23.03.1966
Sameinað þing: 32. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í D-deild Alþingistíðinda. (2940)

125. mál, reikningsskil hinna rændu þjóða við þær ríku

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Á meðan hv. 3. þm. Reykv. dvaldist ytra hjá norrænum höfðingjum, minntist íslenzka þjóðin meistara Jóns Vídalíns. Það má segja, að minnisvarði Jóns Vídalíns sé traustur, og hann reisti hann enda sjálfur með sínum prédikunum. Ein frægasta prédikunin í Jónsbók er reiðilesturinn svokallaði, en þar leggur meistari Jón út af barnamorðinu í Betlehem, og með leyfi forseta, segir meistari Jón svo:

„Hún (reiðin) afmyndar alla mannsins limi og liði, hún kveikir bál í augunum, hún hleypir blóði í nasirnar, bólgu í kinnarnar, æði og stjórnleysi í tunguna, deyfu fyrir eyrun. Hún lætur manninn gnísta með tönnunum, fljúga með höndunum, æða með fótunum. Hún skekur og hristir allan líkamann og aflagar, svo sem þegar hafið er upp blásið af stórviðri. Og í einu orði að segja: Hún gerir mann að ófreskju og að holdgetnum djöfli í augum þeirra, sem heilvita eru. Og ef hún afskræmir ásýnd mannsins fyrir öðrum mönnum, hvernig mun hún þá ekki afmynda sálina í guðs augliti. Segið mér, hvílíkur djöfull mun þar inni búa, þar álit mannsins verður hið ytra svo afskræmt.“

Þetta voru orð meistara Jóns. Mér varð ósjálfrátt hugsað til þessara orða meistarans s.l. miðvikudag, þegar hv. 3. þm. Reykv. hélt ræðu sína og var að myndast við að sameina eðli sitt sínu landsföðurlega kennarahlutverki, en hann reynir mjög oft að grípa til þess, ekki aðeins hér innan veggja Alþ., heldur og utan þeirra. Nú er það margyfirlýst, bæði s.l. miðvikudag af þessum hv, þm. og endranær, að þetta er hans uppáhaldshlutverk. En þegar þess er gætt, að bæði í þessu hlutverki og öðrum málflutningi fylgir sú framkoma, sem meistari Jón telur reiða menn hafa, því að reiðin hleypir æði og stjórnleysi í tunguna og deyfu fyrir eyrun, er ekki að undra, þótt nemendur hans, hversdagslega gæfir alþm., og þjóðin öll fái bæði andúð og fyrirlitningu á slíkri framkomu hjá uppfræðaranum og jafnvel hafni allri slíkri kennslu og leiðbeiningastarfsemi, ekki sízt þegar undirtónn uppfræðslunnar er einkar smekklegt mat á eigin ágæti, sem sagt því, að hann einn viti allt og enginn annar viti neitt.

Og nú spyr ég hv. þm., hvort þetta sé ofsagt. Ef einhverjum þykir, að svo sé, og telji, að þessi hv. þm. hafi rækt sitt landsföðurlega kennarahlutverk með miklum ágætum, vil ég benda t.d. á hans eigin stjórnmálaflokk, ef flokk skyldi kalla, sem er sundurklofinn og þar logar allt í innbyrðis deilum og ófriði. Pekingkommar skamma Moskvukomma, Moskvukommar skamma þjóðerniskomma, sem aftur skamma báða hina. Þeir eru jafnvel hættir að vera sammála um það, sem áður gerði þá sjálfum sér samkvæma, það að skamma allt og alla aðra.

