20.04.1966
Sameinað þing: 38. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 311 í D-deild Alþingistíðinda. (2961)

129. mál, réttur til landgrunns Íslands

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Á síðasta þingi var hér til umr. till. um stækkun fiskveiðilandhelginnar fyrir Vestfjörðum, flutt af 2. hv. þm. Vestfjarðakjördæmis, hv. 5. þm. Vestf., Hannibal Valdimarssyni, og hv. 3. þm. Vestf., Sigurvin Einarssyni. Í þessari till. var gert ráð fyrir því, að fiskveiðilandhelgin út af Vestfjörðum yrði látin ná yfir allt landgrunnssvæðið fyrir Vestfjörðum. Talsverðar umr. urðu hér á hv. Alþ. um þessa till. Það kom greinilega í ljós, að hæstv. ríkisstj. og stuðningsmenn hennar töldu ekki tímabært að samþ. þá till. eða gera ráðstafanir til stækkunar á fiskveiðilandhelginni við Vestfirði. Og því var þá borið við, að málið þyrfti frekari athugunar við og það þyrfti að undirbúast betur o.s.frv.

Í þeim umr., sem fóru fram um till. þá, spurðist ég fyrir um það hjá hæstv. ríkisstj., hvað hún hugsaði sér að gera til þess að vinna að framgangi yfirlýstrar stefnu Alþ. í landhelgismálunum. Ég minntist þá á, að ég teldi, að það gæti ýmislegt komið til greina í þeim efnum. En þó að eftir þessu væri lýst, fékkst hæstv. ríkisstj. ekki til að segja neitt um það, hvað hún hugsaði sér raunverulega að gera til þess að þoka málinu áleiðis. Hennar afstaða var þá algjörlega neikvæð að mínum dómi. Hún taldi ekki hægt að fallast á breytingar á fiskveiðilandhelgi fyrir Vestfjörðum, og hún vildi ekkert segja um það, hvað ætti að gera í málinu. Hún taldi aðeins, að málið þyrfti að undirbúa betur og það yrði að bíða.

Nú er hér komin fram þáltill. um það, að Alþ. kjósi sjö manna nefnd til þess að vinna að því ásamt með ríkisstj. að afla þeirrar viðurkenningar á rétti Íslands til landgrunnsins, sem stefnuyfirlýsing Alþingis hefur fjallað um. Nú vitum við, að það er liðinn alllangur tími síðan Alþ. gaf út þessa stefnuyfirlýsingu, en hún var gefin út 5. maí 1959. Það fara því að verða um sjö ár síðan þessi stefnuyfirlýsing var gefin. Hún hefur að vísu verið endurnýjuð síðan, en það var gert á árinu 1961, þegar samkomulagið var gert við Breta um undanþágu til að veiða innan fiskveiðimarkanna um þriggja ára skeið. Það er því ekki nema von, að um það sé spurt, hvað liði undirbúningi þessa máls og hvernig ríkisstj. hugsi sér að taka á málinu.

Í þeim umr., sem hér hafa farið fram um þessa till., hefur sérstaklega verið staldrað við þann þáttinn, að kominn væri tími til þess, að við færum að undirbúa okkur í sókn okkar að því marki að fá aðrar þjóðir til þess að viðurkenna fullkominn yfirráðarétt okkar yfir öllu landgrunnssvæðinu, sem sagt því að afla fullkominnar viðurkenningar, lagalegrar viðurkenningar annarra þjóða í þessum efnum. Ég fyrir mitt leyti get tekið undir það, að það er vissulega kominn tími til þess, að við förum að vinna markvissara en gert hefur verið nú um skeið að því að reyna að afla slíkrar viðurkenningar. En ég geri mér fyllilega grein fyrir því, að það er erfitt verk, eins og þessi mál standa nú, að fá viðurkenningu á lagalegum rétti Íslendinga til þess að fá ótakmarkaða lögsögu yfir þessu svæði. Ég býst við því, að það muni taka alllangan tíma að fá slíka viðurkenningu.

En það er annað í þessu máli, sem ég tel, án þess að ég vilji draga nokkuð úr því, að undirbúningur hefjist í þá átt að reyna að afla slíkrar viðurkenningar, — það er annar þáttur í þessu máli, sem ég álit að sé miklu meira aðkallandi og þurfi að snúa sér að. En það er sá þátturinn, sem snýr að því, hvað við getum gert til þess að tryggja betur aðstöðu okkar og hagsmuni okkar á fiskimiðunum fyrir utan núverandi fiskveiðilandhelgi okkar.

