir þeirra hönd og með skilningi á þeirra vandamálum, þegar við látum til okkar taka á þingi þeirra sameinuðu þjóða.

En það er ekki aðeins frá mannúðarlegu sjónarmiði, sem það er skylda okkar að ræða þessi mál og hugsa um þau. Það er líka beinlínis frá pólitísku sjónarmiði hyggilegt fyrir þær þjóðir, sem byggja Norður-Ameríku og Evrópu, að láta þessi mál miklu meira til sín taka en nú er gert. Það er að verða stór breyting á veröldinni, sem við gerum okkur ekki ljósa, en þeir menn, sem mest hugsa um þetta, ræða mjög ýtarlega, Gunnar Mýrdal, sá kunni sænski hagfræðingur, gerði grein fyrir því fyrir ári, að mannfjölgunin í þessum löndum mundi um 1990 hafa leitt til þess, að í þessum þróunarlöndum mundi mannfjöldinn vera um 3 milljarðar eða álíka og allt mannkynið er nú. Það er raunveruleg sprenging, sem á sér stað í veröldinni, það er stökkbreyting, sem á sér stað hvað mannfjölgunina snertir, og hún er svo gífurleg hjá þessum þjóðum, að allt hlutfall, sem átt hefur sér stað í veröldinni undanfarna áratugi og jafnvel aldir, kemur til með að gerbreytast á næstu 10 og ég tala nú ekki um 20 árum.

Danskur verkfræðingur hefur skrifað eina þá harðvítugustu viðvörunarbók, sem ég hef lesið um þessi mál og gefin var út af norsku útgáfufyrirtæki fyrir ári. Þessi verkfræðingur heitir Gunnar Andreasen, borgaralegur verkfræðingur í Danmörku, sem auðsjáanlega hefur kynnt sér þessi mál ákaflega mikið. Bók hans heitir „Eftir 20 ár“. Hann gerir í þessari bók grein fyrir því, sérstaklega með því að rannsaka aðstöðu þriggja helztu stórvelda heims, Bandaríkjanna, Sovétríkjanna og Kína, hvernig þróunin muni verða orðin eftir 20 ár. Og hann segir, að ef vesturlönd haldi áfram eins og þau geri í dag og þróunin í heiminum og þróunin hjá þeim, munu þau raunverulega eftir 10 ár vera orðin takmörkuð alveg og þeirra vald við Norður-Evrópu og Ameríku og eftir 10 ár í viðbót muni þessi tvö svæði, NorðurAmeríka og Evrópa, vera eins og eyjar í heimi, þar sem 80% íbúanna lifi í þjóðfélögum, sem meira eða minna hafi mótazt af því núverandi Kína. Ég skal taka það fram, að það er ákaflega langt frá, að þessi maður sé nokkuð nærri kommúnistum. Hann er alveg sérstakur aðdáandi Marshall-hjálparinnar og er í sinni bók sérstaklega að gera grein fyrir till. sínum um, að það verði að endurtaka hlut eins og Marshall-hjálpina viðvíkjandi þróunarlöndum heims, en gerir um leið ákaflega krítíska grein fyrir, hve gersamlega vanmáttugar allar þær aðferðir séu, sem vesturlönd beiti nú sem stendur í þessum efnum, og dregur upp myndina af því, hvernig ástandið muni vera eftir 1—2 áratugi, þegar forríkar, þröngsýnar og eigingjarnar þjóðir Evrópu og Norður-Ameríku muni sitja sem hverfandi lítill minni hluti í veröldinni á sínum auðæfum og allt í kringum þær muni vera margfalt fjölmennari, bláfátækar og hungrandi þjóðir, og þá verði þetta vandamál það, sem yfirgnæfi allt annað í veröldinni.

Ég skal ekki fara út í þetta. En það væri kannske þörf á því stundum, að við án allra pólitískra hleypidóma reyndum að gera okkur nokkra grein fyrir, hver sú þróun er, sem er að verða í heiminum í dag. Það er rétt fyrir okkur að gera okkur um leið grein fyrir því, hverjir eiga sökina á þessu ástandi. Við skulum minnast þess, og við þekkjum það bezt sjálfir, að allar þessar þjóðir í Suður-Ameríku, Afríku og Asíu hafa verið rændar áratugum og öldum saman. Við hér í Evrópu og seinna meir Norður-Ameríku höfum ráðizt á þessar þjóðir, við höfum lagt þær undir okkur, einmitt okkar fremstu lýðræðisríki, sem við nefnum í okkar daglega tali, þegar við viljum tala fallega, England fyrst af öllu, höfuðland þingræðisins, Frakkland, Þýzkaland, Spánn, Portúgal og önnur slík. Við þessar hvítu þjóðir Evrópu skiptum öllum heiminum upp á milli okkar á undanförnum öldum, rændum þennan heim, réðumst á hann með árásarstyrjöldum, brutum þessar þjóðir á bak aftur, af því að við vorum vel vopnaðir ræningjar og þær voru frumstæðar þjóðir. Við byrjuðum á þessu, strax og við fundum Afríku, með þrælaveiðunum og öðru slíku, og þeir amerískir þjóðmegunarfræðingar, sem rannsakað hafa þá hluti, sýna bezt fram á, hvernig bara strax með þrælaveiðunum öll sú menning, sem þá var til í Afríku, var brotin á bak aftur og eyðilögð og þjóðunum hrundið niður í villimennsku. Við verðum að gá að því, að meira að segja sú landafræði og saga, sem við höfum lært í skólunum, er fölsuð af þeim þrælaveiðurum og ræningjum, sem hafa látið skrifa hana. Okkur hefur lengi verið talin trú um, að þessar þjóðir hafi verið einhverjar frumstæðar þjóðir. Það væri rétt eins og verið væri að telja okkur trú um, að við hefðum enga menningu átt á 11. og 12. öld. Ghana var menningarríki í Afríku á 11. og 12. öld, þar sem sendiboðar frá Spáni og Portúgal gátu komið til fagurra borga, steinlagðra stræta og hitt fyrir sér höggmyndalist, sem átti engan sinn líka í veröldinni nema þá grísku, sem stóð henni framar. Menning þessara landa var gersamlega brotin niður. Það er fyrst í dag, sem sagnaritarar Bretlands eru að umskrifa sögu Afríku þannig, að þeir sýni fram á, hvers konar menning þar þreifst og hvernig hún hafi ekki aðeins í Mið-Afríku, heldur einnig í Suður-Afríku, verið brotin niður af Evrópuþjóðunum, sem þarna komu, rændu þjóðunum sjálfum, seldu þær mansali og hröktu þær síðan burt, rændu þær jörðum þeirra, settust þar að og gerðu þær að sínum þrælum. Við verðum að muna, að það tjón, sem Evrópuþjóðirnar hafa valdið þessum þjóðum, er margfalt meira en sá gróði, sem Evrópuþjóðirnar hafa haft af þeim, og er hann samt mikill. Þegar 200 millj. manna var rænt í Afríku og fluttir til Ameríku, kom ekki einu sinni fjórðungurinn af því að gagni sem lifandi kvikfénaður svo að segja í þrælaríkjum Ameríku þá, hitt deyr á leiðinni eða er drepið, þegar verið er að ræna því. Það er eins og með okkur, þegar Skúli Magnússon var að reikna út, hverju við hefðum tapað á einokunarversluninni, og komst þá að þeirri niðurstöðu, að það væri á ákveðnu tímabili, — hann reiknaði ekki nema eitthvað 150 ár, — um 6 millj. ríkisdala, en tók það fram um leið, að gróði dönsku kaupmannanna væri samt ekki nema brot af því, við hefðum tapað svo miklu meira en því, sem þeir græddu. Og eins hefur það verið með þessar þjóðir. Evrópuþjóðirnar hafa bakað þeim ægilegt tjón fyrir utan allar þær hörmungar, sem þær hafa yfir þær leitt, og þó að þær hafi grætt mikið, er tjón hinna þjóðanna þó enn þá meira.