Nú er ég þannig gerður, og það kemur kannske í ljós síðar í ræðu minni, vegna ræðu hv. 3. þm. Reykv. s.l. miðvikudag, að ég vil ekkert með hans kennslu hafa að gera, sem hann bauð mér góðfúslega margoft s.l. miðvikudag. Hann mun að sjálfsögðu eiga áfram dyggan hóp af lærisveinum, sem liggja hundflatir fyrir öllum erlendum áhrifum, ef þau eru austræn, og tilbiðja sama goð og hann. En ég held, að honum væri hollt öðru hverju að hlýða á kennslu annarra, og þótt ég sé ekki gamall, ekki jafngamall þessum hv. þm. a.m.k., get ég samt sem áður kennt honum ýmislegt, og ef hann vill ekki þiggja þá kennslu, kemur hann að sjálfsögðu hér á eftir og afþakkar hana á sinn sérstæða, fágaða og prúðmannlega hátt, sem honum er svo tamur.

Ég vil t.d. uppfræða þennan gamla kennara og líklega skólastjóra um leið, vegna þess að það kom fram í ræðu hans s.l. miðvikudag, að þreföldun er ekki það sama og aukning um 300%, en það fullyrti hann s.l. miðvikudag, og er merkilegt, að þetta skuli koma af vörum slíks efnahagsspekings eins og hann telur sjálfan sig vera. Hann hélt því fram hér s.l. miðvikudag, að sjónvarp varnarliðsins og Wallstreet-auðvaldið væri búið að æra mig, trylla og afsiða svo, að hugsanagangur og talsmáti væri orðinn sambærilegur við ameríska her- og viðskiptajöfra, að mig minnir, að hann hafi sagt. Og hvað olli þessu hugarangri hv. þm.? Hvað olli því, að hann hljóp hér upp með bál í augum, bólgu í kinnum, æði og stjórnleysi tungunnar og deyfu fyrir eyrun? Jú, hv. þm. líkaði ekki notkun mín á sögninni að selja. Hann er jafnvel hættur að vilja sjá aðrar notkunarmyndir gamalla og góðra íslenzkra orða en þær, sem hann getur notað til að bendla pólitíska andstæðinga við afsiðun og hvað það nú heitir í upptalningu hjá honum, leppmennsku, amerískan undirlægjuhátt og landráðastarfsemi. En nú er mér spurn: Hefur þessi hv. þm. aldrei heyrt talað um t.d. að selja af hendi og hefur hann aldrei notað sögnina að selja í þessari merkingu eða selja líf sitt dýru verði, eins og hann er búinn að gera fyrir íslenzka alþýðu áratugum saman? Veit hann t.d. ekki um merkingu orðsins að handsala, sem er að afhenda? Ég fullyrði, að slíkar fullyrðingar frá hv. þm. eru ekki til þess fallnar að vinna menn á sitt mál hér í þingsölum, enda auðvitað þessum þm. miklu kærara að koma einhverju höggi á pólitískan andstæðing heldur en bjarga meiri hl. mannkyns frá tortímingu, eins og hann telur að samþykkt þeirrar till., sem hér er til umr., stefni að. Fullyrðing þessa þm. um misnotkun íslenzkunnar hjá mér er því einkennilegri, þegar þess er gætt, að enginn hv. þm. notar önnur eins býsn af erlendum slettiorðum í sínu máli, í sínum ræðum hér á Alþ. En þetta er aftur á móti skiljanlegt hjá þeim, sem jafnvel geta gerzt boðflennur á fundum erlendra höfðingja til þess að taka þar við fyrirmælum.

Um leið og þessi þáltill. er rædd efnislega, verður að hafa í huga þær staðhæfingar þessa hv. þm., að hann sé með sögufróðari mönnum. Ég dreg þetta ekki í efa, enda er þm. langmenntaður maður í þessari grein. En það er eins og sagt er um söngfróða gagnrýnendur, að þeir geta talið sig heyra, hvort einn tenórsöngvari sé af hinum ítalska eða þýzka skóla, og menn hafa löngum þótzt þekkja, hvar hv. 3. þm. Reykv. var skólaður. Þetta ber að hafa í huga, þegar höfð eru í huga ummæli annars vegar hv. 8. þm. Reykv., sem ræddi þessa þáltill. hér s.l. miðvikudag, og viðbrögð þessa hv. þm., 3. þm. Reykv., við ræðu hans, og hins vegar viðbrögð hans við þeim fsp., sem ég lagði fyrir flm. þáltill. Og ég held, að viðbrögð hans við þessum tveim stuttu ræðum beri þess ljósan vott, að hverju hann stefnir með þessum tillöguflutningi.