Í skýrslu þeirri, sem hér hefur verið minnzt á og nýlega kom frá Jóni Jónssyni fiskifræðingi um ástand fiskistofnanna á Íslandsmiðum, kom það greinilega fram, að það er álit hans og annarra fiskifræðinga, að talsverð hætta sé á ferðum fyrir þá fiskistofna, sem við byggjum mikið á í sambandi við það, hvernig fiskistofnarnir eru nýttir nú, einnig utan 12 mílna markanna. Fiskifræðingurinn bendir á, að það liggi fyrir alveg óumdeilanlegar skýrslur um það, að mjög mikið sé veitt af útlendingum, utan 12 mílna markanna væntanlega, af smáfiski og að þessi veiði geti beinlínis verið stórhættuleg í sambandi við stærð fiskistofnsins við landið. Þar dregur fiskifræðingurinn m.a. það fram, að á árunum 1960—1964 hafi þetta verið þannig, að Bretar hafi veitt af fiski hér á Íslandsmiðum, fiski, sem er undir 70 em að stærð, þá hafi 74.4% af heildarverði þeirra verið fiskur, sem fiskifræðingarnir telja smáfisk í þessum efnum. 74.4% af þeim fiski, sem Bretar hafa landað af Íslandsmiðum, hefur verið fiskur undir 70 cm að stærð. En á sama tíma var ekki nema 19.2% af heildarveiði Íslendinga, — þetta er miðað við þorskveiði við Ísland, — ekki nema 19.2% af heildarþorskveiði Íslendinga af Íslandsmiðum, sem er undir þessari stærð. Og það fer ekkert á milli mála, að fiskifræðingarnir eru hræddir við afleiðingarnar af þessu og gefa það í skyn á þann hátt, sem þeir telja eðlilegt að gera, að það sé kominn tími til þess að reyna að hamla gegn þeirri hættu, sem í þessu felst.

Þá vaknar sú spurning: Hvað getum við Íslendingar gert, eins og málin liggja fyrir, til þess að draga úr þessari hættu? Málin liggja þannig fyrir, að við getum tryggt okkur einkarétt til fiskveiðanna í fiskveiðilandhelginni, þ.e.a.s. innan 12 mílna markanna. En við höfum ekki, eins og nú standa sakir, talið okkur hafa neina aðstöðu til þess að hafa áhrif á veiðarnar fyrir utan 12 mílna mörkin, eða við höfum a.m.k. ekki borið okkur neitt til þess að hafa áhrif á það, hvernig veiðarnar þar fari fram.

Þó að við höfum okkar landgrunnslög frá 1948, þar sem því er lýst yfir, að íslenzk lögsaga skuli gilda um allt veiðisvæðið á landgrunnssvæðinu, höfum við metið allar aðstæður þannig, — eða það hefur orðið sú niðurstaða, sem hefur verið gildandi hér, að við teldum ekki fært að setja reglur í þá átt, að við tækjum okkur forgangsrétt eða einkarétt til veiða utan 12 mílna markanna. En nú vitum við þó, að við höfum allmikla viðurkenningu annarra þjóða fyrir því, að strandríki megi í slíkum tilfellum sem þeim, sem hafa nú komið upp hjá okkur, að þá megi strandríki hafa allveruleg áhrif á það, hvaða reglur gildi um fiskveiðarnar, einnig fyrir utan 12 mílna mörkin.

Hér var minnzt á það í framsöguræðu fyrir þessari till., að það væri til ótvíræð heimild fyrir strandríki til þess að gera einhliða ákvarðanir varðandi veiðina fyrir utan 12 mílna mörkin, að vísu um takmarkaðan tíma, ef veruleg hætta væri á ferðum varðandi fiskistofnana. Ég á ekki við það, að við mundum nota þetta ákvæði sérstaklega, af því að ég tel það vera of veikt í sjálfu sér, miðað við þá aðstöðu, sem er hjá okkur. En við höfum fleiri viðurkenningar frá öðrum þjóðum um það, hvað hægt er að gera í slíkum tilfellum sem þeim, sem við stöndum nú frammi fyrir.