Þegar nú þessar þjóðir hafa fengið að mestu leyti pólitískt frelsi, — og þó ekki allar: Portúgal, bandamaður okkar í Atlantshafsbandalaginu, heldur áfram að myrða og drepa í sínum nýlendum, sem þeir hafa gert að hluta af Portúgal, eins og Danmörk gerði við Grænland, og Suður-Afríka býr við það þrælahald, að mennirnir, sem rændu jörðunum þar, eins og danskt konungsvald rændi jörðunum, sem kaþólska kirkjan átti á Íslandi, þessir ræningjar sitja enn að þessum ránsfeng. Og ef þeir halda því áfram, eiga þeir að öllum líkindum eftir að leiða yfir þær þjóðir, sem þeir stjórna, eitthvert ægilegasta blóðbað, sem veröldin hefur þekkt, ef ekki tekst að koma viti fyrir þá hvítu yfirstétt þar í landi. Í dag, þegar hvítu þjóðirnar hafa að miklu leyti sem sé sleppt þeim pólitísku völdum þarna, sumpart tilneyddar, en sumpart af þeim pólitísku hyggindum, sem sérstaklega hafa alltaf einkennt þá brezku yfirstétt, sleppt þeim til þess að reyna að halda efnahagslegu ítökunum, heldur það ástand áfram, að hringarnir í Evrópu og NorðurAmeríku fella verðið á þeim vörum, sem fluttar eru út frá þessum löndum, og hækka í sífellu verðið á þeim iðnaðarvarningi, sem þær sjálfar selja til þeirra. Við skulum aðeins minnast þess, sem einn af sérfræðingum ríkisstj. upplýsti okkur um nú nýlega í sambandi við Ghana. Ghana er einn mesti kakóframleiðandi veraldarinnar. Verðið á kakó var fallið um helming, það hefur ofurlítið hækkað aftur síðustu mánuðina. Það eru þrír hringar, sem kaupa allt það kakó. Stærsti hringurinn er Nestle-hringurinn svissneski, sem er aðaleigandinn í Findus, fiskhringnum, sem er að leggja undir sig hraðfrystifiskiðnað Norðmanna. Þessir hringar fella verðið á hráefnum þessara landa. Þeir hækka verðið aftur, aðrir hringar, á þeim iðnaðarvörum, sem þeir selja til þeirra, og þannig tökum við til baka, eins og ég gat um áðan, 3/4 af allri þeirri aðstoð, sem þessum löndum er veitt. Og ef þessi lönd og þessar þjóðir ætla að ganga lengra, ef þær vilja fá að eignast sínar eigin auðlindir, ef þær vilja fá að eignast sínar eigin jarðir, eins og við Íslendingar fengum í gegn með friðsamlegu móti, þegar þær jarðir, sem við nú köllum þjóðjarðir, voru afhentar Íslendingum, ef þær vilja fá að eignast námurnar í sínum eigin löndum, sem við Íslendingar slógum eign okkar á, þegar við öðluðumst sjálfstæðið, og álítum alltaf okkar eign, kostar það ægilegar blóðsúthellingar hjá þessum mönnum. Við þurfum ekki nema líta til Kongó, þar sem aðalfrelsishetja þessarar þjóðar, Lumumba, er myrtur vegna þess, að hann vill reyna að tryggja þessu landi yfirráð, ekki aðeins stjórnarfarsleg, heldur líka efnahagsleg, yfir sínum eigin auðlindum, þar með þeim ríku úraníumnámum, sem Kongó býr yfir, sem gerir það að verkum, að þeir voldugu belgísku hringar, sem áttu þetta allt saman áður og hafa að bakhjarli ameríska auðvaldið og áhuga þess fyrir úraníum við kjarnorkuframleiðslu, skipulögðu Tsjombe, kvislinginn í Kongó, til þess að skapa það ástand með aðstoð herforingja og málaliðs, sem nú ríkir í því landi. Þeir auðhringar, sem hafa arðrænt þessar þjóðir, hafa ekki hugsað sér að sleppa tökunum á þeim, þó að ríkisstj. þessara landa gefi þeim stjórnarfarslegt frelsi. Og baráttan, sem kemur til með að standa auðsjáanlega nú næstu áratugi, verður á milli þessara auðhringa og þeirra málaliða og þeirra herforingja, sem þeir kaupa með sér, kannske stundum með aðstoð ýmissar leyniþjónustu, eins og CIA í Bandaríkjunum, og þess fólks, sem vill fá að eignast sitt eigið land og njóta sjálft auðæfa þess. Og við sjáum, hvað það kostar, þegar slíkar þjóðir reyna slíkt, sjáum það í Víetnam, þar sem sú hrausta þjóð og fátæka hefur átt, eftir að vera kúguð nýlenduþjóð af Frökkum, í 20 ára frelsisstyrjöld við Frakka, Japani og Bandaríkjamenn og verður nú að þola það svívirðilega árásarstríð, sem Bandaríkjastjórn stendur þar fyrir með öllum þeim morðum, sem í sambandi við það eru framin, allt vegna þess eins, að þessi þjóð vill fá að vera frjáls og var búin að fá samninga og fyrirheit um það 1945.