Hv. 8. þm. Reykv. sagði m.a. í ræðu sinni, að hann óttaðist, að sú till., sem hér lægi fyrir, væri ekki raunhæf leið til þess að leysa það vandamál, sem hér væri um að ræða. Hann gat þess einnig vegna þeirrar leiðar til fjáröflunar, sem hv. flm. vill fara, að það væri fátítt, að nokkur ríki viðurkenndu bótaskyldu vegna viðskipta, sem einstakir borgarar eða einstök félög þar í landi hefðu átt við önnur lönd. Og til þess að undirstrika enn betur, hve óraunhæf sú fjáröflunarleið væri, sem þáltill. benti á að farin yrði, undirstrikaði hann erfiðleikana á því að gera sér reikningslega grein fyrir hagnaðinum af þeim margvíslegu viðskiptum, sem flm. talaði um í sinni framsöguræðu. Hv. 8. þm. Reykv. gat þess einnig að Danir hefðu aldrei viðurkennt útreikninga og kröfur Jóns Sigurðssonar, og er þá kannske skiljanlegt það æði og stjórnleysi tungunnar, sem greip hv. 3. þm. Reykv. s.l. miðvikudag, þegar ég benti honum á, að sendinefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum yrði að sjálfsögðu beðin að gefa nánari skýringar á sjálfri till. og grg. hennar, sem væntanlega yrði uppistaðan í málflutningi sendinefndarinnar íslenzku hjá Sameinuðu þjóðunum, ef hún yrði samþ. hér á alþ.

Nei, mín skoðun er sú, að þessi till. sé með öllu óraunhæf, alveg sama hverjir ættu sæti í sendinefndinni, alveg sama þótt Bandaríkin hafi á þingum Sameinuðu þjóðanna hvorki ráð á úrslitum atkvgr. þar vegna fjárhagslegra ítaka né pólitískrar yfirdrottnunar, eins og flm. taldi að Bandaríkin hefðu haft til skamms tíma á þeim þingum, og líklega alveg sama, þótt bæði ég og hv. flm. till. yrðu í þessari sendinefnd.

Ég er sammála bæði hv. 8. þm. Reykv. og 3. þm. Reykv., sem tók undir þær skoðanir hans og kemur reyndar inn á það í till. sinni, að vandamál hinna svokölluðu þróunarlanda væri ekki fyrst og fremst skortur á fjármagni til þess að veita þeim fjárhagslega aðstoð, heldur fremur hitt, að í þessum löndum verður að byggja allt frá grunni og ekkí nema takmarkað fjármagn, sem þær geta nýtt til uppbyggingar, því að forsendur vantar, t.d. áætlanir um skynsamlegar framkvæmdir. Þetta er auðvitað alveg rétt, svo langt sem það nær. En þetta starf, sem þeir báðir, að mér skildist, féllust á að væri nauðsynlegt, tekur langan tíma. Og sama er að segja um það verkefni, sem sjóðurinn, er þáltill. getur um að stofna eigi, á að vinna. Slíkt verkefni eins og honum er falið með till. verður ekki unnið nema á mörgum árum, kannske áratugum. En það breytir ekki þeirri staðreynd, sem fim. margendurtók, bæði í framsöguræðu sinni og einnig í seinni ræðu, það breytir ekki þeirri staðreynd, að samkv. upplýsingum frá Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna deyja 30 þús. börn á hverjum degi úr sulti og hungursjúkdómum. En það munu líða mörg ár, þangað til sjóður hinna arðrændu þjóða, sem hv. 3. þm. Reykv. vill stofna, tekur til starfa, — og hvað verða mörg börn þá dáin af þessum orsökum? Samt sem áður telur þessi hv. þm., að aðstoð sú, sem þessi lönd njóta nú, sé hið versta arðrán, og undirstrikar æ ofan í æ, að af 47 milljarða aðstoð, sem þessar þjóðir hafa fengið á 10 árum, hafi á sama tíma 13 milljarðar tapazt vegna óhagstæðra verðbreytinga og 21 milljarður dollara runnið til baka til ríku þjóðanna sem vextir og gróði. Og þessu vill hv. þm. að verði hætt. Jafnvel þótt þessar fullyrðingar hans séu réttar, sem ég hef ekki haft tækifæri til þess að sannreyna, hafa orðið eftir hjá þessum þjóðum 13 milljarðar dollara, og meðan við höfum þá staðreynd fyrir framan okkur, að 30 þús. börn deyja á dag vegna hungurs og hungursjúkdóma, held ég, að þm. sé nokkuð að fara út fyrir það, sem hann stefnir að með flutningi sinnar till., er hann telur, að þetta sé jafnhættulegt og hann hefur talið í sínum ræðum báðum.

