13.04.1966
Sameinað þing: 36. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 298 í D-deild Alþingistíðinda. (2951)

128. mál, embætti lögsögumanns

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég heyrði að vísu ekki, hvað ég sagði sjálfur, og skal þess vegna ekki þræta við hv. síðasta ræðumann, en ætlun mín var alls ekki sú að fullyrða, að hér hefði ekki átt sér stað og ætti sér ekki stað misbeiting á embættisvaldi. Það var alveg utan minnar ætlunar að fullyrða neitt um það. Því miður er það svo, að að vissu marki er einhver slík misbeiting alltaf óhjákvæmileg, einfaldlega vegna þess, að enginn maður er fullkominn og mönnum verður alltaf á að sjást yfir og gera verr en skyldi. Eins og hv. þm. sagði, þá má segja, að um misbeitingu sé að ræða, hvort sem það er gert með því, að maður sé vilhallur einhverjum eða skeyti ekki nóg um mál annars. Mér hefur aldrei komið til hugar að fullyrða, að slíkt hefði ekki verið hér. En ég vil leggja áherzlu á það, án þess að við skulum fara að þræta um of, að hv. síðasti ræðumaður lagði á það ríka áherzlu, að það væri þörf á auknu þinglegu eftirliti. Það er einmitt það: þinglegu eftirliti. Það er Alþ., sem á að hafa eftirlit með ríkisstj., stjórnsýslunni, eða hvernig sem menn vilja orða það, og ég hef talið, að vegna þess, hversu þjóðfélagið væri lítið og gegnumsætt, þyrfti hér ekki sérstakan millilið á milli þingsins og embættisvaldsins til þess að annast þetta eftirlit, heldur væri nóg, ef þingið sjálft væri hér á verði.

Nú segir hv. þm., og það er alveg rétt: Mörg af þessum málum eru þannig, að það er enginn vinningur við að taka þau til umr. á sjálfu Alþ. — Þetta játa ég. Þó er svo með ýmsar embættisathafnir, að þær hafa verið til umr. á Alþ. fyrr og síðar í mismunandi myndum og oft mjög hart sótt á handhafa framkvæmdavaldsins af þm., stundum áður fyrr af þinginu í heild, sbr. Skúlamálin fyrir aldamót, svo að við tökum aðeins frægasta dæmið. En við þekkjum það einnig, að það er algengt í afgreiðslu fjárl., að þar fá menn fjárveitingar, stundum litlar, stundum meiri, til þess að bæta úr einhvers konar misgerð, sem talið er að þeir hafi orðið fyrir af hálfu ríkisvaldsins. Það þarf ekki lengi að fletta í fjárl. til þess að finna dæmi þess. Þó mundi ég segja, að það væri sjaldnar, að slíkt kæmi til þingsins kasta beinlínis, og gerir það þó sem sagt mjög oft. Hitt er miklu oftar, að einstakir þm. taka upp mál fyrir hönd sinna kjósenda og ræða þau við ráðh. og biðja hann um að athuga, hvort þarna hafi verið rétt að öllu farið. Mér kemur t.d. til hugar einhvers konar sóttvarnarmál á Vestfjörðum fyrir nokkrum árum. Einn eða fleiri þm. mér andstæðir í stjórnmálum komu til mín og báðu mig um að kynna mér það, hvort þarna hefði ekki tiltekinn maður orðið fyrir ósanngirni. Ég lét grandskoða málið oftar en einu sinni, vegna þess að fyrsta athugun leiddi ekki til þess, að á manninn hefði verið hallað. Ég man ekki betur en maðurinn fengi einhverja leiðréttingu, áður en yfir lauk, vegna þess að það var ekki gefizt upp við fyrstu athugun og engin löngun til þess af hálfu embættismanna, enn þá síður ráðh., sem hafði hvergi við sögu komið, að halla á manninn. Hann fékk leiðréttingu sinna mála. Slík dæmi eru óteljandi. Þetta verða menn að vita. Í þessu eru þm. ekki að misbeita sinni stöðu. Þeir eru að gegna einum hluta af sinni þingmannsskyldu. Við vitum það, að margs konar erindrekstur fyrir kjósendur hefur tíðkazt hér ætíð, frá því að núv. stjórnskipan var tekin upp, og í ákaflega mörgum myndum. Eitt af þeim erindrekstri er að gangast í að kanna til hlítar, hvort hallað hafi verið á menn með einstökum ákvörðunum embættismanna. Þetta er engin nýjung hér á landi, þetta hefur ætíð verið gert. Þetta verða menn að vita og gera sér grein fyrir.