Við sjáum þess vegna, að við stöndum þarna frammi fyrir stórkostlegasta vandamáli veraldarinnar nú á tímum, svo fremi sem ekki er tekið í taumana og reynt að koma viti fyrir og stöðva þá auðhringa Norður-Ameríku og Evrópu, sem ýmist með ríkisstj. sinum eða án þeirra standa fyrir því að reyna að halda þessum þjóðum niðri. Jafnt mannúð sem stjórnvizka býður þess vegna þjóðum Evrópu og Norður-Ameríku að reyna að afstýra þeim ægilegu átökum, sem hljóta að koma upp af því ástandi, sem nú er, ef ekki er tekið í taumana í tíma. Það er tiltölulega auðvelt verk fyrir þær ríku þjóðir Norður-Ameríku og Evrópu að byggja upp löndin, hin svokölluðu þróunarlönd, sem þessar rændu þjóðir byggja. Það er hægt með öllu mögulegu móti, allt frá því að útvega þeim tiltölulega frumstæðar vélar, sem við mundum kalla. Við höfum nýlega lesið um það, þar sem Íslendingar hafa verið að starfi hjá þessum þjóðum, hvað eins einfaldur hlutur eins og bátavél getur þýtt fyrir þær þeirra, sem fiskveiðar stunda. Og við getum hugsað okkur, hvernig það er hægt að gerbylta matvælaframleiðslu þessara þjóða, þar sem 60—90% af þeim víðast hvar lifa af landbúnaði einum saman. Amerískur bóndi, sem settist að hjá einni af þeim þjóðum, þar sem einu sinni var kallað Indó-Kína, sýndi fram á, en mætti litlum skilningi, að það var hægt á tiltölulega fáum árum að leysa mjög mikið af hungurvandamálum þessara þjóða bara með stórfelldri hænsnarækt, kenna þeim framleiðslu á hænsnum og því kjöti og þeim eggjum, sem þeim fylgja. En sendiráð Bandaríkjanna, eins og sagt hefur verið frá í viðkunnri amerískri bók, hafði mun meiri áhuga á stórkostlegum vegalagningum í þessum löndum, sem gátu komið að gagni, ekki aðeins fyrir bíla, heldur líka fyrir skriðdreka og annað slíkt, heldur en fara að athuga um svona einfalda hluti.

Það er ekki aðeins í einföldum hlutum, sem hægt er að hjálpa þessum þjóðum stórkostlega. Það er líka hægt að koma upp hjá þeim spítölum, skólum og verksmiðjum til að vinna úr þeirra hráefnum og öðru slíku. Og þetta er allt saman tiltölulega auðvelt fyrir þjóðir Norður-Ameríku og Evrópu, þegar við sérstaklega hugsum út í það, að Bandaríkin, ríkasta landið af öllum þessum, hagnýta ekki sína miklu framleiðslugetu í dag nema 60—70% og stöðva meira að segja sína eigin þróun í landbúnaði og verðlauna menn fyrir að minnka það ræktaða land til þess að koma í veg fyrir það, sem þeir kalla offramleiðslu á matvælum, á meðan meiri hluti mannkynsins hungrar. Það er þess vegna tiltölulega einfaldur hlutur að framkvæma slíka atvinnubyltingu hjá þessum meiri hluta mannkynsins, að á 10—20 árum væri hægt að gerbreyta þeirra lífskjörum.

En spurningin er: Hvernig á að gera þetta, með hvaða aðferðum eigum við að gera þetta? Það hefur fram að þessu fyrst og fremst verið talað um tvær aðferðir og tvær aðferðir framkvæmdar. Sú fyrri er gjöf til þessara þjóða. Mörg ríki í Evrópu og Norður-Ameríku hafa gefið mjög mikið til þessara þjóða. Það er náttúrlega góðra gjalda vert og ber að meta það, það er oft gert af góðum hug. Sérfræðingur hæstv. ríkisstj., sem ég talaði nýlega við, sagði mér t.d. frá því, að í þessu landi, sem ég minntist á áðan, í Ghana, hefðu Danir af góðvilja sínum gefið þeim lýðháskóla, sem þeir hefðu byggt. Því miður vantaði bara allar forsendur til þess að geta starfrækt þann lýðháskóla í svipuðum anda og með svipuðum aðstæðum og Danir með svo góðum árangri vegna síns háa menningarstigs og lífskjara hafa getað hagnýtt slíkar stofnanir. Ríkar þjóðir hafa verið að gefa þeim alls konar fallegar stofnanir og góðar. Venjulega hefur borið nokkuð mikið á því, að þessar þjóðir, hverjar sem þær eru, vildu láta nokkuð mikið á því bera, að þær væru að þessu, og raunverulega ætlast til, að til þeirra væri alveg sérstaklega litið með þakklæti vegna slíks. Og það hefur satt að segja oft orðið þess vart, að slíkar þjóðir, slík ríki hafi ýmsa pólitíska bakþanka, þegar slíkt er gert. Það er máske ekki láandi. Við vitum ósköp vel, að í stjórnmálum heimsins hefur átt sér stað mikið kapphlaup á milli ýmissa þjóða, sem standa þar á öndverðum meið, um vináttu þessara þjóða, og gjafir eru nú sem fyrr eitt af því, sem þykir heppilegt hjá þeim ríku til þess að reyna að vinna góðvild þeirra fátæku. En hjá mörgum þessara þjóða særa slíkar gjafir þeirra metnað. Þær eru nýlega orðnar frjálsar, og þær tala máske líkt og núv. forsrh. gerði, þegar farið var að tala um Marshall-hjálpina, að við Íslendingar, sem erum stolt þjóð, mundum, þegar um hana væri að ræða, vera veitendur, en ekki þiggjendur. Það var það mikið stolt rétt eftir lýðveldisstofnunina, líka hjá hæstv. forsrh. núverandi. En það fór nú öðruvísi. Sumar þessar gjafir, sem gefnar eru til þessara þjóða, — stjórnendur þeirra eru misjafnir, rétt eins og hér í Evrópu og NorðurAmeríku, og fara misjafnlega með þetta, — sums staðar hefur því verið að bregða við, að jafnvel væri mikið af slíkum gjöfum notað jafnvel til að búa þessar þjóðir vel að her og herútbúnaði, og jafnvel ekki örgrannt um stundum, að gefendurnir hafi sérstaklega til þess ætlazt, að slíkar gjafir yrðu notaðar í slíku skyni. Ég held þess vegna, að þótt gjafirnar séu oft gefnar af góðum hug, en séu líka oft leikur í því pólitíska tafli í veröldinni, sé það engan veginn heppilegt form, hvorki fyrir þá, sem gefa, upp á að ná þeim tilgangi, sem ætlazt er til, né heldur vegna þeirra, sem þiggja.