Ég skil hins vegar vel, af hverju hv. þm. vill, að þessi leið verði ekki farin, sem farin hefur verið fram til þessa. Það vekur nefnilega álit of mikla athygli hjá þessum þjóðum, hvaðan þessi hjálp kemur. Á 8 ára tímabili fram til ársins 1962 nam öll hjálp Ráðstjórnarríkjanna til þróunarlandanna í Asíu, Afríku og Suður-Ameríku samtals 2.8 milljörðum dollara, og aðstoð Kína á árunum eftir að það hóf sína aðstoð og fram til ársins 1962 var til þróunarlandanna í Asíu, Afríku og Suður-Ameríku og Kúbu 269 millj. dollara. Samtals er þetta um 3 milljarðar dollara. En sú tala, sem 3. þm. Reykv. hefur haft á lofti, er 47 milljarðar dollara.

Ég held, að enginn, sem hugsar um þessi mál, muni bera á móti, að þessi aðstoð sé í dag nauðsynleg. Ég held, að allir, sem fylgdust með fréttum af ástandinu í Indlandi í vetur, séu sammála, að það ástand sýni ekki, að slíkri aðstoð verði hætt, enda var hjálparbeiðni Indverja sinnt og er sinnt, þó að því miður verði að telja, að sú hjálp komi ekki að fullum notum af öðrum ástæðum. Slík skyndihjálp verður alltaf að einhverju eða öllu leyti í hendi þeirra þjóða, sem aflögufærar eru. En þar fyrir er ekki útilokað, að sjóður á vegum Sameinuðu þjóðanna, slíkur sem flm. talar um, geti einnig komið til aðstoðar í slíkum tilfellum. Og ég vil taka það fram, að ég tel hugmynd flm. till. athyglisverða um það, að sérstök stofnun á vegum Sameinuðu þjóðanna standi að baki nauðsynlegri áætlanagerð um atvinnulega og félagslega uppbyggingu í þróunarlöndunum. Auðvitað þarf slík stofnun að hafa mikil fjárráð og eiga sterkan sjóð til að styðjast við, en ég tel ekki, að sú fjáröflunarleið, sem hv. 3. þm. Reykv. vill fara, geti nokkurn tíma orðið raunhæf. Frjáls framlög geta vissulega verið þýðingarmikil og áhrifamikil, það sáum við t.d. um þátttöku Íslendinga í „Herferð gegn hungri“. Og auðvitað koma fleiri leiðir til greina. Það getur komið til greina nefskattur á íbúa þeirra þjóða, sem lengst eru komnar á þróunarbrautinni, t.d. komnar á það stig að geta framleitt kjarnorkusprengjur. Það eru orðnir æðimargir einstaklingar meðal þeirra þjóða, sem eru komnar á það stig, sem þá mundu greiða slíkan nefskatt, ef hægt yrði að ná samkomulagi um það. Og vegna þess, að flm. till. telur sig mikinn friðarvin, mætti hugsa sér skatta á hernaðarútgjöld eða á hvern hervæddan mann í viðkomandi löndum, þó að sú hætta sé auðvitað alltaf fyrir hendi, að þau lönd, sem enn eru lokuð, annaðhvort með járn- eða bambustjaldi, mundu ekki alltaf tíunda þær tölur eins og æskilegt væri.

