20.04.1966
Sameinað þing: 38. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 318 í D-deild Alþingistíðinda. (2963)

129. mál, réttur til landgrunns Íslands

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Mér þykir rétt, að það komi fram, að ég er í öllum meginatriðum sammála hæstv. utanrrh., því, sem hann sagði um þetta mál, og skal ég ekki endurtaka það.

Það verður ekki orðum aukið, hversu viðurhlutamikið þetta mál er fyrir framtíð Íslendinga og hversu mjög ríður á því, að rétt sé með það farið. Það er að vísu rétt, sem fram hefur komið, að æskilegt væri og raunar nauðsynlegt, að ráðstafanir gætu orðið gerðar sem allra fyrst. Á hitt er svo að líta, sem hv. aðalflm. hefur lagt ríka áherzlu á í sínum hófsömu orðum nú um þessi efni, að hér er um að ræða langa þróun, og okkur hefði auðvitað ekki tekizt að framkvæma það, sem framkvæmt hefur verið, ef þessi þróun hefði ekki verið okkur hagstæð. Það er rétt, að frá þeim hugmyndum, sem uppi voru um þessi mál um 1930, fram til þess, sem gerðist á árunum milli 1950 og 1960, þá varð alger bylting.

Það er sagt hér, að ekki megi eingöngu líta á þessi mál frá lagalegu sjónarmiði. Það fer auðvitað alveg eftir því, hvaða orðalag menn vilja hafa. Auðvitað verður fyrst og fremst að líta á málið frá lagalegu sjónarmiði. Án þess að við höfum heimild í lögum til okkar aðgerða, hvort sem sú heimild beinlínis er svo skýr, að hún segi, að vissar aðgerðir séu leyfilegar, eða þannig, að hún felur í sér, að bann gegn einhverjum aðgerðum fær ekki staðizt að alþjóðalögum, hvernig sem sú heimild kann að vera, þá getum víð ekkert aðhafzt án hennar. Við gátum það ekki á árunum 1952 og 1958 og getum það ekki nú. En það, sem gerðist á árunum milli 1950 og 1960, var fyrst og fremst þetta, að lagareglurnar breyttust, og það var þá talið og ekki sízt með dómnum og eftir dóminn í deilu Norðmanna og Breta, að ekki bæri eingöngu að líta á gamlar venjur, heldur yrði einnig að taka tillit til líffræðilegra, ef svo má segja, og fjárhagslegra aðstæðna. Það var hinn merkilegi rökstuðningur Alþjóðadómstólsins á því, að eðlilegt væri, að fyrir utan þær strendur, þar sem fólkið fyrst og fremst lifði á fiskveiðum, þar væri rýmri fiskveiðiréttur þeim til handa heldur en annars staðar, sem var glöggt merki þeirrar hugarfarsbreytingar, sem í þessu gerðist, og ég vil segja réð algerlega aldahvörfum. Því megum við ekki gleyma, og þessi þróun verðum við að vona að haldi áfram.

Það er alveg eins og hv. aðalflm. till. sagði: Við getum auðvitað ekki gert ráð fyrir því með vissu, að þróunin haldi áfram að verða okkur hagstæð. Það gæti komið einhver afturkippur. En einmitt þess vegna ríður svo mjög á því, að við misstígum okkur ekki í málinu, að eitthvað, sem við aðhöfumst, verði til þess að magna upp andstöðu, sem ella væri ekki fyrir hendi eða mundi eyðast smám saman, ef málinu væri fylgt eftir þannig að slík andstaða skapaðist ekki. Þess vegna tel ég, að það sé síður en svo, að þau ár, sem liðið hafa, frá því að Alþ. gerði sína samþykkt 5. maí 1959, hafi verið til einskis í þessum efnum. Á þeim árum hefur mjög sótt í rétta átt fyrir okkur varðandi mörg efni í þessu, og það er áreiðanlega betur vakandi skilningur nú en þá var á því, að vissar friðunarráðstafanir séu óhjákvæmilegar. Ríkisstj. hefur látið á þeim ráðstefnum, þar sem tilefni hefur gefizt, vekja athygli á okkar afstöðu í þessu efni, auk þess sem málið hefur auðvitað margoft verið rætt við fulltrúa erlendra ríkisstjórna og okkar afstaða í þessum efnum skýrð.

Við verðum mjög að gæta þess, að þó að það sé rétt, sem hv. 5. þm. Austf. sagði; að það kunni að vera of viðurhlutamikið að bíða eftir því, að við fáum þá viðurkenningu, sem Alþ. 5. maí 1959 var sammála um að við þyrftum að fá, og við megum ekki vera athafnalausir á meðan, þá kann að vera viss hætta í því að gera ráðstafanir, sem skemmra gengju, vegna þess að í þeim yrði talið felast beint eða óbeint afsal á okkar meiri rétti. Þetta verður auðvitað að metast. Það er ekki hægt að slá neinu föstu um slíkt fyrir fram og segja, að það hljóti svo að vera. Slíkt kemur mér ekki til hugar. En galdurinn er sá að halda þannig á, að þetta þurfi ekki að leiða til árekstra eða til þess, að því verði síðar haldið fram, að við séum búnir t.d. með einhverjum alþjóðlegum samningum að binda okkur á þann veg, að það sýni, að við höfum ekki talið okkur á því stigi a.m.k. eiga rétt til landgrunnsins alls.

Þetta eru fyrst og fremst sérfræðileg efni, flókin og vandasöm, sem hér koma fram. Ég dreg ekki úr því, sem hv, aðalflm. till. sagði, að það gæti verið fullkomin ástæða til þess að ýta undir einn eða fleiri unga menn til að kynna sér þessi málefni nú sérstaklega, til þess að þeir gætu orðið okkar ráðunautar í þeim. En enn sem fyrr skulum við ekki gleyma því, að við Íslendingar eigum einn fremsta sérfræðing í þessum efnum, sem hefur alþjóðlega viðurkenningu, og það er Hans G. Andersen. Hann hefur nú að undanförnu að vísu sinnt öðrum störfum, en hann hefur einnig haldið við þessum fræðum, og ég tel sjálfsagt, og ég vil láta það koma hér fram, að það verði fyrst og fremst undir hans forustu, sem sérfræðileg athugun í þessum efnum eigi sér áfram stað.

Ég vildi láta þessar aths. koma fram. Annars er ég þakklátur þeim, sem hér hafa um þetta mál talað. Þeir gerðu það af hófsemi og án þess að blanda deilum um umdeilanleg efni frá fyrri tíð inn í sitt mál. Ég tel, að það sé allt mjög athyglisvert, sem þeir sögðu, og þarfnist nánari skoðunar. Um það má deila, hvort menn vilji setja um það sérstaka n. eða utanrmn. fjalli um þetta í samráði við ríkisstj., a.m.k. meðan málið er enn á athugunarstigi hjá sérfræðingum, eins og ég tel að það þurfi enn um skeið að vera.