Annað form, sem haft hefur verið þarna á, eru lánin. Lánin hins vegar hafa verið veitt yfirleitt, sérstaklega af Norður-Ameríku og Vestur-Evrópu, með þeim vöxtum, sem þykja eðlilegir í þeim löndum, 4—5% vöxtum, sem þýðir, að svo og svo mikið af gjaldeyristekjum þessara fátæku þjóða fer í að borga til baka afborganir og vexti af þessum lánum. Og það hafa á efnahagsráðstefnunum t.d. um Suður-Ameríku, líka þeim, sem samband amerísku ríkjanna hefur haldið, verið gefnar mjög eftirtektarverðar upplýsingar um, hve mikið það er, sem þessar þjóðir verða að borga til baka í vöxtum og afborgunum. Það er máske ekki öllum þm. ljóst, en þeir hagfræðingar, sem bezt hafa rannsakað aðstæðurnar um lán og fjárfestingu í því, sem áður voru nýlendur hinna hvítu þjóða, hafa komizt að þeirri niðurstöðu, þveröfugt við það, sem oft er haldið fram í áróðursskyni, að Evrópa hafi verið að flytja út til þessara þjóða fjármagn til þess að þroska þær, að Evrópa hefur yfirleitt ekki flutt út fjármagn til þessara þjóða, heldur rænt frá þessum þjóðum fé, sem þar hefur margfaldlega ávaxtað sig, þannig að Evrópa og þær þjóðir, sem þarna hafa ráðið, hafa getað með drottnun sinni yfir þessum þjóðum margfaldað auð þar, lifað að nokkru leyti sjálfar af þeim auði, og margfaldað hann í þessum löndum.

Arðránið, sem Evrópuþjóðirnar í gegnum aldirnar og áratugina hafa framkvæmt á þessum þjóðum, hefur verið hrottalegt. Þess eru dæmi, að auðmagn, sem lagt hefur verið í þessar nýlendur, hafi gefið upp undir 100% arð á ári, þó að það sé náttúrlega óeðlilegt. Til þess eru dæmi um ýmis fyrirtæki. Það að lána þessum þjóðum þýðir þess vegna að láta þau ríki, sem lána, ná vissum tökum á þeim og knýja þessar þjóðir til að borga þau lán til baka. Ég álít þess vegna, að það séu hvorki gjafir né lán, sem þessar þjóðir þurfi. Það, sem væri eðlilegast að þessar þjóðir fengju frá þjóðum N.-Ameríku og Evrópu, er endurgreiðsla, eins konar skaðabætur á því tjóni, sem þessar þjóðir hafa valdið nýlenduþjóðunum um áratugi og aldir. Slík endurgreiðsla mundi hafa þann kost, að hún særði ekki metnað þessara nýfrjálsu þjóða. Það er hægt að taka við slíkri endurgreiðslu, og þær munu segja: Þetta er það, sem við eigum rétt á, og við þurfum engum að lúta vegna þess, að við höfum fengið þetta greitt. Í öðru lagi, að slík endurgreiðsla gefur ekki aðstöðu til þess að skapa fjárhagsleg, efnahagsleg eða pólitísk ítök hjá þessum þjóðum, a.m.k. ekki ef hún væri veitt í því formi, sem ég legg til. Í þriðja lagi mundi slík endurgreiðsla gera það eðlilegt vegna þess, hve það er raunverulega flókið að eiga að fara að reyna að meta á einhvern hátt ýmist þann gróða, sem hinar ríku þjóðir hafa haft af hinum fátæku, eða það tjón, sem þær hafa valdið þeim, þá gerir hún það eðlilegt, að það væri sameiginleg alþjóðleg stofnun, eins og Sameinuðu þjóðirnar, sem ráðstafaði þessari endurgreiðslu og yrði þá raunverulega sá aðili, sem á vissan máta miðlaði á milli þeirra ríku þjóða og þeirra fátæku.