En ég tel samt sem áður, að það yrði langáhrifamest, ef það mikla fé, sem fer nú þegar til þessara þróunarlanda, nýttist betur en raun hefur oft og tíðum orðið á. Ég held einmitt, að það hafi orðið miklar breytingar á því á síðustu árum, hvernig þetta fé hefur nýtzt, ekki sízt vegna kröfu bandarískra skattborgara, en frá þeim hefur mikið af þessu fé komið á undanförnum árum.

Hv. 3. þm. Reykv. hefur miklar áhyggjur af því, að ekkert sé gert í þessu vandamáli eða ekkert verði gert í þessu vandamáli á næstu árum, og ef það verði ekkert gert, geti svo farið, að ógnarleg átök hefjist milli hinna arðrændu þjóða og hinna ríku, eða eins og hann orðaði það: stórkostlegustu átök og ægilegasta blóðbað, sem heimurinn hefur þekkt. Ég tel, að þessi hætta sé mjög fjarlæg. Í fyrsta lagi er hermáttur þeirra þrátt fyrir mannmergðina í algeru lágmarki, þótt slik átök geti auðvitað brotizt út á einstökum stöðum, t.d. milli hvítra manna og svartra, eins og flm. hefur drepið á. Í öðru lagi er þegar geysimikið starf unnið í dag til þess að ná þeim markmiðum, sem flm. vill stefna að í sinni till.

Það er rétt, sem komið hefur fram hjá hv. 8. þm. Reykv., og í því er ég sammála 3. þm. Reykv., að í því liggi kannske stærsti glæpur þeirra þjóða, sem nýlendunum réðu, og það er menntunarskortur þessara þjóða í dag, þegar þær eru að búa sig undir sitt sjálfstæði. Ég tel hins vegar ekki, vegna þess að flm. talar um byggingu skólahúsa í sinni till., að það sé jafnnauðsynlegt og að mennta kennara fyrir þessar þjóðir. Og þótt ég telji, að í slíku sé hvergi nærri nóg að gert, leyfi ég mér að fullyrða, að þegar í dag séu tugþúsundir, ef ekki hundruð þúsunda nemenda frá þróunarlöndunum, sem stundi nám í flestum löndum heims, bæði hjá fornum og nýjum herraþjóðum.

Það var minnzt hér á danskan lýðháskóla í Ghana, og það hafa fleiri þjóðir komið upp slíkum skólum í Afríku. Þótt hv. 3. þm. Reykv. telji alla Bandaríkjamenn kapítalista, sem helzt éti a.m.k. einn verkamann í mál, ef ekki tvo, ef þeir eru frá sósíalistísku löndunum, eru sterkustu samtök, sem í Bandaríkjunum finnast, samtök verkamanna og annarra launþega. Og ef þessi þm. veit það ekki, skal ég fræða hann um það, að þessi samtök hafa t.d. unnið óhemjumikið starf, bæði í Afríku og Asíu og Suður-Ameríku, og einnig alþjóðasamtök frjálsrar verkalýðshreyfingar. Þessi samtök hafa komið upp skólum, og þau hafa styrkt verkalýðshreyfingu viðkomandi landa á hinn margvíslegasta hátt. Og það eru auðvitað fleiri aðilar, sem hafa komið til slíkra eða líkra starfa í þessum löndum, þótt það hafi ekki verið á vegum Sameinuðu þjóðanna.