Það kom greinilega fram í því merkilega nál., sem þjóðréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna gaf út árið 1956 um landhelgismál, að sú nefnd taldi, að vissulega kæmi til greina að viðurkenna ákveðinn rétt strandríkis, sem byggði afkomu sína að verulegu leyti á nýtingu fiskistofna við landið, að viðurkenna ákveðinn rétt slíks strandríkis til forgangsréttar til veiðanna við landið. Þessi nefnd aðeins vék að þessu atriði í sínu nál., en sló þar engu föstu. En á þeim ráðstefnum, er fjölluðu um þetta mál í Genf árið 1958 og síðan 1960, fékkst enn þá meiri viðurkenning í þessa átt. Fulltrúar frá ýmsum þjóðum undirstrikuðu þá skoðun sína, að það væri rétt að taka tillit til strandríkis, þegar svona stæði á. Við Íslendingar auðvitað undirstrikuðum þessa reglu margoft og mjög ýtarlega. En á ráðstefnunni 1958 var beinlínis gerð samþykkt í þessa átt, almenn ályktun, þar sem að því var vikið, að önnur ríki ættu að viðurkenna aðstöðu strandríkis, þar sem svona stæði á, og þau væru skyldug til þess að taka upp ákveðna samvinnu við strandríki, sem gripi til ákveðinna ráðstafana, þar sem talið væri, að hætta væri á ferðum í sambandi við ofveiði eða að aðstaða strandríkisins yrði sett í hættu efnahagslega. Þessi samþykkt, sem ég vitna hér til og var gerð með miklum meiri hluta atkv. á ráðstefnunni, var svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta, eða aðalefni hennar var á þessa leið: „Að ráðstefnan mælir með, að þar sem nauðsynlegt er vegna verndunar að takmarka heildarveiði fiskistofns á úthafsmiðum, sem liggja að landhelgi strandríkis, skuli öll önnur ríki, sem fiskveiðar stunda á þeim miðum, hafa samvinnu um það við strandríkið að tryggja réttlátar aðgerðir vegna slíkra aðstæðna með því að koma sér saman um ráðstafanir, er viðurkenni hverjar þær forgangsréttarþarfir strandríkisins, sem til komnar eru vegna þess, að það á afkomu sína undir þessum fiskveiðum, jafnframt því sem tekið sé tillit til hagsmuna hinna ríkjanna.“

Við Íslendingar töldum að vísu, að þessi till. væri engan veginn nægilega ákveðin eða sterk til þess að fullnægja okkar sjónarmiðum í þessum efnum. En við viðurkenndum þó, að hér væri fengin talsvert þýðingarmikil viðurkenning af slíkri ráðstefnu, sem þarna var á ferðum, fyrir miklu hagsmunamáli okkar. Og mörg fleiri atriði hafa komið fram á þeim ráðstefnum, sem fjallað hafa um þessi mál, sem fara í sömu átt, þar sem segja má, að það liggi fyrir ákveðin viðurkenning á því, að í fyrsta lagi eigi viðkomandi strandríki rétt til þess að beita sér fyrir ráðstöfunum til þess að koma í veg fyrir ofveiði eða beita sér fyrir reglum, sem tryggi því tiltekinn forgangsrétt. Ég tel því, að eins og málin standa nú hjá okkur sé orðið mjög aðkallandi, að við Íslendingar beitum okkur fyrir því, að settar verði ákveðnar reglur um fiskveiðina á Íslandsmiðum utan 12 mílna markalínu. Ég held meira að segja, að það, sem skipti okkur höfuðmáli í þessum efnum, sé ekki það að biðja um tiltekin forgangsréttarákvæði fyrir okkur til veiðanna, ekki eins og nú standa sakir, heldur miklu fremur hitt, að settar séu þær reglur um veiðarnar á tilteknum svæðum utan 12 mílna markanna, sem gætu orðið til þess að búa í haginn fyrir okkur til þess að vernda betur fiskistofnana en nú er. Það er t.d. skoðun mín, að ef settar væru reglur um veiðarnar á svæðinu fyrir utan 12 mílna mörkin út af Norðausturlandi og víða út af Norðurlandi og út af Vestfjörðum, reglur, sem drægju verulega úr því, að slík smáfiskveiði geti farið fram eins og þarna fer fram nú, þá mundu þær reglur hafa gífurlega mikið að segja fyrir okkur Íslendinga. Ég held því, að það sé kominn tími til þess, að við búum okkur undir ákveðnar ráðstafanir í þessum efnum og það megi ekki haldast slíkt aðgerðaleysi eins og verið hefur nú um allt of langan tíma í þessu máli. Ég tel að vísu sjálfsagt, að kosin verði slík n., sem lagt er til samkv. þessari till., en ég held, að það sé ekki síður nauðsynlegt fyrir okkur að fela þeirri n. eða þá annarri, sem til þess yrði valin, að undirbúa af okkar hálfu ráðstafanir í þessum efnum, — ráðstafanir, sem miðuðu að því að vernda fiskistofnana við landið betur en við getum nú gert með þeirri 12 mílna fiskveiðilandhelgi, sem víð búum nú við.