Ég skal strax geta þess, að það er lítill vandi fyrir þjóðirnar í N.-Ameríku og Evrópu að veita stórfé til þessara fátæku þjóða, svo ríkar eru þær. Það hefur verið talað um, t.d. af þeim manni, sem lagði til að reyna að koma á eins konar Marshall-hjálp fyrir þessar þjóðir, að það væru um 25 milljarðar dollara á ári, sem veitt væri til þeirra og mundi gerbreyta þeirra lífskjörum. Aðeins hernaðarútgjöld þjóðanna í N-Ameríku og a.m.k. hluta af Evrópu eru um 125 milljarðar dollara á ári. Bandaríkin ein, ef ég man rétt, hafa í hernaðarútgjöld um 65 milljarða dollara á ári, og mun vera hækkað nú, því að þessar tölur eru miðaðar hjá mér við þær bækur, sem ég hef stuðzt við, og þá fyrir svo sem tveim árum. Ef ég man rétt, voru Bandaríkin að hækka enn þá sín framlög í því skyni nú nýlega, og framleiðsluverðgildi bara hinna vestrænu þjóða er um 1000 milljarðar dollara á ári og vex um 40 milljarða dollara á ári, þannig að ríkidæmi og framleiðslugeta hinna vestrænu þjóða t.d., svo að við tökum aðeins þær, er slíkt, að það er tiltölulega auðveldur hlutur, ef aðeins væri hægt að skapa um það samstarf, að leggja fram, án þess að þær fyndu til þess, fé til að bæta úr, ekki aðeins brýnustu þörfum, heldur gerbylta lífskjörum þessara frumstæðu þjóða. Og ég vil minna á, að hvenær sem lagt hefur verið út í slíkt, — við skulum bara taka dæmi af Marshall-hjálpinni, þegar Bandaríkin leggja út í Marshall-hjálpina við V.-Evrópu, — þýðir það um leið, vegna þess að hjálpin er látin að miklu leyti í té í ýmiss konar framleiðslutækjum og slíku, að þeir hagnýta sín eigin framleiðslutæki miklu, miklu betur en þeir ella hefðu gert, þannig að á sama tíma, sem Bandaríkin gefa stórgjafir til Evrópu og lána stórlán, eykst þeirra eigin framleiðslugeta langt umfram það, sem þau gefa og lána. (Forsrh.: Mig minnir, að þm. segði á sínum tíma, að það væri arðrán.) Bandaríkin hafa séð um það. Ég skal upplýsa hæstv. forsrh. um það, ef honum er ekki ljóst, hvernig þau fara að því. (Gripið fram í.) Nei, það er einmitt það, sem ég er að afstýra, það er það, sem verið er að gera núna. Það er það, sem Bandaríkin sjá um í Kongó í dag, að halda áfram að arðræna þá, og ég skal um leið, til þess að skýra ofurlítið fyrir hæstv. forsrh., ef hann hefur ekki skilið það, sýna, hvernig Bandaríkin fara að því að arðræna Evrópu. Dollarinn er skráður eftir kröfu Bandaríkjanna — pólitískri kröfu þeirra — á verðgildi, sem samsvarar að engu leyti kaupmætti dollarans. Hver Bandaríkjamaður, hvort það er ferðamaður eða amerískur auðhringur, fær fyrir sinn dollar, sem hann flytur út til Evrópu og kaupir fyrir, hvort það er pund eða franki eða vestur-þýzkt mark, þá fær hann tvöfalt meira verðmæti en hann fær fyrir hann í Bandaríkjunum. Það þýðir, að ekki aðeins amerískir ferðamenn geta lífað eins og greifar í Evrópu, þó að þeir verði kannske að hafa það bara í meðallagi heima hjá sér, það þýðir líka, að amerískir auðhringar geta keypt upp helztu fyrirtæki, sem þeir geta klófest í V.- Þýzkalandi, Frakklandi, Ítalíu og annars staðar, í Bretlandi líka, fyrir helminginn af því, sem það mundi kosta þá að byggja samsvarandi fyrirtæki í Bandaríkjunum. Með þessu móti skattleggja Bandaríkin Evrópu, á sama hátt t.d. og nazistarnir skattlögðu þau lönd, sem þeir lögðu undir sig og knúðu til að taka sitt mark og skipta fyrir það dönskum krónum og öðru slíku, og með þessu móti hafa Bandaríkin á undanförnum árum eignazt stóra hluti í fyrirtækjum Evrópu. Kannske man hæstv. forsrh. eftir því, þegar fyrir nokkrum árum hlutabréfin í brezka alúminíumhringnum voru boðin upp í kauphöllinni í London og þegar meira að segja, sem tíðkast sjaldan hjá brezkum kauphallardrottnum, það var farið að skírskota til patriótisma Breta til þess að reyna að varðveita þessi hlutabréf í brezkri eigu, en það var nú samt Reynolds & Co., það stóra ameríska alúminíumfyrirtæki, sem klófesti meiri hlutann í þessum brezka alúminíumhring. Og þannig væri hægt að rekja áfram. Ég get haldið áfram með V.-Þýzkaland, Frakkland og Ítalíu, ef hæstv. forsrh. vill, til þess að sýna honum fram á, hvað gott sem kann að hafa vakað fyrir Marshall hershöfðingja, þegar hann hélt sína ræðu, hvernig auðhringar Bandaríkjanna kunna að snúa því, sem kannske hefur átt einhvern tíma að vera mannúðleg hjálp og var pólitísk hyggindi vissulega, upp í harðvítugt arðrán. „Svo hefur ráðsnilld reikningsaldar ribbaldann til hagnaðs tamið,“ var eitt sinn sagt um slíkt.