Sú skoðun kom fram hjá flm. till., að við gætum orðið þessum þjóðum að góðu liði og beztu liði með því að miðla þeim af reynslu okkar, og hann sagði orðrétt í ræðu sinni, með leyfi forseta, „að málefnið sé, hvort Íslendingar geti lagt fram eitthvað heilbrigt í þessum efnum og hvort Íslendingar með þá reynslu, sem þeir hafa, verandi kúguð svo að segja nýlenduþjóð í 600 ár og verandi núna með fremstu þjóðum veraldar hvað efnahag snertir, þótt kannske ríkidæmið sé ekki á við aðrar þjóðir“. Vegna þessara ummæla hv. þm. er auðvitað rétt að taka fram, að fleiri þm. en þessi hv. þm. hafa auðvitað reynt að gera sér grein fyrir möguleikum Íslendinga til aðstoðar þessum þjóðum, sérstaklega þó eftir flutning þáltill. hv. 8. þm. Reykv. á síðasta þingi. Persónulega hef ég verið þeirrar skoðunar, að aðstoð á menntunarsviðinu og kennsla í því að afla sér fæðu úr sjó og vötnum sé það, sem við getum helzt látið í té, svo að um raunhæfa aðstoð sé að ræða. Eins og ég hef þegar sagt, tel ég till. flm. óraunhæfa hvað fjáröflunarleiðina snertir, en bendi hins vegar á vegna áðurgreindra orða hans um það, að við séum með fremstu löndum veraldar hvað efnahag snertir, að kannske getum við gefið þeim upplýsingar um það, hvernig eigi að stjórna landinu til að ná svo glæsilegum árangri. Eða telur kannske hv. flm., að árangur okkar þjóðar í dag sé vegna fjárheimtunnar frá Dönum? Auðvitað veit ég, að víðbrögð hv. þm. verða þau, er hann kemur hér í ræðustól á eftir, að við ættum að flytja til Afríku okkar hæstv. ríkisstj., svo að slíkum árangri yrði náð einhvers staðar þar. En ég held hins vegar í framhaldi af því, sem þessi þm. sagði s.l. miðvikudag, að öðrum standi nær að fara í slíka för, ef það er takandi mark á orðum þm., en hann sagði orðrétt, með leyfi forseta: „Ég (þ.e. Einar Olgeirsson) kom með hugmynd fyrir 20 árum, sem gert var grín að: skýjaborgir og vitleysa. Og þær skýjaborgir hafa samt sem áður lagt grundvöll að því tímabili framfara í efnahagsmálum, sem við höfum lifað, síðan lýðveldið var stofnað.“ Þá vitum við það.

Hv. 3. þm. Reykv. hélt því fram hér s.l. miðvikudag, að það þýddi ekkert að vera að halda því fram, að nýlenduþjóðunum hefði verið gefið frelsi, þær hefðu tekið það eða hótað að taka það með valdi og öðrum aðferðum, og það væri þess vegna, sem þær væru frjálsar í dag. Það er auðvitað nokkuð til í þessu hjá hv. þm., þó að hitt sé líka staðreynd, að fjölmargar þeirra hafa samið um sitt sjálfstæði, og þetta veit hv. þm. En það breytir ekki þeirri staðreynd, sem kom fram í mínu máli s.l. miðvikudag, að fyrrverandi nýlendur Belgíu, Frakklands, Hollands og StóraBretlands með um 670 millj. íbúa eru sjálfstæðar þjóðir í dag. Á meðan og á sama tíma hafa austrænar herraþjóðir, hin nýju nýlenduveldi, fjötrað, svipt frelsi og beitt efnahagslegum þvingunum þjóðir með á annað hundrað millj. íbúa. Og þótt þm. haldi því fram, að Bretar hafi sleppt sínum pólitísku völdum af 52 millj. manna, til að halda hinum efnahagslegu völdum, þá skulum við jafnframt hafa það í huga, að á síðustu árum hefur ekkert heimsveldi skapað sér jafnmikla virðingu og Bretar, fyrir raunhæfa aðlögun, mundi ég kalla það, að þeirri stefnubreytingu, sem hefur orðið á alþjóðavettvangi á nýlendustefnu og erlendum yfirráðum.

