20.04.1966
Sameinað þing: 38. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 320 í D-deild Alþingistíðinda. (2964)

129. mál, réttur til landgrunns Íslands

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð. — Ég vil mega skilja orð hæstv. forsrh. um málið þannig, að hann vill huga að því, hvort ekki sé rétt að undirbúa aðgerðir af okkar hálfu í málinu m.a. á þeim grundvelli, sem ég minntist hér á, sem og aðrar undirbúningsráðstafanir af okkar hálfu, og ég fagna því út af fyrir sig og vona það, að sú geti orðið niðurstaðan, að það takist samstaða um að finna einhverjar æskilegar leiðir til athafna í málinu. En það var aðeins eitt, sem hér kom fram hjá hæstv. forsrh., sem mér fannst ástæða til að víkja að örfáum orðum. Hann sagði eitthvað á þá lund, að það þyrfti kannske að huga vel að því, hvort tiltækilegt væri fyrir okkur að gera einhverjar ráðstafanir í þessum málum, sem mætti skoða þannig, að við værum að fallast á beinan eða óbeinan hátt á minni rétt okkur til handa en við hefðum sett fram í okkar grundvallarkröfu um yfirráð yfir landgrunnssvæðinu öllu. Ég vil fyrir mitt leyti undirstrika það, að ég tel, að það megi ekki á neinn hátt blanda því saman, að meginkrafa okkar er sú, eins og við mörkuðum með landgrunnsl. frá 1948, að við fáum einkaréttaraðstöðu til fiskveiða á landgrunnssvæðinu, að landgrunnssvæðið verði allt fært undir íslenzka fiskveiðilandhelgi. Það er okkar meginkrafa. En það þarf ekki að þýða, þó að það sé okkar meginkrafa, að við getum ekki gert margvíslegar ráðstafanir, sem eru okkur í hag í þessum efnum, þó að þær uppfylli ekki þessa grundvallarkröfu. Okkar krafa í landhelgismálunum var mörkuð m.a. með landgrunnsl. 1948 þessi. En eigi að síður fórum við í það að stíga ákveðið skref í áttina með því að ákveða breytingar á landhelgislínunni 1950, með því að draga þar beinar línur fyrir flóa á Norðurlandi og síðan með því að færa út í 4 mílur og ákveða beinar línur meðfram allri ströndinni árið 1952 og síðan með því að færa út í 12 mílur 1958, þrátt fyrir það að við værum búnir að lýsa því yfir, að það séu gildandi lög á Íslandi, að allt landgrunnssvæðið skuli heyra undir íslenzka lögsögu. Eins álit ég, að við hljótum að viðurkenna það, að staðreyndin er sú, að við búum í dag aðeins við 12 mílna landhelgi. Einkaréttur okkar til fiskveiða nær aðeins út að 12 mílna mörkunum. En ég álít, að það komi fyllilega til greina og sé enda okkur alveg nauðsynlegt að ná ákveðnum yfirráðum og fá viðurkenningu annarra þjóða, sem stunda nú veiðar utan 12 mílna markanna, fá viðurkenningu þeirra fyrir tilteknum reglum um veiðarnar utan 12 mílna markanna. Og ég held, að þó að við vinnum þannig að málunum, sem okkur er mjög nauðsynlegt, þurfi það ekki á nokkurn hátt að leiða til þess, að við föllum frá okkar meginkröfu í þessum efnum. En sú krafa, að Íslendingar einir megi veiða á öllu landgrunnssvæðinu við Ísland, — sú krafa er vissulega mjög stór, og ég geri mér alveg grein fyrir því, að það tekur alllangan tíma að fá viðurkenningu annarra þjóða fyrir henni eða fyrir því að fá upp alþjóðalög til þess að viðurkenna fermlega þá reglu. Ég sem sagt segi það, að ég leyfi mér að vona, að hæstv. ríkisstj. íhugi það, sem hér hefur verið sagt um þessi efni, og hún taki með skilningi á því, að það er orðin knýjandi nauðsyn, að við undirbúum okkar ráðstafanir í þá átt, að við fáum betur ráðið við það, hvernig veiði fer fram utan 12 mílna markanna við Ísland. Hagsmunir okkar kalla þar mjög skýrt á.