Ég held, að ég hafi einmitt verið að ræða um það, hvað það væri tiltölulega auðveit fjárhagslega séð fyrir hinar ríku þjóðir að láta af sínum auðæfum nokkurn lítinn hluta til þess að gerbreyta lífskjörum þessara fátæku þjóða, þessara þróunarlanda, og það án þess að skapa nokkrum aðila aðstöðu til arðráns þar, eins og mundi vera hægt í gegnum lán, fjárfestingu og gjafir, eða skapa nokkrum aðila aðstöðu til sérstakra pólitískra áhrifa þar í gegnum lán og gjafir. Þetta mundi því aðeins vera hægt, að það væri hægt að koma sér saman um, skapa samstarf um það, að það yrði gert af stofnun, sem menn virtu, stofnun alls mannkynsins í slíku efni. Ég held þess vegna, að slík endurgreiðsla mundi vera það form, sem bæði siðferðilega og stjórnmálalega væri bezta formið, sem hægt væri að hafa á í þessum efnum. Það, sem hins vegar gerir, að fyrir okkur Íslendinga er eðlilegt að koma fram með þessa hugmynd, er það, að þegar við sjálfir áttum í baráttu sem frumstæð nýlenduþjóð, — ég tek það fram, þegar ég nefni okkur sem nýlenduþjóð, að við viðurkennum aldrei, að við höfum verið nýlenda í stjórnarfarslegum skilningi, en efnahagslega vorum við meðhöndlaðir eins og nýlenda í gegnum árin, — þegar við áttum sjálfir í okkar baráttu, var það, eins og öllum hv. þm. er kunnugt og ég þarf ekki að fara hér neitt ýtarlega út í, Jón Sigurðsson forseti, sem sérstaklega setti það fram, þegar við áttum að gera reikningsskilin við Dani, að það væri ekki nóg, að við fengjum okkar stjórnarfarslega sjálfstæði, við yrðum líka að fá okkar skaðabætur fyrir það tjón, sem Danir hefðu valdið okkur í gegnum aldirnar. Ef menn vilja kynna sér þetta betur, geta menn séð það í greinum Jóns, t.d. í Nýjum félagsritum, 22. árg. frá 1862, í grein hans um fjárhagsmálin þar á bls. 22—99. Þar fer hann mjög ýtarlega út í þessi mál. Þar tekur hann og rekur alveg hreint þann gróða, sem Danir hafi haft af verzluninni við Ísland, vitnar í jafnvel, hvað danskir kaupmenn hafi metið það sjálfir. Hann segir þar m.a. á bls. 81, þegar hann er búinn að vitna í einn stórkaupmann, sem heitir Clausen, að hann og félagar hans hafi 1816 metið ágóðann af íslenzku verzluninni á 200 þús. ríkisdali árlega. Og Jón Sigurðsson er ekki að miða þetta bara við nýjasta tímann. Hann reiknar þennan tíma, eins og menn geta séð, ef menn líta í þessa grein um fjárhagsmálin á bls. 82, 254 ár aftur í tímann, þ.e. allan tímann, sem einokunarverzlunin hefur verið. Þar gizkar hann á gróðann, sem Danir hafi haft, 1 millj. 270 þús. ríkisdali, eða ef hann hugsar það sem árgjald, sem þeir eigi að greiða okkur, hugsar hann þannig, að vextirnir séu 4% og árgjaldið 2% af því, þá reiknar hann með 50 þús. ríkisdölum á ári. Og á bls. 71—91 í þessari grein gerir hann síðan upp reikninginn fyrir allt ránið, sem hann álítur að hafi verið framið. Hann tekur þar þjóðjarðirnar, stóljarðirnar, ágóðann af verzluninni og aukasjóðina alla saman. Þetta geta menn lesið á þessum 20 síðum. Hann endar þar með því að gizka á, eins og hann sagði, með leyfi hæstv. forseta:

„Útgjaldseyrir sá, sem Danmörk ætti eftir þessu að greiða til Íslands, þegar fjárhagurinn yrði aðskilinn, væri nær hæfis 3 millj. (þ.e. millj. ríkisdala) fyrir utan aukasjóðina, og hugsum vér oss það fé goldið til Íslands sem eign þess eftir samkomulagi, svo sem t.d. með 6 af 100 árlega, og gengju þá 4 í vöxtu, en 2 í afgreiðslu innstæðunnar, eða með öðru móti, sem hentast þætti.“

Við vitum alveg, hvað vakað hefur fyrir Jóni Sigurðssyni í sambandi við þessa hluti þá. Það er ekki aðeins að láta Dani gera aftur gott það, sem þeir hafa við okkur brotið um aldirnar, heldur líka hitt, að tryggja fátæku og rúðu Íslandi fjármagn, sem það eigi sjálft og ráði yfir. Hann er það framsýnn, að hann veit, að svo fremi sem við eigum að byrja með því bláfátækir að taka allt að láni hjá erlendum þjóðum til þess að byggja hér upp hjá okkur, erum við orðnir skuldaþrælar þeirra. Hann vill þess vegna reikna og segja: Það, sem þið eruð búnir að taka af okkur á undanförnum 254 árum, eins og þegar hann reiknar einokunarverzlunina, skuluð þið borga okkur aftur, — og raunar reikna okkur lengra til baka, þegar hann er að taka þjóðjarðirnar, — það skuluð þið borga okkur til baka. Hann hefði máske ekki gert þetta, ef Ísland hefði verið orðið tiltölulega ríkt eða ef hér hefði verið mikið af þeim auði, sem út úr landinu rann, við hefðum getað tekið eignarnámi svo og svo mikið af því, sem danskir kaupmenn eða danskir atvinnurekendur áttu hér. Þá hefði hann kannske ekki reiknað þetta svona. En hann sá, að það var nauðsynlegt fyrir Ísland að eignast fjármagn, sem Ísland réð sjálft yfir.

Menn geta kynnt sér þessi mál líka í 25. árganginum, þar sem hann skrifar um fjárhagsmál Íslands og stjórnarmálin. Það eru fyrir 100 árum, 1867, á bls. 45—152, mjög langar og ýtarlegar greinar, sem hann setur þar fram, og ákaflega margt fróðlegt í þeim, sem ekki aðeins er rétt fyrir okkur að athuga sjálfir vel okkar eigin sögu vegna og gerum náttúrlega, heldur líka með tilliti til þess að setja okkur inn í aðstöðu þeirra þjóða, sem nú standa svipað að vígi og þó jafnvel enn þá verr en við stóðum á hans tímum. Og við skulum muna það, að þá vorum við bændaþjóð, líklega nokkurn veginn 90—99%. Það er þess vegna, — ég minntist á það áðan, — að Jón Sigurðsson leggur það þarna til grundvallar, reiknar, hvað Danir hafa á okkur grætt á hinn ýmsa máta.

Þegar Skúli Magnússon reiknar þetta sama út næstum 100 árum áður og birtir það í Lærdómslistafélagsritunum, í 5. árganginum, reiknar hann með tapinu af einokunarverzluninni og hara þann tíma fram á hans tíma, eins og ég gat um áðan, tvöfalt meira en Jón Sigurðsson reiknar þetta allt saman, tapið, sem Ísland hafði orðið fyrir, þ.e. um 6 millj. ríkisdala.