Ég vakti athygli flm. á því, að það væri víðar en í Asíu, Afríku og Suður-Ameríku, sem þjóðir hefðu orðið fyrir mannránum og árásarstyrjöldum, frelsissviptingu, arðráni og hvers konar kúgun fram á þennan dag, og herraþjóðirnar, sem þetta framkvæmdu, væru fleiri en hann vildi gefa í skyn í sínum málflutningi. Við þessu brást þm. ókvæða og kvað mig einfæran um að bera fram þáltill. hér á Alþ. til bjargar hinum kúguðu þjóðum Evrópu, hann gæti ekki hugsað um allan heiminn. Hann glamraði því næst heilmikið um hinar kúguðu þjóðir Evrópu, þ. á m: Íra og Grænlendinga, en endanleg afstaða hans var sú, að hann vildi ekki skipta sér af innanlandsmálum í viðkomandi löndum. Samt vílar þessi hv. þm. ekki fyrir sér, — hann orðaði það þannig, er hann upphóf sitt mál, að ég hefði farið í gandreið í þessu máli, — þá vílar hann ekki fyrir sér að setjast upp á sitt galdraprik og ríða því austur í Afríku og Asíu og benda á lausn allra vandamála þar. Og hver er lausnin? Jú, það er upptaka eigna allra erlendra aðila í þessum löndum. Hann sagði, að upptaka þessara eigna mundi skapa nógan auð til að koma öllu félags- og atvinnulífi þessara staða á réttan kjöl. Og það var svo sem auðvitað, að Unilever átti eigur einhvers staðar þarna austur frá, annars hefði hv. þm. ekki farið í þessa reið. En hvaðan skyldi hv. þm. hafa þessa fyrirmynd? Er hún frá Indónesíu, eða er hún frá Kúbu, en á báðum þessum stöðum var þessi leið farin? Það hefur, síðan þetta var gert, legið við ríkisgjaldþroti á báðum þessum stöðum, vegna þess, að um leið og þessar eignir voru gerðar upptækar, voru bæði stjórendur og tæknimenntaðir menn, sem unnu við þessi fyrirtæki, reknir úr landi. Og sama má segja, að hafi gerzt í Alsír. Mig minnir, að hv. þm. hafi komið inn á Alsír einnig.

En ofsi þessa hv. þm. var hvað furðulegastur, þegar hann fór að afsaka og bera í bætifláka fyrir vopnaða innrás hernaðarstórveldis í Tíbet, og það var alveg furðulegt, hvað maðurinn gat komizt langt. Hann vildi meina, að ég æti amerískan áróður hráan og kastaði honum hér inn í þingið; og að öskur hefði verið rekið upp um allan heim, þegar bændaánauð og þrælahald var afnumið í Tíbet. Hvað étur hv. þm., fyrst hann lætur annað eins út úr sér? Étur hann kínverska áróðurinn ósoðinn og án þess að líta á, hver hann er? Reyndi hann ekkert að kynna sér, þegar þessi árás stóð yfir, — reyndi hann ekkert að kynna sér t.d. hlutlausar fregnir, bæði frá Indlandi og Pakistan, þegar þessar gráu herfylkingar kínverska hernaðarstórveldisins ruddust inn í friðsælt, sjálfstætt ríki frjálsra bænda? Svona draugasögur, eins og hann reynir að segja okkur hér í þinginu í sambandi við þetta mál, eru betur sagðar einhvers staðar annars staðar en á Alþ., því að það er fullt af mönnum hér, sem kynna sér mál erlendis alveg eins og þessi hv. þm. telur sig gera dags daglega.