Ég játa það fyllilega, að ef ég væri sannfærður um, að verulega aukið réttaröryggi fengist, mundi ég ekki horfa í það, þó að einhverjir embættismenn bættust í hópinn. Það er rétt, að hann er stór, og það má ekki gera of mikið úr því embættisbákni, sem kæmi, vegna þess að eins og hv. síðasti ræðumaður var réttilega inni á, ef við tökum tölurnar af því, sem er erlendis, bæði af mannfjölda, sem að þessu starfar, og af fjölda þeirra kærumála, sem hv. 11. þm. Reykv. gat um, mundu það auðvitað verða sárafá mál hér á landi. Ég efast um, að það yrðu fleiri, ef það væru sambærilegar tölur hér, en eitthvað milli 5 og 10 mál á ári, sem kæmu fyrir þennan embættismann, — ef það væru sambærilegar tölur og mér heyrðist hv. frsm. minnast á frá Danmörku. Það er auðvitað til staðfestingar því, að þetta þyrfti ekki að verða mikið embættisbákn, ef eftir því væri farið, sem annars staðar er. En þá bendi ég líka á það, að þarna er í okkar litla þjóðfélagi ekki um svo mikið verkefni að ræða, að þingið geti ekki annazt það sjálft, til viðbótar því, eins og ég segi, að hér á landi hefur hver einasti maður greiðan persónulegan aðgang að ríkisstj., ráðherrum. Það er ákveðinn tími í hverri viku, þar sem hver einasti borgari getur komið og lagt mál sitt fyrir, auk þess sem menn hafa aðgang að sínum þm., auk þess sem smæðin er svo mikil, fólksfæðin, að ranglætið getur ekki haldizt uppi til lengdar í þeirri merkingu, sem við hér tölum um. Pólítísk ágreiningsefni og annað slíkt er annað mál. Það er allt annars eðlis en þau vandkvæði, sem hér er verið að tala um. Ég held þess vegna og hika ekki við að láta uppi þá skoðun mína, að það sé miklu minni þörf á þessu hér en annars staðar, og menn ættu, áður en þeir fara að gera gangskör að því að koma þessu af stað hér, að athuga til hlítar, hvernig þetta hefur verið í framkvæmd hjá öðrum. Þetta er ekkert kappsmál fyrir mér. Ef ég sannfærist um, að af þessu verði aukið réttaröryggi, skal ég styðja það með mínu atkv. Enn þá vantar mig sannfæringu fyrir því, og ég fullyrði, að till., sem hv. 4. þm. Sunnl., Björn Fr. Björnsson, og hans félagar flytja um breytingu á dómaskipuninni, er ólíkt meira aðkallandi, og þar er mál, sem ég get sagt að ég hef oft hugleitt, að mér verði með réttu legið á hálsi fyrir að hafa verið of lengi dómsmrh. án þess að gera gangskör að leiðréttingu í því efni. En um það er eins og margt annað, hvað verður að bíða síns tíma. Á þeim árum var ekki tímabært að taka það mál upp af ýmsum stæðum. Nú skeður það ánægjulega, að embættismaður eins og 1. flm. þeirrar till, og hans félagar taka þetta upp. Það gerir málið miklu auðveldara viðureignar og tekur það frekar út úr pólitískum deilum, sem ella voru yfirvofandi, ef það hefði verið tekið upp með nokkrum öðrum hætti. Ég hef þess vegna sjaldan orðið glaðari en þegar ég sá þá till. og þakka flm. mjög fyrir þann myndarskap að flytja hana, en segi: Þar er ærið verkefni í bili, þótt við látum hitt a.m.k. bíða og athugum, hvernig það reynist hjá okkar næstu nágrannaþjóðum, áður en við förum að taka það kerfi upp hér á landi.