Við höfum þess vegna einmitt í þeirri afstöðu, sem Jón Sigurðsson tók þá, alveg fordæmi um, hvernig eðlilegt sé af forsvarsmönnum þjóðar, sem hefur verið kúguð nýlenduþjóð um áratugi og aldir, hvernig eðlilegt sé af hennar hálfu að reikna þessi mál. Og þetta er það stutt enn þá aftur í tímann fyrir okkur, að fyrir okkur er þetta enn þá lifandi, og við eigum þess vegna að geta skilið aðstöðu þeirra þjóða, sem nú eru að öðlast það frelsi, sem við höfum öðlazt fyrir nokkrum áratugum, miklu betur en þær þjóðir, sem verða að leita næstum 200 ár til baka, eins og t.d. Bandaríkin eða þjóðir, sem jafnvel aldrei hafa verið í þessari aðstöðu, eins og nágrannaþjóðir okkar í Vestur-Evrópu.

Þess vegna álit ég, að okkur Íslendingum bæri alveg sérstaklega að kveðja okkur hljóðs á alþ,jóðavettvangi, kynna þar þá aðferð, sem höfð var af hálfu Jóns Sigurðssonar við að reikna út, gera reikningsskilin fyrir hönd þeirra fátæku og kúguðu þjóða gagnvart þeim ríku, sem höfðu áður rænt þær. Og þess vegna hafði ég útbúið þessa þáltill. á þann máta, sem hv. þm. sjá.

Nú er mér auðvitað ljóst, að þó að Jón Sigurðsson hafi með sinni miklu elju og sinni miklu þekkingu og aðstöðu til þess að reikna þessa hluti út getað reiknað þetta dæmi tiltölulega við skulum segja: nákvæmlega, þegar um er að ræða okkur Íslendinga annars vegar og Dani hins vegar, er auðvitað ekki um það sama að ræða, þegar við erum að lita á allan heiminn í þessu efni. Þar kemur náttúrlega margt inn í, sem breytir hlutunum. Þjóðir sem voru nýlenduþjóðir á þeim tíma, sem Jón Sigurðsson var að gera þennan reikning, þær eru í dag með voldugustu þjóðum heims, Bandaríki Norður-Ameríku, sem sjálf voru kúguð nýlenda fyrir 200 árum, eru í dag ein drottnandi þjóð veraldar, ekki aðeins sú ríkasta, þannig að það er auðvitað ekki hægt að framkvæma þessa hluti út í æsar. Við Íslendingar, sem sjálfir höfðum brotizt áfram, þegar við fengum okkar sjálfsforræði, við mundum ekki heldur fara að gera upp neina reikninga nú fyrir þann gamla tíma. Til allrar hamingju stöndum við nú í vinsamlegu og bróðurlegu sambandi við Danmörku og viljum sízt gera nokkuð til þess að ýfa upp gömul sár, þvert á móti. Og þannig er um margar fleiri þjóðir, Norðmenn eða aðra slíka. Þess vegna er mín hugsun með þessu raunverulega sú, að vart sé framkvæmalegt mjög nákvæmlega að gera þennan reikning, en það sé hins vegar rétt að leggja þessi reikningsskil og þann siðferðilega grundvöll, sem í þeim felst, til grundvallar, þegar við förum að gera upp þessar sakir.

Þær kúguðu þjóðir hafa kannske ekki átt málsvara nema tiltölulega mjög fáa, og kannske þekkjum við þá tiltölulega lítið, sem hafa þekkt eins vei sögu sinnar þjóðar og stúderað alla hennar ógæfu í gegnum aldirnar eins vel og Jón Sigurðsson gerði fyrir okkar hönd. Við verðum að gá að því, að það var okkar stóri kostur, að við héldum hér almennari menntun á tímum, sem Evrópuþjóðirnar steyptu þessum þjóðum, sem ég talaði um, niður í slíka vanþekkingu, að jafnvel í heilum löndum var, þegar þær skildu við, máske einn einasti læknir innfæddur í tugmilljónaþjóð. En trúað gæti ég, að þeir af þeim fáu menntamönnum, sem þessar þjóðir ættu, sem kynntu sér þeirra sögu til hlítar, mundu fyrr eða síðar krefjast þess, að þessi reikningur yrði gerður upp. Eða hvað halda menn um Suður-Afríku í dag, þegar það þrælahald er innleitt, sem þar er, og búið er að ræna öllu því bezta landi, sem sú landbúnaðarþjóð átti, hvítir menn búnir að setjast þar að og hrekja síðan hina svörtu vinnuþjóð út í lélegustu löndin, — hvernig halda menn, að þeir reikningar yrðu gerðir upp, ef tekið væri fordæmi Jóns Sigurðssonar með þjóðjarðirnar og stóljarðirnar hér, og hvað haldið þið, að Jan Smith og aðrir, sem nú stjórna þar í Rhodesíu, mundu verða að svara til saka, þegar þeir reikningar yrðu gerðir upp við þá? Við skulum aðgæta, að ef ekki tekst að koma á skynsamlegum og friðsamlegum reikningsskilum í þessu, er nokkurn veginn gefið mál, að þetta verða blóðug reikningsskil. Það var e.t.v. okkar kostur, og Jón Sigarðsson undirstrikaði oft þá aðstöðu, þó að honum fyndist það náttúrlega ekki kostur, eins og ekki var von, að við vorum fáir og vopnlausir, Danir fjölmennir, vopnaðir, og við áttum þess vegna ekkert annað, Íslendingar, heldur en rökin og sögulega réttinn og annað slíkt til þess að beita fyrir okkur. Og ég man nú ekki betur en einmitt Jón Sigurðsson kæmi í einu bréfi til Konrads Maurers sérstaklega inn á þetta, harmi það á vissan máta, að við skulum ekki hafa neitt annað en þetta, það væri einhver munur, ef við hefðum t.d., eins og þeir hefðu haft í Slésvík-Holstein, volduga þjóð, eins og Þjóðverjarnir voru, til þess að styðjast við í sínum frelsiskröfum. En við skulum muna, að þessar fátæku þjóðir heims verða um 80% af mannkyninu eftir 10–20 ár. Og þessar þjóðir heims verða að öllum líkindum vopnaðar. Og við sjáum í dag, hvernig það gengur fyrir Bandaríkin með sína 200 þús. vopnaða innrásarhermenn í Víetnam og eiga að ráða við nokkra tugi þús. skæruliða. Með margföldu ofurefli, þegar þeir eru að berjast við sjálfa þjóðina, komast þeir ekkert áfram, spurningin er aðeins um, hvenær þeir tapa og hvenær þeir hrökklast út úr landinu. Og við skulum hugsa okkur, að þannig væri komið allvíða í veröldinni, og það er það, sem allir þeir, jafnt borgaralegir sem sósíalistiskir stjórnmálamenn, sem eitthvað líta fram í tímann núna, eru að óttast og vilja reyna að koma í veg fyrir í tíma.