Ég skal nú fara að stytta þetta mál mitt. En ég vil þó aðeins víkja nokkrum orðum að fullyrðingum hv. þm. um, að ribbaldar þeir, sem ráða í Bandaríkjunum, kunni að tengja saman bisness og keppa um leið að lýðræði. Þeir hafi grætt á blóðbaðinu í síðustu heimsstyrjöld og þeirri fyrri líka, aukið framleiðslu sína allan tímann og safnað stórauði, á meðan Pólland, Sovétríkin og Júgóslavía urðu fyrir stórtjóni, eins og hann orðaði það. Það hefði verið fyllilega þess vert í þessu sambandi að rekja þær breytingar, sem urðu á afstöðu þessa hv. þm. og annarra kommúnista hér á landi til hinna ýmsu styrjaldaraðila eftir því, hvernig klukkuspilið snerist í Kreml, sömuleiðis hvað málgagn þessa þm. sagði, þegar Bandaríkin urðu aðili að styrjöldinni við hlið Breta, Rússa og annarra bandamanna. En ég skal ekki fara út í það hér nú. En ætlar þessi þm. virkilega að reyna að halda því fram hér á hæstv. Alþ., að tár amerísku ekknanna, barnanna og mæðranna hafi verið eitthvað þurrari en tár þeirra sömu austur í Rússlandi? Heldur hv. þm., að sorg þessara sömu aðila heima í Bandaríkjunum hafi ekki verið jafnmikil og austur á sléttum Rússlands? Heldur þú, að tjónið hjá fjölskyldunum hafi ekki verið það sama, hv. þm.? Ég er aldeilis hissa, þegar slíkar fullyrðingar koma frá annars, að því er talið er, skyni- og vitibornum þm. eins og hv. 3. þm. Reykv. Hann lætur sér það um munn fara hér, að það hafi verið einhver stórkostlegur galli fyrir bandamenn í síðustu styrjöld, þessi gífurlegi framleiðslumáttur Bandaríkjanna. Ég leyfi mér að fullyrða, að einn stærsti þátturinn í sigri bandamanna í síðustu styrjöld hafi einmitt verið þessi gífurlegi framleiðslumáttur Bandaríkjanna. Íbúar þeirra lentu að vísu ekki í því, að barizt yrði í þeirra heimalandi. Í því lentu Rússar og urðu fyrir geysilegu manntjóni, bæði þeir og aðrar þjóðir í Evrópu, þar sem barizt var. Hins vegar liggur það fyrir, að mörg hundruð þúsundir Bandaríkjamanna létust í þessari styrjöld.

Hann hafði líka orð á því, að þeir hefðu litlu til kostað í þessari styrjöld, en aðeins grætt. Ég vil benda honum á það, að ef hann flettir upp í heimildarritum þar um, þá má sjá, að á árunum frá 1939—1946 kostuðu Bandaríkin 350 milljörðum dollara til stríðsútgjalda, og það rann ekki svo lítið af því til þeirra bandamanna. T.d. eru skýrslur til um það, að samkv. láns- og leigukjarasamningunum hafi þeir veitt 49 milljarða dollara og þó 100 millj. betur, og af þessu fengu þeir aldrei greitt til baka nema 8 milljarða, af þessum 49 milljörðum, svo að það er alveg þýðingarlaust fyrir hv. þm. að koma hér og segja, að það hafi ekki verið kostnaður hjá þessari þjóð í sambandi við stríðið, þeir hafi engu tapað, þeir hafi jafnvel ekki misst einn einasta mann, þeir hafi bara setið heima í Bandaríkjunum og grætt á því fé.

Hv. þm. minntist nokkrum sinnum á það í ræðu sinni, að ég hefði verið nokkuð gustmikill, er ég kom inn á þing, og að flokksbræður mínir hefðu fengið að kenna á því,eins og hann orðaði það, en að helztu agnúar hefðu heflazt af mér og ég tekið sinnaskiptum, því að ég hefði farið að hugsa. Ég vil að lokum segja, að það verður ömurleg minning um þennan þm. hér í sölum Alþ., þegar hann hverfur héðan á sínum tíma, sú vitneskja þm., að hann heflaðist aldrei og tók aldrei sinnaskiptum, ergo: hann hugsaði aldrei.