Ég vil undirstrika það, að ég tel, að eins og málum háttar nú hjá okkur, þá sé þetta eitt af okkar allra stærstu málum, og ég hefði viljað vænta þess, að hæstv. ríkisstj. vildi athuga það, hvort hún getur ekki fallizt á, að skipuð verði n. manna úr öllum flokkum til þess að tryggja sem allra bezta samstöðu um það, sem gert verði í málinu, til þess að undirbúa aðgerðir af Íslands hálfu til að ná þessu fram, sem ég hef hér ræti um. Ég held, að við höfum á margan hátt aðstöðu til þess að ná fram okkar aðalsjónarmiðum í þessum efnum. Það kann vel að vera, að þeir, sem mest sækja á þessi mið og veiða mest af smáfiskinum, kunni að verða eitthvað erfiðir í samningum í fyrstu lotu, og ég efast ekkert um það, að þeir aðilar eru til hjá þeim þjóðum, sem þar eiga hlut að máli, engu síður en slíkir aðilar eru einnig til á Íslandi, þar sem hagsmunir einstakra manna koma til, að þeir muni verða tregir í taumi í þessum efnum. En ég held líka, að við höfum svo sterka viðurkenningu frá fiskifræðingum viðkomandi landa og svo mikla almenna viðurkenningu fyrir aðgerðum okkar í þessum efnum, að það verði erfitt fyrir þær þjóðir, sem hér eiga hlut að máli, að neita okkur um tilteknar ráðstafanir, sem gætu komið hér að miklu gagni.

Eins og ég sagði áðan, þá vil ég ekki á neinn hátt draga úr því, að við Íslendingar reynum að fá lagalega viðurkenningu á óskoruðum yfirráðarétti okkar yfir öllu landgrunnssvæðinu. En ég geri mér grein fyrir því, að það er mjög erfitt að ætla sér að fá almenna lagalega viðurkenningu á slíku. Það mál er ekki nýtt, það er búið að ræða oft og lengi, og það er enginn vafi á því, að það mun verða torsótt og tekur langan tíma að fá þessa lagalegu viðurkenningu. Það, sem ég tel því að liggi mest á í þessum efnum, það er að ná fram þeim reglum um fiskveiðar utan fiskveiðimarkanna, sem tryggt gætu hagsmuni okkar. En til þess að fá fram á næstunni beina stækkun á fiskveiðilandhelginni, þ.e.a.s. einkaréttaraðstöðu Íslendinga til veiða á auknu svæði við landið, þá held ég, að verði erfitt að fá slíkt fram án þess að grípa til einhliða ráðstafana af Íslands hálfu. En það vitum við, að um það tekst sennilega ekki, eins og nú standa sakir, samstaða af hálfu Íslendinga, og það mun vissulega reynast torsótt að koma því fram við útlendinga, eins og okkar málum er nú komið í þessum efnum.

Ég vil sem sagt að lokum undirstrika það, sem ég hef sagt: Ég tel, að ríkisstj. eigi nú að skipa n. manna úr öllum flokkum til þess að gera till. um ráðstafanir af Íslands hálfu til að tryggja á sem hagkvæmastan hátt fyrir landsmenn nýtingu fiskimiðanna á landgrunninu utan fiskveiðilandhelginnar, og í baráttu fyrir þessu máli tel ég, að jöfnum höndum þurfi af okkar hálfu að leggja áherzlu á fiskifræðileg sjónarmið og rök og efnahagslega aðstöðu landsins. Ég lýsi fylgi mínu við þessa till., svo langt sem hún nær, en tel, að æskilegt væri að breyta till. og gera verksvið þeirra nm., sem þar eru kosnir, víðtækara í þá átt, sem ég hef sagt, eða þá að ráðstafanir verði jafnhliða gerðar til þess, að öðrum verði falið það verkefni, sem ég hef hér sérstaklega rætt um.