Ég held þess vegna, að með þeirri aðferð, sem Jón Sigurðsson hafði í reikningsskilunum við Dani, sé skapaður heppilegur siðferðilegur og pólitískur grundvöllur til þess að framkvæma þau reikningsskil og framkvæma þar með, ef við viljum nota það orð, þá aðstoð, þá endurgreiðslu, sem þær ríku þjóðir heims eigi að greiða til þeirra fátæku þjóða. Og ef það er haft frumkvæði um þetta og barizt fyrir þessu og þetta knúið fram og þetta gert af sjálfum Sameinuðu þjóðunum, er hægt að koma þessu inn á vettvang, sem allir ættu að geta sætt sig við.

Við vitum, að Sameinuðu þjóðirnar hafa meir og meir verið að láta vandamál þessara frumstæðu og fátæku þjóða til sín taka. Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna hefur unnið stórkostleg verk í þessum efnum. Sameinuðu þjóðirnar hafa líka verið að reyna að gangast fyrir efnahagsog viðskiptamálaráðstefnum, eins og ég gat um, fyrir tveimur árum í Genf, sem samt er auðséð, að erfitt er að láta bera árangur, nema brotið verði blað um þá efnahags- og yfirdrottnunarpólitík, sem auðhringar reyna að knýja fram af hálfu Evrópu- og Ameríkuþjóðanna í þessum efnum. Ég held þess vegna, að það að skapa þarna til viðbótar stórfelldan vettvang fyrir Sameinuðu þjóðirnar væri stórkostlegt spor, ekki aðeins til þess að reyna að bæta úr neyð hinna fátæku þjóða í veröldinni, gera góðan órétt, sem þeim hefur verið valdinn, heldur líka til þess að reyna að tryggja frið í heiminum.

Ég hugsa mér, að þetta yrði framkvæmt á þann máta, að Sameinuðu þjóðirnar sjálfar létu gera áætlanir um uppbyggingu þessara landa, uppbyggingu í heild, og síðan séráætlanir fyrir hverja þessa þjóð út af fyrir sig, og slíkar séráætlanir yrðu náttúrlega gerðar í samráði við hverja þjóð. (Forseti: Mætti ég spyrja hv. ræðumann, hvort hann ætli miklu ólokið af ræðu sinni?) Það er mjög lítið, 2—3 mínútur. — Þannig mætti tvímælalaust tryggja, að þessar fátæku þjóðir gætu sjálfar haft mikil áhrif um, hvernig þessu væri varið, en Sameinuðu þjóðirnar engu að síður haft áhrif frá sinni hálfu um, að þessu yrði ekki varið til ónytsamlegra eða jafnvel þess, sem við mundum nú kalla: skaðlegra hluta. Sem sé, þetta væri eingöngu til uppbyggingar á atvinnulífi og félagslífi þessara þjóða, ekki til herútbúnaðar eða annars, sem heyrði til slíks.

Ég álit, að okkur Íslendingum beri að koma fram með till. í þessa átt. Ég er auðvitað reiðubúinn til að endurskoða þessa till. á þann hátt, sem okkur kæmi saman um. Ég álit, að það sé heppilegt, að utanrmn. athugi þessa till. Ég vil minna á, að einn hv. þm., 8. þm. Reykv., hafði framtak um það fyrir, ég held ári, frekar en tveim árum, að við ættum þá að fara að athuga um þessi mál, og það mál fór til utanrmn. og var vísað til ríkisstj., en hefur, að því er ég bezt veit, ekkert út úr því máli enn sem komið er komið. Var þó vakið máls á þessu af góðum hug og með skilningi, og ég álít, að það sé tími til kominn, að við látum þetta mál alvarlega til okkar taka.

Ég geri það að minni till. í þessari þáltill., að þegar þetta mál yrði rætt af okkar hálfu eða færi fram á þingi Sameinuðu þjóðanna, ættu allir þingflokkar þar sína fulltrúa. Ég álit það mjög óviðkunnanlegt, að við gerum fulltrúastarfið á þingi yfirleitt að bara skemmtireisum fyrir hina og þessa, t.d. stjórnarstuðningsmenn, eða það hefur stundum litið út fyrir það. Auðvitað eigum við að reyna að kynna okkur dálítið, hvað er að gerast í heiminum í þessum efnum, og fylgjast með því, sem þarna er að gerast, og geta verið virkir þátttakendur í þessu. Það hefur verið tekið undir það, að það ætti hér á Alþ. að reyna að ræða öðru hverju utanríkis- og alþjóðamálin, og ég hef líka vakið máls á því, að það væri nauðsynlegt, og ég vil vonast til þess, að þessi till. gefi nokkurt tilefni til slíks, og vil að svo mæltu óska eftir, að þegar forseta þykir hæfilegt að gera hlé, verði þessari þáltill. vísað til utanrmn. og hún taki rögg á sig, — hún hefur ekki fengið margar till. á þessu þingi, og það voru gefin fyrirheit um það á hennar fyrsta fundi, að hún mundi afgreiða það, sem til hennar kæmi, — hún afgreiði þessa till. Ég er sem flm. reiðubúinn til samninga um hana, en hugmyndina sjálfa, held ég, að við ættum að reyna að nota.